Eftir Rosaleen Glennon

Ásdís Ingólfsdóttir þýddi.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019

 

Einu sinni hlustaði ég á fólk tala um allt mögulegt en

tíminn er dýrmætur og ég geri það ekki lengur.

Einu sinni bjó ég í Þýskalandi

einu sinni mundi ég bílnúmerið mitt

einu sinni var ég skipulagðari með pappírana mína

einu sinni fékk ég útborgað á föstudögum – með fullar hendur fjár

maður sér sjaldan peninga núorðið

einu sinni var ég í þjóðlagasönghópi og söng Hard Times

einu sinni safnaði ég ýmsu smálegu frá Old Curiosity Shop

kexdós. Ég á hana ennþá, fulla af gersemum.

Ég opnaði hana nýlega til að setja þar ferhyrndan bút

úr köflóttri svuntu móðurömmu minnar.

Einu sinni bjó ég í miðbænum

einu sinni hlustaði ég á ráð frá vinum

nú hlusta ég á eigið innsæi sem eykur hamingjuna.

Líka í höfðinu.

Einu sinni var ég barn. Ég get ennþá sífrað.

Einu sinni trúði ég á Waltons-fjölskylduna, Húsið á sléttunni,

Flipper og Tammy.

Einu sinni horfði ég á fréttir, keypti dagblað á hverjum degi

en þar eru bara slæmir hlutir.

Fegurðin í einfaldleikanum, að sjá otra við vatnið, þykir ekki fréttnæmt.

Einu sinni tuggði ég Wrigleys tyggjó

einu sinni vissi ég hvar ég setti hlutina

nú týni ég þeim í sífellu

lyklum, pin-númerum, ástkærum gæludýrum, foreldrum mínum og vinum

ég er enn að týna þeim.

Einu sinni var ég með tvö brjóst nú er ég með eitt

einu sinni fannst mér að brjóstið sem eftir var

ætti að vera á miðri bringunni

mér fannst ég ekki í jafnvægi.

Það tók mig ár að venjast þessu ,,nýja útliti“.

Ég vissi að ég hafði sætt mig við það einn morgun

þegar ég var að því komin að hrópa

,,Hefur einhver séð gervibrjóstið mitt“

hefði það ekki verið hræðilega fyndið?

Ég veltist um í rúminu og hló.

 

Einu sinni var ég upptekin við að deyja nú er ég upptekin við að lifa.

 

 

 

No Spare Life: one woman’s journey through cancer

Um höfundinn:

Rosaleen Glennon er írsk, fædd í Dublin. Hún bjó í Þýskalandi í rúm tíu ár þar sem hún kenndi ensku. Þar byrjaði hún einnig að skrifa, stutta texta og sögur, og þar greindist hún með brjóstakrabbamein árið 2010. Fyrsta bók hennar, No Spare Life: one woman’s journey through cancer, kom út 2016. Þar fjallar hún um þá lífsreynslu að greinast með krabbamein.  

Þetta ljóð birtist í ljóðasafninu Hallelujah for 50ft Women sem ritstýrt var af Raving Beauties og gefið út hjá Bloodaxe Books 2015. Rosaleen Glennon býr nú á Írlandi og bloggar á slóðinni: https://rosaleenglennon.com/index.php/blog/.