Guðrún Eva Mínervudóttir. Allt með kossi vekur.

JPV útgáfa, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2012

Allt með kossi vekurFyrir rúmlega hálfri öld hélt franski fræðimaðurinn Georges Bataille því fram að bókmenntir væru illar og að það væri best fyrir þær að viðurkenna það strax. [1] Hvað hann nákvæmlega meinti með þessu er kannski ekki alveg ljóst, í aðra röndina var hann að mótmæla hugmyndum um upphafinn ‚hreinleika’ listar listarinnar vegna, en trúarbrögð komu inn í þetta líka, en Bataille áleit að bókmenntir (og listir almennt) hefðu komið í stað trúarbragða – og þá jafnvel sem einhverskonar vanheilög fórn. Bataille var líka gamall súrrealisti og höfundur frægrar klámsögu, Sögu augans (1928, ísl. þýð. 2001) og sem slíkur upptekinn af því að bókmenntir ættu að ganga fram af fólki og samfélagi, valda ónæði og truflunum. Og í því felst einmitt illskan. Bataille notar orðið illska til að ögra og vekja til umhugsunar, illskan er vopn til að rífa tilveruna upp úr hjólförum vanans, þó það kosti veltur. Verðlaunaskáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Allt með kossi vekur (2011), fjallar meðal annars um illsku og hvernig hún tengist einmitt sköpuninni, sjálfum sköpunarkraftinum.“

Sagan hefst á einskonar útgáfu Biblíusögunnar af Adam og Evu í aldingarðinum og fallinu fræga. Sú saga birtist okkur í myndasöguformi og bókin inniheldur að auki aðra myndasögu og eina myndskreytta sögu, en þær eru allar teiknaðar af Sunnu Sigurðardóttur.

Það er einmitt myndasöguhöfundur sem er ástæða þess að sögumaðurinn Davíð segir söguna sem birtist okkur í Allt með kossi vekur, en hann fær sendar eigur stjúpföður síns, Þorláks eða Láka, sem dáinn er fyrir nokkru. Meðal pappíranna eru nokkrar myndasögur, en Láki var þekktur myndasöguhöfundur, bæði á Íslandi og erlendis. Láki var sambýlismaður móður Davíðs, Elísabetar, hún er listakona og telur sig hafa skynjað einskonar kraftbirtingarhljóm listarinnar við það að vera kysst af ungum manni þegar hún var sjálf unglingsstelpa, kossinn hafi breytt sér og gert sig að listakonu. Og það sem meira er, hún telur að hún geti borið þennan koss áfram, gefið hann öðrum sem eru tilbúnir til að taka við samskonar upplifun.

En einn þeirra sem hún gefur þessa gjöf bregst ekki við sem skyldi. Vissulega hefur kossinn mikil áhrif á hann en þau eru frekar til hins verra og er saga þessa manns, en þó einkum konu hans Ingibjargar, sem er gömul vinkona Elísabetar, stærsti hluti þeirrar sögu sem Davíð segir. Ingibjörg, eða Indi, er grátgjörn kona með kaupæði á háu stigi, en maður hennar, Jón, er þó enn skrýtnari karakter. Hann er einnig haldinn þráhyggju, þolir ekki að hafa hluti í kringum sig. Því bregður hann á það ráð að byggja hillur uppi við loft í öllum herbergjum íbúðar þeirra Indi og þar hleður hann öllum lausamunum: „Indi hafði engu logið. Heimili þeirra Jóns minnti á vísindaskáldskap. Þyngdaraflinu var storkað af slíkri einurð að Elísabet óttaðist að líða upp í loft ef hún gætti sín ekki. Hillurnar uppi undir lofti voru yfirfullar af bókum, kertastjökum, blómavösum, teppum, litlum hirslum með smádóti, styttum, tímaritum og pottaplöntum og sköpuðu ógnvænlegt mótvægi við annars tómleg húsakynnin“ (113).

Það er því ljóst að maðurinn er ekki í góðu jafnvægi (bókstaflega eiginlega, með þessum undarlegu jafnvægiskúnstum hlutfalla á heimilinu) og því þarf ekki að koma á óvart að ‚koss‘ Elísabetar hefur róttæk áhrif. Hér ber að benda á að Guðrún Eva býður okkur uppá tvær leiðir til að skilja söguna, annarsvegar útfrá útgáfu Elísabetar um kraftbirtinguna og hinsvegar útgáfu Davíðs, sögumannsins, sem hafnar öllu slíku og vill meina að móðir hans hafi einfaldlega neytt eiturlyfja í óhóflegu magni og að ástæðan fyrir atburðarásinni sem hefst í kjölfar kossins sé vegna áhrifa eiturlyfja á Jón. Og þó. Það kemur fljótt í ljós að Davíð er ekki alveg eins viss og hann vill vera láta, enda fjallar bókin að hluta til um hann sjálfan og samband hans við þessa sérstæðu móður, og þarmeð einhverskonar leit hans að sjálfum sér.

En það er ekki bara heimili Indi og Jóns sem minnir á vísindaskáldskap, sjálf saga Guðrúnar Evu er dulítill vísindaskáldskapur, eða fantasía. Atburðirnir sem Davíð er að rifja upp og skrásetja gerast árið 2003, en það ár hefur Kötlugos staðið yfir með hléum í tvö ár og valdið gífurlegri eyðileggingu á Suðurlandi. Það verður því strax ljóst að Guðrún Eva er að leiða lesanda inn í heim sem er örlítið til hliðar við okkar þekkta veruleika, sem þó er svona almennt séð uppistaða verksins. Tími sögunnar, þegar Davíð skráir hana, er þrettán árum síðar, það er að segja í nálægri framtíð, árið 2016. Sá tími kemur þó ekkert við sögu, utan að fjölskylda Davíðs er annað slagið nefnd.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðrún Eva fer með lesanda fram í tímann, en í Fyrirlestrinum um hamingjuna (2000) endar sagan á því að Surtsey sekkur í sæ, þegar aðalsöguhetjan, sem fæðist á sama degi og Surtsey reis úr hafi, er orðinn fullorðinn maður. Sú saga segir reyndar einnig frá nokkuð óvenjulegum fjölskyldusamböndum og heimilislífi, en slík eru reglulegt tema verka Guðrúnar Evu.

Davíð er ættleiddur sonur Elísabetar, argentínskur að uppruna. Móðir hans, sem ung ákveður að lifa lífinu til fulls – enda býr hún yfir þessum einstæða krafti kossins – flakkar með hann um heiminn þar til þau setjast að á Íslandi og hún hefur fyrst nám og síðar kennslu við Listaháskólann. Lýsingin á henni lagar sig fullkomlega að staðalmyndum ýktrar listakonu af sextíu-og-átta kynslóðinni, hún gengur í litríkum fötum, gefur skít í hið smáborgaralega líf og heldur linnulaus partý – mætir jafnvel full í vinnuna, en fær séns af því hún er svo sjarmerandi og skemmtileg (og af því að listaheimurinn er svo líberal).

Þó mikil áhersla sé lögð á að draga fram hversu heillandi Elísabet er – Davíð staldrar við í miðri frásögn til að ítreka þetta – þá er ljóst af lýsingum hans að hún er gallagripur, manipúlatíf og ágeng, og laus við alla ábyrgðartilfinningu. Þegar atburðir sögunnar gerast hefur sonurinn misst alla trú á mömmu sinni (meðal annars vegna þess að hann hefur fundið eiturlyf í fórum hennar og uppgötvar að kraftbirting kossins gæti átt sér hversdagslegri skýringar) og endanlega slitnar upp úr samskiptum þeirra þegar hún reynir að koma ‚kossinum‘ á hann, í senu sem hefur óþægilega undirtóna sifjaspells og misnotkunar.

Það er því ljóst að Elísabet, fulltrúi sköpunarkraftsins, er ekki persóna sem lesandi öðlast mikla samúð eða samkennd með. Hinn fulltrúi listarinnar, myndasöguhöfundurinn Láki, fær listrænt séð meira vægi innan sögunnar, en eins og fram hefur komið eru þrjár sagna hans birtar í bókinni og varpa á sinn hátt ljósi á ýmis átakamál verksins. Láki virðist gangast inn á hugmyndir Elísabetar og hafa þegið af henni ‚koss‘, með tilheyrandi hæfileika til að gefa hann áfram. Staða hans er þó tvíræðari en Davíð veltir því stundum fyrir sér að hversu miklu leyti Láki sé að leika hlutverk.

Lesandi hlýtur að velta þessu fyrir sér líka, sérstaklega í ljósi myndasagnanna, en sú sem opnar bókina, tilbrigðið við sköpunarsöguna sem inniheldur hugmyndina um Lífsins tré og ‚kossinn‘ endar ekki beint á björtum nótum fyrir þá sem verða hans aðnjótandi. Sagan segir frá tveimur ævintýragjörnum ungmennum sem sætta sig ekki við einfaldleika hversdagsins og leggja upp í leit að Lífsins tré með kind í bandi. Eftir að hafa fundið tréð og borðað ávöxt þess, heyra þau rödd Guðs og hann er ekki ánægður: „Héðan í frá verður engin friðsæld í sálum ykkar. Þið verðið knúin áfram af innri ófullnægju […] Kyssist þið börn. Sú verður leið ykkar til að geta afkvæmi. Ekki af lendum ykkar [minnumst hér að Davíð er ættleiddur], heldur með kossi, með andardrættinum. Þau verða ekki hold af ykkar holdi, heldur eldur af ykkar eldi“ (46–47). Þau kyssast og þegar þau snúa til baka til kindarinnar er hún dauð, en þau skera hana samt á háls í fórnarskyni og lokamyndin sýnir kindina dauða, liggjandi í blóðpolli; fyrir miðju hans er hvítt far eftir hönd. Er þetta sjálft guðslambið?

Söguna gerir Láki í kjölfar atburðanna sem eru uppistaða bókar Guðrúnar Evu, eftir að allt hefur farið á versta veg. Innblásturinn fær hann úr Biblíu sem hann finnur á bóndabæ foreldra Elísabetar, en þangað flýja þau Elísabet undan æði Jóns. Bærinn er á Suðurlandi, jörðin eyðilögð vegna eldgossins og öskufallsins sem hefur lagt hluta landsins í eyði: „brunnin hús, ónýtar búslóðir og […] sjórinn […] orðinn að þurru landi“ (322). Þrátt fyrir þetta er bærinn í ágætu ástandi, því Davíð sinnir honum af alúð, límir fyrir glugga og mokar burt ösku. Áður hafði Láki skrifað útgáfu af ævintýrinu um Bláskegg og nú veit hann hversvegna: „Hinu forboðna er stillt upp eins og beitu á öngli og boðskapurinn virðist vera sá að maður eigi að falla fyrir freistingunni. Maður eigi að grafast fyrir um sannleikann, sama þótt það hafi skelfilegar afleiðingar“ (321). Bataille hefði orðið glaður.

Þegar Davíð kemur á bæinn, eftir að allt er um garð gengið, og heyrir frásögn móður sinnar: „eins og hún hefði verið að bíða eftir að fá að létta á hjarta sínu, eða réttara sagt firra sig ábyrgð, þyrla upp ryki líkt og sveitungi hennar, Katla“ (338). Hér kemur það enn á ný, sköpunarkrafturinn, eða helsti fulltrúi hans, er illur, henni er líkt við eldfjallið sem valdið hefur gríðarlegri eyðileggingu. [2] Áður hafði komið í ljós á hvern hátt eldfjallið er illt, en á ferðum sínum til ættaróðalsins kemst Davíð í kynni við jarðfræðinga og „illskan barst í tal af því að þau töluðu oft um eldfjallið, lifibrauð sitt og helsta viðfangsefni, eins og það væri illt.“ Þau útskýra þetta nánar: „Eldfjallið er ekki með meðvituðum hætti að reyna að skemma út frá sér“, en „því stendur nákvæmlega á sama. Þannig er illskan. Hún er í felubúningi.“ Það þarf að viðurkenna illskuna og taka með því afstöðu „og það er í það minnsta óþægilegt, í versta falli lífshættulegt. Þess vegna reynum við með hugarleikfimi að umbreyta illskunni í andstæðu sína. Breyta blýi í gull“ (216).

Hér má vel greina einskonar leiðarstef eða ‚lykil‘ að verkinu, þó sköpunin/ freistingin sé ill og boði allt illt þá kemur það ekki í veg fyrir að við reyn um að umbreyta henni, sjá hana sem jákvætt afl (sem Bataille gerir vissulega). En viðhorfið er samt alltaf tvírætt, því um leið erum við minnt á misheppnaðar tilraunir alkemistanna, sem reyndu öldum saman að finna lykilinn að eilífu lífi og breyta blýi – eða jafnvel hverju sem var – í gull.

Allt með kossi vekur byggir þannig á grundvallar þversögn, sem stöðugt er tekist á um – og tekist á við, allt frá hinu smæsta og hversdagslega (er kellingin á dópi?) yfir í sjálfa spurninguna um tilgang lífsins, en hann er viðfangsefni sögu Láka um Lífsins tré: „Í öll þessi ár hafði hann þráð að semja sögu sem fjallaði um hvorki meira né minna en tilgang lífsins“ (320).

Þversögnin sem liggur verkinu til grundvallar kemur einnig fram í sögumanninum Davíð. Hann hefur, allt frá unglingsaldri, lagt kapp á að gera líf sitt að andstæðu við líf móðurinnar („umbreyta illskunni í andstæðu sína“?) og helgar sig hversdagslífi fjölskyldumannsins, er giftur venjulegri konu og á með henni tvær dætur. Og hann er ákveðinn í því að sinna dætrum sínum betur en móðir hans sinnti honum. En sú mynd sem við sjáum er vaxandi þráhyggja hans sjálfs gagnvart þessu viðfangsefni, sögu Indi, sem jafnframt er saga móður hans og Láka, og svo auðvitað Jóns. Þráhyggjan snýr að skilningi, leitinni eftir því að skilja sjálfan sig, móðurina og sambandið við hana.

Þannig fær myndasagan í upphafi verksins enn á ný aukið vægi í þessum vangaveltum um skilning, en fyrri hluti hennar rekur Biblíusöguna um Skilningstréð og dramað í kringum það. Þrátt fyrir þessar áhugavekjandi tengingar og ítrekaðar útskýringar Davíðs á skrásetningunni þá verður aldrei alveg ljóst af hverju hann sökkvir sér svo gersamlega ofan í þessa sögu. Vissulega verður sendingin frá móður Láka til þess að hann fer að rifja upp og tína til ýmis gögn sem hann hefur geymt í fórum sínum, meðal annars dagbækur Indi og Jóns, en samt vantar eitthvað upp á að vaxandi þráhyggja Davíðs eigi sér nægilega styrkar stoðir innan verksins.

Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að Davíð er afar athyglisverð persóna og leit hans að ‚sannleikanum‘ sömuleiðis. Fyrir það fyrsta þá er ljóst að Davíð samsamar sig móður sinni allmikið þegar kemur að skrifunum, en þau eru mjög ‚skapandi‘ svo ekki sé meira sagt. Þessu vill hann ekki gangast við, en þegar kona hans bendir honum á að hann sé í raun að skrifa skáldsögu bregst hann þversum við:

„Ég reyndi að útskýra fyrir henni að ég væri ekki að skálda, ég væri að grennslast fyrir og raða. Ég er ekki að skrifa lögregluskýrslu, sagði ég. Það er sumt sem kemur ekki beinlínis fram í gögnunum, en sem hægt er að glöggva sig á, bara með smá hugsun, með því að setja sig í spor þessa fólks, velta fyrir sér ástæðum þess og líðan.“
„Svona eins og í sögulegri skáldsögu,“ ítrekaði Védís.
„Kannski, já, svolítið eins og í sögulegri skáldsögu, andvarpaði ég, þótt ég sé ósammála þeirri skilgreiningu. Mér finnst frekar að ég sé að segja frá því sem ég veit og láta það koma heim og saman“ (287–288).

Þrátt fyrir þessi mótmæli Davíðs má þó vera ljóst að hann er að fást við skáldskap, list og sköpun og fetar að því leyti í fótspor móður sinnar, ekki síst þegar hann álítur sig geta höndlað sannleikann með því að setja sig í spor annars fólks og talar um að segja frá því sem hann ‚veit‘, en sú vitneskja byggist greinilega á innsæi en ekki heimildum. Þar er hann algerlega sonur móður sinnar sem telur Sannleikann og Skilninginn felast í list inni og ‚kossinum‘. Að auki verður þráhyggja hans gagnvart þessum skrifum til þess að brestir koma í hjónabandið og hann sinnir fjölskyldunni ekki sem skyldi: „En Védís hefur rétt fyrir sér varðandi það að ég gæti verið áhugasamari um jólin sem nú nálgast. Atburðirnir sem áttu sér stað síðla árs 2003 eiga hug minn allan. Mér þykir það leitt, Védísar vegna og stelpnanna, en ég mun bæta þeim það upp“ (288). Hér sýnir hann af sér sama ábyrgðarleysi og hann ásakar móður sína fyrir.

Sjálf frásögnin og átökin við hana er því enn eitt viðfangsefni verksins. Annað sem kemur ítrekað fram í grufli Davíðs er þörf hans fyrir að koma skipulagi á hlutina og skilja – „grennslast fyrir og raða“. Þó að þetta verði til þess að líf hans hverfi í þá óreiðu sem hann fordæmir í tilveru móður sinnar þá er ljóst að hér er að finna annað leiðarstef verksins. Óreiðan er eitt helsta einkenni sögunnar, sem bæði kemur fram í samsetningu verksins og hugarstarfi Davíðs, þráhyggju hans og óljósum ástæðum fyrir henni. Þetta kemur kannski einna best fram tilraunum til að lýsa skáldsögunni Allt með kossi vekur og gefa henni einhverskonar yfirbragð röklegrar frásagnar eins og hér hefur verið gert. En rökleg lýsing á verkinu er í raun ógerleg. Eins og ljóst má vera af ofansögðu og eins og fram kemur einnig í umfjöllunum Fríðu Bjarkar Ingvadóttur í Víðsjá og Ingveldar Geirsdóttur í Morgunblaðinu er saga Guðrúnar Evu afar margþætt verk sem er á engan hátt hægt að smætta niður í lykla, leiðarstef eða lausnir. Og ein ástæðan fyrir því að slíkt gengur ekki er einmitt óreiðan, hin sívaxandi óreiða sem grípur um sig strax frá byrjun og stigmagnast.

Þess eðlis er óreiðan reyndar, samkvæmt kenningum eðlisfræðinnar, hún viðheldur sjálfri sér og eykst stöðugt, sé ekkert að gert – og jafnvel þótt eitthvað sé gert. Tilfinning fyrir óreiðu hefur áður sett mark sitt á verk Guðrúnar Evu, bæði Sagan af sjóreknu píanóunum (2002) og Yosoy (2005) bera merki hennar, en í báðum þeim verkum er henni haldið í skefjum. Hér hefur óreiðan hinsvegar leyst sig úr læðingi, eða verið leyst úr læðingi af ‚kossi‘ sköpunarkraftsins, illskunnar.

Þótt það sé ljóst að Indi og Jón séu ekki eins venjulegar persónur og þau vilja vera láta þá er það ekki fyrr en eftir kynnin við Elísabetu og Láka sem tilvera þeirra umhverfist. Að hluta til eru þetta endurnýjuð kynni, en Elísabet og Indi eru gamlar skólasystur og vinkonur. Eftir ‚kossa‘ Elísabetar og Láka umhverfast hjónin bæði – sem reyndar hefst með því að Jón virðist ná betra andlegu jafnvægi því hann færir heimilið í fyrra lag. En í ljós kemur að það er bara yfirborðið, undir niðri kraumar stórmennskubrjálæði sem endar í ofbeldi. Vaxandi geðsýki hans kemur fram í dagbókarskrifum sem Davíð finnur síðar og svo auðvitað lögregluskýrslum. Indi, hinsvegar, flýr inn á við og hverfur í draumum sínum inn í annan veruleika, en þar er hún unglingsstúlka sem býr við allsérstæðar heimilisaðstæður.

Sá hluti verksins er reyndar óþarflega veikur og hefði að ósekju mátt styrkja og stytta, en þessi hliðarheimur nær aldrei að verða sérlega áhugaverður eða öflugur. Spegilmynd eða táknmynd þessarar vaxandi óreiðu er svo auðvitað eldgosið sjálft, eldfjallið Katla og askan sem hún spýr og dreifir sér yfir landið með tilheyrandi eyðingu. Þáttur Kötlu er reyndar sérlega vel smíðaður og þær dómsdagstilvísanir sem henni fylgja eru agaðar og áhrifaríkar.

Fyrir utan þau ‚leiðarstef‘ sem hér hafa verið nefnd mætti velta upp fjölmörgum öðrum flötum sem varða meðal annars kreppuna (er Katla tákn mynd gróðærisins?), kynhlutverk (konur eru gerendur í bókinni, bæði Elísabet og stúlkan í myndasögunni eru þær sem leysa óreiðuna úr læðingi, en hvaða merkingu hefur það?), goðsagnir og trúarbrögð (sem Fríða Björk leggur áherslu á í sinni umfjöllun), mörk fantasíu og veruleika, geðveiki og listar, þráhyggju og ástar og svo auðvitað spurningar um form, en notkun myndasagna innan skáldsögunnar er bæði nýstárleg og vel heppnuð.

Þáttur myndasagnanna kemur reyndar fram í orðum Láka, þegar hann reynir að lýsa list sinni: „Ástæðan fyrir því að ég kýs að segja sögur með myndum er sú að ég trúi því að þannig komist ég nær því að höndla einhvern ósýnilegan mannlegan kjarna. Raunar er ég alltaf að höndla með hið ósýnilega. Þar verður galdurinn til. Í ginnungagapinu á milli ramma. Í togstreitunni milli myndar og texta. Í því sem ég gef til kynna eða ætlast til að lesandinn gefi sér …“ (115).

Það má segja að þessi lýsing geti að mörgu leyti átt við ýmislegt af því sem Guðrún Eva fjallar um í sinni skáldsögu og gefur jafnframt til kynna ‚vandamálin‘ við hana, en óreiðan sem ríkir innra með sögunni nær einnig útfyrir hana, eins og áður hefur komið fram og gerir það að verkum að verkið virðist á stundum við það að liðast í sundur og leysast upp. En kannski er það hluti af galdrinum, að skrifa bók sem þvert ofan í ætlun Davíðs verður ekki, og getur ekki orðið, að skipulagðri skráningu hins fullkomna skilnings, en er í staðinn undirlögð af illsku bókmenntanna.

Úlfhildur Dagsdóttir

 

Tilvísanir

  1. Georges Bataille, Literature and Evil, þýð. Alastair Hamilton, New York, M. Boyars 1985 (1957).
  2. Þessi umfjöllun er byggð á ritdómi sem birtist á bokmenntir.is á síðasta ári. Þar hóf ég umfjöllunina á því að vísa til fyrri skáldsögu Guðrúnar Evu, Skaparans, og gaf þannig til kynna að sameiginlega þræði mætti finna milli þessara verka hvað varðar vangaveltur um sköpun. Hér verður þó ekki farið frekar út í þær vangaveltur, enda væru þær í sjálfu sér efni í aðra grein. Sjá einnig umfjöllun Björns Þórs Vilhjálmssonar um Skaparann í TMM 2.2009.
  3. Hér mætti reyndar vel rifja upp ýmis goðmögn, þó aðallega gyðjur, sem eru í senn fulltrúar sköpunar og eyðingar. Þekkust er líklega hin indverska Kali.
  4. Umfjöllun Fríðu var flutt 6. desember, 2011, og var, þegar þetta var skrifað, finnanleg á eftirfarandi vefslóð: http://www.ruv.is/frett/bokmenntir/domur-um-allt-med-kossi-vekur. Umfjöllun Ingveldar birtist 10. desember, 2011, en grein hennar er enn óaðgengileg fyrir aðra en áskrifendur, sjá slóðina: http://mbl.is/greinasafn/grein/1403328/?item_ num=1&searchid=f025c55186547211084522 fcf7874803a8f1ea55. Friðrika Benónýsdóttir fjallaði einnig um bókina í Fréttablaðinu, 22. nóvember, 2011, og er síst hrifin af verkinu, en nefnir þó einmitt hvernig sagan flakkar hratt á milli ólíkra sviða. Að lokum ber að nefna umfjöllun Erlu Elíasdóttur á vefsíðunni Druslubækur og doðrantar, http://bokvit.blogspot.com/2012/01/semkossinn-vekur.html, en hún leggur áherslu á þátt sköpunarinnar og er sammála greinarhöfundi um ð þáttur Davíðs sé óþarflega veikur.