Tímarit Máls og menningar 2 2018Annað hefti ársins af Tímariti Máls og menningar hefur verið sent til áskrifenda og í helstu bókabúðir, troðfullt af spennandi efni að venju. Kápumyndin er af ástar- og frjósemisgyðjunni Freyju eins og sænski myndlistarmaðurinn Anders Zorn sá hana fyrir sér um aldamótin 1900. Hún er myndskreyting við grein Hallfríðar J. Ragnheiðardóttur: „En er hún fer …“ sem fjallar um Freyju og Brísingamen. Annars er Þorsteinn frá Hamri í aðalhlutverki í þessu tölublaði; Guðmundur Andri Thorsson skrifar um hann undurfallega grein sem hann kallar „Brýr og himna“ og bæði Anton Helgi Jónsson og Ólafur Jóhann Ólafsson tileinka honum ljóð.

Önnur ljóðskáld í heftinu eru Þorvaldur S. Helgason, írska þjóðskáldið W. B. Yeats í þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar, Þórhildur Ólafsdóttir, Kristian Guttesen, Sigríður Jónsdóttir og Bjarni Bernharður. Prósaverk eiga í heftinu Fríða Ísberg, Karl Ágúst Úlfsson, nýkosinn formaður Rithöfundasambandsins, og Auður Styrkársdóttir. Kristín Ómarsdóttir Maístjarna á í heftinu viðtal við bandarísku skáldkonuna Eileen Myles.

Valur Gunnarsson er enn með hugann við það sem hefði getað gerst og á hér greinina „Heisenberg í Kaupmannahöfn“ þar sem hann veltir fyrir sér hvað hefði orðið ef nasistar hefðu verið fyrri til að finna upp kjarnorkusprengjuna. Snorri Páll er líka á stríðsnótum í greininni „Mitt í merkingarkrísunni“ sem fjallar um hryðjuverkin 11. september 2001 og skáldsöguna Aftur og aftur eftir Halldór Armand Ásgeirsson. Hjalti Þorleifsson skoðar hins vegar gamla skáldsögun, Sólon Íslandus Davíðs Stefánssonar , og spyr hvort hún sé hetjusaga.

Hugvekjur eru tvær að þessu sinni, Einar Már Jónsson skrifar um Fyrirmyndaratvinnuleysingjann en Orri Vésteinsson á greinina „Takmörkuð ábyrgð“ um rétt ráðamanna til að bera ekki ábyrgð þegar þeir veita mönnum uppreist æru.

Loks eru svo umsagnir um fimm nýjar skáldsögur sem munu gleðja alla þá sem sakna ritdóma í daglegum fjölmiðlum okkar. Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar um verðlaunabók Kristínar Eiríksdóttur, Elín, ýmislegt, Vésteinn Ólason skrifar um Passamyndir Einars Más Guðmundssonar, Soffía Auður Birgisdóttir skrifar um Móðurlífið, blönduð tækni eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur, Úlfhildur Dagsdóttir skrifar um Skuggana eftir Stefán Mána og Jórunn Sigurðardóttir skrifar um Formann húsfélagsins eftir Friðgeir Einarsson.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast áskrifendur að TMM geta skrifað Forlaginu, forlagid@forlagid.is.