Gerður Kristný. Blóðhófnir.

Mál og menning 2010.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2011.

Í ljóðabókinni Blóðhófnir sækir Gerður Kristný sér efnivið til eddukvæðabálksins Skírnismála og af fagmennsku og með feminísku sjónarhorni smíðar hún áhrifaríkt listaverk sem á skilið allt það lof sem á það hefur verið borið og færði henni Íslensku bókmenntaverðlaunin. Blóðhófnir er ljóðabálkur sem í hnitmiðuðum, fáguðum og afar fallegum myndum birtir okkur sýn jötnameyjarinnar Gerðar Gymisdóttur á þá atburði sem lýst er í Skírnismálum. Með því að velja nútímalegt kvenlegt sjónarhorn fær kvæðið allt á sig nýjan blæ og nýja merkingu. Endursköpun hefur átt sér stað og við blasa nýir túlkunarmöguleikar sem til að mynda gefa færi á því að tengja þetta forna kvæði við eina helstu vá samtímans; nauðung, ofbeldi og sölu á konum milli landa og menningarheima – það sem á nútímamáli kallast mansal.

En spyrja má: Voru þessir túlkunarmöguleikar ekki alltaf til staðar í kvæðinu? Hvernig stendur á því að í fræðilegri umræðu um Skírnismál hafa menn, í gegnum aldir og allt þar til tiltölulega nýlega, kosið að líta fram hjá eða þegja yfir því ofbeldi sem jötnameyjan er beitt af hálfu Freys og Skírnis (hins karllega valds) í kvæðinu? Hér á eftir mun ég skoða ljóðabálk Gerðar Kristnýjar í ljósi hins forna kvæðis og túlkunarsögu þess og reyna að sýna í hverju áhrifamáttur ljóðbálks Gerðar Kristnýjar er helst fólginn. Til að auðvelda samanburðinn mun ég rekja efni Skírnismála áður en rýnt verður í ljóðmál Gerðar Kristnýjar.

BlóðhófnirSkírnismál – eða För Skírnis

Skírnismál eru varðveitt í 42 erindum í Konungsbók undir heitinu För Skírnis. [1] Kvæðið er samsett af sex samtalsatriðum og þrír lausamálskaflar fylgja því; upphafskafli þar sem aðstæður eru kynntar og tveir kaflar sem marka atriðaskipti í kvæðabálkinum. [2] Bent hefur verið á hversu leikrænn textinn sé og sannfærandi rök færð fyrir því að kvæðið hafi upphaflega verið flutt í leikrænu formi og sé fremur leiktexti en „bókmenntir“. [3] Ég held mig þó við að tala hér um „kvæðið“ enda eru Skírnismál ætíð flokkuð sem eddukvæði. Í lausamálinu í upphafi kvæðisins er sagt frá því að Freyr Njarðarson hefur sest í hásæti Óðins, Hliðskjálf, og séð þar „um heima alla“. Í Jötunheimi kemur hann auga á hina fögru Gerði Gymisdóttur þar sem hún gengur til skemmu sinnar. „Þar af fékk hann hugsóttir miklar“. Foreldar Freys, Njörður og Skaði, hafa áhyggjur af líðan sonar síns og í fyrsta erindi mælir Skaði til Skírnis, skósveins Freys, og biður hann að komast að því hvað það er sem veldur hugarangri Freys.

Erindi 2–9 lýsa orðaskiptum Skírnis og Freys sem leiða í ljós mikla þrá frjósemisguðsins eftir jötnadótturinni. Býðst Skírnir til að fara til Jötunheims ef Freyr gefi sér hest sem geti borið hann gegnum „vísan vafurloga“ og sverð „er sjálft vegist / við jötna ætt“. Það er því ljóst að hann á von á átökum í ferðinni. Freyr gefur Skírni hest og sverð sitt en sú gjöf á eftir að verða honum að falli síðar þegar hann mætir örlögum sínum í ragnarökum, samkvæmt Snorra-Eddu. Í 10. erindi ávarpar Skírnir síðan farskjóta sinn, hestinn, áður en þeir leggja saman í hættuför sína. Eftir þessi fyrstu tíu erindi kemur lausamálskafli sem segir í stuttu máli frá því að Skírnir ríður til Gymisgarða í Jötunheimi og kemur að sal Gerðar þar sem ólmir hundar eru bundnir við hlið.

Í erindi 11–13 ræðir Skírnir við fjárhirði utan við bústað Gerðar og spyr hann hvernig hann geti komist fram hjá hundunum og náð fundi Gerðar. Hann fær það svar að hann hljóti annaðhvort að vera feigur eða framliðinn, að láta sér koma slík fásinna í hug. Í 14. erindi talar Gerður og spyr ambátt sína hvað valdi hávaða þeim sem hún heyrir utan bústaðar síns og þegar ambáttin svarar að þar sé kominn maður á hesti (15. erindi) býður hún honum að ganga inn þótt hún óttist að þar fari ofbeldismaður, „minn bróðurbani“ (16. erindi). Í 17. erindi spyr hún Skírni um ástæður komu hans. Þá hefjast orðaskipti þeirra tveggja og í erindum 19–22 býður Skírni henni góðar gjafir (epli Iðunnar og hringinn Draupni) gegn því að hún gefist Frey. Hún afþakkar boðið og hinar góðu gjafir afdráttarlaust.

Þá breytir Skírnir heldur betur um aðferð og dregur upp sverð: „Sér þú þenna mæki, mær, / mjóvan, málfán, / er eg hefi í hendi hér?“ og í erindum 23–36 hótar hann henni öllu illu og stigmagnast hótanir hans við hvert erindi; hann hótar að höggva af Gerði höfuðið; vega föður hennar; hýða hana með „tamsvendi“ (svipu); dæma hana til útlegðar á „ara þúfu“ með útsýni til heljar; gera hana að athlægi og glápsviðfangi þursa; rista henni galdrarúnir sem veki henni sorg og sáran grát; hún skal verða kúguð og úrræðalaus; annaðhvort gefast þríhöfða þursi eða engan mann fá; geð hennar skal tærast; hún mun hafa reiði æðstu goða og hatur Freys og vera neitað um samvistir við jötna, hrímþursa, syni Suttunga og æsi; hún skal verða ambátt þursins Hrímgrímis „fyrir Nágrindur neðan“ og aldrei fá betri drykk en geitahland að drekka; og henni skulu ristir galdrastafirnir „ergi og æði og óþola“.

Þegar þarna er komið lætur Gerður undan og segist fallast á að koma til Freys (erindi 37). Í erindi 38 vill Skírnir fá að vita hvenær hún muni láta að vilja hins frjósama guðs. Gerður svarar að eftir níu nætur muni hún hitta Frey í lundinum Barra og þar „unna“ honum „gamans“ (erindi 39). Síðasti lausamálskafli kvæðisins lýsir heimferð Skírnis og fundi hans við Frey sem spyr hann tíðinda (erindi 40). Skírnir segir honum málalok og í síðasta erindi kvæðisins lýsir Freyr óþolinmæði sinni eftir fundinum við Gerði: „Löng er nótt, / langar eru tvær, / hve um þreyjag þrjár? / Oft mér mánaður / minni þótti / en sjá hálf hýnótt.“ Hér endar kvæðið og við fáum því ekkert að vita um hvernig fundi þeirra Gerðar og Freys lyktaði.

Mismunandi túlkanir

Margvíslegar túlkanir hafa komið fram á Skírnismálum, enda kvæðið „heillandi og opið til túlkunar“ eins og Gerður Kristný orðar það í viðtali á vef Sögueyjunnar Íslands. [4] Í útgáfu Máls og menningar á Eddukvæðum frá 1998 hníga skýringar Skírnismála að því að hér geti verið um að ræða táknrænt kvæði sem tengist frjósemisblóti. [5] Terry Gunnell er einnig hallur undir slíka skýringu og telur að texti kvæðisins hafi tengst leikrænum flutningi, eins og áður er nefnt. [6] Sé kvæðið túlkað á þennan veg er Gerður hér í hlutverki jarðarinnar sem frjósemisguðinn Freyr þarf að frjógva svo ávextir jarðarinnar spretti. Skírnir er þá í hlutverki sólarinnar sem vekur gróðurinn. Benda má þó á að í textanum sjálfum eru engin atriði sem byggja beint undir slíkan lestur, til að mynda er hvergi vísað til ófrjósemi jarðar eða yfirvofandi uppsprettubrests láti Gerður ekki að vilja Freys. Erfitt er einnig að fallast á að hinn ofbeldisfulli Skírnir sé sólartákn (þar er vísað í að nafn hans þýði „hinn bjarti“ eða „sá sem skín“) og í myndmáli kvæðisins er það Gerður sjálf sem hefur arma sem „lýstu / en þaðan / allt loft og lögur“ (erindi 6). Hins vegar er þessi túlkun notuð til að afsaka framferði Skírnis; hann þurfi að beita hörku eigi gróður jarðar að spretta. [7]

Í frásögn Snorra-Eddu af þessum atburðum er heldur ekkert minnst á viðhald frjósemi í sambandi við fund Gerðar og Freys. Snorri túlkar Skírnismál hins vegar sem bónorðsför og þegir alveg yfir þeim ofbeldishótunum sem stærsti hluti kvæðisins lýsir. Um samskipti Skírnis og Gerðar segir Snorri, stutt og laggott: „Þá fór Skírnir ok bað honum konunnar ok fekk heit hennar.“ [8] Til að styðja lestur sinn leggur Snorri Frey í munn þessi orð sem hann mælir til Skírnis: „– ok nú skaltu fara ok biðja hennar mér til handa ok hafa hana heim hingat, hvárt er faðir hennar vill eða eigi, ok skal ek þat vel launa þér.“ [9] Segja má að Snorri ítreki það karlaveldi sem kvæðið lýsir þegar hann bætir við frá eigin brjósti: „hvárt er faðir hennar vill eða eigi“; vilji Gerðar kemur ekki til álita hér og þessi orð Snorra eru ekki heldur í neinu samhengi við kvæðið því þar kemur faðir Gerðar aldrei við sögu, nema þegar Skírnir hótar Gerði að drepa hann. Það er hún sjálf sem býður Skírni í sín salarkynni til viðræðna.

Vilji er hins vegar eitt af grundvallarstefjum Skírnismála ef rýnt er í ljóðmálið, enda fjallar kvæðið um það hvernig vilji Gerðar er brotinn á bak aftur. [10] Í túlkun Snorra Sturlusonar verða Skírnismál að „ástakvæði“ og hafa fleiri túlkendur fallist á þann lestur. [11] Helga Kress sér kvæðið hins vegar sem lýsingu á „brúðarráni“ og hún sér tilraun Freys til „að komast yfir jötnamey“ einnig sem lýsingu á „manndómsraun á leið [Freys] til karlmennsku og viðurkenningar í samfélagi karla“. [12] Það má þó segja að lítill karlmennskubragur sé á því að senda skósvein sinn til að ná í jötnameyjuna í stað þess að fara í þá hættuför sjálfur. Þá bendir Helga á að Skírnismál fjalli „um kynferðislegt ofbeldi“ og vekur athygli á því hversu blindir karlkyns túlkendur kvæðisins hafi verið á þann þátt þess.

Gerðarmál

Segja má að túlkun Gerðar Kristnýjar á Skírnismálum sé samhljóða túlkun Helgu Kress að því leyti að í Blóðhófni er lýst brúðarráni og kynferðislegu ofbeldi. En Gerður Kristný notfærir sér ekki eingöngu þann efnivið sem er til staðar í Skírnismálum heldur spinnur hún söguna áfram og ljóðabálkurinn fjallar líka um það sem gerist eftir að Gerður Gymisdóttir er gefin Frey nauðug. Undir lok bálksins er síðan vísað fram til ragnaraka og sett fram sterk og óvænt sýn á þau. Eins og komið er fram hefur Skírnir orðið í stærstum hluta Skírnismála, hann talar í 26 erindum af 42. Í Blóðhófni er það hins vegar aðeins Gerður sjálf sem mælir og fer því ágætlega á að tala um bálkinn sem „Gerðarmál“ til að undirstrika að ljóðabálkurinn í heild er kröftug mótmynd við texta eddukvæðisins. Ég tek fram að hér er ég alls ekki að reyna að betrumbæta titil ljóðabókarinnar – sem er mjög flottur – heldur bara að ítreka að hér fær jötnameyjan að segja sína sögu, hún er ljóðmælandi verksins.

Blóðhófni mætti skipta upp í fimm hluta sem aðskildir eru í bókinni með stílhreinum teikningum af hringlaga formi sem vísar í skreytilist víkingaaldar og efni ljóðanna. Upphafsorð ljóðabálksins, „Minningar“, vísar til þess að ljóðmælandinn er að rifja upp sögu sína. Í fyrstu línunum er dregin upp skýr andstæða á milli Jötunheims og heimkynna ása, þ.e. heimsins sem Gerður tilheyrði áður en hún var flutt nauðug til þess heims þar sem hún er nú niðurkomin. Í örfáum orðum er dregin upp mynd af þessum andstæðu heimum, í Jötunheimi gat ljóðmælandi hnoðað snjókúlur og kastað en nú gerist það aðeins í huga hennar því:

Hér festir ekki snjó

Brúin spennist
úr iðandi grasi
í gráan mökk

Þar er landið mitt
vafið náttkyrri værð
steypt í stálkaldan ís

Hér situr tungl
yfir dölum og ám

Heima yfir
hrollköldum gljúfrum

Í þessum fyrsta hluta, sem kalla má inngang, er því komið á framfæri að ljóðmælandi er ekki „heima“ og þótt ekki séu höfð um það mörg orð kemst söknuður hennar strax til skila. Fyrstu ljóðlínurnar sýna ljóðmælanda í nútíð, fjarri heimahögum, en í öðrum hluta hverfur hún aftur til fortíðar þegar hún dvaldi örugg í föðurhúsum; „með festi úr föðurást“ um hálsinn. Dregin er upp falleg mynd af stúlku sem situr við „vorstillt vatn“ og dorgar:

Skýjaflekar
flutu um himin

Sólin í djúpinu
kveikti glit
í gárum.

En skyndilega er friðurinn rofinn: „Þá barst hnegg / um skóga / þagnaði fugl / faldi sig mús // dimmdi á / miðjum degi“. Skírnir er kominn á hesti sínum og „hvessti á mig / augun“ og ljóðmælanda grunar ekki hvað hún á í vændum. Hún virðir vandlega fyrir sér hestinn og ætlar að segja bræðrum sínum „sögu af fáknum“. En Skírnir tjáir henni að: „Beðið væri / eftir brúði // Nú skyldi / tvímennt / úr tröllaheimi.“ Á næstu síðum er lýst samskiptum Gerðar og Skírnis og í þeim hluta Blóðhófnis koma beinar tengingar við Skírnismál gleggst fram og þar eru margar magnaðar hendingar sem lýsa ofbeldinu sem Gerður er beitt, enda er: „Ástin komin / með alvæpni“. Þegar Gerði er hótað að hún „skyldi dvelja / ein og ástlaus / á arnarþúfu“ með útsýni til Heljar „inn í / örfoka land / hinna dauðu“ verður henni hugsað til drottningarinnar sem þar ríkir „illskeytt / ævaforn // Andlitið / tært upp / af hatri / að hálfu // Munnurinn / gapandi gröf“. Sterk er myndin af drottingunni sem „hjó / uppgjöfinni / í hjarta mér // og hló að mér / um leið“. Í síðustu hendingunni beitir Gerður Kristný vísun, sem er stílbragð sem hún kann vel með að fara. Hér er vísað í Álfareið Jónasar Hallgrímssonar og á fleiri stöðum má finna vísanir í ævintýri og þjóðsögur – auk þess sem Blóðhófnir er að sjálfsögðu í heild sinni vísun.

Þriðji hluti Blóðhófnis heldur áfram þar sem Skírnismálum lýkur og ort er um skelfingu ljóðmælanda þann tíma sem hún bíður örlaga sinna eða fram að hinni níundu nótt. Sagt er frá kveðjustund með móður sem biður hana „að birtast sér aftur“. Gerður er sótt, henni kippt „upp á klárinn“ og för hennar til fundar við Frey er lýst á áhrifaríkan hátt: „Myrkrið skóf / yfir hjarta mér“; „Riðum skriður / óðum blóðöldur“. En í myrkrinu miðju lýsir þó minningin um móður sem „ber lykla að búri / og brjóstum manna“ og „bíður mín heima / í hamingjunnar bænum“.

Í fjórða hluta er lýst fyrsta fundi Gerðar og Freys og hinni fyrstu nótt. Mögnuð er lýsing Gerðar Kristnýjar á nauðgun jötnameyjarinnar og þjáningum hennar:

Dagur að
kvöl kominn

Vígtennt myrkrið
skreið yfir
himinhvolfið

Hrammar Freys
hremmdu mig

fleygðu mér
innst í óttann

Hann risti
sár í svörð
nýtt á hverri nóttu

Gerður Kristný dregur upp hárbeittar og áhrifamiklar myndir [13] sem vekja upp áleitnar hugsanir um líðan allra þolenda ofbeldis og nauðgana; líkaminn svíkur, erfitt er að skilja það sem gerist og ljóðmælandi upplifir sjálf sitt sem sundrað: „Fótur fastur / undir stól // Hönd úti / í horni // Fingurnir dreifðir / um gólfið“. En hún reynir að höndla aðstæðurnar: „Ég safnaði / mér saman // Rétti af brúnir /raðaði tönnum / reyrði inn lifur / og lungu // hnoðaði hjartað / í gang.“ Ljóðmælandi lætur þó ofbeldið ekki buga sig og að lokum hittir það gerandann sjálfan fyrir: „Í gættinni / mætti ég Frey // Dauðan leit hann / svip sinn í / auga mínu // Síðan hefur hann / haldið sig fjarri / fer einförum“. Og þjáningu Gerðar fylgir líkn; hún „strekktist / yfir strák“ og barn fæðist „í blíðviðri // með lófafylli af sól“. Falleg er myndin sem dregin er upp í lok þessa hluta bókarinnar; af Gerði sem lyftir barni sínu mót himni svo vindurinn geti mótað „skýin í mynd hans“ og feykt henni „yfir í jötunheim“ svo móðir hennar fái að líta soninn sem er: „Fagur sem fiskur í sjó!“ – þótt hann beri „úlfgrá augu“ föður síns.

Í lokahluta bókarinnar spinnur Gerður Kristný óvæntan og kynngimagnaðan endi á ljóðabálk sinn. Gerður Gymisdóttir heldur af stað að næturlagi með son sinn í fanginu, sest í hásæti Óðins og saman horfa þau „um heima alla“. Hún sér fyrir sér endalokin þar sem: „Frændur munu / flykkjast yfir brúna“ og „hefna / horfinna kvenna“. Hún vonar að syni sínum verði þyrmt í ragnarökum og þrýstir honum að hjarta sér því: „Þar er landið mitt / vafið náttkyrri værð // steypt í stálkaldan ís“. Í lok ljóðsins má skilja að við séum aftur komin í nútíma Gerðar og ljóðabálknum lýkur með tengingu við upphafsmyndina af brúnni „sem spennist / úr iðandi grasi / í gráan mökk“ þar sem landið sem „steypt [er] í stálkaldan ís“ liggur. Gerður situr við Bifröst og bíður. Bygging ljóðabálksins er því endurspegluð í hinum hringlaga teikningum sem áður var minnst á.

Blóðhófnir er glæsilega uppbyggður ljóðabálkur og eins og sjá má af þeim mörgu dæmum sem hér hafa verið tekin úr ljóðmáli Gerðar Kristnýjar er faglega farið með stuðla og hrynjandi og mikil hugkvæmni og ljóðrænt innsæi einkennir myndsmíði skáldsins. Ljóðið nýtur sín afar vel í upplestri, ef vel er lesið ætti kraftur ljóðsins og áhrifamáttur þess að komast vel til skila. Ekki er hægt að enda umfjöllun um Blóðhófni án þess að minnast á hversu fallegur gripur bókin er. Upphleypt og lituð myndin á bókarkápu sýnir hestinn sem titillinn vísar til, auk sverðsins sem Skírnir þáði af Frey fyrir för sína. Neðst í hægra horninu gapir glefsandi úlfur. Heiðurinn af myndunum og hönnun bókarinnar á Alexandra Buhl og getur hún verið stolt af sinni vinnu, ekki síður en Gerður Kristný og forlagið sem gefur bókina út.

Hefð og nýsköpun

Augljóslega má tengja Blóðhófni Gerðar Kristnýjar við þann straum í íslenskum samtímabókmenntum sem farið hefur vaxandi á undanförnum árum og kenna má við endurvinnslu á fornbókmenntaarfinum. Dæmi um slíkt má finna innan allra bókmenntagerva og mörg góð og jafnvel frábær verk hafa litið dagsins ljós. Af skáldsögum nægir að benda á verk á borð við Gunnlaðar sögu (1987) eftir Svövu Jakobsdóttur, sem byggist öðrum þræði á róttækri endurtúlkun á nokkrum erindum Hávamála (svokölluðum Gunnlaðarþætti), Morgunþulu í stráum (1998) og Sveig (2002) eftir Thor Vilhjálmsson, þar sem efni er sótt til Sturlungu, líkt og Einar Kárason gerir í Óvinafagnaði (2001) og Ofsa (2008). Þórunn Erlu Valdimarsdóttir spinnur í kringum plott og persónulýsingar úr Njálu og Laxdælu í glæpasögum sínum Kalt er annars blóð (2007) og Mörg eru ljónsins eyru (2010) og einnig má nefna sögur Vilborgar Davíðsdóttur, nú síðast Auður (2009) sem segir af lífi Auðar djúpúðgu áður en hún nam land á Íslandi.

Af leiksviðinu má nefna Ormstungu þeirra Benedikts Erlingssonar og Halldóru Geirharðsdóttur, Mr. Skallagrímsson eftir Benedikt, Brák Brynhildar Guðjónsdóttur og ýmis leikverk Sveins Einarssonar og Bandamanna sem meðal annars settu upp sýningu sem byggð er á Skírnismálum, líkt og Blóðhófnir. Af barna- og unglingabókum koma upp í hugann bækur þeirra Brynhildar Þórarinsdóttur og Margrétar Laxness unnar upp úr Njálu (2002), Eglu (2004) og Laxdælu (2006) [14] og bækur Friðriks Erlingssonar um þrumuguðinn Þór (2008, 2010). Teiknimyndasögur sem byggjast á norrænum goðsögum hafa komið út og einnig má nefna bækur þeirra Emblu Ýrar Bárudóttur og Ingólfs Arnar Björgvinssonar sem byggðar eru á Njálu og eru orðnar fjórar (2003–2007). Þá hafa mörg íslensk ljóðskáld sótt sér innblástur til fornbókmenntanna og myndu fylla margar bækur væru þau kvæði og ljóð saman tekin. [15]

Gerður Kristný hefur áður lagt fram sinn skerf til þessa straums með ljóðum á borð við „Vísur Hallgerðar“ og „Til Skírnis“ (Ísfrétt, 1994) „Bergþóra“ (Launkofi, 2000), „Hallgerður í Lauganesi“ og „Dauðastríð Egils“ (Höggstaður, 2007) og kannski má segja að í þeim ljóðum megi sjá vísi að þeirri sterku feminísku sýn sem einkennir Blóðhófni. Ljóðið „Til Skírnis“ sýnir að efni Skírnismála hefur lengi leitað á skáldið og tilbrigði við lokaorð þess ljóðs, „Dauðan lít ég svip minn / í sverði þínu“, er að finna í Blóðhófni: „Dauðan leit ég / svip minn / í sverði drengsins“ (vísar til Skírnis) og „Dauðan leit ég / svip minn / í auga dýrsins (vísar til hestsins) og að síðustu: „Dauðan leit hann / svip sinn í / auga mínu“ (vísar til Freys).

Af þeim bókum sem ég nefni hér að ofan finnst mér nánasti skyldleiki Blóðhófnis vera við Gunnlaðar sögu Svövu Jakobsdóttur. Í báðum þessum verkum er sett fram ný, róttæk og feminísk sýn á frásagnir af jötnameyjum sem sagt er frá í eddukvæðum. Og báðar hafa þær sterka skírskotun til málefna sem brenna á okkar samtíma. Hvað það varðar má einnig tengja þessi verk við Gerplu Halldórs Laxness. Slíkar bækur eru stórtíðindi í íslenskri bókmenntasögu.

Soffía Auður Birgisdóttir

Tilvísanir

  1. Þá eru fyrstu 27 erindin, að undanskildu því 18., einnig varðveitt í handritinu AM 748 I 4to þar sem þau kallast Skírnismál.
  2. Sjá nánar um kvæðið, Gísli Sigurðsson (rit stjóri). Eddukvæði. Reykjavík: Mál og menning 1998, s. 93–94. Allar beinar tilvitnanir í Skírnismál vísa til þessarar útgáfu og er kvæðið að finna á síðum 84–93.
  3. Sjá Terry Gunnell. „Skírnisleikur og Freysmál. Endurmat eldri hugmynda um „forna norræna helgileiki“ Skírnir, (haust) 1993, s. 421–459.
  4. Sjá http://www.sagenhaftes-island.is/hofundur-manadarins/nr/1540 (skoðað 26. apríl 2011).
  5. Sjá áður tilvitnað rit í útgáfu Gísla Sigurðssonar.
  6. Terry Gunnell 1993.
  7. Í skýringu segir: „Sá ástarfundur Gerðar og Freys sem hér er heitið hefur verið tengdur við frjósemisblót á vori þegar sólin (Skírnir, þ.e. sá sem skín) vekur jörðina (Gerði) af vetrardvala og hún er síðan frjóvguð af Frey. Athöfn af þessu tagi gæti líka skýrt hörkuna í hótunum Skírnis sem er þá ekki aðeins að fá stúlku til ásta fyrir húsbónda sinn heldur að slíta jörðina úr klóm vetrarins. Og hún þarf níu daga frest áður en hún er tilbúin til sáningar.“ Eddukvæði 1998, s. 92.
  8. Edda Snorra Sturlusonar. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Reykjavík: Íslendingasagnaútgáfan 1954, s. 54.
  9. Sama stað.
  10. Nafnorðið munur kemur átta sinnum fyrir í Skírnismálum og er það ýmist skýrt sem ást, þrá eða skap. Að mínu mati fer betur á að skýra það sem vilja, a.m.k. í sumum tilvikum þar sem ást eða þrá eiga ekki við. Fyrst kemur orðið fyrir í 4. erindi þar sem Freyr útskýrir þunglyndi sitt: „álfröðull lýsir um alla daga / og þeygi að mínum munum“ – sem sagt, sólin skín alla daga en ekki að hans skapi, eða til að svala þrá hans – eins og það er gjarnan skýrt – eða ekki að hans vilja. Gísli Sigurðsson skýrir „þeygi að mínum munum“ sem „ekki að mínu skapi, til að svala þrá minni“, Sjá Eddukvæði, s. 85. Athyglisvert er að hér talar Freyr um sól (álfröðul) sem skín alla daga og næst þegar hann talar (í 6. erindi) lýsir hann örmum Gerðar sem lýsa upp heiminn. Í næsta erindi er aftur talað um mun Freys, þegar Skírnir hvetur hann til að segja sér hvað valdi hugsótt hans. Í 20. erindi notar Gerður orðið þegar hún segist aldrei þiggja „að mannskis munum, né við Freyr“, þ.e. að hún mun i aldrei geðjast nokkrum manni, eða Frey, eða m.ö.o. ekki lúta vilja hans. Í 26. erindi hótar Skírnir Gerði með þessum orðum: „Tamsvendi eg þig drep / en eg þig temja mun, / mær, að mínum munum.“ Ljóst er að hvorki ást þrá gengur sem útskýring á orðinu munum í þessu tilviki, en hér er Skírnir að hóta að temja Gerði; að brjóta vilja hennar undir sinn vilja. Í 35. erindi eru síðustu tvær línurnar, undir galdralagi: „mær, að þínum munum / mær að mínum munum!“ og fylgja hótun Skírnis að Gerður fái ekkert betra en geitahland að drekka og aftur virðist liggja beint við að skýra orðið sem vilja, þ.e. fái Skírnir að ráða fái hún aldrei betri drykk. Að síðustu kemur orðið fyrir í 40. erindi þar sem Freyr spyr Skírni um árangur fararinnar og liggur beint við að túlka sem spurningu um það hvort Skírnir hafi komið fram sínum – eða Freys – vilja; „hvað þú árnaðir / í jötunheima / þíns eða míns munar?“ Sjá einnig umfjöllun um orðið munur í grein Carolyne Larrington. „„What Does Woman Want?“ Mær und munr in Skírnismál.“ Alvíssmál 1 (1992 [1993]), s. 3–16. Má sækja á vefsíðunni http://userpage.fu-berlin.de/~alvismal/ 1maer.pdf.
  11. Yfirlit yfir túlkunarsögu Skírnismála má sjá í riti Gro Steinsland. Det hellige bryllup og norrön kongeideologi. Oslo: Solum 1991. Einnig í Terry Gunnell 1993.
  12. Helga Kress. Máttugar meyjar. Reykjavík: Háskóli Íslands – Háskólaútgáfan 1993, s. 71.
  13. Það má velta því fyrir sér hvort hendingin „sár í svörð“ sé umsnúningur skáldsins á hugmyndinni um „ástarfund“ Gerðar sem frjósemisdýrkun; í stað þess að „sá í svörð“ ristir nauðgarinn Freyr hér „sár í svörð“.
  14. Brynhildur Þórarinsdóttir endursegir texta fornsagnanna og Margrét Laxness myndskreytir og hannar.