Góða ferð inn í gömul sárEva Rún Snorradóttir skáld og leikstjóri brýtur á margan hátt blað í leiklistarsögu okkar með sýningunni Góða ferð inn í gömul sár sem var frumsýnd um síðustu helgi á Nýja sviði Borgarleikhússins. Ég man að ég hlustaði á hana á kynningarfundi í leikhúsinu fyrir mörgum mánuðum, þar reyndi hún að lýsa þessu verki fyrir gestum og mér fannst ekkert vit í áformum hennar. Þau virtust alltof flókin og framandleg. En hún kom þeim á koppinn og sýningin er óvenjuleg, fróðleg, innileg og skemmtileg.

Hún hefst heima hjá hverjum áhorfanda fyrir sig. Hann fær hljóðrás senda í tölvupósti sem hann hlustar á klukkutímann áður en hann fer í leikhúsið. Þar er gefin upplýsandi og tilfinningarík innsýn í alnæmisfaraldurinn á 9. og 10. áratug síðustu aldar með viðtölum og skálduðum texta. Fáeinir einstaklingar, ýmist lífs eða liðnir, segja sögu sína, það eru átakanlegar sögur sem snerta mann djúpt, einkum vegna þess hvernig samfélagið kom fram við þá veiku og aðstandendur þeirra. Brennimerkingin var verst, jafnvel hræðilegri en sjúkdómurinn.

Þessi fyrsti þáttur sýningarinnar gerir að verkum að allir áhorfendur koma með það sama í huganum í leikhúsið. Allir hafa verið að upplifa það sama. Í öðrum þætti var tekið á móti okkur með glasi á barnum og Eva Rún og Einar Þór Jónsson, formaður HIV-samtakanna, tengdu hljóðverkið inn í nútímann með því að upplýsa hve margir hefðu greinst með veiruna hér á landi undanfarið og að enn væru haldin þing og ráðstefnur um sjúkdóminn. Hann er ekki farinn þótt ekki veki hann sömu skelfingu og áður. Titill þessa pistils er úr máli Einars Þórs.

Í þriðja þætti tekur samtíminn við. Glæsilegar dragdrottningar komu fram á barinn, puntuðu okkur og skreyttu og leiddu okkur inn á Nýja sviðið þar sem öllum áhorfendabekkjum hafði verið rutt burt og gólfið frelsað. Í margslunginni lýsingu Halls Inga Péturssonar skiptust þátttakendur á að segja lífsreynslusögur og skemmta okkur á ýmsa vegu, m.a. flutti Jakub Stachowiak smásögu, Embla Guðrúnar Ágústsdóttir dansaði erótískan dans í hjólastólnum sínum og opnaði huga sinn og hjarta fyrir okkur, og dragdrottningin Starína (Ólafur Helgi Móberg) framdi fjörugan galdur með hjálp hljóðmannsins Jóns Arnar Eiríkssonar. Þetta var mjög hressandi eftir dapurleika fyrri þátta verksins og ég vona innilega að sýningin hafi þau áhrif sem stefnt er að. Fordómar gagnvart hinsegin fólki eiga engan rétt á sér og fjölbreytileikanum á ekki bara að fagna heldur miklu heldur gera að sjálfsögðum hluta af samfélaginu. Í lokin tókum við svo öll undir með Lady Zadude (Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson) í laginu góða „Ég er eins og ég er“.

Góða ferð inn í gömul sár

Á sviðum Borgarleikhússins í gærkvöldi voru þrjár gerólíkar sýningar. Á Litla sviði lifði Sigrún Edda Björnsdóttir sig inn í lífssögu Sigþrúðar í Á eigin vegum, alein á sviðinu. Á stóra sviðinu var 156. sýning á Níu lífum Bubba Morthens í allri sinni stærð og fegurð og á Nýja sviði þessi merkilega upplifunarsýning Evu Rúnar. Lifandi leikhús? Já, svo sannarlega.

 

Silja Aðalsteinsdóttir