Hans og GrétaBarnaóperan Hans og Gréta eftir þýska tónskáldið Engelbert Humperdinck og Adelheid Wette, sem var frumsýnd í Þýskalandi 1893 (undir stjórn Richards Strauss), er nú sett upp í þriðja sinn á íslensku, að þessu sinni á vegum Kammeróperunnar í skemmtilegri nýrri þýðingu Bjarna Thors Kristinssonar. Sýningin er í Tjarnarbíó, það er Guðmundur Felixson sem leikstýrir en tónlistarstjóri er Gísli Jóhann Grétarsson. Eva Björg Harðardóttir hannar leiksvið með fábrotnu húsi kústagerðarmannsins, skóginum þar sem börnin villast og freistandi kökuhúsi nornarinnar sem þau rekast á þar. Hún hannar líka klassíska búningana og sniðug gervin. Ljósahönnuður er Friðþjófur Þorsteinsson.

Í gerð Humperdincks af ævintýrinu eru foreldrarnir fátækir en hvorki örvæntingarfullir né grimmir. Mamman (Hildigunnur Einarsdóttir) verður vissulega pirruð þegar Hans (Kristín Sveinsdóttir) og Gréta (Jóna G. Kolbrúnardóttir) vilja frekar leika sér en vinna og rekur þau út í skóg til að tína jarðarber, en bæði hún og pabbinn (Áslákur Ingvarsson) verða miður sín þegar börnin skila sér ekki heim. Pabbi veit nefnilega að í skóginum býr stórhættuleg norn (Eggert Reginn Kjartansson) sem stelur börnum og bakar úr þeim piparkökur. Nornin nær líka í systkinin en þau eru kæn og tekst sleppa úr haldi hennar og baka svo nornina sjálfa.  Úr henni varð þessi líka risa-piparkaka!!

Það var gaman að sjá í fullum sal af börnum og fullorðnum í gær hvað óperunni var tekið vel, hlustað af athygli og fylgst vel með þótt allur texti sé sunginn. Þar hjálpaði auðvitað til hvað leikurinn var góður og söngurinn fínn en það var líka vel hugsað hjá tónskáldinu að bæta við persónunni Óla lokbrá (Hanna Ágústa Olgeirsdóttir) sem er eins konar sögumaður – tengiliður milli sviðs og salar. Hún gegndi því hlutverki með gáskafullum sóma. Kristín og Jóna voru yndisleg systkini, glettin, fjörug og forvitin eins og hamingjusöm börn á öllum tímum og sungu skínandi vel. Hildigunnur var ábyrg og ábúðarfull móðir en Áslákur léttúðugur pabbi. Bæði eru frábærir söngvarar en Áslákur er alveg sérstaklega dýrmætur vegna þess hvað hann er skýrmæltur í söng. Toppurinn á kransakökunni var svo nornin í geggjuðu gervi, brosmild og fleðuleg þangað til börnin lögðu á flótta, þá sýndi hún sitt rétta eðli.

Tónlistin er að nokkru leyti undir áhrifum frá þjóðlögum, létt og afar áheyrileg. Ekki þekkti ég þó neina aríuna nema þá sem við syngjum við textann „Það búa litlir dvergar“. Gréta fær að syngja hana í verkinu.

Það er greinilega vaxandi áhugi á óperuforminu hér á landi enda mikill fjöldi söngmenntaðs fólks sem langar vitaskuld til að iðka sína listgrein og leyfa öðrum að njóta. Stofnun tónlistarhópsins Kammeróperunnar er til vitnis um það, einnig til dæmis listahátíðin Óperudagar og starfsemi sviðlistahópsins Óðs. En ekki skiptir minnstu máli að sinna börnunum – um að gera að kveikja áhuga þeirra nógu snemma, þá ætti óperan að eiga sér góða framtíð.

 

Silja Aðalsteinsdóttir