Eftir Ólaf Gunnarsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2023.

 

Sólin fór sér að engu óðslega á för sinni yfir himininn. Engin gluggatjöld voru uppi við sem hægt var að draga fyrir. Hann hafði flutti heim um stundarsakir til þess að deyja og konan tekið niður tjöldin. Hann horfði á sólina með fjandskap og velti því fyrir sér hvort konan hefði fjarlægt tjöldin af ásettu ráði.

Þegar honum datt þetta í hug var eins og hann opnaði dyr inn í herbergi sem stóð í björtu báli. Eldurinn var hjónaband þeirra, óþrjótandi þrefið sem aldrei sá fyrir endann á. Það var sérkennilegt fyrir mann sem hafði stundað lögfræðistörf alla sína ævi að velta fyrir sér þeirri staðreynd að í hjónabandi hans höfðu ekki gilt neinar reglur eins og gert var ráð fyrir í mannlegu samfélagi. Hjónaband var lítil lokuð kytra án lögmála. Ég má ekki byrja á þessum vangaveltum, hugsaði hann. Ég kom heim til þess að deyja. Vitaskuld hefur hún ekki af ásettu ráði látið vera að hengja upp gluggatjöldin. Ósanngjarnt af mér að halda það. Enda vildi ég aldrei gluggatjöld í þessu herbergi öll þau ár sem ég átti heima hér. Hann vissi að þetta var langt í frá fyrsta skiptið sem hann hafði sýnt fyrrverandi eiginkonu sinni ósanngirni en hann var of þreyttur til þess að byrja á því enn einu sinni að grandskoða sinn innri mann. Að reyna að fá botn í hvort þeirra hafði valdið hinu meira böli. Þau réttarhöld höfðu staðið árum saman og lokið án dóms svo það var í engan stað að áfrýja. Hann varð að komast inn í stofu, þar var skuggsælt en hann skorti allan þrótt til þess að hafa sig fram úr rúminu. Fyrir mikla mildi lágu sólgleraugun hans á stól þar sem hann gat seilst til þeirra.

Það er vitaskuld vitleysa að hún hafi af ásettu ráði ekki hengt upp gluggatjöldin, hugsaði hann. Læknirinn hafði tekið honum vara fyrir að lyfjagjöfin við krabbameininu kynni að orsaka ranghugmyndir. Hvílík heimska að fara ekki fyrr til læknis. Hann hafði þekkt öll einkenni lasleikans en lét samt hjá líða að fara til læknis þegar veikindin vitjuðu hans. Hann sem var virtur lögmaður hafði orðið verri en þeir sakborningar sem voru ófærir um að sjá hvað var ímyndun og hvað ekki. Hann sem miskunnarlaust hirti blekkingar af öðrum hafði platað svo sjálfan sig að blekkingin reyndist hans banamaður. Það auvirðilegasta sem gat hent hann hafði þegar gerst: Hann hafði haldið að ekkert slæmt gæti komið fyrir sig. Og svo gerðist það.

Hann teygði sig eftir sólgleraugunum, fól sig bakvið þau og sofnaði. Var blessunarlega borgið um stundarkorn frá staðreyndum heimsins.

Hann vaknaði við hlátur fyrrverandi konu sinnar. Hláturinn sprakk í herberginu og hann svitnaði af angist. Svo skall á honum skelfing þegar hann mundi að hann átti skammt eftir ólifað og að líkami hans yrði hvað úr hverju brenndur eða ormétinn og það var ekkert sem hann gat gert til þess að koma í veg fyrir það.

– Ég keypti í góða kjötsúpu, sagði fyrrverandi eiginkona hans og það vottaði fyrir ódrepandi bjartsýni í rödd hennar. – Ég er viss um að hún gerir þér gott!

– Gleður mig að heyra, svaraði hann þreytulega og fann skelfinguna réna, – enga fyrirhöfn samt mín vegna. Hann þagnaði þegar hann áttaði sig á þvílíkan fáránleika hann var að láta út úr sér.

Hún kom og tók af honum sólgleraugun, það voru sólgleraugun sem höfðu valdið kátínu hennar. Hann sá sér til léttis að sólin var gengin fyrir gluggann og var rétt í þessu í hvarfi bakvið hornstoðina á herberginu. Bráðlega kæmi hún í ljós í glugganum sem vissi að húsi nágrannans áður en hún gengi til viðar þar bakvið þakið. Herbergið hafði verið vinnustofa hans í áratugi og hann aldrei viljað að þar héngju gluggatjöld. Honum hafði fundist eins og það gæfi til kynna að hann lifði án blekkinga.

Hann horfði fast á fyrrverandi konu sína. Það sem var hulið þegar hann var með sólgleraugu var nú sýnilegt. Hún horfði í augu hans biðjandi, í andartak, andartak sem tosaðist úr þar til það varð óbærilegt. – Það var gott að þú komst heim til mín, sagði hún … hún þagnaði eins og hún vildi ekki bæta við: – til þess að deyja.

Hann sneri sér til veggjar til þess að kæfa öskur og tókst að segja: – Gæturðu ýtt mér inn í stofu? Það er of heitt hérna í sólinni. Ég vildi óska að þú hengdir upp gluggatjöldin.

– Ég skal hengja þau upp strax, sagði hún hamingjusöm. Þar næst bætti hún við til þess að reyna að þóknast honum: – ég vil samt ekki halda því til streitu. Það er eins og mig minni að þú hafir alltaf viljað hafa hér gluggatjaldalaust. En ég get hengt þau upp eins og skot ef þú vilt.

– Nei, í guðs bænum ekki, svaraði hann. – Það tekur of langan tíma. Renndu mér inn í stofu eins og ég var að biðja þig um. Og sýndu mér þá mannlegu virðingu að byrja ekki að þrefa við mig.

Hún ýtti sjúkrarúminu inn í borðstofuna. Í setustofunni voru tveir sófar, bókahillur og á veggjum rándýr málverk eftir meistarana.

– Þetta er gott hérna, sagði hann. – Það fer vel um mig hér.

– Borðstofuborðið skyggir á sjónvarpið. Á ég að færa borðið svo þú getir horft á sjónvarpið á meðan ég bý til kvöldmatinn? spurði hún.

– Nei, takk. Það fer vel um mig hér. Þetta er fínt.

– Ókei, sagði hún með semingi.

– Já! Ef þér væri sama. Maður sem er að deyja á að hafa rétt á því að ráða hvar hann vill að rúmið hans standi.

Hún hikaði andartak og á andlitið kom þráasvipurinn sem var vanur að gera hann vitskertan, svipurinn sem gaf til kynna að hún vildi að þau héldu áfram að tala þar til hann færi að æsa sig og rífast og þá myndi hún þráast við og þegja og hann verða sífellt æstari þar til hann varð sakbitinn, en nú virtist sem henni yrði hughvarf, hún sneri sér við og gekk inn í eldhúsið. Ef til vill hafði hún áttað sig á að ósanngjarnt væri að bera á móti því að hann lægi fyrir dauðanum. Kannski? Kannski ekki. Hann spurði ekki og fengi aldrei botn í það frekar en annað sem þau höfðu jagast um.

– Ég keypti lambakjöt, heyrði hann að hún kallaði … – ég ætla að elda handa þér kjötsúpu. Ég keypti af nýslátruðu svo ég þarf ekki að sjóða kjötið lengi, að minnsta kosti ekki jafn lengi og ef það hefði verið frosið.

Hann kinkaði kolli einn með sjálfum sér. Hann byrjaði að syfja. Af hverju í helvítinu fór ég ekki til læknis þegar ég byrjaði að míga blóði? Allt benti þetta heldur betur til krabbameins. Af hverju fór ég ekki til læknis?

Og svo hertók krabbameinið líkamann. Hann svaf.

Hann vaknaði við að konan setti pottinn frá sér á borðið og sagði: – Kvöldmaturinn er til!

Maðurinn saup hveljur af skelfingu við að snúa sér frá líknandi svefninum og inn í óttalega veröldina.

Hún ýtti sjúkrarúminu að borðinu þar sem súpuskál beið hans. Hún reisti upp bakið á rúminu og lét bakka í kjöltu hans. Þar næst tók hún ausuna, jós súpu í skálina og setti hana fyrir hann ásamt skeið. Sem fyrr hafði hún sett of mikil grjón í súpuna. Það fór óendanlega í taugarnar á honum að maður að dauða kominn gæti ekki fengið súpu sem honum líkaði svo hann sagði: – Mér finnst hún betri þunn, með minni hrísgrjónum. Hún virtist ekki heyra svo hann hækkaði róminn. – Mér finnst hún betri þunn!

Hún varð sár á svipinn. – En þú hefur alltaf viljað hafa hana þykka, alltaf …

– Nei, svaraði hann. – Einmitt ekki! Aldrei!

Hann leit á konuna. – Sérðu ekki að ég er að deyja? sagði hann og öðlaðist óvænta rósemd. – Hvers vegna þessi látalæti? Það var bölið í okkar hjónabandi. Á að halda lyginni áfram út yfir gröf og dauða? Hverju hefurðu að tapa? Segðu mér satt! Þú hlýtur að muna að ég vildi alltaf hafa súpuna þunna. Viðurkenndu það!

Hún þagði.

– Ég er viss um, sagði hann þegar hún svaraði engu. – Að þú ert búin að sannfæra sjálfa þig um að ég hafi komið heim til þess að deyja vegna þess að þegar öllu sé á botninn hvolft þá elski ég þig meira en ég elska hana Brynhildi. Hann var orðinn móður af gremju. – Já, er það ekki? Hann sá að hún var að því komin að fara að gráta.

– Hversu oft hef ég sagt það? Ég kom heim vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að hún sæi mig svona á mig kominn. Ég vildi ekki að hún fyndi af mér fýluna, óþefinn, stybbuna. Ég vildi ekki að hún sæi sængina gegnvota af blóði. Ég hefði aldrei látið krabbameinið eiga sig hefði ég ímyndað mér að ég myndi loksins hitta konu sem ég gat elskað. Ég hélt það myndi aldrei aftur henda mig.

– Að þú skulir geta sagt svona nokkuð við mig!

– En það er sannleikurinn, sagði hann lágt. Hann starði á hana og þagði.

– Hvort sem það er nú sannleikurinn eða ekki þá skulum við fá okkur að borða, sagði hún.

– Ég er ekki viss um að ég geti borðað, sagði hann. – Ég er orðinn svo reiður. Svo skelfilega reiður.

– Nú borðum við, sagði konan ákveðin.

Þegar þau höfðu borðað renndi konan honum inn í herbergið sem nú var orðið dimmt. Hún opnaði glugga upp á gátt og hann fann hve gott var að anda að sér hlýju kvöldloftinu. Úti fyrir stóð reyniviður í blóma, syngjandi tré fullt af fuglum.

Hann sprautaði sig með morfíni og sofnaði svo til samstundis. Hann dreymdi að hann kom að kistulögn. Hann gægðist ofan í líkkistuna. Þar lá konan hans. Hún var dáin. Hann var mjög hamingjusamur og þungu fargi af honum létt. Hann vaknaði í dögun.

Þá varð honum ljóst að hún var enn á lífi og það var hann sjálfur sem átti nokkur andartök eftir ólifuð. Dauðinn vitjaði venjulega þeirra sem veikir voru strax er birti.

 

Hún var að hengja upp gluggatjöldin og herbergið var byrjað að líkjast sjálfu sér. Á meðan hún vann velti hún fyrir sér síðustu orðunum sem hann hafði sagt áður en hann loksins sofnaði, eftir að hafa starað á hana með fjandskap að því er virtist í óratíma. – Þú ert lygari, hafði hann sagt hvað eftir annað. – Lygari! Mér fannst kjötsúpan alltaf betri þunn! skrækti hann. Hann hafði steytt að henni hnefa. – Kirsuberið ofan á rjómatertuna verður sú svívirðing að þú kemur til með að sannfæra sjálfa þig um að ég hafi verið veikur og með óráði áður en ég dó og að árin sem við bjuggum saman hafi verið tími mikillar ástar og hamingju! Ég þekki þig! Það munt þú gera! Hægt og bítandi kemurðu til með að sannfæra sjálfa þig um að ég hafi flutt aftur heim til að drepast þín vegna. Hann tók andköf. – Vegna þess að ég vildi vera hjá þér! Og með því móti muntu hrækja á gröfina mína. Það verður loka… hann leitaði að orði en virtist ekki finna neitt nægilega öflugt svo hann hrækti út úr sér: – … misgjörðin.

Hvílík grimmd að láta slíkt út úr sér, hugsaði hún. Hvílík endaleysa! Ég kom mér bara ekki til þess að segja honum hversu gríðarlega mér var létt þegar hann flutti loksins út af heimilinu.

Hún steig niður af stólnum og horfði ágluggatjöldin. Hún hagræddi þeim örlítið og virti þau svo fyrir sér að nýju. Þau fóru vel og vitaskuld hafði hann alltaf viljað hafa mikið af grjónum þegar hún eldaði kjötsúpu.

 

 

 

Ólafur Gunnarsson

Ólafur Gunnarsson / Ljósmynd: Gassi