Það skemmtilegasta við að blogga um leikhús er hvað maður fær að sjá fjölbreytta flóru. Uppgötva hvað fólk getur verið að fást við ótrúlega ólíka hluti eiginlega á sömu þúfunni. Kvöldið eftir há-fagurfræðilega upplifun í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu fylgdumst við hjónin með meinfyndinni og dónalegri konu á fimmtugsaldri frá Hafnarfirði upplifa tráma lífs síns og bregðast við því á algerlega óviðeigandi hátt.

BlakkátÍ Blakkáti í Gaflaraleikhúsinu vaknar Borghildur (Björk Jakobsdóttir) að morgni, rýkur fram úr og ætlar að vekja börnin sín en áttar sig á að hún er ekki heima hjá sér heldur greinilega á hótelherbergi (mjög smart leikmynd Rebekku A. Ingimundardóttur). Hún er fljót að finna skýringu (hún er alltaf með skýringar á reiðum höndum): þau Pétur, maðurinn hennar, hafa ákveðið að gista bara á hótelinu eftir árshátíðina. En maðurinn í rúminu er ekki Pétur, það er fyrsta alvarlega sjokkið. Hún hefur aldrei séð hann áður og hann virðist vera hneykslanlega ungur. Næsta sjokk er ennþá verra: það er engu líkara en unglingurinn í rúminu sé dauður – og ekki bara áfengisdauður. Hún ákveður að flýja af vettvangi og hringir í leigubíl en þarf þá að komast að því á hvaða hóteli hún er stödd. Það veldur þriðja sjokkinu: hún er á Hótel Örk í Hveragerði! Og þarf að bíða tvo tíma eftir leigubíl sem mun kosta hana þrjátíu þúsund kall. Við fáum að bíða með henni.

Meðan á öllu þessu gengur gengur munnurinn á Boggu (eða Bokku eins og hún kallar sig í bland) og við fáum innsýn í ævi hennar og kjör. Þetta er glæsileg kona á besta aldri og starfar í stjórnarráðinu (líklega í utanríkisráðuneytinu, þetta var nokkuð á reiki) og í upphafi er maður viss um að þetta blakkát sé hræðileg tilviljun. Kannski hafi jafnvel verið eitrað fyrir henni eins og henni dettur í hug á einum stað. En smám saman kemur í ljós að svo er ekki. Borghildur er verulega illa farin af drykkjuskap, eldri sonurinn uppgefinn á henni og eiginmaðurinn líka, meira að segja besta vinkonan svarar ekki símtölum frá henni. Þegar þetta er ljóst er maður búinn að hlæja og flissa að konunni lengi kvölds og skammast sín talsvert fyrir það.

Björk semur leikritið sjálf og hefur textann alveg á valdi sínu. Hann er hnitmiðaður og fyndinn og hún kann vel á tímasetningu, hver setning fær að njóta sín. Í rauninni er þetta uppistand fremur en beinlínis leikrit eins og kemur vel fram þegar líður á, því þegar kemur að hléi er leikritinu eiginlega lokið og við tekur uppistand uns hún prjónar snyrtilegan (eða ósnyrtilegan …) endi á verkið. Björk hefur líka fallegar hreyfingar sem leikstjórinn, Edda Björgvinsdóttir, og Magnús Guðmundsson danshöfundur færa sér vel í nyt.

Með Björk á sviðinu eru Magnús Guðmundsson sem leikur líkið í rúminu af mikilli list – því það er ákaflega vandasamt að leika lík, ég tala nú ekki um ef því er fleygt til og frá – og Hjörtur Jóhann Jónsson sem leikur uppgefinn þjón á hótelinu, uppgefinn son og uppgefinn eiginmann í upprifjunum Borghildar. Hann fór alveg ásættanlega með öll sín hlutverk. En þunginn hvílir á Björk og hún nýtur þess í botn að leika þessa orðheppnu konu. Svo klýfur hún persónu leikkonunnar frá henni þegar uppistandið tekur við og sú reynist ekki minna drykkfelld og dónaleg en Bogga.

Það var mikið hlegið í Gaflaraleikhúsinu í gær en auðvitað er það harmleikur sem við verðum vitni að. Gamanharmleikur. Svört kómedía. Þessi fallega og gáfaða kona er búin að rústa lífi sínu og lítið útlit fyrir að Vogur vinni og vínið tapi, eins og Bogga segir í einni af setningunum sem kölluðu fram glaðan hlátur á frumsýningu. Þó langaði mig ekkert í vínið sem boðið var upp á eftir sýninguna.

Silja Aðalsteinsdóttir