Þau eru gífurlega skemmtileg og líka feikna flink unga fólkið í Sviðslistahópnum Óði sem nú færir okkur í þriðja sinn gamanóperur í Þjóðleikhúskjallaranum. Í þetta sinn er það ópera sem aldrei hefur sést hér áður á sviði, Póst-Jón eða Le postillon de Lonjumeau eftir franska tónskáldið Adolphe Adam (1803–1856). Enn er það sópraninn í hópnum, Sólveig Sigurðardóttir, sem staðfærir óperuna og þýðir textann á íslensku, nú ásamt tenórnum, Þórhalli Auði Helgasyni, og textinn er markviss, lipur og ótrúlega fyndinn. Orðavalið og orðalagið, rímið, jafnvel þegar það er flatast, fær mann til að veina af hlátri. Og hér er líka margt sérstaklega matarmikið fyrir áhugamenn um íslenskar bókmenntir og sögu. Eina aríuna þýðir Ragnar Pétur Jóhannsson bassi skínandi vel og syngur hana sjálfur í hlutverki Bísjú. Tónlistarstjóri er sem fyrr Sigurður Helgi og lætur eins og píanóið sé heil hljómsveit, og Jóhann Friðrik Ágústsson sá um ljósahönnun. Utan um þetta allt saman heldur leikstjórinn, Tómas Helgi Baldursson, af hugkvæmni og góðum húmor og stækkar Kjallarann til muna með því að nýta sér hvert horn hans út í æsar.

Pósturinn Jón (Þórhallur Auður) og Ingibjörg (Sólveig) voru að gifta sig og þykjast hvort um sig mjög heppin með að hafa krækt í svo eftirsóttan maka. Þó bregður það skugga á að fyrir báðum hefur verið spáð að framtíðin sé allt annað en bein braut. Og á sjálfa brúðkaupsnóttina biður veitingamaðurinn Bísjú (Ragnar Pétur) brúðgumann að fylgja dönskum ferðamanni yfir heiðina af því að veður eru válynd og Jón þekkir heiðina eins og lófann á sér eftir póststarfið. Ferðamaðurinn er danskur greifi (Áslákur Ingvarsson) sem er á Íslandi á vegum kóngsins í Kaupmannahöfn, sendur hingað til að finna góðan tenór, helst einn sem kemst upp á háa D. Bísjú biður Jón að syngja lagið fræga um Gunnar póst fyrir greifann og svo vill til að í þessu lagi þarf söngvarinn einmitt að fara upp á D! Það er ekki að sökum að spyrja, greifinn tælir Jón með sér til kóngsins Kaupmannahafnar með loforðum um fé, frægð og frama, og Ingibjörg er skilin eftir. En verið óhrædd, hún nær sér niðri á honum!

Eins og oft er í gamanóperum skiptast á töluð samtöl og aríur og hér er það alveg eðlilegt þegar persónurnar bresta í söng. Tónlistin er ljúf og falleg, mikið um léttar (= mjög erfiðar) trillur, einkum í aríum Ingibjargar sem Sólveig söng sinni tæru, yndislegu rödd eins og ekkert væri. Fjórmenningarnir ráða allir jafn vel við söng og leik og það beinlínis gneistaði af þeim í hlutverkunum. Þórhallur Auður fór létt með háa D-ið og sínar fínu trillur og var innilega sannfærandi flagari þegar hann tælir glæsilegu óþekktu aðalsdömuna til við sig. Og Sólveig skipti létt á milli Imbu og aðalsmeyjarinnar þegar hún lætur þær báðar lesa yfir svikaranum Jóni; það var alveg himneskt atriði. Ragnar Pétur var líka frábær í sínu margslungna hlutverki, en sá sem toppaði gamanið að þessu sinni var Áslákur í hlutverki greifans. Aría hans í fyrsta þætti um veður og aðstæður á hinu svellkalda Íslandi var alger snilld. Í Höfn hrífst greifinn líka af aðalsmeynni fögru og verður mjög ergilegur þegar Jón stelur henni frá honum – en tenórinn fær jú alltaf stúlkuna, það er regla! Greifinn kætist heldur þegar Bísjú kemur upp um það að Jón sé þegar kvæntur maður og syngur sína hefndararíu. Sú kom mjög á óvart (mig grunar raunar að hún sé ekki sungin undir því lagi í óperunni upprunalega …) en ég tími ekki að lýsa því nánar, þetta verður hver áheyrandi helst að upplifa undirbúningslaust. Og ég hvet ykkur – bið ykkur jafnvel innilega – að láta þessa dýrlegu skemmtun ekki fram hjá ykkur fara. Óperuunnendur og leikhúsrottur, allir sem unna góðu gríni: þessi sýning er fyrir ykkur!

 

Silja Aðalsteinsdóttir