Vigdís Grímsdóttir. Trúir þú á töfra?
JPV útgáfa, 2011.
Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012
Saga bernsku minnar líður undir glerhvelfingunni innan múrsins og eftir á að hyggja hefði ég ekki viljað missa af neinu; það er ég viss um núna þótt ég hafi ekki alltaf hugsað þannig þegar ég var stelpa. (9)
Á þessum orðum hefst sagan. Hún er sögð í 1. persónu út frá sjónarhorni ungrar stelpu í þorpi sem er umlukið harðgerðum múr og lokað af undir glerkúpli. Þorpið liggur í djúpum dal einhvers staðar á Íslandi en hvar það er nákvæmlega staðsett veit enginn, ekki einu sinni fólkið sem býr í þorpinu. Sumir hafa verið narraðir inn í þorpið með gylliboðum, aðrir koma þangað nauðugir viljugir. Múrsins gæta verðir sem sjá til þess að enginn komist til eða frá þorpinu en öllu stjórna óþekktir aðilar sem virðast vera að gera tilraunir með íbúana. Þeir úthluta hverjum og einum ákveðið hlutverk og ef viðkomandi stendur ekki undir hlutverki sínu er voðinn vís. Í þorpinu er verið að æfa upp leikrit, sem enginn veit um hvað snýst, en eins og í öllum „leikritum“ verða „leikararnir“ að sjá til þess að ekkert fari úrskeiðis í sínu „hlutverki“. Snemma lærir fólkið, líka stelpan, að læðast meðfram veggjum og segja sem minnst. En það hugsar og skráir niður minningar sínar sem eru að lokum, líkt og frelsið, teknar frá því og læstar niðri í kjallara bókasafnsins. Minningarnar um frelsið „utandyra“ halda lífinu í fólkinu og af þeim sökum reynir það að valda sínu „hlutverki“ eins vel og kostur er. Einu sinni í viku „fá“ íbúarnir að vera frjálsir. Þeir fá að dansa á torginu, drekka sig fulla og reykja hass.
Allir lifa í þeirri von að einn daginn verði „leikritið“ sýnt og að þá muni dyrnar út í frelsið opnast. En ekkert gerist. Árin líða og með reglulegu millibili brotnar einhver niður og er færður brott á einhvern hræðilegan stað þar sem hans bíða pyntingar og dauði. Fyrir utan ógnina sem stöðugt vofir yfir minnir sagan á ósköp venjulega þorpssögu þar sem hver og einn lifir sínu lífi. Lesandinn er kynntur fyrir ótal persónum, fær að heyra sögu þeirra sem allar tengjast stúlkunni á einn eða annan hátt. Því hún er forvitin og opin og gefst aldrei upp á að kanna innviði þorpsins.
Stúlkan er eina barnið í þorpinu. Hún er líka eini íbúinn sem þekkir ekki annað líf en þorpslífið. Sem ungabarn var hún skilin eftir við hlið þorpsins, eins og hver annar útburður, og af náð og miskunn ákváðu ráðamenn þorpsins að leyfa barninu að lifa. Henni voru „færðir“ foreldrar sem heita Haukur og María og áttu eitt sinn unaðslegt líf utan veggja þorpsins. Þegar þau komu til þorpsins voru þau „pöruð“ saman og neyðast til þess lifa sem par, þótt gjörólík séu, og þau neyðast líka til þess að takast á við hlutverk foreldra því ráðamennirnir hafa ákveðið það. Haukur og María geta ekki annað en tekið við þessu rauðhærða telpukorni sem þau gefa nafnið Nína Björk í höfuðið á Nína Björk Árnadóttur, uppáhaldsskáldkonu Maríu og hún matar stelpuna sína á skáldskap hennar frá unga aldri. Og 12 ára gömul kann hin unga Nína skáldsskap nöfnu sinnar utan að og flytur eftir hana ljóð alla sunnudaga á torginu. Fæstir átta sig á innihaldi ljóðanna en hlusta þó því allir virðast gera sér grein fyrir því að í stúlkubarninu felst von um betra líf.
Trúir þú á töfra? er ekki einföld aflestrar. Bókin er hlaðin vísunum í skáldskap, og raunar farin sú nýstárlega leið að gera grein fyrir þessum vísunum aftan við verkið, og getur lesandi þannig áttað sig á þeim margslungna vefnaði sem hér er ofinn úr orðum.
Sjálf er sagan óhugnanleg dystópía þar sem íslenskt samfélag er í óljósri framtíð orðið að alræðisríki. Um leið hefur sagan að geyma nístandi sýn á okkar daga og þar má finna augljósa tilvísun til kreppunnar; María er teymd inn í þorpið með gylliboðum en Haukur er færður þangað nauðugur viljugur fyrir glæp sem aldrei kemur fram í hverju var fólginn. Höfundur talar um „úrsérgengna“ drauma (184) sem er bein tilvísun til þeirra sem létu blekkjast, eins og María, töpuðu öllu og eru núna lokaðir inni í eigin „víti“. Í bókinni sjáum við heilt samfélag í álögum, á valdi illra töfra sem allir trúa á. Allir leika sitt hlutverk í leikriti sem enginn áttar sig fyllilega á. Allt snýst um að fela, þegja og ljúga. Út á við er allt slétt og fellt en inni við ríkir grimmd, hatur og ofsóknir.
En í bókum Vigdísar Grímsdóttur er alltaf „útgönguleið“. Og sú leið er oftast í gegnum skáldskap og listir. Hún skrifar oft grimma texta en þeir eru líka seiðandi – þar eru líka töfrar, magnaður hvítigaldur. Og það er alltaf skáldskapurinn sem bjargar tilverunni. Hin unga Nína í bókinni lifir í gegnum skáldskap nöfnu sinnar, sem og annarra skálda, og hún lifir líka í myndlistinni. Hún fær leyfi til þess að mála rauða ketti á múrinn en kettir eru „dýr slægðar og vitsmuna“ (178). Kötturinn fer sínar eigin leiðir og það veit hin unga Nína Björk. Hún er eina barnið í þorpinu og í börnunum okkar felst vonin. En tekst Nínu Björk að bjarga þorpinu með listina að vopni? Það er lesandans að ráða fram úr því.