Taktu flugið ,beibí! eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur var frumsýnt í Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi. Ilmur Stefánsdóttir leikstýrir verkinu og hún hannaði líka snjalla leikmyndina utan um eina húsgagnið á sviðinu: hjólastól söguhetjunnar. Skemmtilegir og listrænir búningar eru verk Filippíu I. Elísdóttur; lýsingin sem oft tók mið af eða stýrði jafnvel stemningunni er hönnuð af Ástu Jónínu Arnardóttur; aðlaðandi tónlistin er eftir Sölku Valsdóttur sem líka sér um hljóðhönnun ásamt Brett Smith.

Verkið segir sögu stúlkunnar Kolbrúnar sem er leikin af höfundi (í hjólastól) og Þuríði Blæ Jóhannsdóttur. Hún er ekki gömul þegar hún finnur fyrst fyrir því að fæturnir hlýða henni ekki eins og fætur skólafélaga hennar. Þetta veldur henni bæði líkamlegum þjáningum og sálarkvölum sem barni og unglingi, og það er léttir þegar hún greinist með vöðvasjúkdóm sextán ára gömul. Það er betra að vita vissu sína en velkjast í vafa og vona bara að allt muni lagast á morgun.

En Kolbrún vill ekki láta fötlunina móta líf sitt og hún þráir að læra. Allt frá barnsaldri hefur hana langað til að verða leikkona eins og frænka hennar, Edda Heiðrún Backman – og það er afskaplega fallegur þráður í þessu verki helgaður Eddu Heiðrúnu, einkum í gegnum tónlistina. En hver tilraunin af annarri til að fara í framhaldsnám mistekst vegna þess að ekki er gert ráð fyrir fólki með hreyfihömlun í húsnæðinu. Eini skólinn með lyftu á þeim tíma er skólinn sem fólk kemst ekki í nema hafa tilskilin próf og réttindi til þess. Í þann skóla kemst Kolbrún þó að lokum og Listaháskólann líka, ekki síst fyrir baráttu hennar sjálfrar og annarra úr hennar hópi. Þeirri baráttu fáum við lítillega að kynnast í verkinu og mætti vel gera meira úr henni.

Taktu flugið beibí! er brotakennt verk, frekar bundið saman af endurteknum minnum en beinum þræði. Við kynnumst fjölskyldu Kolbrúnar lítillega, einkum móðurinni sem er flókin og erfið persóna. Annað fólk í lífi hennar verður skuggamyndir, túlkaðar af Kolbrúnu og Þuríði og þriðja leikaranum, dansaranum Ernesto Camilo Aldazábal Valdés sem leikur öll karlhlutverkin og bætir bæði eksótískri fegurð og fyndni í verkið. Mörg atriði verða minnisstæð, til dæmis rokkhljómsveit þeirra þriggja þegar þau leika sér að lagi Þursaflokksins „Vill einhver elska?“ Það er vel hægt að vera í rokkhljómsveit þó að maður sé í hjólastól.

Kolbrún Dögg tekur á móti gestum þegar þeir ganga í salinn og er á sviðinu allan tímann í sínum stól. Hennar annað sjálf, sem Þuríður Blær túlkar af innlifun, slær tóninn í upphafsatriðinu þegar hún syngur: „Vornætur friður fyllir bæinn í rökkurró“ í stórkostlegum blómabúningi og dansar við Ernesto sem er alþakinn marglitum blöðrum. Þetta atriði er myndræn útfærsla á draumi Kolbrúnar – og það er dásamlegt að hann skyldi fá að rætast á þennan hátt.

Silja Aðalsteinsdóttir