Ærslaleikurinn Bæng! eftir þýska leikskáldið Marius von Mayenburg var frumsýndur á Nýja sviði Borgarleikhússins á föstudagskvöldið í prýðilegri þýðingu Hafliða Arngrímssonar, og ég sá aðra sýningu í gærkvöldi. Það sem ég hef áður séð eftir Marius hefur vissulega verið ærslakennt og fyndið en líka absúrd og vakið hugmyndir og hugrenningatengsl í allar áttir. En Bæng! gengur í eina átt því nú er Maríus verulega reiður út í heiminn og illmennsku hans.

Bæng!Hrólfur Bæng (Björn Thors) spjallar drykklanga stund við okkur fyrir framan tjaldið í byrjun sýningar, hann – sem er söguhetjan okkar – er nefnilega ekki fæddur og það gerist ekkert á sviðinu fyrr en fæðingin hefst, eins og gefur að skilja. Hrólfur er gríðarlega skemmtilegur og sjarmerandi við fyrstu kynni enda leikur hann á foreldra sína og aðra í heimi sínum eins og hljóðfæri. Aftur á móti gengur honum bölvanlega að læra á hljóðfæri og slær augað úr tónlistarkennaranum sínum (Halldór Gylfason) þegar honum tekst ekki að kenna honum á fiðlu.

Höfundur dregur enga fjöður yfir að Hrólfur Bæng er skrímsli í mannsmynd. Við fáum að vita það strax meðan á fæðingunni stendur að hann hefur kyrkt tvíburasystur sína í móðurkviði. Fæðingarlæknirinn dr. Bauer (Katrín Halldóra Sigurðardóttir) er innilega sjokkeruð og hún á eftir að hefna sín á óberminu þótt síðar verði (ekki að það hafi neitt að segja …). En foreldrar drengsins eru hugfangnir af litla bráðþroska kraftaverkinu sínu og Viktoría mamma (Brynhildur Guðjónsdóttir) og Dóminík pabbi (Hjörtur Jóhann Jónsson) láta allt eftir honum, sjá aldrei sök hjá honum en kenna ævinlega öðrum um. Það er uppeldisaðferð sem er greinilega mikið tekin á okkar dögum og svínvirkar. Drengurinn gengur svo lengra og lengra, verður hrekkjusvín og þaðan ofbeldismaður í orði og verki – „Við viljum sjá heiminn brenna … Við viljum ekki drepast úr leiðindum!“ – og maður heyrir nettröllsfrasana hljóma af vörum hans þegar sígur á seinni hlutann. Allt er þetta kvikmyndað af Tómasi (Davíð Þór Katrínarson), sérlegum heimildakvikmyndagerðarmanni Bæng-fjölskyldunnar, vegna þess að Dóminík og Viktoría eiga von á svo stórum hlut í barni sínu.

Ólíkt Loddaranum hans Molières í Þjóðleikhúsinu er Hrólfur Bæng ekki lævís, þvert á móti. Fyrirmyndir Hrólfs Bæng í samtíma okkar eru heldur ekki lævísar, þær koma hreint fram í sínum skepnuskap og eru kosnar í æðstu embætti. Þetta verður einum of skýrt og einfalt þegar á líður og það er þreytandi að hlusta lengi á svívirðingar sem verða æ persónulegri og rjúfa jafnvel klassíska blekkingu leiksviðsins. En Björn er gríðarlega kraftmikill og fjölhæfur leikari og hann vann hlutverkið afar vel, dró vandlega fram hvernig svona persóna ormar sig inn á fólk til þess eins að rústa lífi þess þegar það þóknast henni ekki lengur.

Foreldrarnir urðu smám saman ekki miklu geðslegri en afkomandinn í öruggum höndum Brynhildar og Hjartar Jóhanns. Davíð Þór var eins og skugginn sem alltaf er til staðar án þess að „sjást“, eins og góður skrásetjari á að vera, þó lauk svo að honum ofbauð. En sérstaklega verður að hrósa Katrínu Halldóru og Halldóri Gylfasyni fyrir persónurnar fjölmörgu sem þau brugðu upp. Halldór varð fyndnari og fyndnari í sínum gervum og Katrínu Halldóru tókst að setja sérstakan persónulegan svip á allar sínar ólíku persónur. Leikurinn ber leikstjóranum, Grétu Kristínu Ómarsdóttur fagurt vitni og sömuleiðis hraðinn og þéttleikinn í sýningunni.

Börkur Jónsson gerði skemmtilega og þénuga leikmynd sem lagaði sig vel að ólíkum rýmum verksins. Eva Signý Berger klæddi persónurnar hnyttilega og leikgervi Elínar S. Gísladóttur voru hreint afbragð. Og undur hvað leikararnir voru óhemju fljótir að breytast úr einu í annað!

Bæng! er stórskemmtileg sýning – en einkum framan af. Verkið verður of einhæft og endurtekningasamt því Marius von Meyenburg er síst af öllu að hugsa um meðalhóf. Hann ætlar sér að ganga alla leið og gerir það. Kannski þýðir ekkert annað?

-Silja Aðalsteinsdóttir