Haukur Ingvarsson. Nóvember 1976.
Mál og menning, 2011.
Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012
Sjónvarpið hefur ekki verið söguefni í íslenskum skáldsögum svo heitið geti. Eina dæmið sem kemur upp í hugann er úr Svartri messu Jóhannesar Helga sem er sprottin beint upp úr hatrömmum deilum samtíðarinnar um sjónvarpsútsendingar bandaríska hersins á Miðnesheiði sem á þeim tíma náðu til alls suðvesturhorns landsins. Til að taka á móti þeim höfðu Íslendingar orðið sér úti um upp undir 7000 sjónvarpstæki. Þetta ástand og flokkadrættir út af því, 60-menningarnir gegn Félagi sjónvarpsáhugamanna, varð til þess að íslensku sjónvarpi var hrundið af stokkunum 1966 og samningur gerður við herinn að takmarka útsendingar við herstöðina eina. Þau fyrirheit voru að vísu ekki uppfyllt til fulls fyrr en 1974. Fram að því mátti víða sjá ofan á húsum ólögulegar sjónvarpshrífur sem stefndu þvert hvor á aðra.
Saga sjónvarps á Íslandi fyrstu áratugina myndar eins konar umgerð að þessari skáldsögu Hauks Ingvarssonar. Sagan gerist á þremur dögum, 12. til 14. nóvember 1976, og hver dagur hefst á ljósprentaðri sjónvarpsdagskrá. Sjónvarpið verður einnig áhrifavaldur og snar þáttur í sjálfum söguþræðinum. Við stöndum fyrir framan fjölbýlishús, áttafréttir eru að byrja, ljósin slokkna eitt af öðru og fölblár, kaldur glampi berst út á snjóinn fyrir utan. Nema í einni íbúðinni, þar logar skjárinn í alls konar litum en dofnar síðan og deyr út. Húsbóndinn kemur æðandi og ásakar konu sína fyrir að hafa „drepið sjónvarpið“.
Sagan fylgir fimm manneskjum sem eiga heima í sama stigagangi í fjölbýlishúsi, væntanlega Breiðholtinu, fylgir sýn þeirra á víxl á umhverfið og á hvert annað. Andrúmsloftið er heldur þrúgandi en lífgast upp af kímilegri frásögn, eins og ævintýrinu úti í snjónum sem Þóroddur, aðalpersóna sögunnar, verður vitni að í öðrum kafla og minnir á atriði úr þöglu kvikmyndunum og dregur auk þess nokkurn dilk á eftir sér.
Þjóðfélagsmynd sögunnar er miðuð við árið 1976 og trúverðug að því er best verður séð. Hún kemur fram í efnahag, lifnaðarháttum og hugsunarhætti fólks, í hugmyndaheimi þess, því sem það er að lesa, horfa og hlusta á, í kynhlutverkum og í umhverfi og ytri aðstæðum. Við fáum örlitla svipmynd af miðbænum þegar Þóroddur ranglar þangað, bíóunum Austurbæjarbíói og Stjörnubíói og Kjörgarði, „þessari sorglegu og lítilfjörlegu eftirlíkingu af dönsku vöruhúsi með heimsins stysta rúllustiga“. Á heimleiðinni í strætó sér hann álengdar „myndarlegar blokkir ofan á tignarlegu holti og í tunglsljósinu minnir það hann á kastala í einni af ævintýrabókunum hans“. En heimkoman er kvíðvænleg.
Innan veggja ríkir heimilisfaðirinn Ríkharður sem kúgar bæði konu sína og son. Hann er yfirgangssamur og ofbeldishneigður og sérfræðingur í að finna veika bletti á öðrum. Móðirin, Dóróthea, er því alltaf á nálum að stíga ekki ofan í gildrur sem hann egnir fyrir hana til að geta skeytt skapi sínu á henni og niðurlægt hana. Þóroddur er um tvítugt og býr heima, flosnaður upp úr skóla og á í vandræðum með sjálfan sig. Hann birtist þannig augum Batta á neðri hæðinni framarlega í bókinni:
Þóroddur stendur í skugga föður síns, klæddur svörtum sniðlausum ullarfrakka sem er hnepptur upp í háls, feitt svart hárið hylur helming andlitsins en á hinu blasir við óttaslegið, starandi auga. (50)
Þóroddur dregur sig inn í skel og lifir í eigin draumaheimi.
Þóroddur finnur fyrir sömu tómleikatilfinningunni og greip hann þegar hann var lítill og hafði gleymt sér í leik og það rann upp fyrir honum að hann væri orðinn of seinn í mat, oft vissi hann ekki hvort honum þætti sárari eftirsjáin eftir þeim draumaheimi sem hann var stiginn út úr eða óttinn við refsinguna sem beið hans heima. /…/ Refsingin var einungis það gjald sem hann þurfti að greiða fyrir að eiga eitthvað út af fyrir sig, eitthvað sem aðrir gátu ekki ruðst inn í eða tekið af honum. (180)
Hann hverfur inn í heim bóka sem hann hefur lesið og kvikmynda sem hann hefur séð og heillast líka af stjörnuhimninum og veltir fyrir sér geimferðum og vísindalegum uppgötvunum um himingeiminn.
Þó að móðirin sé bæld og beygð á heimilinu hefur hún reynt að standa vörð um hann:
Það rennur upp fyrir honum að hann hefur allt frá því hann man fyrst eftir sér leitað skjóls undir verndarvæng þessarar konu sem hann álítur aumasta af öllu, aldrei hefur hún hikað við að ganga á milli þegar faðir hans hefur verið í þann mund að rífa hann í sig, jafnvel þegar henni hlaut að vera ljóst að það var of seint að bera klæði á vopnin, dýrið svo hamslaust af bræði að reiði þess hlaut að bitna á einhverjum. Á þeim stundum sendi hún hann burt og hann hvarf inn í sjálfan sig, gekk ótrauður inn í eigin hugarveröld án þess að líta um öxl. (195–6)
Við sögu koma tveir aðrir íbúar stigagangsins, fyrrnefndur Batti, sem býr á hæðinni fyrir neðan fjölskyldu Þórodds, og Bíbí sem á heima á hæðinni fyrir ofan þau.
Bíbí, Bryndís Halldórsdóttir, er fráskilin, hætti í skóla þegar hún gifti sig og vann fyrir manni sínum í hans námi en er nú að koma undir sig fótunum sem sjálfstæð kona, við misjafnar undirtektir:
Hex, gribba, skækja, forað, frekja, ólán, hóra; þetta voru orðin sem notuð voru um hana. Sjálf var hún ekki vön að taka sér þessi orð í munn og það gerði henni hægara fyrir þegar kom að því að lesa í þau þá merkingu sem raunverulega bjó að baki: ráðagóð, ákveðin, sjálfráð, fylgin sér, fögur. (72)
Það er hljóðbært í stigaganginum og Bíbí gerir tilraun til að koma kynsystur sinni til hjálpar, einsetur sér reyndar að verða jákvætt hreyfiafl í lífi mæðginanna á neðri hæðinni. Kaflinn þar sem þær eru leiddar saman heitir Kvennahjal, en það er írónískur titill; Dóróthea þiggur ekki ráð eða hjálp frá konu sem geymir miklu yngri mann allsnakinn inni í svefnherbergi og getur auk heldur ekki eignast barn. „Þú ert ekki einu sinni kona“ (26). Hún dregur þá ályktun að Bíbí vilji sjálf ráðskast með drenginn, rétt eins og faðir hans:
Hvers vegna getið þið ekki bara séð hann í friði, þið ásælist hann hvert af öðru og reynið að spilla honum, hvað er það sem þú sérð svona mikið að honum? Að hann er saklaus? Viðkvæmur? Óspilltur? Að hann gengst ekki upp í því að brjóta annað fólk undir sig, temja það og móta það eftir eigin höfði? (161)
Samstaða kvenna reynist erfiðleikum bundin. Þannig hafði það valdið vinslitum milli Bíbíar og Laufeyjar vinkonu hennar þegar hún gagnrýndi hana fyrir að leggja námið á hilluna og fórna eigin frama fyrir eiginmanninn.
Baldur Hermannsson, Batti á neðri hæðinni, er ekki eins næmur á ástandið og Bíbí. Hann stendur álengdar og virðir lífið fyrir sér og skilur sínum skilningi, til dæmis þegar hann horfir inn um glugga á togstreitu Ríkharðs og Dórótheu um nestisbita sonarins, sem minnir hann á Tristran og Ísöndu:
Þau hafa lyft höndunum yfir höfuðið á sér og skiptast á að fetta sig aftur þegar hitt beygir sig fram. Batti ályktar að þetta sé einhvers lags dans og þegar þau hafa endurtekið hreyfingarnar nokkrum sinnum fara þau að minna hann á tré sem sveigjast til og frá í vindi. /…/ Batta finnst ævintýralegt að sjá tvær fullorðnar manneskjur stíga eitthvað sem líkist frumstæðum mökunardansi í blokkaríbúð á köldum og dimmum morgni á norðlægum slóðum í nóvember. (130–31)
Batti fæst við alls konar brask við að útvega bannvöru frá útlendum sendiráðum og herstöðinni á Miðnesheiði. Auk þess vinnur hann sem afkastamikill þýðandi ástar- og glæpareyfara. Hann er þannig dæmigerður „hermangari“ en um leið aðdáandi þjóðlegra bókmennta og fær listþörf sinni útrás með því að flétta inn í þýðingar sínar háfleygum innskotum úr ljóðum íslenskra skálda sem hann hefur mætur á. Eitt brot er birt úr ástarsöguþýðingu þar sem hann hefur látið greipar sópa um ljóðið Mín er meyjan væna eftir Jónas Hallgrímsson.
Karlarnir í sögunni finna miklu meiri samhljóm sín í milli en konurnar enda þótt samband þeirra Ríkharðs og Batta einkennist af gagnkvæmri tortryggni, jafnvel hatri. Þeir talast við í hálfkveðnum vísum og samkomulagi þeirra um sameiginlega aðgerð vindur þannig fram að hvorugur veit í raun hvað hinn hefur í pokahorninu. En aðgerð er ákveðin, og Þóroddur á að verða hluti af henni. Faðir hans verður himinlifandi, því að vinna er upphaf alls góðs: „drengir sem hanga of mikið í pilsföldunum hjá mæðrum sínum enda oftar en ekki í pilsum sjálfir.“ Og það upphefst ein dásamlegasta flétta sem sést hefur lengi á íslenskri bók og endar með því að konurnar, hvor á sinn hátt, ekki karlarnir, verða til þess að leysa Þórodd úr viðjum.
Í sögunni skiptast á sögumannsfrásagnir og atburðalýsingar þar sem fylgt er sjón persóna á víxl, hvorrar á aðra og á umhverfið, sem þær misskilja stundum herfilega. Lýsingarnar geta fengið á sig ýktar eða afskræmdar myndir:
Ríkharður hlær hvellum hlátri og lítur til hennar trylltur á svipinn eins og ufsagrýla, hann hefur undið upp á sig með undarlegum hætti og stórar krumlurnar virðast einhvern veginn í yfirstærð aftan við höfuðið. (67)
Lýsingar á persónum, sérstaklega í upphafsköflunum, minna sterklega á Guðberg Bergsson í fyrstu sögum hans: smásmugulegar lýsingar á ósögulegum hversdagsathöfnum fólks sem segja mikla sögu:
Hún reykti í myrkrinu, reri fram og sötraði kaffi sem oft var bæði staðið og kalt. Hún smjattaði þegar hún drakk heitt, smáblés og hélt um bollann báðum höndum: „Sei, sei.“ Stundum var eins og hana skorti líkamlega nálægð. Þá reis hún upp og stóð þögul og álút álengdar. Horfði á myndina fyrir ofan sófann, skaut herðunum upp og pírði augun líkt og hún rýndi í eitthvað smátt. Hún ræskti sig aldrei en stundum fékk hún hóstaköst og kúldraðist saman eins og maður sem fær högg í magann. Á endanum rýmdu þeir til fyrir henni, þrýstu sér þétt að sófaörmunum svo hún gæti bakkað í plássið á milli þeirra eins og drekkhlaðinn pallbíll sem ýtir á undan sér breiðum afturenda í þröngt stæði. Heitur líkami hennar lagðist seigfljótandi upp að þeim: „Sei, sei.“ (11–12)
Sjónvarpið er þannig það eina sem hefur sameinað þessa fjölskyldu, og Þóroddur spyr sig þegar hann hefur glæpst á að smygla litasjónvarpstæki inn á heimilið hvort hann hafi viljað sameina fjölskylduna að nýju fyrir framan tækið. En í stað þess að lokast þar inni hleypur hann í sögulok undir stjörnuhimni og sjónarhornið fjarlægist, hverfur ofar og ofar, út í geiminn, til þeirrar sýnar sem blasti við fyrstu geimförunum, fyrsta tunglfaranum. Þá var íslenska sjónvarpið að vísu í sumarfríi. En snjókoman á sjónvarpsskjánum er leifar af frumsprengingunni sem skapaði heiminn. „Í einhverjum skilningi er sköpun heimsins því bæði send út beint og endursýnd alla daga og allar nætur í sjónvarpinu.“ (216)
Hér er á ferðinni einhvers konar „æskumynd listamannsins“. Þóroddur Ríkharðsson er ekki alveg óþekkt nafn á íslenskum bókmenntavettvangi. Í nýlegu blaðaviðtali við höfundinn kemur fram að hann á sér sjálfstæða tilvist í netheimum þar sem birst hafa eftir hann sagnabálkar og ljóð undir nafninu Todd Richardsson. Af þeim má ráða að Þóroddur hafi lifað af erfið uppvaxtarár í Breiðholtinu og sprungið út sem íslenskt skáld í Vesturheimi á níunda áratugnum.
Nóvember 1976 felur í sér safn ólíkra persóna, átök þeirra í milli, einnig tíðaranda og þjóðfélagsmynd í hnotskurn, með vísunum í ýmsar áttir. Stundum er á mörkunum að hún nái að halda utan um allt það efni á samkvæman hátt. En sagan er einstaklega vel skrifuð og hlýtur að teljast einhver glæsilegasta frumraun ungs höfundar í skáldsagnagerð á síðustu árum.