Leikfélag Selfoss heldur upp á sextugsafmæli sitt í ár og stóri viðburðurinn á afmælisárinu var frumsýndur í gærkvöldi í leikhúsinu í bænum, leiksýningin Á vit ævintýranna. Félagið var svo bráðheppið að fá til liðs við sig sérfræðing í ærslafengnum ævintýrasýningum, Ágústu Skúladóttur, og saman hafa þau unnið litríka sýningu úr þrenns konar efniviði: ævintýrinu um litla Kláus og stóra Kláus eftir H.C. Andersen og söguljóðunum „En hvað það var skrýtið“ eftir Pál J. Árdal og „Sálinni hans Jóns míns“ eftir Davíð Stefánsson. Sjálfsagt hefði verið hægt að teygja annaðhvort ævintýrið um Kláusana eða Sálina hans Jóns míns upp í heils kvölds sýningu, að minnsta kosti ef eitthvað úr Gullna hliðinu hefði verið nýtt með kvæðinu, en þetta er ákvörðunin sem hópurinn tók og útkoman er virkilega skemmtileg.

Sá hluti sem fjallaði um litla Kláus og stóra Kláus var söguleikhús í þeim skilningi að sögumenn tengdu saman leikin atriði með lestri úr upphaflegum texta. En leiknu atriðin eru sviðsett af mikilli hugkvæmni. Til dæmis fór hrifningarkliður um salinn þegar hestarnir hans stóra Kláusar brokkuðu fram sviðið, allir fjórir, sneru síðan afturendunum í okkur og sveifluðu myndarlegum töglum. Ríkulega máltíðin sem bóndakonan bauð djáknanum í húsi bóndans var einfaldlega máluð á breiðan borða sem strengdur var yfir sviðið og fossinn í ánni sem stóri Kláus drekkir litla Kláusi í (að hann heldur) var sjón að sjá. Hönnun leikmyndar og leikmuna var í höndum Jónheiðar Ísleifsdóttur, Maríu Marko og Þóris Tryggvasonar.

Á vit ævintýrannaKeppinautana léku þær Emma Guðmundsdóttir (stóri Kláus) og Birta Sólveig Söring Þórisdóttir (litli Kláus) og reyndi einkum á Birtu Sólveigu sem sýndi stjörnuleik. Hún hefur fallegar hreyfingar, barnslega fjöruga framkomu (og þó með nauðsynlegri íróníu undir niðri því litli Kláus er ekki eins grænn og hann vill sýnast vera), prýðilega framsögn og söngrödd. Því var vel fagnað í salnum í hvert skipti sem hún hafði betur í samskiptum sínum við gráðuga og skapstirða stórbóndann sem Emma túlkaði myndarlega. Karl Ágúst Úlfsson og tónlistarstjórar sýningarinnar, Guðný Lára Gunnarsdóttir og Stefán Örn Viðarsson, hafa samið nokkur lög sem puntuðu heilmikið upp á ævintýrið, til dæmis var það í söng sem litli Kláus móðgaði stórbóndann með því að eigna sér „óvart“ hestana hans. Stóri Kláus hefði auðvitað átt að skilja það sem skáldaleyfi.

Bráðfyndna kvæðið hans Páls J. Árdal um stelpuskottið sem óhlýðnast ömmu sinni, stekkur út í sólskinið og kemur Gunnu og Helga á óvart þar sem þau eru að laumast til að kyssast var sett upp eins og trúðleikur. Tvær úr hópnum (með rauð trúðsnef) fluttu kvæðið þannig að Jónheiður Ísleifsdóttir fór með textann en Halldóra Ósk Öfjörð lék undir á ýmis óvænt hljóðfæri og skreytti með skrípalátum sem skemmtu ekki minna en textinn.

Í sviðsetningu á Sálinni hans Jóns míns var beitt upplestri og látbragðsleik. Kvæðið var allt lesið upp af Halldóru og Jónheiði en Guðfinna Gunnarsdóttir lék kerlinguna án orða. Guðfinna var fullkomlega sannfærandi í hlutverkinu, þessi kerling hefði ekki látið hlut sinn fyrir neinum, þótt hógvær virtist og undirgefin, ekki einu sinni Lykla-Pétri sem Stefán Örn lék.

Bæði þessi sögukvæði eru auðvitað klassík í íslenskum (barna)bókmenntum, ort af bullandi hagmælsku og húmor, og það er vel gert að rifja þau upp og gefa þeim nýtt líf um leið.

Tólf leikarar og hljóðfæraleikarar taka þátt í sýningunni af sannri leikgleði. Eins og oft kemur á óvart í áhugaleikhópum voru búningarnir gerðir af aðdáunarverðu hugviti og smekkvísi. Hönnuðir þeirra eru Hafdís Steingrímsdóttir og Iðunn Óskarsdóttir ásamt leikstjóranum. Sigurður Ástgeirsson lék með sög á sellóboga meðan gestir komu sér fyrir í sætum sínum, annars sáu Stefán Örn og Guðný Lára um undirleik af mikilli hind auk þess sem þau brugðu sér í hlutverk eftir hendinni.

Þetta er sýning fyrir fólk á öllum aldri, alla sem hafa gaman af ærslum og ævintýrum, og sýnir að sextugt leikfélag er ennþá ungt og sprækt.

-Silja Aðalsteinsdóttir