Auður Jónsdóttir: Allir fuglar fljúga í ljósið.
Bjartur, 2021. 359 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2022.
Áföll og afleiðingar þeirra hafa litað bæði skáldskap og samfélagsumræðuna undanfarin ár og nýjasta bók Auðar Jónsdóttur, Allir fuglar fljúga í ljósið, hverfist í kringum það þema. Sigmund Freud var meðal þeirra fyrstu sem lagðist í ítarlegar rannsóknir á afleiðingum áfalla. Í greininni „Jenseits des Lustprinzips“ frá 1920 lýsir hann því hvernig fólk með sálræna erfiðleika „lifir í draumi og jafnvel vöku tilteknar hörmungar úr fortíð sinni“ og að svo virðist sem að í „endurtekningarhvöt þess hugsjúka brjótist ósjálfrátt fram bældar sársaukafullar minningar.“ Þótt Freud sé fyrir löngu kominn úr tísku innan sálfræðinnar hefur áhuginn á áföllum og afleiðingum þeirra ekki minnkað.
Undanfarna áratugi hefur mikið verið lagt upp úr því að veita áfallahjálp og reyna þannig að koma í veg fyrir svokallaða áfallastreituröskun, langvarandi og neikvæðar sálrænar afleiðingar áfalla á borð við náttúruhamfarir og slys. Langvinn eftirköst gera ekki síður vart við sig eftir áföll af mannavöldum, til dæmis ofbeldi eins og árásir og nauðgun. Langvarandi ofurálag eins og heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og einelti getur valdið sams konar viðbrögðum, sem fela yfirleitt í sér endurupplifanir á áfallinu og tilfinningum tengdum því. Allar þessar tegundir áfalla og fleiri til má lesa um í Allir fuglar fljúga í ljósið þar sem hver sögupersóna á fætur annarri virðist lifandi sönnun þeirrar kenningar að þeir sem hafi þegar orðið fyrir áföllum „og ekki unnið úr þeim [séu] í aukinni hættu á að verða endurtekið fyrir áföllum“. Afleiðingarnar geta meðal annars verið þær að fólk notar „fíkn til að deyfa sig“.
Auður Jónsdóttir hefur áður tekist á við fíkn, ofbeldi, áföll og afleiðingar þeirra, til dæmis í skáldsögunni Stóra skjálfta (2015) sem ber þess merki að skáldsagnahöfundar lýsa gjarnan áföllum og afleiðingum þeirra með texta sem líkir eftir einkennum áfalla, þannig að tímaröð og skipulag hrynur og frásagnir einkennast af endurtekningum og krókaleiðum. Í þeirri bók og Fólkinu í kjallaranum (2004) beinir hún athyglinni að skaðlegum fjölskyldumynstrum mörkuðum af áföllum og fíkn. Hegðunarmynstur eru áfram undir smásjánni í Allir fuglar fljúga í ljósið. Verkið hverfist um vítahringi líkamlegs, andlegs og kannski fyrst og fremst tilfinningalegs ofbeldis sem felst í því að spila á eða hunsa þörf okkar fyrir að „sjást“ – vera viðurkennd og elskuð.
Aðalpersónan, Björt, þekkir vel frá barnæsku hversu íþyngjandi getur verið að vera í nærveru manneskju „sem gefur til kynna að návist þín sé minna en einskis virði. Þangað til lifnar yfir henni og þú ert elskuð um stund, ástin flöktir, elskuð þar til þú verður aftur minna en ekkert og þráir, þráir að eygja blik viðurkenningar.“ (29) Óuppfyllt þörfin fyrir nánd og viðurkenningu sem fylgir ítrekaðri höfnun gerir manneskjur viðkvæmari fyrir yfirgangi annarra og sársaukinn sem þetta veldur kallar á ýmis varnarviðbrögð. Eftir að hafa reynt að bæta sér upp vanrækslu og ofbeldi í barnæsku með matarfíkn lærir Björt á menntaskólaárunum að hanna yfirborð sem fullnægir viðurkenningarþörfinni og ver hana um leið fyrir tilfinningalegum áföllum; hún verður kúl listaspíra, „trendsetter“ og töffari sem passar sig á að vera ætíð fyrri til að hafna öðrum: „Ég svaf hjá strákum og vinavæddi þá til að gefa ekki höggstað á mér.“ (57) Sú vörn dugar þó ekki betur en svo að þegar lesandinn kynnist henni fyrst er hún komin á fertugsaldur og hefur orðið fyrir þvílíkum áföllum, ekki síst vegna kynlífs- og ástarfíknar, að hún gerir allt hvað hún getur til að verða ósýnileg, sjálfri sér og öðrum.
Frásagnarleg fjarlægð
Auður Jónsdóttir byggir bækur sínar upp á úthugsaðan hátt. Allir fuglar fljúga í ljósið hverfist um atburð sem afhjúpaður er í lokin og fylgir algengri uppbyggingu áfallafrásagna sem gjarnan hnita marga hringi kringum áfall sem erfitt er að horfast í augu við og lýsa. Við úrvinnslu áfalla eru frásagnir þó gjarnan taldar gegna þerapísku hlutverki. Tilraunir til að færa óviðráðanlega reynslu í orð skapa fjarlægð gagnvart atburðinum sem getur forðað fólki frá því að festast í endurupplifunum á honum og gert því kleift að endurvinna hann sem viðráðanlega reynslu sem leggja má að baki. Slíkri frásagnarlegri fjarlægð sækist Björt meðvitað eftir í upphafi bókar, í þeim mæli að hún orkar ekki að skrifa niður eigin sögu heldur les „sögur úr látbragði annarra“ (13) og skrifar þær niður. „Hættan er að ég hugsi um mig ef ég horfi ekki á aðra“ (16) segir hún og ljóst verður að hún notar skrifin til flýja eigin tilfinningar: „Ég hef staðið við það að horfa frekar en finna.“ (85) Um leið notar hún skrifin, líkt og matarfíknina og glamúrímyndina áður, til að koma í staðinn fyrir þá nánd og þau tengsl við aðra sem öllum eru nauðsynleg en gera okkur berskjölduð.
Strax í byrjun er gefin vísbending um að slík bjargráð duga skammt. Fólk sem hún hefur fylgst með mánuðum saman tekur allt í einu eftir henni og fer að velta fortíð hennar fyrir sér. Þetta gerist eftir að hún fær fréttir sem fá hugann til að leita inn á við, „þrálátur og stjórnlaus“ (24). Eins og eftir forskrift Freuds leita áföllin sem bæld hafa verið niður í dulvitundina aftur upp á yfirborðið og róta upp tilfinningum. Sögur annarra hætta að skapa fjarlægð heldur vekja samlíðan sem beinir athyglinni inn á við og skrifin verða persónulegri. Og þótt hún standi frammi fyrir þeim vanda að frásagnir ná „aldrei að fanga“ (84) áföll fortíðarinnar þá finnur hún „óvænta svölun“ við að endurskrifa orðin aftur og aftur. Smám saman færist hún dýpra inn á við, gegnum hvert áfallið á fætur öðru, og um leið færist hún nær öðru fólki uns hún í lokin heldur matarboð þar sem hún í trúnaði getur opnað sig um dýpsta áfallið.
Manneskja með vængi
Eins og fram hefur komið fjallar Allir fuglar fljúga í ljósið um djúpstæða þörfina fyrir að sjást og hvernig „yfirborðslegar“ aðferðir til þess (til dæmis með því leitast eftir að vera svalur og frægur) eru aðeins ein birtingarmynd þess hversu háð við erum viðurkenningu annarra. Hér má einnig finna samfélagsgagnrýni; í samfélagi þar sem sífellt meira samhengi er talið milli þess að vera sýnilegur og þess að vera til getur örvæntingarfull áhersla á skínandi yfirborð sem grípur athygli skapað innra tóm sem aldrei næst að seðja, sama hversu langt sjónarspilið gengur. Konur eru sérstaklega settar í það hlutverk að vera til sýnis, líkamar þeirra eru ætíð „undir smásjá annarra“ (61) og þær sífellt að horfa á spegilmynd sína í augum karla „eins og á bjagaða mynd í speglasal í tívolíi“ sem er „aldrei mátuleg“ (37).
Við lestur bókarinnar verður ljóst að við vanrækjum ekki aðeins þá sem við neitum að sjá, til dæmis þá sem eru utangarðs í samfélaginu, heldur líka þá sem við sjáum ekki í raun og veru, til dæmis fræga fólkið og áhrifavalda sem við dæmum aðeins út frá yfirborði og notum til að svala eigin þörfum fyrir afþreyingu og fyrirmyndir. Það krefst hins vegar tilfinningalegs örlætis að sjá aðra í raun og veru; vilja til að finna fyrir samkennd og eiga á hættu samanburð við eigin tilfinningar sem erfitt getur verið að horfast í augu við. Það á Björt að minnsta kosti erfitt með og þess vegna lýsir hún sjálfri sér sem áhorfanda „sem þráir að vera engill“ (29).
Englar og fuglar, tvenns konar vængjaðar verur, koma ítrekað fyrir í vangaveltum Bjartar en þótt Jesú komi líka við sögu hafa englarnir frekar sálfræðilega en trúarlega merkingu. Löngun Bjartar til að vera engill er ekki endilega bara jákvæð þótt hún feli í sér vilja til að hjálpa öðrum heldur er afleiðing þeirra áfalla sem hún hefur upplifað. Hvötin til að bjarga öðrum stafar að einhverju leyti af meðvirkni Bjartar eftir að hafa alist upp sem „hýsill“ fyrir sorg foreldra sinna (101) og hún sér sjálfa sig unga í upprennandi áhrifavaldinum og efnishöfundinum Söndru Mjöll sem segist vilja vera Jesú, leyfir jakkafatagaurum að sækja til sín huggun og kynlíf og virðist aldrei hafa lært að setja öðrum mörk.
Löngun Bjartar til að hjálpa úr ósýnilegri fjarlægð eins og engill endurspeglar hræðslu við það markaleysi og þörf fyrir að halda stjórn. „Það er mitt að horfa, ekki ykkar!“ (191) hugsar Björt þegar hún óttast að aðrir sjái hana brotna. Englar hafa vald yfir manneskjum, ekki öfugt, og ef „eitthvað í okkur er englar og eitthvað dýr“ (153), eins og Björt hefur gripið á lofti frá fyrrum elskhuga sínum, þá vill hún greinilega útskúfa hinu dýrslega. Um er að ræða vísun til ævagamalla hugmynda, raktar allt aftur til Aristótelesar, um stigveldi lífvera innan náttúrunnar, sem skólaspekingar miðalda þróuðu í kristilegu samhengi með því að raða öllu í náttúrunni í stigveldi frá steinefnum til erkiengla. Skáldið Rainer Maria Rilke notaði þessar hugmyndir í Dúínó tregaljóðunum til að lýsa manneskjunni sem ólánlega staðsettri mitt á milli dýranna, sem hafa það fram yfir okkur að lifa í samræmi við sitt náttúrulega eðli, og engla, sem hafa það fram yfir okkur að vera hafnir yfir dýrslegt eðli.
Að sama skapi tengist löngun Bjartar til að vera engill höfnun hennar á mannlegum þörfum sínum og líkama. „Ef eitthvað er óþægilegra en tilfinningar er það líkaminn“, skrifar hún. „Helst vildi ég vera án hvors tveggja.“ (132) Þegar Björt segir fuglaskoðaranum Gesti, sem leigir herbergi í sama húsnæði og hún, að hana langi „stundum að vera engill“ áréttar hann hins vegar tengingu okkar við dýraríkið: „Manneskja með vængi, hlær hann þá. Fugl og kona.“ (116) Og Björt veit sjálf að með því að vilja vera ósýnilegur engill án líkama neitar hún bæði sjálfri sér og öðrum um mannleg tengsl og nánd sem skipta öllu máli:
Ég finn til með fólki sem kann ekki jafn vel og aðrir að stofna til innilegra kynna. Svipt því sem öllu máli skiptir. Saklaust, á ská við allt, alla. Aumingja manneskjurnar, hugsa ég svo oft og finn til með okkur öllum. Ég veit of vel hvernig það er að finna til. (11)
Næsta skref Bjartar í uppgjörinu við áföllin verður að sætta sig við að hún „er ekki engill“ (153) og að enginn getur lifað „án þess að lifa sig inn í aðrar manneskjur“ (132). Sagan lýsir því hvernig hún færist smám saman nær öðru fólki og endar með því að hún bjóða til kvöldmáltíðar, þeirrar táknrænu athafnar líkamlegs samneytis sem felst í að borða saman: „Hægt, af nautn, finna. skynja bragð, lykt, mettun í næringunni“ (328).
Tálsýnir, von og list
Allir fuglar fljúga í ljósið fjallar um það hvernig fólk bregst við áföllum, markast af þeim en fyrst og fremst lifir þau af og þroskast jafnvel af þeim. Lýsingar á ofbeldi og tilfinningalegum afleiðingum þess, svo sem skömm og sjálfshatri, eru sannfærandi, áhrifamiklar og svo gegnumgangandi alla bókina að þessi lesandi var tekinn að lýjast þegar erfiðasti lesturinn beið í lokin. Þrátt fyrir yfirlýsingar sínar um að vilja ekki líta inn á við fer Björt ansi fljótt inn í miklar greiningar á eigin sjálfi, svo miklar að lesandinn þarf lítið að beita eigin innsæi. Í heildina virkar bókin eins og analýsa á því hvernig við þörfnumst viðurkenningar annarra en getum orðið háð henni, sem og hvernig hægt er að nota þessa þörf annarra til að fá staðfestingu á eigin mikilvægi. Athygli er dregin að því að þeir sem hafna öðrum, ýmist af vanmætti og vangetu eða óseðjandi þörf fyrir að vera við stjórn og öðlast viðurkenningu, eru sjálfir markaðir af skorti af viðurkenningu – og að sama manneskja getur verið bæði þolandi og gerandi ofbeldis. Í öllum vítahringjunum sem bókin lýsir verður ástin „stundum skiptimynt. Stundum fíkn“ (18) og „í gangverki tilfinninganna er ekkert til sem heitir réttmæt krafa“ (39).
Annaðhvort elskarðu eða þú elskar ekki, kannski er ekkert til sem heitir að svíkja aðra manneskju í ástum. Annaðhvort er ástin til staðar eða ekki. Ógjörningur að krefjast ástar því hún kviknar sjálfsprottin. (39)
Þannig er hefðbundnum en stundum hættulegum tálsýnum um fórnfýsi og ást hafnað um leið og bent er á að tilfinningalegt örlæti er líka fallegur og nauðsynlegur eiginleiki. Björt er nefnilega næm fyrir hegðunarmynstrum og sársauka annarra, getur séð fólk í raun og veru, og sár reynsla hennar hefur greinilega gert henni kleift að finna til samkenndar með þeim sem eru á skjön frekar en að fordæma. Löngun hennar til að vera engill þarf ekki að túlkast eingöngu út frá sálfræðilega neikvæðum formerkjum heldur felst í henni von um að hægt sé að stefna að einhverju æðra; því að bæta heiminn og hjálpa öðrum í raun og veru. Galdurinn virðist felast í eins konar jafnvægi milli skaðlegrar óskhyggju og uppbyggjandi vonar: „Ég má ekki brenna mig á óskhyggjunni. Og þó, hún verður að fá að blunda. Flöktandi von.“ (47)
Eins og margar aðrar bækur Auðar fjallar þessi bók líka öðrum þræði um að skapa og skrifa. Sem barn skrifar Björt bæði sögur og teiknar. Seinna velur hún myndlistina en áföllin valda því að hún leitar nú frekar í skrifin. „Innlifun mín leitar í aðra þegar ég skrifa, í sjálfa mig þegar ég teikna“ (44), segir hún og undirstrikar þannig strax í byrjun hversu ólíkum hlutverkum listin getur gegnt. Björt notar hana ýmist til að tengjast sjálfri sér og/eða öðrum en einnig, eins og fram hefur komið, til að koma í stað fyrir nálægð annarra eða hreinlega skapa fjarlægð.
Myndlistin virðist jafnvel hafa um tíma verið heilbrigðasta fíknin sem hún hefur leitað fróunar í: „Í myndlistarnáminu fólst svörun sem var of flókið að finna í ástarlífinu; þar gat ég gleymt mér á annan hátt en þegar ég drakk, var kysst, mér riðið inn í tómið. // Ég var til, án áreynslu, á meðan ég skapaði.“ (215) Í lokin ákveður hún að hún geti „skrifað farsæl endalok“ (347) fyrir sig og aðra en í heild og sem betur fer býður bókin ekki upp á nein einföld svör hér frekar en um ást og meðvirkni. Rétt eins og fórnfús ást getur bæði skaðað okkur og læknað getur listin og skáldskapurinn verið flótti, fíkn og þerapía í senn. Eða vængir fyrir mannverur sem leitast við að uppfylla örlög sín sem milliliðir fugla og engla.