Látið er af því að sænski kvikmyndahöfundurinn Ingmar Bergman hafi haft nokkra reynslu sjálfur af því efni sem hann skrifar um í Brotum úr hjónabandi, verkinu sem var frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Hann yfirgaf þó nokkrar konur um ævina og hefur eflaust þurft að segja einhverjum þeirra að hann væri orðinn ástfanginn af annarri konu eins og karlmaðurinn (Björn Thors) segir konunni (Unnur Ösp Stefánsdóttir) í leikritinu. Og þá hefur hann lagt á minnið hvernig konurnar brugðust við því enginn munur er á trúverðugleika þeirra hjóna á sviðinu.

Brot úr hjónabandi Þetta er í hæsta máta raunsæilegt verk, kannski fyrir utan upphafið. Leikararnir koma inn á sviðið meðan áhorfendur eru að setjast í sæti sín, kasta kveðju á kunningja, kyssa jafnvel og svona, síðan setjast þau sjálf í eins konar panel og taka við spurningum úr sal um einkalíf sitt. Ég hélt framan af að þau væru að svara spurningum um sig sem Unni Ösp og Björn – spurningum um sig sjálf og hjónaband sitt – svo hætti það að passa og ég áttaði mig á því að þau voru komin í hlutverk: Persónurnar eru þekktar í sínu samfélagi, frægar jafnvel, og í atriðinu eru þau í opnu viðtali um sitt hamingjusama hjónaband. Þarna runnu átakalaust saman veruleiki og blekking sem aftur olli því að framhaldið varð ennþá nærgöngulla en ella.

Hann og hún eru í upphafi leiks hjón á fertugsaldri, þau eru bæði á framabraut í vinnunni og eiga tvær dætur. Á þeim hvílir mikil pressa í starfi auk þess sem utan um þau er þéttur hópur foreldra, annarra ættingja og vina sem hún sér einkum um að sinna. Allar þessar skyldur við utanaðkomandi fólk auk vinnunnar koma niður á þeirra eigin sambandi sem báðum finnst þau rækja illa. Við heyrum þau kýta um þetta og taka ýmis dæmi og mátti vel heyra og finna á troðfullum salnum að áhorfendur skildu og tengdu við það sem fram fór. Framan af er verkið mjög fyndið – ekki þannig að beinir brandarar séu sagðir heldur eru viðbrögð persónanna, einkum hans, svo eðlileg og dæmigerð, um leið og þau eru fáránleg, að þau hljóta að vekja hlátur.

Við hittum þau sex kvöldstundir með mislöngu millibili og alvaran nær fljótlega yfirhöndinni þó að alltaf skiptist á gaman og alvara í texta og leik. Þriðja kvöldið segir hann henni að hann ætli að fara frá henni, eftir það hittast þau til að ræða skilnaðinn, börnin og önnur mál sín – og takast á. Því þó að þau skilji hætta þau ekki að koma hvort öðru við, og þau hætta heldur ekki að elska hvort annað. Með titli verksins, Scener ur ett äktenskap á frummálinu, er á vissan hátt sagt að hjónabandi ljúki aldrei, þrátt fyrir alla skilnaðarpappíra. Þeim auðnast bara ekki að halda hjónabandinu gangandi. Við vorum allan tímann að gera eitthvað vitlaust, segir hún á einum stað, en enginn sagði okkur hvað það var.

Þetta er ágengt og magnað verk og einstaklega lipur þýðing Þórdísar Gísladóttur færir það alveg til okkar hér og nú þó að það sé rúmlega fjörutíu ára gamalt. Úrvinnsla leikstjórans, Ólafs Egils Egilssonar, leggur líka áherslu á trúverðugleika, á að okkur finnist að verkið snúist um hjónin á sviðinu – eða af hverju annars hefði hann endilega viljað hafa raunveruleg hjón í hlutverkunum?

En Björn Thors og Unnur Ösp Stefánsdóttir eru ekki bara hjón, þau eru einhverjir albestu leikarar sem við eigum nú um stundir. Og í þessum brotum úr hjónabandi nýta þau og njóta allra sinna hæfileika til persónusköpunar. Karlpersónan stendur nær höfundi sínum en Ingmar notar sér það ekki til að gera úr honum fagran karakter, þvert á móti er karlinn í verkinu þröngsýnn og eigingjarn en getur verið fullkomlega heillandi þegar hann vill það við hafa. Hann er mynduglegur á yfirborðinu en hverflyndur og veikgeðja undir niðri. Í rauninni er Ingmar býsna miskunnarlaus við þetta annað sjálf sitt og Björn fangar allar hliðarnar á persónunni svo að unun var að fylgjast með honum.

Hún er heilsteyptari manneskja, tilfinninganæm, blíð og örlát. Tilkynningin um hina konuna gerir hana höggdofa og viðbrögð hennar eru flókin en sannfærandi og leikur Unnar Aspar í þessum þætti gekk undrum næst. Hún elskar ekki endilega heitar en hann, hún gerir sér bara betur grein fyrir tilfinningum sínum og er ekki eins laus í rásinni. En einn tilgangur Ingmars með verkinu var að sýna áhrif kvennabaráttu sjöunda og áttunda áratugarins á konur og í samræmi við það verður persónuþróun konunnar í átt til karlsins skýr og spennandi um leið og hún heldur mörgum sínum bestu eiginleikum. Þessa þróun sýndi Unnur Ösp á lifandi hátt og varð bæði margslungin og spennandi persóna.

Það hefur verið gaman fyrir Ólaf Egil að vinna með þessum listamönnum og árangurinn er alveg frábær. Tónlist Barða Jóhannssonar lék skemmtilegt aukahlutverk og átti sinn þátt í að tengja verkið við tímann. En aldrei slíku vant var ég óánægð með leikmynd Ilmar Stefánsdóttur sem var í ósamræmi við harð-raunsæjan textann og leikstílinn. Baktjaldið var þó flott og myndband Elmars Þórarinssonar líka sem varpað var á það.

Ég öfunda þá sem eiga eftir að sjá þessa sýningu. Hún er snilld.

Silja Aðalsteinsdóttir