Eiríkur Örn Norðdahl. Hans Blær.

Mál og menning, 2018. 335 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2019

Hans Blær„Veruleikinn krefst stöðugt nýrra hugtaka, nýrra hugmynda, það verður að færa hann í orð,“ segir í upphafskafla skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahls, Hans Blær.[1] Halda má fram að þessi orð séu nokkurs konar stefnuyfirlýsing höfundar sem gilda fyrir flest það sem hann hefur skrifað. Eiríkur Örn hefur í verkum sínum leitast við að færa samtímann í orð og hikar ekki við að fást við stór og umdeild málefni. Eiríkur Örn kom með krafti inn á íslenska ljóðasenu undir merkjum Nýhilhópsins sem átti stóran þátt í að endurvekja áhuga á íslenskri samtímaljóðlist í upphafi aldarinnar. Mörg þeirra sem komu fram undir merkjum Nýhil hafa gert sig gildandi í íslenskum samtímabókmenntum; Kristín Eiríksdóttir, Ófeigur Sigurðsson og Steinar Bragi svo nokkur séu nefnd, auk Eiríks Arnar sjálfs sem hefur sent frá sér átta frumsamdar ljóðabækur og sex skáldsögur, auk þýðinga. Hann hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin (Illska, 2012), Menningarverðlaun DV (Óratorrek, 2018) og fleiri verðlaun og viðurkenningar, hér heima og erlendis. Í stuttu máli hefur Eiríkur Örn náð að skapa sér nafn í íslenskum samtímabókmenntum og rödd sem er auðþekkjanleg.

Með slíkan feril að baki hefði mátt búast við því að nýjasta skáldsaga Eiríks Arnars, Hans Blær, hefði vakið athygli og heitar umræður því efni bókarinnar er heitt og ögrandi og hittir beint inn í flókna kynja- og samfélagsmiðlaumræðu samtímans. Verkið hefur alla burði til að verða útgangspunktur samræðu um samfélagsmál líkt og skáldsagan Illska en skömmu eftir útgáfu hennar var efnt til málþings þar sem efni hennar var rætt af fræðimönnum og höfundum „og um svipað leyti var hún komin á dagskrá í háskólakennslu“.[2] Þetta gekk ekki eftir með Hans Blævi og ef eitthvað er að marka bloggsíðuna Fjallabaksleiðina, sem Eiríkur Örn heldur úti, voru „viðbrögðin […] nær bókstaflega engin“ fyrstu vikurnar eftir að bókin kom út.[3]

 

Leyfi skáldskaparins og nauðsyn

Vera kann að þessi dræmu viðbrögð skýrist af því að samhliða bókarskrifunum skrifaði Eiríkur Örn leikrit um sömu persónu og áhugi lesenda/áhorfenda því ef til vill mettaður áður en bókin kom út. Leikritið virðist að minnsta kosti ekki hafa vakið áhuga á skáldsögunni og má vera að eitthvað hafi það haft að segja að ýmsir í hinseginsamfélaginu tóku leikverkinu um Hans Blæ illa og uppsetning Óskabarna ógæfunnar hlaut jafnframt blendna dóma.[4] Á áðurnefndri bloggsíðu viðraði Eiríkur Örn áhyggjur af því „að verkið hafi lent á slæmri braut þegar Ugla Stefanía [formaður Trans-Íslands] hjólaði í leikritshluta þess óséðan“ og að leikritið hafi ekki fengið „að njóta sannmælis vegna þess að fólk sé of skelkað við að sýnast fordómafullt.“[5] Þá hefur hann ítrekað að ekkert sé „fjær [sér] en að ráðast á transsamfélagið“ og telur „að hefðu þau séð sýninguna eða lesið bókina þá væru viðbrögðin önnur.“[6] Ég er ekki viss um að það sé rétt mat hjá honum. Óneitanlega er sannleikskorn í þeirri athugasemd Uglu Stefaníu að lýsing Eiríks Arnar á transpersónunni Hans Blævi, sem óalandi og óferjandi fjölmiðlafígúru sem yfirstígur öll mörk í mannlegum samskiptum, geti ýtt undir neikvæðar hugmyndir um transfólk hjá þeim sem ekki þekkja til.[7] Þótt Eiríkur Örn leggi áherslu á að hann styði hinsegin- og transfólk má spyrja hvort það kæri sig um stuðning hans? Spurningin kann að virka fráránleg – hver vill ekki stuðning? – en hún er réttmæt í ljósi þess að ýmsir í þeim hópum virðast frábiðja sér að þeir sem ekki tilheyra hópnum séu yfirhöfuð að skipta sér af málefnum þeirra. Í raun snýst þetta um vald eins og Eiríkur Örn veltir upp í færslu á áðurnefndri bloggsíðu:

Eðli málsins samkvæmt – eða í samræmi við ráðandi móral augnabliksins, in situ 2018 – hefur komið upp spurningin um hver megi segja hvað, hver megi skrifa um hvern, hvaða „hóp“ og hvernig og svo framvegis. Nánar tiltekið má sísheterókarlmaður (að svo miklu leyti sem fullkomið slíkt eintak er einu sinni til) skrifa um intersex-transa á borð við Hans Blævi – og enn fremur, má skrifa um slíkan einstakling út frá einhverju öðru en kyngervi hánar einvörðungu? Það er að segja: að hversu miklu leyti má Hans Blær vera eitthvað fleira en kynseginmanneskja og að hversu miklu leyti má saga um hána (verandi obsessífur einstaklingshyggjumaður beygir hán nafn sitt og persónufornafn eftir eigin duttlungum) snúast um annað eða fleira en útkomu- eða tilurðarsögu. Hér er auðvitað ekki síst spurt um vald en líka um staðalmyndir og svo leyfi skáldskaparins – eða jafnvel leyfisleysi, og þá nauðsyn.[8]

Umræðan um hver megi segja hvað tekur stundum á sig undarlegar myndir eins og þegar fullyrt er að „valdbeiting“ felist í að skrifa um reynslu sem maður hefur ekki tekið út á eigin skinni. Slíkt viðhorf kom nýverið fram í ritdómi um skáldsögu Kára Tulinius, Móðurhugur, í Tímariti Máls og menningar:

Það er gömul saga og ný að trans fólk þurfi að horfa upp á sískynja rit- og handritshöfunda og leikara tjá trans reynslu í sögubókum, skáldverkum og kvikmyndum með misgóðum árangri. Reynsla trans fólks og ýmissa annarra minnihlutahópa hefur gjarnan verið skráð og tjáð á forsendum meirihlutans og jafnvel þótt slíkt sé gert af velvild felst í því valdbeiting sem hefur verið réttilega gagnrýnd.[9]

Sé slík afstaða tekin alla leið hlýtur að felast í henni að karlar megi ekki skrifa um konur, konur ekki um karla, gagnkynhneigðir ekki um samkynhneigða, samkynhneigðir ekki um gagnkynhneigða o.s.frv. Ég fæ ekki séð að slík fræðileg aðskilnaðarstefna leiði til aukins skilnings á milli ólíkra hópa en vitaskuld má gagnrýna alla umfjöllun sé það gert með sanngjörnum hætti og gildum rökum.

 

Endaskipti á tilverunni

Hans Blær hefst á setningunni: „Vor. Ég meina haust, skrifar hán“ og það er við hæfi að frásögnin hefjist á því að höfð eru endaskipti á árstíðum því í skáldsögunni eru höfð endaskipti á nær öllu sem mögulegt er, svo sem nöfnum persóna og notkun persónufornafna, svo ekki sé talað um tvíhyggjukynjakerfi. Eins og sjá má af upphafssetningunni er þar kynnt til sögu fornafnið hán sem fáum er líklega tamt þó að farið sé að nota það innan ákveðinna hópa sem kynhlutlaust persónufornafn. Notkun fornafnsins á vafalaust eftir að aukast á næstu árum þótt enn hafi það ekki ratað inn í íslenskar netorðabækur og gagnabanka um íslenskt mál eins og Snöru (snara.is) og Málið (malid.is). Á vefnum Hinsegin frá A til Ö má hins vegar lesa:

Sumt kynsegin fólk kýs að nota kynhlutlaus persónufornöfn. Íslensk persónufornöfn sem notuð eru um fólk vísa alltaf til karlkyns (hann) eða kvenkyns (hún). Að auki er til hvorugkynspersónufornafnið það sem er almennt ekki notað um manneskjur. Nýlega hafa fornöfnin hán og hín rutt sér til rúms hérlendis. Þau eru einkum notuð af kynsegin fólki. Orðin taka oftast með sér hvorugkyn (þótt það geti verið misjafnt hvað fólk kýs í þeim efnum).[10]

Á fyrrnefndri vefsíðu er jafnfram lögð áhersla á að mikilvægt sé „að virða val hvers og eins á persónufornafni“ og gefin er upp beygingin: hán, hán, háni, háns. Hans Blær kýs þó að beygja fornafnið á annan hátt: „Hán um hána frá hánum til hánar, segir hán – beygingin er sérviska einsog svo margt annað í fari hánar“ (8) og miðar að því að ná utan um líkindi á beygingum beggja kynja: hána/hana, hánum/honum og hánar/hennar, til að ítreka að Hans Blær vill vera bæði fremur en hvorugt. Það sama gildir um nafnið, það er beygt á sérviskulegan máta: Hans Blær um Hans Blævi frá Hans Blævi til Hans Blævar, segir hán – og sú beyging kemur í sjálfu sér engum öðrum við“ (8).

Hans Blær er ekkert venjulegt meðaljón, eins og lesanda er gert ljóst allt frá byrjun: „Hans Blær er sköpunarverk, skapaði sig í sinni eigin mynd“ (9) og sjálfssköpunin er í sífelldu ferli:

Hans Blær hefur skipt um kyn oftar en tölu verður á komið, leiðrétt kyn sitt að minnsta kosti jafn oft, logið til um það, snúið upp á það, klætt sig í trássi við sitt sýndarkyn, hafnað öllum skilgreiningum og sagt sig „á rófinu“ eins og kyngervi væri bara eitthvað sem maður hefði að áhugamáli, keypti í dótabúð einsog vatnsbyssur og víbradora, alltaf að troða í sig litríkidæminu og alltaf á fúllspítt ferð til að komast á kaf í eitthvað, hvað sem er, rassa, píkur, þrengri buxur, æsilegri ævintýr. (10)

Móðir Hans Blævar, Karlotta Hermannsdóttir (kölluð Lotta Manns), veit ekki hvort hún eigi „að kalla [hána] son eða dóttur, tungumálið hefur enn ekki fyllilega aðlagast veruleikanum“ (16). Þegar hún fæddi frumburðinn, 11. október árið 1984, stóð hún í þeirri trú að hún hefði eignast heilbrigða þrettán marka stúlku en eitthvert hik var á læknunum sem tvístíga vandræðalegir en segja henni að hvíla sig; „fáumst um það í fyrramálið“ (28). Daginn eftir segja þeir nýbakaðri móðurinni að barnið sé með „penis“ eða ofvaxinn sníp og spyrja síðar „hvort hún hefði áhuga á því að láta sneiða „þetta“ af barninu“ (32). Lotta tekur sér frest til að ákveða hvað gera skuli og eftir að hafa ráðfært sig við vinkonu sína hafnar hún því að barnið fari í aðgerð og fer heim með dótturina sem hún nefnir Ilmi Þöll. Frásögnin af þessum fyrstu dögum sögupersónunnar er fyrst og fremst kómísk og líklega ekki í takt við það sem yfirleitt gerist þegar barn fæðist intersex, hvort sem er hérlendis eða annars staðar á Vesturlöndum, þar sem þau eru svo til undantekningarlaust sett í aðgerð undir þrýstingi lækna.[11] Í nýlegu frumvarpi til laga um „kynrænt sjálfræði“ var horfið frá því að óheimila varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings“, eins og til stóð í upphafi, og sendu samtök intersex fólks á Íslandi frá sér yfirlýsingu þar sem því var mótmælt.[12] Krafan um hið „sanna kyn“ er ströng í nútímasamfélagi.[13] Og reyndar á Lotta Manns eftir að iðrast þess sárlega að „hafa ekki sent hána strax til læknis í afskurð og þaðan helst bara í klaustur“, hún „lét gabbast til að fara gegn tíðarandanum“ (57) og kennir sjálfri sér um allt sem aflaga hefur farið í lífi frumburðarins.

Þrátt fyrir „gálknið“, en það kallar Lotta hinn ofvaxna sníp/penis dóttur sinnar, á Ilmur Þöll bærilega æsku þótt varla sé hægt að segja að fjölskyldulífið sé eðlilegt; faðirinn er skipstjóri og á hjákonur sem hann dvelur meira hjá en fjölskyldu sinni þegar hann er í landi. Móðirin fer gegn tíðarandanum í fleiru en því að láta barn sitt ekki undirgangast aðgerð, hún „ákvað að vera heimavinnandi á öld ofurkonunnar“ (29) og smám saman verður hún þunglynd dagdrykkjukona og líf hennar „eitt viðvarandi taugaveiklunarkast út af þessu blessaða barni og öllu því sem þessu blessaða barni hafði tekist að gera bæði yður og veröldinni“ (16).

Fljótlega kemur í ljós að Ilmur Þöll er sterkur persónuleiki sem stendur að mestu leyti keik gagnvart umheiminum, þótt hún sé öðruvísi. Eftir erfitt tímabil í grunnskóla þar sem „hún fór að fyrirverða sig fyrir líkama sinn, og fyrirverða sig fyrir að fyrirverða sig, fór að klæða sig í laumi og fyrirverða sig fyrir að klæða sig í laumi, þvo sér í sundbolnum ef hún var ekki rekin úr honum og þvo sér þá með andlitið og gálknið að veggnum, öll kengbogin og snúin af skömm á skömm ofan“ (87), rennur skömmin af henni og hún „tók að bera gálknið einsog kórónu […] Það var einsog hún hefði bara komist að þolmörkunum og sprengt þau, klárað öll tárin, allt hikið, allan harminn – og stigið út úr eldinum hert, grjóthörð“ (87). Ilmur Þöll var „glatt barn,“ „stöðugt að skemmta öðrum“ (60) og kölluð „litla „sirkusdýrið““ (61). Skilja má að sá grunnur, ásamt herslu hennar í „eldinum“, sé forsenda þess sem síðar verður; að hán „fleygði sér sannkristnu og sjálfviljugu í ljónagin fjölmiðla“ og verður „allt í senn málfrelsishetja, ofurhugi, transrojaltý – eða versta dæmið um „síns lags sora““ (48). Ilmur Þöll uppgötvar á unglingsaldri að hún getur „fært til mörk hins mögulega“ og „komist upp með hvað sem var“ (91) og sú tilfinning situr í henni:

Að hún þyrfti ekki að vera sama manneskjan fyrir öllum. Að hún gæti verið heiðarleg eina stundina en hrifsað til sín veröldina þá næstu. Að þótt hún lygi stundum þá þýddi það ekki að hún gæti ekki líka verið – eða virst – sannsögul. Að þótt hún væri almennileg viðkynningar þýddi það ekki að hún skuldaði öllum í kringum sig einhverja óstöðvandi kurteisi. Hún gat líka verið kvikindi. Hún gat líka verið tík. Hún mátti það. Það var hægt. Og það þurfti ekki að kosta hana neitt. Þvert á móti. (91)

Ilmur Þöll þráir „að vera strákur“ eða að minnsta kosti þráir hún „að prófa það, því augljóslega langaði hana alls ekki að læsast inn í því hefta hlutverki frekar en öðrum“ (93). Á barnsaldri prófar hún hlutverkið – og gerir höfundur stólpagrín að staðalmyndum þegar hann klæðir Ilmi í karladrag – enda er ekkert sem dregur fram fáránleika staðalmynda um karla og konur betur en dragsýningar:

Ilmur setti á sig skyrtubrjóst og pípuhatt og lést vera iðjuhöldur. Klæddi sig í köflótta skyrtu, öryggishjálm og smíðabelti og þóttist vera iðnaðarmaður. Málaði á sig skeggbrodda, stakk sokkapari ofan í nærbuxurnar til þess að gálknið virkaði stærra og gekk gleið, einsog fæturnir ætluðu hvor í sína höfuðáttina. Hér er ég, hugsaði hún, ég er karlmenni, ég steyti hnefa og tek í nefið og tala hispurslaust! (94)

En Ilmur Þöll upplifir sig ekki í röngu kyni: „leit Ilmar að réttu gervi fyrir sjálfa sig var líka, og kannski fyrst og fremst, leit að gervisleysi […] Hana langaði að vera hvergi og alls staðar í senn, langaði að koma á óvart og lifa „á rófinu“ einsog henni varð tíðrætt um á ofanverðum þrítugsaldri“ (95). En Ilmur Þöll er ekki bara að máta sig við ólík kyngervi, ólíkar sjálfsmyndir. Hún er einnig meðvitað að ögra: „Hún vildi að kyngervi hennar misbyði þröngsýnu fólki“ (97). Og á samfélagsmiðlum veraldarvefsins finnur hún þann vettvang sem nauðsynlegur er, vilji maður sýna sig og ögra öðrum, í öruggu skjóli: „Í raunveruleikanum úti á götu – kjötheimum, var það kallað – var hún óspennandi en í tölvunni var hún fyrirbæri, voguð, einstök og þekkti marga sína líka, þau deildu áhugamálum, úrkynjaðri kímnigáfu og löngun til að ganga stöðugt fram af hvert öðru“ (99).

 

Frásagnaraðferð

Ytri tími skáldsögunnar er aðeins einn dagur, 27. október 2018 – „34 árum og 16 dögum eftir að hán kom í heiminn“ (28). Þetta er dagurinn sem lögreglan í Reykjavík leitar Hans Blævar „í tengslum við rannsókn á Samastað, meðferðarheimili fyrir nauðgunarfórnarlömb, sem Hans Blær rekur. Rannsóknin hófst í kjölfar nafnlausrar ábendingar“ (16) um vægast sagt óhefðbundnar og umdeilanlegar aðferðir sem beitt er í meðferðinni. Hans Blær hefur falið sig í sumarbústað þar sem hán situr og „skrifar með gulum grunnskólablýanti á laus, línustrikuð blöð, kremaðan pappír“ (7) þá frásögn sem við lesum í bókinni. Lesandinn er sífellt minntur á að það er Hans Blær sem skrifar frásögnina þótt hún sé ekki skrifuð í fyrstu persónu nema að litlum hluta. Frásögnin samanstendur annars vegar af löngum köflum sem hafa yfirskriftirnar: „Hans Blær“, „Karlotta Hermannsdóttir“ og „Ilmur Þöll“ og stuttum facebook-færslum undir nafni Hans Blævar Viggósburs, sem allar enda á tímasetningu og tölum um hversu margir hafa merkt að þeim líki við færsluna og gert athugasemdir. Um sögumanninn má segja, líkt og Jón Yngvi Jóhannsson sagði um sögumann Illsku, að hann „tekur á sig ýmsar birtingarmyndir. Hann segir frá, veltir vöngum, predikar og leikur sér. Hann virðist sjá í gegnum holt og hæðir, er alvitur sögumaður sem sér í huga flestra persóna sögunnar.“[14]

Eins og sést á yfirskriftum lengri kaflanna er það Hans Blær/Ilmur Þöll og móðirin sem eru aðalpersónur frásagnarinnar. Kaflarnir um Hans Blævi/Ilmi Þöll eru skrifaðir í þriðju persónu en kaflarnir um Karlottu í annarri persónu og kemur sú breyting á frásagnarhætti  ágætlega út. Í köflunum um Karlottu er sem Hans Blær ávarpi móður sína, hann þérar hana reyndar og lýsir aðstæðum hennar og hugsunum um leið og hann túlkar líf hennar og sálarlíf. Hugsanlega á þérunin að sýna fjarlægð á milli Hans Blævar og móður hánar, enda hefur hún fjarlægt sig aðstæðunum með áfengisvímu en er þó ekki eins fjarverandi og faðirinn sem virðist standa nokkurn veginn á sama um fjölskyldu sína. Einn best heppnaði kaflinn um Karlottu er þegar lýst er þátttöku hennar í jógatíma þar sem millifyrirsagnir vísa til mismunandi jógastellinga sem kveikja svo aftur hugleiðingar Karlottu (í túlkun Hans Blævar) um líf sitt (bls. 56–75). Þar fer höfundur á kostum í bráðfyndnum texta – eins og reyndar víða í bókinni. Líklega er Karlotta – móðirin þjáða – sú persóna bókarinnar sem lesandi á auðveldast með að fá samúð með. Sjálft er Hans Blær of ögrandi og stuðandi persóna til að vekja upp raunverulega samúð lesanda.

 

„ – ég er ekki bara að trolla!“

Hans Blær er sannarlega ein mest óþolandi persóna sem komið hefur fram í íslenskum samtímabókmenntum á undanförnum áratugum og vitaskuld getur slíkt haft fælingarmátt á lesendur sem kjósa fremur blíðan lestur en stríðan, og kann að eiga stóran þátt í að bókin náði ekki flugi í sölu og umræðu. Það er þó ekki kynusli Hans Blævar sem gerir persónuna óþolandi, heldur fyrst og fremst orðbragðið, dónaskapurinn og gegndarlaust „troll“ hánar á samfélagsmiðlum. Ef bókin er lesin sem satíra þá beinist hún framar öðru að samfélagsmiðlakúltúr samtímans, því hvernig fólk sleppir fram af sér beislinu við lyklaborðið og kemur fram af ótíndum ruddaskap og viðrar fordóma sína og heimsku.

Í viðtali sem Halla Þórlaug Óskarsdóttir tók við Eirík Örn, og birtist í Tímariti Máls og menningar á liðnu ári, segist hann „vona að fólk treysti [sér], ég var allavega að reyna að gera heiðarlegt listaverk – ég er ekki bara að trolla!“[15] Vel er hægt að fallast á þá yfirlýsingu, þótt sögupersónan „trolli“ er ekki þar með sagt að það sé megintilgangur höfundur með verkinu. Mjög áhugaverður í þessu sambandi er kafli þar sem höfundur líkir nettröllum samtímans við tröll þjóðsagnanna og gerir góða grein fyrir því hvers konar nettröll Hans Blær vill vera. Hán tilheyrir ekki þeirri tegund (net)trölla sem eru „mélkisulegir og auralausir aumingjar í trosnuðum seríosblettóttum náttfötum sem búa í hnipri við fölan tölvuskjá undir tíu þúsund pizzakössum í kjallaranum hjá mömmu sinni, þar sem þau taka út rökmiðjulausa beiskju sína í garð samfélagsins, sem þeim finnst hafa svikið sig, á börnum, miðaldra kellingum og ofsóttum PTSD-uðum þjóðfélagshópum“ (155). Hans Blær skilgreinir nýja tegund trölla og samsamar sig þeim:

Við erum hins vegar ný tegund trölla, myndarlegri, fjáðari, sjálfstæðari, kynþokkafyllri, smekklegri, gáfaðri og betur innrætt en gömlu tröllin. Við erum ekki upp á mæður okkar komin. Okkur skortir ekki málstað og trollum ekki út í loftið, heldur ristum upp netið með nákvæmni skurðlæknisins og sprengjum vitundir almennings einsog kirsuber milli fingra okkar. Við níðumst ekki á minnimáttar heldur upprætum eineltisseggi, karlhatara, gæskulýðinn og hið ráðríka, móralíserandi kennivald hvar sem það felur sig: í kirkjum, kvenfélögum, stórfyrirtækjum, stjórnmálaflokkum, facebookgrúppum, íþróttafélögum og menningarkreðsum. Við búum ekki í kjöllurum. Við erum ekki blönk. Við fyrirgefum ekki. Við gleymum engu. Þið getið hvergi falist. (156)

Vel má gera sér í hugarlund að Eiríkur Örn vilji beina spjótum sínum í svipaðar áttir og Hans Blær, að hann vilji setja „okkur af sporinu, [koma] okkur úr jafnvægi og [neyða] okkur til að verja þær skoðanir okkar sem við héldum að væru yfir gagnrýni hafnar“; vilji vera „fíllinn sem gerir okkur ljóst að við höfum breytt lífum okkar í postulínsverslanir“ (156).

Sem samfélagsleg satíra er Hans Blær vel heppnað verk og bráðfyndið á köflum. Persónulýsing aðalpersónunnar er ágætlega upp byggð; lesandi fær innsýn í þroskasögu einstaklings sem fellur utan hefðbundinna hópa og brynjar sig með því að stíga stöðugt yfir siðferðileg og samfélagsleg mörk. María Kristjánsdóttir leiklistargagnrýnandi lýsti þeim Hans Blævi sem birtist á sviðinu í uppsetningu Óskabarna ógæfunnar sem líkamningi „illsku og oflætis“[16] en í skáldsögunni birtist flóknari mynd. Lesendur kynnast persónunni sem fjörugu barni og ráðvilltum unglingi sem umbreytist í óþolandi fjölmiðlafígúru sem stofnar í oflæti sínu meðferðaheimili fyrir fórnarlömb nauðgana og beitir þar vafasömum ‚meðferðarúrræðum‘ sem verða hánum að lokum að falli.

En þeir sem lesa skáldsöguna og búast við að fá þar frásögn af lífsreynslu hinsegin-, trans- eða intersex-persónu eru á villigötum. Þótt Eiríkur Örn leggi sig fram við koma á framfæri ýmsum fróðleik um trans og intersex og flétti ýmiss konar fræðiefni saman við skáldskapartexta sinn, líkt og hann gerði í skáldsögunni Illsku, þá er það fyrst og fremst hið „transgressífa“ eðli persónunnar sem verkið hvílir á. Hans Blær er persóna sem yfirstígur mörk í mannlegum samskiptum og tungumáli, hann er óþolandi á köflum, eins og áður hefur verið ítrekað, og minnir að mörgu leyti á aðra og eldri persónu úr íslenskum bókmenntum. Í niðurlagsorðum að formála sínum að endurútgáfu á Tómasi Jónssyni. Metsölubók skrifar Guðbergur Bergsson: „Farðu til fjandans, Tómas Jónsson, og reyndu að standa þig, gamli andskotinn, meðal þeirra sem hafa aldrei kynnst öðrum eins durg og þér. Og vonandi á hann aldrei eftir að fæðast, hvorki í bókmenntalíki né þjóðarlíki. Lifðu heill sem tákn þíns tíma.“[17]

Í Hans Blævi hefur fæðst í bókmenntalíki persóna sem er ekki minni durgur en Tómas Jónsson og sem hefur ýmsa burði til að lifa sem tákn sinna tíma; Hans Blær er fulltrúi alls þess versta í fari þeirrar kynslóðar sem komst til manns um síðustu aldamót, líkt og Tómas Jónsson var fulltrúi alls þess versta í fari þeirrar kynslóðar sem komst til manns snemma á tuttugustu öldinni. Þá eru miklar samsvaranir með frásagnarhætti og stílbrögðum þessa tveggja skáldsagna sem báðar einkennast af miklu orðaflæði og ofgnótt hugmynda. Nánari samanburður á þessum tveimur verkum væri án efa skemmtileg stúdía.

 

Soffía Auður Birgisdóttir

 

Tilvísanir

 

[1] Eiríkur Örn Norðdahl, Hans Blær, Reykjavík: Mál og menning 2018, bls. 9. Framvegis verða tilvísanir í bókina innan sviga í meginmáli.

[2] Sjá Jón Yngvi Jóhannsson, „Dirfska“, Tímarit Máls og menningar 4/2013, bls. 117–118.

[3] Eiríkur Örn Norðdahl, Fjallabaksleiðin, 19. nóvember 2018: https://fjallabaksleidin.norddahl.org/category/hansblaer/.

[4] Sjá t.d. Eiríkur Örn Norðdahl, Fjallabaksleiðin, 26. mars 2018 og Jakob Bjarnar Grétarsson, „Allir gagnrýnendur eru óþolandi fífl,“ 28. október 2018 (skoðað 4. júlí 2019 á vefsíðu Vísis: https://www.visir.is/g/2018181029204. Sýning leikhópsins Óskabarna ógæfunnar á Hans Blævi í Tjarnarbíói á vordögum 2018 hlaut t.a.m. jákvæðan dóm hjá Maríu Kristjánsdóttur í þættinum Víðsjá á Rás 1, 22. mars 2018 („Hlægileg líkamning illsku og oflætis“, skoðað 2. júlí 2019 á: https://www.ruv.is/frett/hlaegileg-likamning-illsku-og-oflaetis) en neikvæðan hjá Sigríði Jónsdóttur í Fréttablaðinu, 22. mars 2018 („Ólíkindatólið og ógnir samfélagsins,“ skoðað 2. júlí 2019 á: https://www.visir.is/g/2018180329681).

[5] Eiríkur Örn Norðdahl, Fjallabaksleiðin 10. september 2018.

[6] Jakob Bjarnar Grétarsson, „Allir gagnrýnendur eru óþolandi fífl,“ skoðað 4. júlí 2019 á vefsíðu Vísis: https://www.visir.is/g/2018181029204/allir-gagnrynendur-eru-otholandi-fifl.

[7] Sjá Friðrika Benónýsdóttir, „New play makes queer community furious.“ Viðtal við Uglu Stefaníu, 16. mars 2018. Sótt 6. júlí 2019 á vefsíðuna: https://gayiceland.is/2018/new-play-makes-queer-community-furious/. Viðtalið er á ensku og Ugla Stefanía segir: „The character is described as a very extreme character that over steps boundaries, alienates everyone around them and is generally a very  unpleasant and willingly meant to shock and disturb people. The fact that they are also made non binary, plays right into the perception that being non binary is something freakish, strange or some sort of a delusion.“

[8] Eiríkur Örn Norðdahl, Fjallabaksleiðin, 13. mars 2018.

[9] Ásta Kristín Benediktsdóttir, „Að byggja grafhýsi úr orðum.“ Tímarit Máls og menningar 4/2018, bls. 126.

[10] „Hán – kynhlutlaus persónufornöfn.“ Vefsíða, Hinsegin frá A til Ö, skoðað 30. júní 2919 á https://otila.is/hinsegin-regnhlifin/kynvitund-og-kyntjaning/kynhlutlaus-personufornofn-han-he-hin/.

[11] Sjá um hvernig þessu er háttað hér á landi: Kristín Svava Tómasdóttir, „Strákar, stelpur, eða „hugrakkir frumkvöðlar“?“, Stúdentablaðið 2/2009, bls. 27. Fjöldi fræðibóka um þetta málefni hefur komið út á undanförnum áratugum, sjá t.d. Alice Domurat Dreger, Hermaphrodites and the Medical Invention of Sex, Cambridge, Massachusetts, London: Harward University Press, 1998; Alice Dourat Dreger (ritstj.), Intersex in the Age of Ethics, Hagerstown, Maryland: University Publishing Group, 1999; og Sharon E. Preves, Intersex and Identity. The Contested Self, New Brunswick, New Jersey og London: Rutgers University Press, 2008 (1. útg. 2003). Þekktar eru kenningar Michels Foucault um kynferði og læknisfræði, sjá t.d.  Naissance de la clinique: Une archéologie du regard medical, París: Gallimard, 1963, ensk þýðing Alan Sheridan Smith, The Birth of the Clinic: An Archaeology of Medical Perception, New York: Routledge, 1973.

[12] Sjá Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, sérstaklega III. kafla, 11. grein (skoðað 10. júlí 2019 á vef alþingis: https://www.althingi.is/altext/149/s/1184.html) og Yfirlýsing vegna nýsamþykktra laga um kynrænt sjálfræði (skoðað 10. júlí 2019 á heimasíðu Intersex Ísland: https://intersex.samtokin78.is/yfirlysing-vegna-nysamthykktra-laga-um-kynraent-sjalfraedi/).

[13] Sjá einnig Soffía Auður Birgisdóttir, „Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans? Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur.“ Ritið 2/2017, bls. 39–77, sérstaklega bls. 62–73.

[14] Jón Yngvi Jóhannsson. „Dirfska.“ Tímarit Máls og menningar 4/2013, bls. 116.

[15] Halla Þórlaug Óskarsdóttir, „Það að skrifa bækur er alltaf að einhverju marki siðlaus gerningur.“ Viðtal við Eirík Örn Norðdahl um Hans Blævi. Tímarit Máls og menningar 4/2018, bls. 53.

[16] María Kristjánsdóttir, „Hlægileg líkamning illsku og oflætis“, leikdómur í Víðsjá, Rás 1, 22. mars 2018, (skoðað 2. júlí 2019 á: https://www.ruv.is/frett/hlaegileg-likamning-illsku-og-oflaetis).

[17] Guðbergur Bergsson, Tómas Jónsson. Metsölubók, Reykjavík: Forlagið, 1987, bls. 6.