Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í dag á Litla sviði Borgarleikhússins leikgerð Ágústu Skúladóttur, Karls Ágústs Úlfssonar og leikhópsins á Ævintýrum spýtustráksins Gosa. Þessi lífseiga saga Ítalans Carlos Collodi, sem kom fyrst út sem framhaldssaga í ítölsku barnablaði á árunum 1881–82, er í eðli sínu afar vel útfærð siðræn uppeldisfræði, svo skýr og opinská að það má heita merkilegt hvað börn hafa þolað hana vel og jafnvel elskað!

Kirsir gamli (Eiríkur Stephensen) ætlar að fara að vinna á trjádrumbi sem rak á fjörur hans en hrekkur við þegar drumburinn kveinkar sér undan exinni. Kirsir lætur drumbinn feginn í hendurnar á fátæka smiðnum Jafet (Halldór Gylfason). Hann tálgar úr honum spýtustrák sem hann skírir Gosa (Haraldur Ari Stefánsson) og ætlar að þjálfa sem strengjabrúðu, sýna á torginu og taka aura fyrir sér til lífsviðurværis. En um leið og Jafet hefur kennt Gosa að ganga hleypur Gosi burt frá honum og það er upphafið á viðburðaríkum ævintýrum hans. Hann hirðir ekki um góðu hegðunarráðin sem Krybban (Halldór Gylfason) gefur honum, hann lætur Köttinn (Halldór) og Refinn (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) plata sig aftur og aftur, hann lætur stafrófskverið sitt fyrir miða í brúðuleikhús þar sem hann hittir spýtustrákana Hallikinn (Halldór) og Pulsupinn (Katla Margrét) og leikhússtjórann Eldgleypinn (Eyvindur Karlsson). Bóndinn (Eyvindur) grípur hann við að stela vínberjum og gerir hann að varðhundi sínum en þegar hann veiðir hænsnaþjófana fyrir Bóndann fer lukkan að snúast honum í vil. Þá þarf Bláa dísin (Katla Margrét) bara örfáar sannanir í viðbót fyrir því að Gosi sé orðinn nógu rétt hugsandi, heiðarlegur og vænn til að hann eigi skilið að verða raunverulegur, lifandi drengur.

Mórallinn er að ef við lærum af mistökum okkar og ræktum með okkur kærleika til annarra þá verðum við hamingjusöm og það er ekkert að þeim boðskap.

Þetta er geysilega litrík og fjörug sýning eins og Ágústu var von og vísa. Textinn er skemmtilegur og er gáð vel að því að hafa líka brandara fyrir fullorðna fylgismenn barnanna í salnum. Margir helstu viðburðir eru bundnir í söngtexta sem Karl Ágúst semur og á sviðinu eru þeir Eiríkur Stephensen og Eyvindur Karlsson og spila lögin sín undir sönginn milli þess sem þeir taka beinan þátt í leiknum. Lögin eru áheyrileg þótt varla séu þau minnisstæð svona strax. Það sem hins vegar verður minnisstætt er leikmyndin og þó einkum búningarnir sem hvort tveggja var á hendi Þórunnar Maríu Jónsdóttur. Til dæmis eru búningar þeirra Hallikinns og Pulsupinns einstök snilldarverk! Elín S. Gísladóttir sér um grímugerð og átti frábæra spretti en leikgervi sáu þær Þórunn María og Guðbjörg Ívarsdóttir um. Ég veit ekki hver þeirra þriggja á heiðurinn af gervi og útliti Gosa sjálfs. Kannski leggja þær allar hönd á plóg. En mest er um vert að nefið er á sínum stað og það lengist og styttist og umbreytingin í lokin er alveg fullkomin.

Mikið er auðvitað undir Haraldi Ara komið hvernig til tekst og hann túlkaði vel bæði óhlýðni Gosa, kæruleysi, heimsku, auðmýkingu og ástríka fórnarlund. Það er ekki neinn smápakki. Þau Halldór og Katla Margrét voru alveg gullvæg í hlutverkunum sínum óteljandi og enn verð ég að hrósa sérstaklega fyrir snör handtök við að skipta um föt. Því þau skipta ekki bara um föt á núll komma fimm, þau skipta um gervi og eðli!

Gosi er orðinn 140 ára en sýnir engin ellimerki. Höfundar leikgerðar sýna upprunalegu sögunni meiri virðingu en maður er vanur og það fer vel á því. Auðvitað geta þau ekki haft óhugnanlegustu eða tímafrekustu atriðin með en það var ansi hreint gaman að komast í iður hundfiskjarins með þeim feðgum, Gosa og Jafet. Í rifjahylki hans fannst mér leikmynd Þórunnar Maríu ná hæstum hæðum.

 

Silja Aðalsteinsdóttir