Hans klaufi

Leikhópurinn Lotta endurfrumsýndi í gær í Tjarnarbíó Hans klaufa eftir Snæbjörn Ragnarsson og leikhópinn undir stjórn Önnu Bergljótar Thorarensen og Þórunnar Lárusdóttur. Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen og Gunnar Ben tóku þátt í að semja lög og texta með leikhópnum en Þórður Gunnar Þorvaldsson sá um útsetningar. Einföld en þénug leikmyndin var í höndum leikaranna Andreu Aspar Karlsdóttur og Sigsteins Sigurbergssonar.

Okkur félögum mínum, Arnmundi og Aðalsteini, fannst eftir á að hyggja nafnið á sýningunni ekki alveg viðeigandi. Ævintýrið um Hans klaufa er nefnilega ekki notað í verkinu, einungis nafnið á söguhetju þess. Þegar Hans (Sigsteinn Sigurbergsson) – sem hér er besti vinur og aðstoðarmaður Arons prins (Stefán Benedikt Vilhelmsson) og enginn klaufi – fær að sjá um veitingar í veislu prinsins þá var ég viss um að þar yrðu á borðum steiktar krákur með úrvalsleðju sem ídýfu en svo var ekki. Þessi Hans valdi að hafa eintómar bollur í forrétt (fiskbollur), aðalrétt (kjötbollur) og eftirrétt (rjómabollur) af því hann átti afmæli á bolludaginn!

Það er enginn skortur á ævintýrum í verkinu þótt sagan af Hans klaufa sé ekki notuð. Aron prins erfir ríkið þegar móðir hans drottningin (Andrea Ösp) deyr en systkini hans, Sölvi (Orri Huginn Ágústsson) og Ríkey (Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir) girnast líka krúnuna, einkum Ríkey sem er flagð undir fögru skinni. Ekki líkar henni þegar Aron býður allri þjóðinni í veislu en ýmsir aðrir fagna því, til dæmis systurnar Hekla (Orri Huginn) og Katla (Thelma Hrönn) sem ætla báðar að krækja í prinsinn. Stjúpsystirin Öskubuska (Andrea Ösp) á ekki von á að komast í veisluna af því hún á ekkert til að fara í, en alveg óvænt birtist hjá henni álfkonan Álfheiður (Stefán Benedikt) og breytir hversdagskjólnum í gljáandi síðkjól á augabragði. Það var ansi sniðuglega gert og urðu nokkrar umræður í strætó á heimleiðinni um það hvernig þessi galdur hefði verið framinn. Alexía Rós Gylfadóttir og Rósa Ásgeirsdóttir sjá um búninga sem voru líka að öðru leyti vel heppnaðir.

Öskubuska heillar prinsinn en ekki er braut þeirra elskendanna alveg bein, honum er t.d. breytt í frosk til að hindra frekari óþarfa góðverk hans, en allt fer vitaskuld vel að lokum.

Aðstandendur eru flestir gamalreyndir Lottuleikarar og Sigsteinn þar í broddi fylkingar. Hann leikur jafnt fyrir börnin í salnum og fullorðna fólkið, algerlega heima hjá sér á sviðinu og skapar persónu sinni takta og fyndna málkæki alveg fyrirhafnarlaust. Andrea Ösp er blíðan og gæðin holdi klædd í hlutverki Öskubusku sem er öflugur talsmaður flokkunar sorps. Auk þess átti hún ágætan part í skemmtilegu upphafi sýningarinnar; það reyndist of sorglegt þannig að þau þurftu að byrja aftur – og aftur! Stefán Benedikt var fínn prins en ennþá meira fékk hann út úr hlutverki álfkonunnar sem tekst ekki að láta sig hverfa af því að töfrasprotinn hennar er batteríslaus! Thelma Hrönn hefur skínandi góða söngrödd og átti ekki í neinum vandræðum með ótuktirnar sem komu í hennar hlut, Ríkey og Kötlu.

Ég man ekki eftir Orra Hugin hjá Lottu áður en hégómlegi prinsinn Sölvi var ágætlega skapaður og sannarlega nýstárlegt að önnur stjúpsystir Öskubusku skuli vera með ræktarlegt skegg! Söngvarnir eru léttir að venju en ég heyrði ekki textana alltaf nógu vel. Þó er allt magnað upp, tal og tónar, undirleikurinn bara aðeins of mikið.

Þótt góð sé er óhjákvæmilegt að bera þessa sýningu saman við sýningu hópsins fyrir réttu ári, Rauðhettu, sem var bæði efnismeiri, brögðóttari og fjörugri. En Hans klaufi hefur öll helstu einkenni Lottusýninga og ungir áhorfendur munu eflaust njóta hennar jafn vel.

 

 

Silja Aðalsteinsdóttir