Iðnó var svo troðið í gærkvöldi að það var orðið háskalega loftlaust í salnum um það leyti þegar Annar tenór – en samt sá sami – söng síðasta tóninn. Þarna tekur Guðmundur Ólafsson aftur upp þráðinn ellefu og hálfu ári eftir að hann frumsýndi fyrra verk sitt um söngvarann, Tenórinn vinsæla. María Sigurðardóttir leikstýrir af smekkvísi og skilningi og Kjartan Darri Kristjánsson stýrði lýsingunni sem stundum stal senunni alveg óvænt.

Annar tenór – en samt sá samiTenórinn sýndi okkur mann sem hefur gert það allgott á stórum sviðum í erlendum óperuhúsum og er eftir því stoltur og stærilátur en smám saman kom þó í ljós að myndin var ekki allskostar rétt. Að minnsta kosti ekki lengur. Í rauninni afhjúpaði sú sýning mann sem lifir í sjálfsblekkingu. Í nýju sýningunni fáum við að vita að tónleikunum sem undirbúnir voru í Tenórnum lauk með því að söngvarinn gafst upp og fór af sviðinu. Nú hittum við hann aftur, eftir öll þessi ár. Hann leitar skjóls fyrir rigningunni á gamla tónleikastaðnum þar sem hann hittir undirleikarann sinn (Sigursveinn Magnússon) sem er að hita sig upp fyrir tónleika um kvöldið með ungum, efnilegum tenór. Gamli tenórinn á ekkert beint erindi við píanóleikarann en þó getur hann ekki farið strax, hann þarf greinilega að bera sig upp við einhvern, ræða um líf sitt og stöðu í nútímanum við einhvern – og helst „almennilega manneskju“ eins og píanóleikarann.

Leið okkar manns hefur legið niður á við, úr sjálfsblekkingu að persónulegu hruni. Hann er fluttur til Íslands, er tónlistarkennari í bæ á landsbyggðinni og hermir af andstyggilega fyndinni meinfýsni eftir sínum helstu skjólstæðingum þar. Allt hefur honum mistekist í lífinu. Hann er aleinn í heiminum, konan skildi við hann þarna um árið, ávöxtur framhjáhaldsins sem olli skilnaðinum er drengur sem söngvarinn hefur aldrei séð eða haft samband við á neinn hátt. Þetta er brotinn og botnóhamingjusamur maður. Andstæðu hans upplifum við í píanóleikaranum sem fær á fárra mínútna fresti upplýsingar frá konu sinni um hvernig dóttur þeirra gengur að fæða barn. Það tekur söngvarann talsverðan tíma að læra að taka fréttum af nauðsynlegri útvíkkun á leghálsi áður en barn getur fæðst en hann venst því þó að lokum!

Þetta hljómar heldur dapurlega, ég veit það, samt er þetta gróflega skemmtilegt verk og fín sýning. Þar kemur margt til. Í fyrsta lagi eru samtölin firnavel skrifuð og fyndin. Auk þeirra Guðmundar og Sigursveins er hlutverk tæknimanns í húsinu leikið af Aðalbjörgu Árnadóttur sem myndar alveg frábæra andstæðu við karlana báða, hress og fjörug ung kona sem lætur fýluna í söngvaranum ekki hafa teljandi áhrif á sig. Talsmáti hennar var ekta ungur og raunar skrifar Guðmundur sannfærandi texta upp í alla þrjá karaktera þannig að þau verða heil og lifandi í tali ekki síður en fasi. Það er sterkt tákn um að söngvarinn sé raunverulega á leiðinni „heim“ í lokin þegar þau taka saman lagið, tenórinn og tæknimaðurinn. Þar sér maður glögglega hvað söngvarinn gæti látið sér líða dásamlega hvar í heiminum sem vera skal – ef hann bara leyfði sér að hvíla í núinu og njóta. Það var kannski fallegasta sena kvöldsins.

Guðmundur vílar ekki fyrir sér að syngja lög af öllu tagi í sýningunni, óperuaríur, íslensk og erlend sönglög, söngleikjalög og dægurlög og var hverju lagi tekið með kostum og kynjum af áhorfendum. Fyrir utan sönginn með Aðalbjörgu fannst mér mest koma til „Draumalandsins“ og „Nú læðist nótt um lönd og sæ“, en alls staðar vafði hlý rödd Guðmundar sig fallega utan um lögin. Þetta er afar skemmtileg kvöldstund sem líka gefur margt til að hugsa um og velta vöngum yfir.

Silja Aðalsteinsdóttir