Auður Jónsdóttir rithöfundur frumsýndi í gærkvöldi sýninguna Auður og Auður á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þar segir hún frá sambandi sínu við ömmu sína, Auði Sveinsdóttur Laxness, og tímabilinu sem hún fjallar um í bókinni Ósjálfrátt frá 2012.

Auður byrjar hversdagslega dramatískt. Hún er stödd í eldhúsinu hjá ömmu sinni á Gljúfrasteini, rúmlega tvítug týnd stúlka. Amma hennar leggur þykkt umslag á eldhúsborð með fjólubláum dúk og segir: Hér eru hundrað þúsund krónur. Ég gef þér þær ef þú ferð frá þessum manni. Auður hafði þá í samblandi af tilfinningaólgu, vorkunnsemi og örvæntingu gifst vestfirskum sjómanni, sem var helmingi eldri en hún, og vann nú ötult að því að eyðileggja líf sitt. Amman vissi að í þessari dótturdóttur bjó skáldkona og hún var tilbúin til að gera nánast hvað sem var til að bjarga barninu nógu lengi til að fyrsta skáldsagan fæddist. Eftir það varð að arka að auðnu.

Ömmunni tókst það sem móður hefði ekki tekist. Við erum í sífelldri meðvitaðri eða ómeðvitaðri uppreisn gegn foreldrum okkar en á ömmu getum við hlustað.

Auður og Auður.

Amman var ekki ein um að skipta sér af. Vinkona, móðir og systir lögðu líka sitt af mörkum. Frásögn Auðar verður sannkallaður óður til bjargandi kvenna, röskra, fyndinna, hláturmildra, dásamlegra kvenna sem ásamt einni verulega frumlegri skíðadrottningu verða til þess að Auði tekst að skrifa sína fyrstu bók – um leið og hún upplifir söguleg ævintýri „úti í sænsku rassgati“. Bókin var Stjórnlaus lukka sem kom út 1998 þegar Auður var 25 ára, hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og framtíð Auðar var ráðin.

Þetta var fróðleg og skemmtileg frásögn sem Auður hafði vel á valdi sínu þótt hún færi talsvert fram og aftur í tíma. Ýmsar nýjar hliðar á atburðum komu fram og frásögnin var líka öðruvísi í stíl og anda en skáldsagan Ósjálfrátt, enda hefur margt komið fyrir Auði síðan sú bók kom út og það litar allt frásögnina. Skáldskapurinn hefur áhrif á lífið en lífið hefur ekki síður áhrif á skáldskapinn.

„Ég hef alltaf verið óviss um hvað ég má vera mikill „afskiptamálaráðherra“,“ sagði ein amman að lokinni sýningu, „en nú veit ég að maður á að skipta sér eins mikið af og þarf!“ Hún bætti því við að þetta væri sýning fyrir allar ömmur.

Ég þreytist ekki á að mæra það merkilega fyrirbæri sem Söguloftið er í íslensku menningarsamfélagi. Þar er íslenskri sögulist haldið lifandi á einstaklega gjöfulan og göfugan hátt. Íslendingar urðu frægir sögumenn, jafnvel meðal annarra þjóða, fyrir þúsund árum. Söguloftið sér til þess að sú gáfa týnist ekki niður í okkar stafræna samfélagi.

 

Silja Aðalsteinsdóttir