Einar Kárason. Skálmöld; Óvinafagnaður; Ofsi; Skáld.

Mál og menning 2014; 2001; 2008; 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2016

Skálmöld

Skálmöld (2014)

Einar Kárason hefur staðið upp frá mögnuðu skáldverki um helstu persónur og atburði Sturlungaaldar; eða öllu heldur staðið upp frá mögnuðu skáldverki um listina að umbreyta atburðum í merkilegar sögur sem hjálpa okkur að skilja heiminn. Fyrst í munnmæli með ótal sjónarhornum og síðar í skipulega ritaða frásögn sem skáldin ein geta reitt fram. Í bókum sínum hefur Einar áður velt fyrir sér hinum langa vegi frá því að eitthvað gerist í raunheimum til þess að einhver segi frá því svo áheyrilegt sé og loks að rithöfundur komi til skjalanna og móti úr slíkum frásögnum heilsteypt skáldverk. Þetta var stefið í Fyrirheitna landinu (1989) sem gerði upp Eyjabókabálkinn með þeim hætti að skyndilega stígur þar fram sögumaður og segir söguna í fyrstu persónu, og ekki síður í stórfjölskyldusögunum Heimskra manna ráðum (1992) og Kvikasilfri (1994) þar sem sögumaðurinn var jafnframt fjölskyldumeðlimur að reyna að henda reiður á óreiðunni í lífi sinna litríku ættmenna.

Í Stormi (2003) beitti Einar sömu aðferð og í fyrstu Sturlungubókinni, hinu síkvika og afstæða sjónarhorni margra ólíkra sögumanna sem Faulkner gerði að vörumerki sínu og tengdist hugmyndum síðustu aldar um afstæði allra hluta, líkt og ótal rithöfundar hafa unnið úr síðan með því að margsegja frá „sömu“ atburðum undir ólíkum sjónarhornum. Í Stormi var ein persóna viðfangsefni frásagna úr öllum áttum, sem ófu þéttan merkingarvef utan um þær efasemdir að yfirleitt væri hægt að höndla sannleikann í sögu. Þessar fyrri bækur eru ekki slæmur undirbúningur fyrir Einar að reyna vaskleik sinna ómældu sagnakrafta við Sturlungu, móður allra ættarsagna og mafíubókmennta; hinn óviðjafnanlega sagnabálk frá þeirri trylltu öld þegar blóðug valdabarátta geisaði í landinu og klíkubandalög leiddu til óhæfuverka þar sem æðsti foringinn, Hákon Noregskonungur, krafðist þess að hinn útvaldi maður, Gissur Þorvaldsson, ynni grimmilegt níðingsverk á fyrrum tengdaföður sínum Snorra Sturlusyni – svo Hákon þyrfti ekki að efast um hollustu Gissurar eftir það. Líkt og tíðkast enn í inntökuprófum glæpagengja.

Bækur Einars komu ekki út í sömu tímaröð og atburðirnir sem þær greina frá. Skálmöld kom út síðast en gerist fyrst og þar skýtur Einar inn athugasemdum sem eiga við í síðustu bók sagnaflokks en líta einkennilega út þegar bækurnar eru lesnar eftir á í tímaröð atburða. Í Skálmöld eru lögð drög að því hvernig valdajafnvægi þjóðveldisins raskaðist með uppgangi Sturlusona eftir að Snorri komst í innsta menntahring yfirstéttar landsins í Odda. Sérstaklega er fylgst með Sighvati bróður hans á Grund í Eyjafirði og ofmetnaði Sturlu sonar Sighvats, sem vill gína yfir öllu landinu frá höfðingjasetri sínu að Sauðafelli í Dölum, studdur af Hákoni Noregskonungi. Sturla fellur í sögulok ásamt föður sínum og flestum bræðrum á Örlygsstöðum í Skagafirði árið 1238 fyrir sameinuðum herjum Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar.

Óvinafagnaður

Óvinafagnaður (2001)

Í „fyrstu“ bókinni Óvinafagnaði er þráðurinn tekinn upp þar sem Þórður kakali Sighvatsson, rankar úr ölvímu í Noregi og vill koma sér til Íslands að endurheimta völd ættar sinnar eftir ósigurinn á Örlygsstöðum. Úr verður æði spennandi lukkuriddarasaga sem nær hámarki með hlálegum grjótkastsigri í Flóabardaga þar sem fiskikarlar af Vestfjörðum undir forystu Þórðar ná að gjörsigra vel vopnum búinn sjóher Kolbeins unga úr Skagafirði. Í Ofsa hefur Þórður verið kallaður utan til Noregs og Gissur og Sturla Þórðarson sammælast um að friða stríðandi öfl í landinu með því að efna til brúðkaups barna sinna og halda veislu á Flugumýri – en gá ekki að því að Eyjólfur ofsi, tengdasonur Sighvats á Grund, er ekki með í sættinni og kemur daginn eftir veisluna með sveit manna úr Eyjafirði og brennir bæinn – en Gissur sleppur með því að skríða ofan í sýruker eins og frægt er. Þar með er sviðið tilbúið fyrir næstu hefndasyrpu.

Í Skáldi eru dregnir saman ýmsir þræðir um atburði sem hafa lent utan sviðs í fyrri bókum, s. s. víg Snorra í Reykholti og endalok Þórðar kakala í Noregi. Hér er sjónum beint að Sturlu Þórðarsyni um leið og sagan tekur sér stundarhlé frá því að flökta á milli ólíkra radda og sjónarhorna hinna ýmsu persóna og leikenda yfir í þá yfirsýn um atburði aldarinnar sem sagnaritarinn Sturla og aðstoðarmaður hans, Þórður Narfason, öðlast við að setja Sturlungu saman úr þeim margbrotnu og flóknu sögum sem á undan eru gengnar – allt þar til Einar Kárason sjálfur bætir því við að oddur sem brotnaði af spjóti Klængs Bjarnarsonar, fóstbróður Sturlu Þórðarsonar, í undanfarandi kafla hafi fundist á bænum Neðra-Apavatni á æskudögum Einars sjálfs.

Ofsi

Ofsi (2008)

Um leið og hinni miklu og breiðu sögu vindur fram viðrar Einar ýmsar kenningar, tilgátur, hugmyndir og hugdettur um aðstæður höfunda á þrettándu öld, einkum bækur sem væri hægt að sjá fyrir sér að þeir Sturlungar hafi skrifað; ekki bara að Snorri hafi skrifað Ólafs sögu helga, Heimskringlu og Eddu, eins og viðtekið er, heldur líka Eglu (eins og mörg halda), að Ólafur hvítaskáld Þórðarson hafi sett Laxdælu saman (sem stundum hefur verið sagt í bland við þá hugmynd að þar hafi konur vélað um) og að Sturla Þórðarson hafi ekki bara skrifað Íslendinga sögu í Sturlungu, sögur Hákonar gamla Noregskonungs og Magnúsar sonar hans lagabætis í bland við eitthvað af Jónsbók, heldur líka Eyrbyggju og talsvert um Gretti sterka, Kristni sögu, Færeyinga sögu og Konungs Skuggsjá og verið byrjaður á Fóstbræðra sögu þegar hann lést – að ógleymdri sjálfri Njálu.

Uppástungur um að Sturla hafi átt þátt í þessum ritum hafa komið fram hér og þar, og má til dæmis nefna að Helgi Guðmundsson málfræðingur er mjög samhljóma Einari um Færeyinga sögu og víða annars staðar má sjá að djarfar og vinsælar hugmyndir Helga hafa orðið Einari innblástur. Samanlagt er þetta talsvert höfundarverk fyrir einn mann og Einari svo mikið hjartans mál að sýna fram á að þessar hugmyndir séu ekki tómur skáldskapur að hann skrifaði um efnið sérstaka fræðigrein í Skírni þar sem hann færði mörg og sannfærandi rök fyrir því að Sturla gæti verið höfundur Njálu – sem Matthías Johannessen hélt einnig á loft í fræðum sínum. Lesendum er því ekki ætlað að taka þessum skáldskap af neinni léttúð sem hægt sé að vísa frá í fræðilegri rökræðu.

Það má skjóta því inn í rökræðuskyni við skáldverkið að ég saknaði þess að sjá hvernig Einar sér fyrir sér að landnámugerð Sturlu falli að ferli hans að öðru leyti. Fræðin um Landnámu eru á einu máli um að svo mikið beri á milli í persónufróðleik um sameiginlegar persónur hennar og Njálu að óhugsandi sé að þar hafi sami einstaklingur verið að baki. Sá sem setti Sturlubók Landnámu saman hefur alla þræði í hendi sér og heldur utan um sínar upplýsingar án þess að ruglast – og því er ekki líklegt að það fari allt í vitleysu ef sá sami hafi síðan sest við að semja Njálu. Í skáldverki mætti auðveldlega skrifa sig framhjá þessum fræðilegu mótbárum og styrkja þannig þá heillandi hugmynd að Sturla sé höfundur Njálu.

Skáld

Skáld (2012)

Einar lætur sér ekki nægja að mikla hressilega höfundarverk Sturlu heldur setur hann fram heilsteyptar hugmyndir um samspil þeirra frænda við óljósar munnmælasögur úr fortíðinni og gerir mikið úr því að Guðný Böðvarsdóttir ættmóðir Sturlunganna hafi verið margspök og óljúgfróð og að þangað hafi hinir skrifandi karlar sótt fræðin og skáldskapinn – og er þar komin frummynd ömmunnar í huga íslenskra skálda. Skemmtilegt er líka hvernig Einar lætur karlana tengja hin fornu fræði við samtíð sína þegar þeir sitja saman í heita pottinum eða yfir drykkju að skemmta hver öðrum með sagnalist sem þeir skrifa eða láta skrifa á skinnin að lokum (eins og þegar Sturla kemur höggi á samtíðarmann sinn og andstæðing Kolbein unga með því að skjóta því inn í Njálu að Kolbeinn hafi verið afkomandi Valgarðs gráa, föður Lyga- Marðar; augljóst má vera að það er ekki gert Kolbeini til hróss frekar en í Landnámu þegar Sturla tengir ætt Gissurar við skítseiðið Otkel í Njálu).

Eins dregur Einar fram hvernig þeir Sturlungar reyna að átta sig á atburðum samtíðar sinnar í gegnum sögur annarra og eigin reynslu. Stundum finnst manni þó að þeir Snorri og Sturla séu orðnir ansi líkir núverandi félögum í Rithöfundasambandinu og að Einar vanmeti þjálfun hinna munnlegu atvinnuskálda þjóðveldisaldar og hæfileika að segja vel og skipulega frá án þess að rita sögur sínar – til að gera sem mest úr hlut Snorra og Sturlu sem kollega í rithöfundastéttinni. Allt er þetta efni þó sett fram af miklum sannfæringarkrafti og Einari greinilega mikið í mun að miðla sýn sinni á hið flókna samspil og vef atburða og frásagna úr samtíð og fortíð sem hefur myndað baksvið þeirrar endanlegu Sturlungu sem rataði á skinnblöðin í meðförum Sturlu og síðar Þórðar Narfasonar.

List Einars er að rekja hinar fornu sögur aftur í sundur með sínum frásagnargaldri og búa til ný og óvænt sjónarhorn þeirra fjölmörgu persóna sem koma við atburði aldarinnar. Þar gefst honum til dæmis mikið svigrúm til að ljá fjölmörgum kvenpersónum Sturlungu rödd og horfa á atburði aldarinnar og búsýslu þeirra innanstokks úr þeirri nútímalegu og kvenlegu átt sem fornsögur hirða að jafnaði lítið um, enda karlar mjög ráðandi í ritmenningu miðalda. Blæbrigði í orðfæri takmarkast þó að mestu við það að kirkjunnar þjónar hafa upphafið stílbragð á sínum söguþáttum. Flest önnur tala með svipuðu og veraldlegra sniði. Þeim mun meiri rækt og alúð er lögð við að finna hvernig persónur og atburðir hafa litið út frá hinum ólíku sjónarhornum um leið og góður gangur er í sjálfri söguframvindunni. Þetta er talsverður galdur sem dylst mörgum í áreynsluleysi sínu og það rifjast upp að Jónas Kristjánsson, fyrrum forstöðumaður Árnastofnunar, hafði á orði þegar hann fór sjálfur að skálda sögur á efri árum að þá fyrst hefði hann fundið sárlega hversu mikill ofjarl sinn höfundur Grettis sögu hefði verið.

Frásagnarháttur Einars býður honum sjálfum upp á mikið svigrúm til túlkunar á söguefninu og munar þar mest um hvað hann sýnir atburðina vel frá sjónarhorni Gissurar – sem hefur vægast sagt átt erfitt uppdráttar í viðtökusögu Sturlungu; svikarinn sem drap skáldmæringinn Snorra til að öðlast jarlstign og koma Íslandi undir Noregskonung „sem hirti frelsi vort“ eins og sungið er um á þorrablótunum.

Enda þótt frásögn Sturlungu sé rómuð fyrir óhlutdrægni fer ekki hjá því að það hafi mikið að segja að lunginn úr því sagnasafni er settur saman af Sturlungunum sjálfum eða mönnum þeim tengdum – sem leiðir lesendur lævíslega frá því að geta nokkurn tímann fengið samúð með Gissuri þótt Sturla sýni hörmungum hans eftir Flugumýrarbrennu augljósan áhuga og samúð. Um leið og Einar réttir hlut Gissurar og fær lesandann til að stilla sér upp við hlið hans dregur hann fram að Sturlungarnir, sem meiri ljómi hefur leikið um í sögubókum síðari alda, hafi ekki verið nein englabörn frelsis og sjálfstæðis. Líkt og Gissur reyndu þeir að sækja sér upphefð að utan og komast til valda og áhrifa hér á landi í nafni Noregskonungs. Umdeildara gæti sumum fundist að hlutur Eyjólfs ofsa er skýrður með geðhvarfasýki hans í bland við eggjanir konu sinnar – og Flugumýrarbrenna þá afleiðing mikillar uppsveiflu og oflætis Eyjólfs.

Það sem gerir bækur Einars svo læsilegar sem raun ber vitni er ekki bara það góða vald sem hann hefur á hinni flóknu atburðarás, í bland við næma tilfinningu fyrir gildi ættar- og vináttubanda og ekki síst aldri þeirra persóna sem koma við sögu, heldur einnig sú leið að gera persónurnar sem líkastar okkar samtímamönnum. Þetta gerir Einar í krafti þeirrar hugmyndar að fólk hafi sáralítið breyst að upplagi frá því á steinöld. Því megi ætla að svipaðar tilfinningar, hégómi og metnaður hafi bærst með þrettándu aldar Íslendingum og fólki á okkar dögum þó að lög og trúarbrögð og heimsmynd og hugmyndaheimur hafi þá verið með ólíkum hætti miðað við það sem nú er almennast.

Lykilaðferð við að ná þessum áhrifum er að velta sér ekki upp úr því sem hefur verið ólíkt okkar tímum í daglegu umhverfi og lífsháttum, í eins konar uppfræðslustíl sögulegra skáldsagna, heldur segja frá öllu sem sjálfsögðum hlut – eins og það hefur verið í augum þeirra sem lifðu þá tíma þegar skinnbækur voru nýmæli, ofbeldi stjórntæki og helvíti raunverulegt, hestar og skip voru samgöngutækin, húðir og vaðmál voru notuð í klæði, stéttskipting var klár, karlar og konur gegndu kynbundnum hlutverkum og börn voru skiptimynt í valdatafli. Um leið dregur Einar markvisst úr upphafningu tungumálsins – sem mörgum þykir þó óaðskiljanlegur hluti af heimi fornsagna. Því má búast við að lesendum bregði við þegar Þórður kakali segir förunaut sínum suður Sprengisand að „drulla sér heim“ þegar þeir sjá loks niður á grænar sveitir Suðurlands.

Að leiðarlokum er vert að þakka fyrir þann mikla greiða sem Einar Kárason hefur gert okkur með því að leiða gamla og nýja lesendur inn í flókinn og heillandi sagnaheim Sturlungu og benda þar á helstu tinda og kennileiti. Þessi sagnaheimur hefur það sér til ágætis að þeir sem villast þar inn eru ólíklegir til að vilja nokkurn tíma finna leiðina út aftur. Einar bætir nýjum víddum við persónurnar, túlkar hlutskipti þeirra og viðhorf af innsæi, ómældri gamansemi og skáldlegu næmi sem fer á sérstakt flug þegar Sturla lýsir persónu Snorra frænda síns með kostum hans og göllum í Skáldi. Bækur Einars sverja sig líka í ætt við þær fornsögur sem persónurnar skrifa sjálfar að því leyti að lesandinn má skilja að klækjabrögð Sturlungaaldar varpa skæru ljósi á okkar tíma – og rifjast þá upp sögur af stjórnmálamönnum sem hafa notað Sturlungu sem handbók í bellibrögðum fram á þennan dag, í bland við Fursta Machiavellis. Um leið skilur Einar þannig við lesendur sína að þeir geta varla annað en tekið fram Sturlungu sjálfa til að komast að því hvernig þetta hafi allt saman verið „í raun og veru“.

Þar eru þeir líklegir til langdvala eftir leiðslu Einars – eins og óvenju minnugur Reykvíkingur á síðustu öld sem sú saga var sögð um að hefði haft það til marks um elliglöp á sínum efstu árum að það væru bara þó nokkur atriði í Sturlungu sem hann væri ekki lengur alveg klár á. Bækur Einars hafa aukið líkurnar á að slíkum mönnum eigi heldur eftir að fjölga á næstunni.

Gísli Sigurðsson