Steinunn Jóhannesdóttir frumsýndi verk sitt um Hallgrím Pétursson og Guðríði Símonardóttur á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi í gærkvöldi við húsfylli. Þar segir hún frá þeim hjónum, lífi þeirra hvors um sig áður en þau hittast, fundum þeirra og lífi saman og tekur frásögnin rúmlega tvo tíma með hléi. Steinunn flytur mál sitt blaðalaust, talar viðstöðulaust og málar upp á litríkan hátt ævi þessara tveggja stóru einstaklinga.

Steinunn JóhannesdóttirVið vitum talsvert um uppvöxt Hallgríms úr sögubókum æskunnar en minna um Guðríði nema við höfum lesið bók Steinunnar um hana. Sem söguefni er Guðríður mun meira spennandi en Hallgrímur; raunar er líf hennar ævintýri líkast. Hún er ung sjómannskona og móðir í Vestmannaeyjum þegar henni er rænt ásamt ungum syni sínum af grimmum sjóræningjum ásamt hundruðum annarra Íslendinga. Hún er flutt við hörmulegan kost til Algeirsborgar þar sem hún er boðin upp eins og hver önnur ambátt og seld ríkum höfðingja. Hún er í þjónustu hans árum saman áður en hún er keypt úr prísund og flutt til Kaupmannahafnar, þá komin undir fertugt. Son sinn hafði hún þá ekki séð lengi og ekki er vitað hver örlög hans urðu. Í Höfn kynnist hún Hallgrími, þá rétt rúmlega tvítugum, og þau verða svo ástfangin að þau taka saman og hún er ólétt þegar þau stinga af til Íslands og skilja aldrei framar.

Ef þetta væri ævintýri myndi það líklega enda hér á orðunum: Og þau lifðu hamingjusöm saman til æviloka.

En þetta er sannarlega ekki ævintýri. Hallgrími og Guðríði mætti margt mótlætið heima á Íslandi, réttarhöld, þrældómur og sár fátækt framan af. Af frásögn Steinunnar má ráða að þau hafi ekki verið hamingjusöm nema fáein ár eftir að Hallgrímur var kominn í prestsembætti í Hvalsnesi og þangað til þau misstu augasteininn sinn, Steinunni litlu Hallgrímsdóttur. En vissulega gekk þeim margt í haginn eftir það: Betra embætti í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, vinskapur Hallgríms við Skálhotsbiskup og fjölskyldu hans, landsfrægð fyrir fagra sálma, þeirrra á meðal Passíusálmana sem eru hátindur verka hans. Svo fær hann þann hræðilega sjúkdóm holdsveiki og deyr úr henni aðeins sextugur að aldri en Guðríður, sextán árum eldri, lifir hann í átta ár.

Steinunni verður mikið úr allri þessari dramatík og stöku sinnum urðu hástigin svolítið áberandi – svo margt var best, stærst, fegurst, verst. En þetta var skýr, greinargóð og oft mjög áhrifamikil frásögn. Þó að Steinunn dái Hallgrím sem sálmaskáld og manneskju er það þó Guðríður sem verður sterkari í huga áheyrandans eftir sýninguna, enda hefur Steinunn kynnt sér hana og ævi hennar eins vel og hægt er að hugsa sér. Í minninu situr mynd af konu á níræðisaldri sem hefur misst allt: tvo eiginmenn, fimm börn. Alein stendur hún uppi að lokum, orðin „allra kerlinga elst“, í horninu hjá eftirmanni Hallgríms í Saurbæ. Það væri gaman að vita hvað hún hugsaði þá, hvað í hennar ævintýralega lífi sat fastast í henni. Var það ástarbríminn í Kaupmannahöfn forðum – eða kannski sólarhitinn, litirnir og framandi kryddin í Barbaríinu?

Silja Aðalsteinsdóttir