La TraviataÞað mega landar mínir eiga að þeir vita hvenær þeir verða vitni að listrænum stórviðburði. Í lok frumsýningar í Íslensku óperunni í gærkvöldi var hverjum hópnum af öðrum fagnað vel og innilega: dönsurum, fjölmennum Kór Íslensku óperunnar, einsöngvurum. Hrólfur Sæmundsson (Giorgio Germont) fékk innilegt lófatak þegar hann gekk inn þriðji síðastur. Næstur kom Elmar Gilbertsson (Alfredo Germont) og lófatakið og hrópin mögnuðust um allan helming og vel það. Og þegar glæsilega vestfirska prímadonnan Herdís Anna Jónasdóttir (Violetta Valery ) gekk síðust fram þá risu menn beinlínis úr sætum, æpandi og klappandi. Það var gaman að verða vitni að því.

Íslenska óperan frumsýndi sem sé í gærkvöldi óperu Verdis um hina bersyndugu, La traviata, undir stjórn Kanadamannsins Oriol Tomas en í gryfjunni réð ríkjum Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri. Undurfallega leikmynd gerði Simon Guilbault og fór þá skynsamlegu leið að búa til abstrakt ævintýraveröld sem hægt var að breyta í hvaða umhverfi sem vera skyldi með viðeigandi fylgihlutum. Ljósahönnuðurinn Erwann Bernard varpaði sinni töfrabirtu á sviðsveggina svo að maður varð aftur og aftur alveg agndofa; þar bættust líka við myndbandsverk Felix Fradet-Faguy. Búninga hannaði Sebastien Dionne og lét ekki fara milli mála hvaða atvinnu konurnar í verkinu stunda. Danshöfundur var Lucie Vigneault og skapaði mjög litrík skemmtiatriði í viðhafnarmiklum veislum verksins.

Violetta Valery er hálaunuð vændiskona í París sem býr vel á kostnað karlmannanna sem halda henni uppi. Þegar verkið hefst hefur hún boðið til veislu til að fagna því að hafa náð sér eftir árslöng veikindi. Gastone vinur hennar (Snorri Wium) kynnir hana fyrir Alfredo Germont (Elmar Gilbertsson), ungum manni sem hefur dáð hana lengi úr fjarlægð. Hún vísar ást hans hæðnislega á bug en hann syngur svo óstjórnlega fallega aríu til að sannfæra hana um tilfinningar sínar, óræðar og óskiljanlegar eins og þær eru, að hún lætur segjast þótt hún vilji helst vera frjáls frá bindandi tilfinningum. Í öðrum þætti eru þau flutt upp í sveit með þernunni Anninu (Hrafnhildur Árnadóttir) og eru alsæl. En þangað kemur í óvænta heimsókn faðir Alfredos, Giorgio Germont (Hrólfur Sæmundsson), og biður Violettu ekki sérlega kurteislega að segja skilið við Alfredo til að afmá þann smánarblett af fjölskyldu hans að sonurinn búi með gleðikonu. Violetta kemst við af vorkunnsemi með honum og yfirgefur Alfredo. Hann eltir hana óhuggandi til Parísar og hittir hana í veislu hjá Floru Bervoix (Sigríður Ósk Kristjánsdóttir). Þar segist Violetta elska Douphol barón (Oddur Arnþór Jónsson) og Alfredo niðurlægir hana svívirðilega þangað til Violetta bugast undan árásinni. Í lokaþættinum er Violetta orðin fárveik og læknirinn hennar (Valdimar Hilmarsson) segir Anninu að hún sé við dauðans dyr. En þau Alfredo ná saman í fullri sátt áður en svo fer í ílöngu átakanlegu ástarsöngsatriði.

Herdís Anna bjó til sterka mynd af Violettu með glæsilegu, tilgerðarlausu fasi sínu. Hún leikur Violettu ekki eins og daðursdrós heldur eins og persónu sem átti kannski ekki marga aðra möguleika á að vera sú frjálsa kona sem hún vildi vera en að selja líkama sinn. Rödd Herdísar passaði líka einstaklega vel við kröfurnar sem hlutverkið gerir til hennar. Hún leikur sér á háu tónunum sem þar koma í löngum röðum, ekki síst í lokaþættinum. Hún söng sig svo sannarlega inn í hjörtu gesta í gærkvöldi.

Elmar Gilbertsson var hárréttur Alfredo, eins einstaklega fríður og gjörvilegur og hann er og röddin svo dásamlega mjúk en þó sterk á öllu tónsviðinu. Svo er hann líka fjandi góður leikari! Alfredo og Violetta eiga að vera býsna ung – fyrirmyndin að Violettu í skáldsögu Dumas, Kamelíufrúnni, dó úr tæringu aðeins 23 ára – og þó að Elmar og Herdís Anna séu ekki alveg svo ung eru þau mjög sannfærandi bæði í hlutverkum sínum. Hlutverk föður Alfredos er stórt og mikilvægt eins og Verdi sýnir með því að láta hann fá nokkrar af fegurstu aríunum í óperunni. Hrólfur fór verulega vel með þær en er dálítið stífur á sviði. Hann þyrfti að mýkjast svolítið betur þegar Violetta verður við beiðni hans, sárnauðug.

Önnur einsöngshlutverk eru smá en þau voru öll skínandi vel mönnuð og kórinn söng af kunnáttu og krafti undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Þar fannst mér dásamleg aría „sígaunakvennanna“ hápunkturinn þó að hún minni okkur, áhorfendur auglýsinga, auðvitað alltaf á dömubindi! Og ég hef orð virts tónlistargagnrýnanda fyrir því að hljómsveitin hafi leikið óaðfinnanlega undir fjörmikilli stjórn Bjarna Frímanns.

Það er full ástæða til að óska Íslensku óperunni til hamingju með áhrifamikla sýningu – og þá einkum með vel heppnað valið á Elmari og Herdísi Önnu. Þau gera þennan viðburð algera skyldu fyrir alla tónlistar- og leikhúsunnendur.

-Silja Aðalsteinsdóttir