Styrmir Gunnarsson. Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar, byltingin sem aldrei varð.
Veröld, 2017. Með hliðsjón af bókunum Allt kann sá er bíða kann, æsku- og athafnasaga Sveins R. Eyjólfssonar eftir Silju Aðalsteinsdóttur og Í liði forsætisráðherra eða ekki eftir Björn Jón Bragason.
Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2018
Ef hægt er að gagnrýna bók Styrmis Gunnarssonar Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar, byltingin sem aldrei varð fyrir eitthvað er það að hann skuli villast inn á braut sem glapið hefur margan sagnfræðinginn, semsé skýra rás sögunnar sem einhvers konar röklegt ferli þar sem menn með sínar hugmyndir, áform og líka takmarkanir eigast við; órökréttum tilfinningum þeirra, fordómum, reiði, geðsveiflum, jafnvel hreinni glópsku, er hins vegar vísað út í ystu myrkur, þar sem þeim er uppálagt að vera til friðs.
Eins og Styrmir segir sjálfur settist hann niður við að skrifa þessa bók þegar hann var orðinn úrkula vonar um að sjálfstæðismenn gerðu nokkurt raunhæft uppgjör eftir hrunið 2008, ljóst var orðið að þeir ætluðu ekki að líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig hvaða mistök þeir kynnu að hafa gert, hvort stefna þeirra í meira en áratug hefði kannski verið röng og hvað nú mætti gera til að leiðrétta siglinguna. Fylgishrun flokksins hefði þó átt að vera hvati til þess. Að vísu var ein heiðarleg tilraun gerð til að vekja máls á ábyrgð flokksins, en hún rann strax út í sandinn og þá var málið látið niður falla, þegjandi og hljóðalaust að því er virðist, en á því kann Styrmir enga skýringu.
Í frásögn hans endurspeglast því hvernig dyggur sjálfstæðismaður lítur á sögu undanfarinna áratuga, hvernig hann leitast við að finna mistökin, án þess að ráðast á flokkinn sem slíkan, og hvernig hann reynir, eins og eðlilegt má teljast, að draga fram það sem flokkurinn kann að hafa sér til málsbóta. Hvað sem annars má um frásögnina segja er hún gagnlegt framlag til umræðunnar, þarna kemur fram ein hlið málsins sem vert er að gefa gaum.
Styrmir hefur frásögn sína með stuttorðri lýsingu á stefnu Sjálfstæðisflokksins, þeirri stefnu sem gerði hann sjálfan að sjálfstæðismanni, og hann vill kenna við arfleifðina frá Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni eldra. Hún byggðist á þjóðlegum grunni, segir hann, og nefnir þá líka „varnarsamstarfið við Bandaríkin“ (sem einhver gárunginn kynni reyndar að segja að hafi tekið skoplegar dýfur síðan, en það er ekki viðfangsefni Styrmis þótt hann ýi að því síðar í bókinni), síðan dregur hann fram „áherzlu á einkaframtak og frjálsa samkeppni en jafnframt velferðarstefnu, sem segja má að hafi verið innsigluð með byltingu í félagslegri þjónustu Reykjavíkurborgar í borgarstjóratíð Geirs Hallgrímssonar. Þetta var sú grundvallarstefna sem gerði Sjálfstæðisflokkinn að svo breiðum stjórnmálaflokki sem raun varð á“ (bls. 20–21).
Nokkru síðar bendir Styrmir á athyglisverðan kafla í ferli borgarstjórans: „Geir hafði sem ungur maður haft forystu um útgáfu bókar á íslenzku eftir austurríska hagfræðinginn og heimspekinginn Friedrich Hayek, Leiðin til ánauðar. En hann hafði eins og aðrir lært margt á sinni pólitísku vegferð eins og fram kom í verkum hans sem borgarstjóra“ (bls. 22–23). Þarna er reyndar gefið í skyn að með velferðarstefnu sinni hafi Geir vikið frá kenningum Hayeks, sem hann hafi í byrjun verið hlynntur.
Hin raunverulega saga sem Styrmir vill segja hefst svo með því að ný kynslóð kveður sér hljóðs í flokknum, kynslóð frjálshyggjumanna, og hún hefur enga tæpitungu um að framundan séu „breyttir tímar“. Þennan atburð staðsetur hann vendilega í tíma og rúmi, það gerðist á fundi Heimdallar í Valhöll 26. júlí 1978, en ári síðar áréttuðu ungu mennirnir kenningar sínar í greinasafninu Uppreisn frjálshyggjunnar. Jafnframt smeygði vígorð þeirra sér inn í stefnuskrá flokksins 17. febrúar 1979, þar sem talað var um „endurreisn í anda frjálshyggju.“ Þeir voru þá samstiga bylgjunni sem var að rísa erlendis, því Járnlafðin kom til valda í Englandi í maí 1979 og Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember árið eftir.
En hvaða nýjungar voru þarna á ferli í Sjálfstæðisflokknum, hvað fólst í þessum kynslóðaskiptum? Svo er að sjá að Styrmir eigi í nokkrum vandræðum með að skilgreina þær, og vilji reyndar gera sem minnst úr þeim. Hann segir fyrst (bls. 24):
En er einhver munur á þeirri stjórnmálastefnu sem kennd er við frjálshyggju eða nýfrjálshyggju, og grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokks fyrri tíma? Það er kannske stigsmunur en ekki eðlismunur og erfitt að sjá hvaða tilgangi þessi nýja orðanotkun átti að þjóna, nema hún hafi verið hugsuð sem eins konar nýtt vörumerki. Hún hefur ekki orðið Sjálfstæðisflokknum til framdráttar heldur orðið eins konar auðkenni fyrir tilhneigingu til hægri sem er líkleg til að þrengja kjósendagrunn flokksins.
Síðar í bókinni, þegar Styrmir er að fjalla um málefni þar sem honum finnst að frjálshyggjumenn hafi vikið frá eigin kenningum, áréttar hann þessa skoðun sína enn skýrar (bls. 65): „spyrja mátti (…) hvort hugsjónabaráttan, sem hófst eftir ófarir Sjálfstæðisflokksins í tvennum kosningum vorið og sumarið 1978 hafi í raun ekki verið hugsjónabarátta heldur valdabarátta nýrrar kynslóðar, þ.e. eins konar ’68 kynslóðar Sjálfstæðisflokksins sem notfærði sér vörumerki frjálshyggjunnar sem þá var í tízku.“
Hér er allhvasst til orða tekið, og má af því ráða að í augum Styrmis hafi þessir sjálfskipuðu „frjálshyggjumenn“ ekki verið annað en ungtyrkir flokksins á þeim tíma og gripið á lofti það sem þeim gat helst dugað til framdráttar. Hann bendir líka á að í greinargerð „aldamótanefndar“ Sjálfstæðisflokksins tíu árum síðar, í október 1989, sé ekki að finna nein merki um sérstakar áherslur uppreisnarmanna frjálshyggjunnar, þar sé fjallað ítarlega um velferðarmál og engin áberandi frávik frá hefðbundinni stefnu flokksins í þeim málum. Samkvæmt þessu höfðu kenningar þeirra því lítil áhrif, brambolt þeirra var „byltingin sem aldrei varð“.
En þegar hann rekur atburðarásina sem leiddi til hrunsins verður hann þó að gera ráð fyrir stefnubreytingu, annars væri sagan óskiljanleg, og hann gagnrýnir flokksstjórnina fyrir að hafa vikið sér undan að rýna í afleiðingar hennar (bls. 30): „Sjálfstæðisflokkurinn og forystumenn hans hafa ekki séð ástæðu til að fjalla að nokkru marki um þá áhugaverðu spurningu hvort til þeirrar hugmyndafræði, sem fólst í Uppreisn frjálshyggjunnar og Leiftursókn gegn verðbólgu megi rekja margvísleg mistök landstjórnarinnar á valdatíma flokksins 1991–2009 sem sum hver hafi átt þátt í hruninu 2008.“
Þessi spurning er að vísu brýn, því eins og Styrmir segir nokkru síðar (bls. 33): „Í stórum dráttum má segja að uppreisnarmenn frjálshyggjunnar hafi á árunum 1991–2009 komið í framkvæmd þeim hugmyndum sem settar voru fram í Endurreisn í anda frjálshyggju og Leiftursókn gegn verðbólgu á árinu 1979.“
En hver var þá þessi blessuð Ella, „leiftursóknin“? Þetta skýrir Styrmir best fáeinum blaðsíðum seinna (bls. 43): „Samkvæmt henni var gert ráð fyrir stórfelldum niðurskurði útgjalda ríkisins til eyðslu og fjárfestinga, sem samtals átti að nema um 10% af heildarútgjöldum fjárlaga. (…) Þá átti að markaðsvæða bankaviðskipti. Í stað þess að opinberir aðilar tækju ákvörðun um vaxtastig átti hver banki, sparisjóður eða annars konar fjármálastofnun að hafa frelsi til að taka slíkar ákvarðanir. (…) Jafnframt skyldi verðlag gefið frjálst en fram að þeim tíma höfðu kaupmenn orðið að sæta ákvörðun verðlagsyfirvalda um álagningu. Einkavæðing ríkisfyrirtækja var boðuð, svo og stofnun verðbréfamarkaðar.“
Samkvæmt orðanna hljóðan virðist þetta þó ekki vera ýkja stórt frávik frá hefðbundinni stefnu Sjálfstæðisflokksins, og vísar einna helst til þess sem Styrmir hafði áður sagt um „stigsmun en ekki eðlismun“. Samt var þetta upphaf þeirrar leiðar sem endaði í hruninu. Um villigönguna sem þar hófst hefur Morgunblaðsritstjórinn fyrrverandi, sem hafði allar aðstæður til að fylgjast vel með atburðum, sínar ákveðnu hugmyndir sem eru reyndar mjög í anda þeirrar viðleitni hans að halda sér á lágu nótunum: ástæðan var sú að uppreisnarmennirnir – og reyndar ýmsir fleiri – áttuðu sig ekki vel á aðstæðunum á Íslandi og gerðu sér ekki grein fyrir afleiðingum stigsmunarins, enda ekki víst að þeir hefðu getað það:
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi frá stofnun sinni árið 1929 barizt fyrir frelsi einstaklingsins til orða og athafna, frjálsri samkeppni o.s.frv. er það áleitin spurning hvort frjáls markaður hafi verið til á Íslandi að nokkru marki þegar uppreisnarmenn frjálshyggjunnar komu fram á vígvöllinn. Og þá jafnframt hvort sjálfstæðismenn hafi í raun vitað fyrir hverju þeir voru að berjast af þeirri einföldu ástæðu að lítil reynsla var af því hvernig „frjáls markaður“ virkaði við aðstæður eins og hér, þ.e. í fámenni og fjarlægð frá öðrum löndum (bls. 50).
Og þetta áréttar hann: „Sá Sjálfstæðisflokkur, sem hóf markvissa baráttu fyrir markaðslausnum í viðskipta- og atvinnulífi á árinu 1979, með stefnuskrá á borð við Endurreisn í anda frjálshyggju og Leiftursókn gegn verðbólgu, hafði einfaldlega enga reynslu af frjálsum markaði og þeim öflum sem þar takast á en gerði sér tæpast grein fyrir því“ (bls. 51).
Afleiðingarnar verða miklar, og þá eru frjálshyggjumenn ráðþrota í sínu fyrirhyggjuleysi (bls. 34): „Jafnframt er hægt að halda því fram, að í þessum breytingum hafi falizt pólitísk bylting á íslenzka vísu vegna þess að henni fylgdi mjög breytt hugarfar. Hins vegar má líka halda því fram að uppreisnarmennirnir ungu hafi ekki gert sér grein fyrir hvernig markaðsöflin gátu virkað og þeir hafi skyndilega staðið frammi fyrir því að þau sömu öfl, sem þeir trúðu á, snerust gegn þeim og þeir höfðu ekki pólitískt afl til að koma böndum á þau.“
Og það áréttar Styrmir (bls. 89): „Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar óraði áreiðanlega ekki fyrir því sumarið ’78 að „markaðurinn“ gæti virkað á þennan veg. Þeim var vorkunn. Þeir trúðu á kenningarnar (…)“
En hann á líka til að kveða fastar að orði, og er þá ekki lengur á lágu nótunum. Hann ber fram spurningu um frjálshyggjumenn: „Eða voru þeir sjálfir innilokaðir í því sem höfundur þessarar bókar kallaði einu sinni „hugmyndafræðilegt fangelsi öfgafullrar frjálshyggju?““ (bls. 34)
Styrmir útmálar það svo í sterkum orðum hvernig villugatan leiddi menn áfram út í ógöngur, það var þó ekki the long and winding road, gatan var bein og breið og ekki sérlega löng, og þótt ýmsir sjálfstæðismenn, og kannske einkum og sér í lagi Morgunblaðsmenn, sæju hætturnar mistókust allar tilraunir til að sveigja af leið.
„Fall Sambandsins,“ segir ritstjórinn fyrrverandi (bls 62), „gerði það að verkum að ný „tækifæri“ urðu til í viðskiptum og þá kom í ljós að einkaframtaksmenn kunnu sér ekki hóf. Um þann veruleika var fjallað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins hinn 11. marz það ár“ (1990). Hann heldur svo áfram: „Tilefni umfjöllunar Reykjavíkurbréfs var að nokkrum dögum áður hafði verið upplýst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins að Eimskipafélag Íslands væri tilbúið að kaupa öll fáanleg hlutabréf í Sjóvá- Almennum á áttföldu nafnverði en þá var skráð nafnverð þeirra sexfalt. Í Reykjavíkurbréfinu var því haldið fram að hér ríktu ekki eðlileg fjárfestingarsjónarmið heldur væri hér á ferð barátta um völd (…)“ (bls. 62–63).
En þá gerðist nokkuð undarlegt og skýtur skökku við sitt hvað sem áður hafði verið sagt um ungu kynslóðina:
Viðbrögðin urðu hörð frá „ráðandi öflum“ í viðskiptalífinu í Reykjavík. En athygli vakti, alla vega á ritstjórn Morgunblaðsins, að uppreisnarmenn frjálshyggjunnar frá sumrinu ’78 gengu ekki í lið með blaðinu til þess að standa vörð um hugsjónir einkaframtaks og frjálsrar samkeppni, heldur þögðu flestir, en einn og einn gætti þess að forráðamenn Eimskips vissu af vanþóknun þeirra á þessum skrifum (bls. 64).
Á sama tíma fjallaði blaðið um kvótakerfið og gerði kröfur um auðlindagjald fyrir nýtingu fiskimiðanna. Það leiddi til þess „að næstu árin stóð yfir heilagt stríð milli blaðsins og tveggja helztu máttarstólpa Sjálfstæðisflokksins, útgerðarinnar og viðskiptalífsins“. Ritstjórarnir voru kallaðir verstu ónefnum, þeir væru „sósíalistar“ eða jafnvel „síðustu sósíalistarnir“ (þetta var vitanlega laukrétt, a.m.k. hvar Styrmi snerti).
Hér voru ritstjórar Morgunblaðsins að því er virðist raddir hrópendanna í eyðimörk frjálshyggjunnar, en ráðamenn flokksins höfðu ráð til að tjónka við yfirgang kapítalista við einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Samt komu þá upp hnökrar sem gerðu þau ráð að engu (bls. 73):
Þeir hnökrar sneru að sölu á 49% hlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA). Í stað þess að sú eignaraðild yrði dreifð eins og Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, hafði boðað í samtali við Morgunblaðið 8. ágúst 1998 tókst bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum að eignast þann hlut að verulegu leyti með viðskiptum með kennitölur, sem var nýjung á Íslandi og seldu hann síðan aftur einkaaðilum með verulegum hagnaði en viðskiptin að sjálfsögðu fjármögnuð að miklu leyti af seljendum. Hér var kominn vísir að þeim vinnubrögðum sem áttu eftir að móta og einkenna fjármála- og viðskiptalíf á Íslandi fram að hruni.
Styrmir vitnar síðan í sín eigin orð frá 2009: „(…) nú var augljóslega ekkert eftir af hugmyndum lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar um dreifða eignaraðild að bankakerfinu.“
Og dregur loks ályktun af þessu (bls. 73):
Þegar hér var komið sögu stóðu uppreisnarmenn frjálshyggjunnar frá sumrinu ’78 frammi fyrir hörðum og ísköldum veruleika. Hvað var orðið um hugsjónir þeirra og raunar okkar eldri sjálfstæðismanna, sem vildum gjarnan halda í hið gamla heiti að vera sjálfstæðismenn en ekki taka upp hið nýja heiti frjálshyggjumenn (enda voru sumir okkar kallaðir „miðjumoðsmenn“ til aðgreiningar) um einkaframtak og frjálsa samkeppni? Þarna var að verða til „klíkukapítalisminn“ (…)
Hvað var orðið um hugsjónir frjálshyggjumanna? Spurningin hvílir á þeirri forsendu að hugsjónir þeirra og eldri kynslóðar sjálfstæðismanna hafi verið nokkurn veginn þær sömu, kannski með einhverjum stigsmun, en þegar hér er komið sögu fer að verða bagalegt að þetta skuli ekki hafa verið skýrt ítarlegar. Nú liggur leiðin beint til þess sem Styrmir kallar „klíkukapítalisma“, sem er þýðing á „crony capitalism“, en orðið er hér að vísu ranglega notað eins og síðar verður bent á. Það koma semsé fram risastórar fjármála- og viðskiptablakkir sem fara sínu fram í einu og öllu án þess að nokkur geti stemmt stigu við því, enda er það varla reynt. Þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn eru einkavæddir eru allar hugmyndir um „dreifða eignaraðild“ úr sögunni, en það vill Styrmir að vísu ekki skrifa á reikning frjálshyggjunnar, hér voru engin markaðsöfl að læðupokast, þetta var pólitísk ákvörðun, segir hann, ákvörðun sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn tóku í sameiningu, en hann fer ekki nánar út í þá sálma, né þann blekkingavef sem um það mál var ofinn.
Síðasta tilraunin til að koma einhverjum böndum á yfirgang þessara risablakka, segir Styrmir, voru fjölmiðlalögin, en þau náðu ekki fram að ganga af ástæðum sem sjálfstæðismenn voru saklausir af. Um þessa skoðun er Styrmir ekki einn, sennilega var hún úbreidd meðal sjálfstæðismanna, eftir hrunið. Í bók sinni, sem fjallað verður um hér á eftir, segir Björn Jón Bragason þetta: „Drífa Hjartardóttir, sem á þeim tíma var formaður þingflokks sjálfstæðismanna telur að fjölmiðlamálið marki þáttaskil. Frá og með því máli gáfust stjórnmálamenn upp við að hafa hemil á viðskiptalífinu“ (bls. 135).
Samkvæmt kenningu frjálshyggjumanna var það heldur ekki hlutverk þeirra að gera það, þeir áttu að halda að sér höndum og leyfa ósýnilegu hendinni að leika sínar sjónhverfingalistir. En hvað um það, eftir þetta lék fjandinn lausum hala, og sá hali var langur. Styrmir rekur nú það ástand sem varð. Alls konar misferli viðgekkst:
Vísbendingar, sem erfitt reyndist að sanna – þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Morgunblaðsins til þess – voru um að ekki væri allt sem sýndist á hlutabréfamarkaðinum. Þær voru á þann veg, að svo virtist sem einstakir hlutabréfasjóðir héldu uppi kaupum og sölum á hlutabréfum í því skyni að halda uppi og ráða verði hlutabréfa. Þar var kominn vísir að þeirri markaðsmisnotkun, sem Rannsóknarnefnd Alþingis taldi bankana hafa stundað og sumir forráðamenn þeirra hafa hlotið dóm fyrir“ (bls. 88).
Því nú var orðið til „auðugt fólk á Íslandi af stærðargráðu sem alla vega hafði ekki þekkst á Íslandi á þeim tíma og sennilega ekki öldum saman“ (bls. 47), og það fór sínu fram í einu og öllu, í viðskiptum á mörkum lagaramma og í persónulegum lífsstíl. Almenningi ofbauð þetta peningaflóð og þetta hömlulausa ríkidæmi með lúxusvillum, einkaþotum og uppstertri sýndarmennsku. Það var hálfgert feimnismál hvaðan allir þessir peningar kæmu, en svo fréttist að uppsprettan væri að verulegu leyti ódýr lán, sem þá var nóg af, upprunnin úr Asíu, og væru svo endurgreidd með öðrum lánum.
Sú saga sem Styrmir segir er afskaplega skýrt og rökrétt ferli, ungir menn komu fram með hugmyndir sem virtust vera hugsjónir Sjálfstæðisflokksins í nýjum og betri búningi, og farið var að hrinda þeim í framkvæmd en án þess að gæta þess hvort réttar forsendur væru fyrir því á Íslandi, hvort þær væru í rauninni framkvæmanlegar. Svo reyndist ekki vera, og þá stóðu frjálshyggjumenn uppi sem fávísir lærisveinar galdrameistarans Hayeks, en án þess að nokkur kynni galdraþuluna sem gæti skakkað leikinn (enda með öllu óvíst að Hayek hefði kunnað hana sjálfur). Í allri sinni frásögn tekur Styrmir á Sjálfstæðisflokknum með mjúkum silkihönskum, og það kemur einnig fram í því að hann tíundar vendilega ábyrgð annarra flokka á því sem gerðist, það var vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar sem tók ómakið af frjálshyggjumönnum með því að leyfa framsal veiðiheimilda án gjalds, og dró lokurnar frá flóðgáttum peninganna, og svo var Sjálfstæðisflokkurinn aldrei einn í stjórn, hann var í samstarfi við aðra flokka sem dönsuðu með í frjálshyggjuballettinum.
Margt af þessu má til sanns vegar færa, en svo má líta á aðra hlið málsins sem er kannske ekki eins slétt og þjál og heldur ekki alltaf rökrétt. Til að leiða hana í ljós er ekki úr vegi að hafa til hliðsjónar tvær aðrar nýútkomnar bækur, Allt kann sá er bíða kann, æsku- og athafnasaga Sveins R. Eyjólfssonar, sem Silja Aðalsteinsdóttir skrásetti (Mál og menning 2017), og Í liði forsætisráðherra eða ekki eftir Björn Jón Bragason (Heimur 2017).
Upphaf þessa máls er stefna og hlutverk Sjálfstæðisflokksins sem einungis Styrmir skilgreinir, enda láta bæði Björn og Sveinn við það sitja að lýsa yfir stuðningi sínum við hugsjónir flokksins: „Ég er sjálfstæðismaður af hugsjón en hef ekki talið mig skuldbundinn flokknum eða einstökum forystumönnum hans,“ segir Björn (bls. 13), og Sveinn segir um sig og samstarfsmenn sína í Frjálsri fjölmiðlun: „Við vorum og erum sjálfstæðismenn af lífsskoðun en töldum okkur ekki þar með skuldbundna foringjum flokksins,“ (bls. 309). En það sem Styrmir hefur til þessara mála að leggja sýnist mér allt satt og rétt svo langt sem það nær; með velferðarstefnu sinni greindi Sjálfstæðisflokkurinn sig skýrt frá venjulegum íhaldsflokkum sem oftsinnis hafa barist gegn öllum velferðarmálum með kjafti og klóm. Þessa stefnu má réttilega kenna við „hægri kratisma“ án þess að nokkur niðrandi merking sé lögð í það orð, margur maðurinn hefur orðið hólpinn á sálu sinni fyrir að vera hægri krati.
En svo er líka allt önnur hlið á Sjálfstæðisflokknum, því miður, hana nefnir Styrmir ekki en hún skín út úr frásögnum Björns og Sveins svo hætt er við að saklaus lesandi fái slæmsku í augun: það er athæfið sem kennt er við „hagsmunagæslu“ og felst í því að halda gjöfulli verndarhendi yfir ákveðnum hagsmunaaðilum og hygla flokksgæðingum í stóru og smáu en láta aðra sitja úti á klakanum. Ein mikilvæg kraftbirting þess er sú sem almenningur hefur kallað „helmingaskiptaregluna“ (það orð notar Björn, sbr. bls. 58 og bls. 60), en hún felst í því að skipta bitlingum bróðurlega milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna þegar þeir dúsa saman í ríkisstjórn – til þess er hún sett á fót – og telja konfektmolana svo tryggt sé að báðir fái jafnt. Skýrasta dæmið um þessa reglu á árunum fyrir hrunið, svo skýrt að vart verður á betra kosið, var vitanlega einkavæðing Landsbanka og Búnaðarbanka, sem Björn rekur ágæta vel, segja má að hann taki þar við sem botninn dettur úr frásögn Styrmis. Hún tókst á þann hátt að maður gæti vonast til að það grátlega klúður yrði svanasöngur helmingaskiptanna. En kannske er það fullmikil bjartsýni. Það er þetta óheilaga samkrull og oft á tíðum leynimakk viðskipta- og fjármálamanna annars vegar og stjórnmálamanna hins vegar sem nefnt hefur verið „crony capitalism“, semsé „klíkukapítalismi“ eða „einkavinavæðing“ á íslensku (það er gersamlega út í hött og einungis til að rugla menn í ríminu að nota orðið „klíkukapítalismi“ í niðrandi merkingu um einhverjar blakkir athafnamanna, í kapítalísku þjóðfélagi eru slík fyrirbæri eðlileg, koma næstum af sjálfu sér, og óþarfi að hafa um þau önnur niðrandi orð en þau sem eiga við um kapítalisma yfirleitt).
Meðal hins breiða almennings birtist hagsmunagæslan ekki síst í persónunjósnum, þar sem gerðar voru spjaldskrár og merkt við nöfn með listabókstöfum stjórnmálaflokka, svo hægt væri að gera vel við rétta menn. Um hagsmunagæslu á þessum vettvangi hefur Sveinn sína sögu að segja (bls. 117): hann sótti um lóð í Fossvogi 1966 og fékk ekki, en það var af því að hann umgekkst ekki rétta manninn og var heldur ekki þekktur í Sjálfstæðisflokknum, „svoleiðis ómerkingar fengu ekki dýrmætar lóðir hjá Reykjavíkurborg.“
En þá kemur spurningin um frjálshyggjuna og stöðu hennar gagnvart hefðbundinni stefnu Sjálfstæðisflokksins. Var þar á milli stigs- eða eðlismunur? Til að svara henni er ekki önnur leið en rýna í rit Hayeks sem eru einföld og læsileg, kannske líka leggja á sig þá sjálfspyndingu að lesa verk Ayn Rand, og skoða svo um leið gjörningar lærisveinanna. Þá blasir við að þarna á milli er hyldýpisgjá, frjálshyggjan á alls ekkert sameiginlegt með „hægri kratisma“, hún vísar allri „velferðarstefnu“ út í ystu myrkur – slík kórvilla er einungis vís „leið til ánauðar“ – og útilokar allt annað en markaðslausnir, hún vill allan markaðinn og ekkert nema markaðinn, markaðurinn er vegurinn, sannleikurinn og lífið, án hans er ekkert nema Ginnungagap. Slíkt hefði gamli Sjálfstæðisflokkurinn aldrei sett í sína stefnuskrá, nema í einhverju villuráfandi gáleysi.
Á hinni hliðinni, hagsmunagæslunni, má reyndar finna einn snertiflöt. Það hljómar vafalaust sætlega í eyrum sumra þegar talað er um að einkavæða ríkiseignir, semsé útbýta þeim fyrir lítið milli valinna manna, sem geta jafnvel með smávegis sjónhverfingabrellum keypt ríkisfyrirtæki með peningum þess sjálfs. En þar fyrir utan er harður árekstur: ef stjórnmálamenn sleppa hendinni af atvinnulífinu, samkvæmt kokkabókum Hayeks, geta þeir engu um það ráðið hverjir verði sigurvegarar á markaðnum, hagsmunagæsla er semsé úr sögunni. Þótt þeir óskuðu þess af öllu hjarta að gæðingarnir fengju kökuna, verða þeir að horfa ráðþrota upp á það þegar hún lendir að lokum í kjaftinum á Einari í Einiberjarunni. Þetta var vitanlega það sem gerðist, fyrst voru það háhyrningarnir í Orca sem tókst á lævíslegan hátt að ná í nokkuð sem þeir áttu ekki að fá, og í kjölfar þeirra tók svo við „Baugsveldið“ sem gein yfir stóru.
Út á þetta höfðu frjálshyggjumenn, ef þeir vildu vera trúir sínum eigin kenningum, alls ekkert að setja: þetta var ekki annað en hæstaréttardómur markaðarins. Stjórnmálamennirnir hefðu getað sætt sig við það, en það gerðu forsprakkar Sjálfstæðisflokksins ekki, semsé Davíð og Davíðsrekkar, þeir undu hið versta við orðinn hlut og lögðu ekki upp laupana. Og þá hófst önnur saga sem er svo furðuleg að varla væri nema fyrir sagnaskáld að höndla hana, og hún var stór þáttur í atburðarásinni fyrir hrunið. Styrmir gerir ekki annað en tæpa á henni og frá sjónarmiði Leiðtogans en Björn og Sveinn bæta það upp, Björn lítur á söguna ofanfrá með ísköldu hlutleysi, það er eins og hann hafi verið að lesa Sturlungu áður en hann tók til við skriftir, en Sveinn segir hana frá sjónarmiði þeirra sem stóðu uppi í hárinu á Davíð, og það sjónarhorn er ómetanlegt. Hann skýtur því reyndar að í leiðinni, væntanlega glottandi út í annað, að það hafi verið hann sem hafi búið Eimreiðarklíkuna til með því að ráða Magnús Gunnarsson sem ritstjóra sem hafi svo ráðið aðra frjálshyggjumenn til starfa, og er þetta sögulegt hlutverk ef eitthvað er.
Vondir voru háhyrningarnir en verri var rosabaugur, og það sem gerði hann svo skeinuhættan var að hann réð yfir sjálfstæðu blaðaveldi, stjórnuðu af mönnum sem hlýddu ekki Flokknum. Upphaf þess veldis var Frjáls fjölmiðlun sem var valdhöfum Flokksins þegar óþægur ljár í þúfu, en hún var blásin burt með gjörningaveðri. Þegar Sveinn lítur á þessa atburði ber hann upp þessa spurningu:
Með þau ósköp í huga sem í vændum voru hef ég stundum velt fyrir mér hvers vegna ýmsir töldu sig geta haft áhrif á hvað við vorum að gera hjá Frjálsri fjölmiðlun. Ef við hefðum verið vinstrimenn hefðum við verið látnir í friði. Ekki var hamast svona á Svavari Gestssyni eða öðrum ritstjórum og útgefendum Þjóðviljans. En af því við vorum Sjálfstæðismenn töldu menn sig mega atast í okkur. Af hverju lögðu menn allt kapp á að gera okkur erfitt fyrir með fjölmiðlareksturinn? (bls. 309).
Ekki hygg ég þó að Sveinn spyrji þessa af því hann viti ekki svarið. Þjóðviljinn var Sjálfstæðisflokknum sjaldan skeinuhættur, hann var stimplaður sem „kommúnistablað“, og því hlaut flest sem í honum stóð að vera „óhróður“, enda lásu sjálfstæðismenn hann yfirleitt ekki. Allt öðru máli gegndi um blöð Frjálsrar fjölmiðlunar, þau voru lesin vítt og breitt, jafnt af sjálfstæðismönnum sem öðrum, og þar gátu birst fréttir sem komu sér illa fyrir Flokkinn, svo og sjónarmið óánægðra flokksmanna. Þetta var ógnun við valdakerfið, fátt óttuðust flokkspótintátarnir meir en menn sem voru sjálfstæðismenn af lífsskoðun en töldu sig ekki skuldbundna leiðtogum hans. Þessi staða fjölmiðlanna breyttist síður en svo þegar þeir voru komnir í hendur Baugsmanna.
Í stuttu máli, Davíð varð að því er virtist heltekinn einhverri kraumandi Baugs-meinloku sem lét hann sjaldnast í friði, hann sá Baugsmenn, Baugskonur og Baugspenna í hverju skúmaskoti, af því spratt æsispennandi atburðarás þar sem skattrannsóknir, ákærur, legorðsmál, húsleitir og handtökur tóku hvert við af öðru, kannske líka fyrirsát á flugvelli, reynt var að koma Baugsstimplinum á andstæðinga, og Jón Ásgeir var dubbaður upp í það hlutverk að vera faðir martraðanna. Væri þetta allt saman verðugt verkefni fyrir okkar efnilegu kvikmyndahöfunda, film noir til sýningar um víða veröld. Ýmsir frjálshyggjumenn spiluðu með Davíðsmegin, af ákafa miklum, þótt það bryti í einu og öllu gegn þeirra eigin kenningum, því ekki varð á móti mælt að Baugur hafði bjannak markaðarins. Þannig voru þeir í raun komnir í tilvistarkreppu líkt því sem armar þeirra væru bundnir við tvo tryllta hesta sem hlypu hvor í sína áttina. Sveinn leiðir í ljós hvernig liðinu var stýrt:
Þetta var í eina skiptið sem Davíð Oddsson kom beint framan að hlutunum og hringdi sjálfur til að koma óánægju sinni á framfæri. Það var annars aldrei hans stíll. Hann notaði yfirleitt óbein tilmæli, einhver „reykmerki“ sem menn áttu að skilja og fara eftir. Bað ekki um neitt en ætlaðist til alls. Það tókst í flestum tilfellum. Blóðhundarnir ruku af stað (bls. 304).
Og skömmu síðar hefur hann þetta að segja um „stíl“ leiðtogans:
Þeir sem þekkja Davíð vel vita að þetta er sérgrein hans: Hann kemur manninum í gálgann en þegar á að fara að sparka undan honum stólnum þá sker hann manninn úr snörunni! Svona rétt eins og Clint Eastwood … (bls. 305–306).
En almenningur fylgdist með í forundran.
Einn af hátindum þessarar meinloku var klúðrið með fjölmiðlalögin, almenningur virtist líta á það sem anga af henni, lögin væru til þess eins gerð að klekkja á Baugi, og því gat brugðið til beggja vona í þjóðaratkvæðagreiðslu um þau. Og þá sá Óli sér færi að lúskra á Dabba í frímínútunum, berja hann fyrir hans skítlega eðli, og það var allt of mikil freisting. Þetta brambolt frá upphafi til enda var vafalaust skaðlegt fyrir Baug og þá sem honum tengdust á einhvern hátt, svo sem Svein eins og hann rekur sjálfur skýrt og skilmerkilega, það var þó enn skaðlegra fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem horfði upp á fylgishrun, en skaðlegast þó fyrir stjórnmálamenn, sem almenningur hneigðist til að líta á sem hagsmunavarðhunda og meinlokudósir. Af því spratt ekki síst það litla traust sem almenningur bar um síðir til hins háa Alþingis. Það var óheillaþróun.
Fleira var þó á bak við þetta allt. Styrmir tíundar ábyrgð hinna svokölluðu „vinstri flokka“ á þeirri frjálshyggjustefnu sem leiddi til hrunsins. Þar hefur hann lög að mæla, kannske meiri lög en hann gerir sér sjálfur grein fyrir. Það er ein af undarlegustu gátum okkar tíma hvernig svo gat farið að rótgrónir sósíalistar Vesturlanda sneru skyndilega bakinu við sínum gömlu hugsjónum, velferðarríkinu sem þeir höfðu átt mestan þátt í að skapa, gleyptu frjálshyggjuna með húð og hári, gagnrýnislaust, og tóku þátt í að hrinda henni í framkvæmd, með hroka og offorsi. Þetta voru þeirra sögulegu svik; fyrir þau ættu þeir skilið að vera hirtir á blöðum sögunnar, og kannske annars staðar líka, svo sem raunin hefur orðið um sósíalistaflokkinn franska sem virðist vera að leysast upp í þessum skrifuðum orðum.
Þetta stuðlaði að því að rugla almenning enn meira í ríminu en annars hefði kannski orðið, það varð mikil hugarfarsbreyting sem höfundarnir þrír víkja að, hver á sinn hátt. Björn segir t.d. þessa sögu (bls 77): „Eyjólfur freistaði þess að gera heiðursmannasamkomulag við Jón og fól honum sjálfdæmi í málinu. Jón Ólafsson skildi sjálfdæmi eftir orðanna hljóðan og breytti samningnum fullkomlega sér í hag. Við svo búið var Eyjólfi ljóst að hér væri á ferðinni ný tegund af viðskiptamanni sem hann ætti ekki að venjast.“
Einnig víkur Björn að annarri hlið þessarar hugarfarsbreytingar, sem var reyndar afskaplega mikið í takt við það sem var að gerast annars staðar í heiminum:
(…) upplýst var að hver framkvæmdarstjórnarmaður [FBA] hefði að meðaltali 17 miljónir króna í heildarlaun og árangurstengdar greiðslur á árinu 1999, en þetta þóttu afar há laun undir lok tíunda áratugs síðustu aldar. Víglundur sagði svo háar greiðslur óhóf og vonaði að þetta yrði ekki tekið til fyrirmyndar. Þorsteinn Ólafsson, fráfarandi formaður stjórnar, var á öðru máli. Hann taldi þessar tölur tímanna tákn. Yfirmenn bankanna væru raunverulega á alþjóðlegum markaði. Aðalfundurinn samþykkti hæstu arðgreiðslur sem um hafði getið hjá íslensku fyrirtæki eða 1.200 miljónir króna alls. (…) Í þessu sambandi er rétt að huga að því að laun stjórnenda í fyrirtækjum áttu eftir að hækka stórkostlega á næstu árum (bls. 44).
Við þetta fór svo, segir Björn, að ýmsir urðu helteknir af eigin yfirburðum í viðskiptalífinu og töpuðu áttum á sama tíma og ofgnótt var af lánsfé á góðum kjörum (bls. 181).
Davíð hrósar sér af því að hafa átt þátt í þessari hugarfarsbreytingu, heldur fávíslega ef á heildina er litið. Björn hefur þetta að segja (bls. 144): „Sjálfur kveðst Davíð vera stoltastur af því að hér á landi hafi orðið „eiginleg hugarfarsbreyting þannig að Ísland varð nútímaríki, ef svo má að orði komast. Ég er ekki að þakka mér það persónulega en ég átti þátt í að stuðla að því.““
Öllu þessu lauk svo um síðir með skelfilegu bomsarabomsi, sem ófáir urðu að súpa seyðið af. En eftir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis varð fátt um uppgjör, eftir að hún var birt virtist málið detta niður í einhvern vetrardvala. Eini stjórnmálaflokkurinn sem sýndi einhvern lit á því var einmitt Sjálfstæðisflokkurinn, en af því sem gerðist á landsfundinum fræga í lok marsmánaðar 2009, þegar rætt var um svonefnda endurreisnarskýrslu, segja Styrmir og Björn hvor sína sögu, og er mér til efs að jafnvel reglur Bernheims um heimildarýni dugi til að finna wie das eigentlich gewesen.
Svo segir Styrmir:
Því var haldið fram á þeim tíma að Davíð Oddsson fyrrverandi formaður flokksins hafi með óvæntri ræðu á landsfundinum „drepið“ viðleitni til uppgjörs flokksins við eigin verk. Það hafa mér alltaf þótt undarlegar kenningar (…).
Vel má vera að einhverjum hafi þótt Davíð senuþjófur á þessum fundi. Ræða hans kallaði fram hvað eftir annað hlátrasköll, lófaklapp, fundarmenn risu úr sætum o.s.frv. og augljóst að hylli hans meðal þeirra trúnaðarmanna Sjálfstæðisflokksins sem þarna voru saman komnir, var engu minna en áður.
En í stað þess að halda áfram eftir landsfundinn því uppgjöri sem þarna hófst, virðist því hafa verið hætt sem voru alvarleg mistök (bls. 101).
Svo mælir Björn: „Davíð sté í pontu á fundinum og sagði „hina svokölluðu endurreisnarskýrslu“ vera „mikla hrákasmíð“, illa samda og fulla af rangfærslum: „Ég sé mikið eftir þeim fallega trjágróðri sem felldur hefur verið til að prenta þetta plagg í stóru upplagi,“ sagði Davíð og sveigði sérstaklega að Vilhjálmi Egilssyni, formanni endurreisnarnefndar flokksins. (…). Vilhjálmi og fleirum var svo misboðið að þeir gengu út úr salnum. Hann sagði að góður andi hefði myndast fyrir umbótum en Davíð hafi „unnið það óhappaverk að rífa verk endurreisnarnefndarinnar niður“. Svo fór að Geir H. Haarde, formaður flokksins, varð að milda flokksmenn daginn eftir og lýsa því yfir að Davíð hefði vegið ómaklega að Vilhjálmi“ (bls. 216).
Það var og.
En það er vafalaust sannast sagna að enginn stjórnmálaflokkur hafði neinn raunverulegan vilja til að gera upp málin eftir hrunið, til þess voru þeir allt of samábyrgir. Og að því búum við enn, enginn hefur gert upp sakirnar við frjálshyggjuna og „hugarfarsbreytinguna“. Þeir sem báru mesta ábyrgð höfðu allt sitt á þurru og þeir sem ekki hanga í skúmaskotum við að endurrita söguna ganga um í björtu dagsljósi jafn uppstertir og fyrr, fyrir framan nefið á þeim sem hrunið bitnaði á.
Að lokum er rétt að geta þess að þessar þrjár bækur eru afskaplega vel skrifaðar og munu vafalaust koma að góðu gagni þegar Sturlunga vorra daga verður letruð. Í þeim eru til dæmis varðveitt tilsvör sem gefa tilsvörum Sturlungu hinnar fornu ekkert eftir, til dæmis:
„Gefum helvítinu hitaveituvatn.“
„Það mætti hafa einum fleiri rétta á forsetamatseðlinum.“
„Burt mun skuld. Mig langar í pylsu.“
„Ég er fasteign án leyndra galla.“
„Þú mátt alveg taka myndir, Gunnar, og senda fjölmiðlum. Bæði hérlendis og í Bretlandi.“