MP5Það er rífandi skemmtileg leiksýning í Tjarnarbíó núna á vegum Sóma þjóðar, stutt og snöfurleg sýning sem heitir eftir hríðskotabyssunum sem bárust til landsins á dögunum: MP5. Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson skrifuðu verkið og leika í því saman auk þess sem þeir leikstýra sér í sameiningu.

Við erum stödd úti í geimi eftir um það bil fjögur hundruð ár. Ísak (Tryggvi) og Vilhjálmur (Hilmir) eru í afmörkuðum hluta geimstöðvarinnar Pandóru, væntanlega sem fulltrúar einhverrar þjóðar sem er aldrei nafngreind. Þeir una glaðir við tedrykkju og vinalegt spjall þegar tilkynning berst um bruna í geimstöðvarhluta Bandaríkjamanna. Umsvifalaust er öllum dyrum milli hlutanna lokað og klippt á samskipti. Þeir félagar opna neyðarkassann á sínu svæði og eru í óðaönn að tékka á að í honum sé allt sem þurfi til að lifa af (upptalningin var grátlega fyndin) þegar þeir koma niður á hríðskotabyssu. Af hverju byssu? spyrja þeir hvor annan steinhissa. Ekki getur hún gert neitt gagn en hins vegar valdið algerrri eyðileggingu sé hleypt af henni inni í geimstöðinni svo að gat komi á súrefnisrými hennar. Þrátt fyrir undrunina fer þó svo furðu snögglega að þeir félagar fara að togast á um vopnið, upp kemur togstreita milli þeirra og eldfim samkeppni sem verður fljótlega stórhættuleg.

Hér er sýnt vígbúnaðarkapphlaup eins skýrt og verða má og makalaust að ekki skuli þurfa meira en tvo stráka og eina byssu (eða tvær …) og um það bil fimmtíu mínútur. En veldur hver á heldur: Textinn er glöggur, fyndinn og snarpur og framvinda verksins merkilega sannfærandi. Gömlum herstöðvaandstæðingi sem með mér var á sýningunni fannst kalda stríðið á síðari hluta 20. aldar stinga þarna allt í einu upp kollinum í fáránlega smárri en eiturskýrri mynd. Leikurinn er líka ísmeygilega góður – okkur finnst þetta vera strákar í leik þangað til við áttum okkur á því að leikurinn breytist í dauðans alvöru þegar vopnin verða ekta og gagnkvæm tortryggni fer að spretta. Mér finnst að forsvarsmenn lögreglu og landhelgisgæslu eigi að sjá þessa sýningu.

Silja Aðalsteinsdóttir

Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson

Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson