Það er vel hægt að dást að fólki sem fer sjálfviljugt að sjá þriggja tíma leikrit um tvo iðjuleysingja sem bíða eftir manni sem kemur aldrei og masa saman á meðan um svo sem ekki neitt – skó sem meiða, hvort þeir séu á réttum stað og réttum tíma … En það var fullt hús á Beðið eftir Godot í gærkvöldi á litla sviði Borgarleikhússins þar sem Kvenfélagið Garpur stendur að nýrri uppsetningu á þessu makalausa leikriti Samuels Beckett í prýðilegri þýðingu Árna Ibsen. Og ekki sá ég að nokkur manneskja færi heim í hléi. Þó vantaði ekki fullyrðingarnar frá þátttakendum um að verkið væri bæði langt og leiðinlegt!

Beðið eftir GodotKristín Jóhannesdóttir leikstýrir verkinu í þetta sinn og verkefni hennar er eiginlega tvöfalt. Því leikararnir eru konur sem fyrst leika karlmenn og síðan hlutverkin í leiknum. Kristín hefur þurft að passa að þær dyttu a) ekki út úr karlhlutverkinu og b) ekki heldur út úr hlutverkum sínum í leikritinu. Þetta hefur líklega ekki verið mikill vandi með þær Ólafíu Hrönn Jónsdóttur/Hannes Guðmundsson/Estragon og Halldóru Geirharðsdóttur/Smára Einarsson/Vladimir, þær eru svo útsmognar, fjölgáfaðar og reyndar. En tvöfeldnin hélt ekki eins vel hjá Sólveigu Guðmundsdóttur/Halldóri Jónssyni Maack/Pozzo og Alexíu Björgu Jóhannesdóttur/Jóni Hlöðveri Böðvarssyni/Lucky. Það kom þó ekki að sök nema í löngu ræðunum þeirra sem urðu dálítið áreynslukenndar.

Það sem hefur glatt fólk við þetta verk og heldur áfram að gleðja það áratug eftir áratug held ég að sé hvað það er opið fyrir túlkunum. Jafnvel fólk sem skilur allt jarðneskum skilningi fer að sjá að maður verður að fara út fyrir verkið til að ná safanum úr því. Til dæmis hljóta allir áhorfendur, sósíalískir raunsæismenn meðtaldir, að spyrja sig: Hver er Godot? Af hverju verða Estragon og Vladimir að bíða eftir honum dag eftir dag, kvöld eftir kvöld, þó að þeir viti innst inni að hann kemur ekki? Aldrei? Þegar ég hlustaði á masið í þeim í gærkvöldi varð mér hugsað til merkilegrar konu sem ég skrifaði einu sinni bók um. Hún hét Ingibjörg Einarsdóttir, var leikkona og notaði sviðsnafnið Inga Laxness – enda hafði hún verið gift Halldóri Laxness. Eitt af því skemmtilega við hana var að hún átti alltaf von á einhverju dásamlegu handan við næsta horn. „Um leið og maður hættir að bíða er eins og maður deyi,“ sagði hún. Þannig er lífið, er það ekki, löng bið eftir einhverju sem við vitum ekki hvað er? Auðvitað gætum við vel hengt okkur ef okkur leiðist þessi bið, eins og þeir félagar kalsa um, en þá er líka allt búið.

Það er satt að segja engu líkt að horfa á þær Halldóru og Ólafíu Hrönn takast á við þessi hlutverk. Helga I. Stefánsdóttir klæðir þær í föt sem draga mjög úr kvenleika þeirra en gera þær heldur ekki karlmannlegar. Það er snjöll hugmynd að hafa snjó á einföldu sviðinu, færir verkið nær okkur hér. Manni skilst að Beckett gefi ströng fyrirmæli um sviðsbúnað, þar megi ekkert vera nema eitt laufvana tré, en tæpast hefur honum hugkvæmst að banna að þeir félagar gengju á – eða veltu sér upp úr –  snjó fremur en einhverju öðru.

Silja Aðalsteinsdóttir