Íslendingablokk

Pétur Gunnarsson: Íslendingablokk.

JPV útgáfa, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2013

I

Klæjar í fingurna að slá orð eins og „veröldin“ og trúa því að það iði allt af lífi eins og gerlar í dauðu kjötstykki? Nei, eins og loftið yfir heilli sinfóníuhljómsveit.
(Sagan öll, 52)

Einhvernveginn hefur mér alltaf þótt þetta vera Pétur Gunnarsson. Að svona vildi hann að starf rithöfundarins væri – beint samband milli orðanna og myndanna í höfði viðtakandans. Að í sameiningu væru höfundur og lesandi eins og einn af þessum nýju og spennandi (og stórhættulegu) þrívíddarprenturum sem geta endurskapað hluti, óbreytta og milliliðalaust.

Þessa hugmynd má finna víðar í verkum hans:

Ef þú segir ekki „fugl“ er enginn fugl.
(Dýrðin á ásýnd hlutanna, 9)

Hin hliðin er svo trúin á að það sé hversdagsleikinn sem eigi að lýsa. Venjulegt fólk, bjástur þess og líf. Hversdagshallirnar. Blokkirnar. Sé það sem þar er að finna ekki frásagnarinnar virði, hvað er það þá?

Hvers vegna er ekki nógu merkilegt að skoða af öllu afli það sem er?
(Dýrðin á ásýnd hlutanna, 17)

Að skoða það sem er og segja einfaldlega frá því. Þarna er draumurinn.

Auðvitað – blessunarlega – tekur Pétur sjálfur ekki þetta meðal sitt. Hann er einmitt svo ótrúlega flinkur að skrifa yfirtónana. Að varpa ljósi hins sérstaka og goðsagnakennda á hversdaginn, og teikna útlínur þess óvenjulega með glannalegum tengingum við lítilfjörlegasta bjástur. Í þetta sækja stóru sagnabálkarnir tveir orku sína og spennu. Þannig gat hann skapað sína stórkostlegu tíðarandalýsingu Reykjavíkur bítlaog hippatímans. Með þessum aðferðum er hægt að ramma Íslandssöguna alla inn í form skáldsögunnar án þess að drekkja okkur í texta, staðreyndum og lýsingum. Svona verður samhengi til.

Strax í „Andrabókunum“ varð til tónn þar sem hversdagslíf fólks fékk lyftingu með að því er virtist áreynslulausu andríki þar sem óvænt sjónarhorn, snjallar tengingar ólíkra hluta og ljóðræn tilfinning skapaði það sem Beryl McAlhone kallaði „A smile in the mind“ í frægri og mikilvægri bók um grafíska hönnun. Pétur er svo sannarlega ekki bara að skrifa „veröldin“ á vegg og vona það besta.

II

Þegar kvöldar breytist blokkin sem allan daginn hefur staðið steinrunnin og dauðyflisleg í skoðunarvegg þar sem gluggarnir eru sjónvarpsskjáir raðað saman á hlið og upp í loft og eitthvað að gerast í öllum: fólk svífur á milli herbergja, torráðnar hreyfingar á bak við gluggatjöld, leiðslukennd leiklist.
(Dýrðin á ásýnd hlutanna, 16–17)

Dýrðin á ásýnd hlutanna, sýnisbók úr vasabókum höfundar, kom út 1991. Samkvæmt lokasíðu hóf Pétur að skrifa Íslendingablokk árið 1992 og lauk henni 2012. Það er freistandi að horfa á þessa glósu sem tilurð rammans. En kannski ekki miklu meira en það.

Tuttugu ár er langur meðgöngutími. Það er ekki hægt að segja að þess sjáist merki, önnur en þau að formið leyfir Pétri að flétta – eða flétta ekki – saman bútum og hugmyndum sem hafa kviknað á ólíkum tímum. Hýsa persónur af allskyns sauðahúsi og sundurleitum uppruna. Nota svo beinar tilvísanir í samtímann eins og einhverskonar öfugsnúna fjarvistarsönnun. Návistarsönnun:

Sigga sagðist ætla að kjósa Þóru. Hákon ætlaði að skila auðu. Konurnar höfðu ekki gert upp hug sinn … (126)

Höfundi er í mun að sannfæra okkur um að sagan gerist hér og nú. Nákvæmlega á tímum útgáfu bókarinnar. Allskyns tilvísanir í nánasta samtíma eru talsvert áberandi. Merkilegt samt að finnast þörf á að kalla helsta ókeypisdagblaðið „Fríblaðið“. En Þóru samt Þóru.

Kannski er þó engin samtímatengingin eins skörp og lokaorðin, grafskrift Indriða tollara sem verður að teljast formleg aðalpersóna verksins. Hann deyr 17. september 2012.

Þessi þörf til að staðsetja verkið í strangasta núi er forvitnileg, aðallega vegna þess að hún er svo óþörf. Engar persónanna glíma þannig við samtímann að það skipti öllu máli að það fari ekki á milli mála hvar í upphafi 21. aldarinnar við erum stödd. Þetta er vel að merkja ekki bók um Hrunið, eða Post- Hrunið. Þetta er bók um fólkið í blokkinni. Reyndar eru þau sem hafa safaríkustu söguna að segja einmitt þau sem tíminn vill síst tengja sig við.

III

Mér finnast gömlu karlarnir skemmtilegastir. Upphafsatriði bókarinnar, þar sem gamall ekkjumaður, eiginlega óökufær eftir heilablóðfall, stelst suður í kirkjugarð til að keyra upp með bílvélinni jólaseríuna á leiði konu sinnar, og sínu eigin, því legsteinninn ber einnig hans nafn, er engu líkt.

Saga Indriða tollara (því þetta er hann) væri í sjálfu sér kappnóg efni í fína skáldsögu. Jafnvel skáldsögu eftir Pétur Gunnarsson.

Það sama má segja um Adda rakara, með sína nostalgísku stofu við dómkirkjuna – og Alþingishúsið – og það kúnnasett sem því fylgir. Að ógleymdum söknuðinum eftir eiginkonunni og týnda bróðurnum.

Undir lokin sjáum við aðra yfirþyrmandi mynd sem kallast á við Indriða í kirkjugarðinum – þegar rakarinn finnur innvolsið úr Reykjavíkurapóteki í geymslu á Árbæjarsafni, og við vitum að hann var svo skotinn í stelpunni þar og giftist henni – og lýsingin af því þegar hún deyr er einn af hápunktum bókarinnar.

Þetta er andartak svo mettað merkingu að manni finnst að saga Adda væri efni í heila bók. En Pétur er staðfastur í þeirri trú að það þurfi bara að skrifa „veröld“. Engin þörf að ýta á eftir því sem raunverulega er í frásögur færandi. Það sér um sig sjálft.

Við söknum þess samt, kannski einna helst vegna þess að við staðfastir lesendur hans vitum hvað hann er flinkur að ýta.

Besti vinur Indriða, fraktsjóarinn Hreggviður, með sínar minningar um fljúgandi furðuhluti, er svo líka maður sem mann langar alveg að kynnast betur.

Mér gengur verr að tengja við yngra fólkið. Hansi fríhafnarstarfsmaður verður aldrei áhugaverður og sennilega hefði furðufuglinn Máni sem býður sig fram í forsetakosningum þurft mun meira pláss til að hans litríka saga næði flugi. Framboðsbröltið verður dálítið mikið utan á.

Af yngri deildinni er mestur fengur af Kötu, skáldkonunni rittepptu og ástarþríhyrningnum sem hún er eitt hornið á. Hennar bjástur í lífi og starfi er trúlega efni í róman. Ekki samt viss um að sú bók væri eftir Pétur Gunnarsson.

Einn eftirminnilegasti kaflinn er samt gönguferð fjölskyldu Kötu skáldkonu í Laugardalnum á nýjársdag – foreldrarnir að reyna að fela hjónabandsbrestina fyrir barninu. Þessi samtalsglefsa um útbrunna rakettu gæti sem best hafa orðið eftir þegar lokahönd var lögð á Punktur punktur komma strik:

Hún getur verið full af ógeði! æpti konan. Sóti! áréttaði maðurinn. (15)

IV

Hann (Kjarval) kunni þessa list að sjá undur og stórmerki í hversdeginum. Þau eru alls staðar! að vera kominn upp í bústað er kraftaverk. Að setja niður kartöflur er kraftaverk. (80)

Lífssögur flestra persóna Íslendingablokkar myndu duga vel í prýðilegar og áhrifamiklar skáldsögur af ákjósanlegri stærð. Er það galli hvað Pétur fer frjálslega, kæruleysislega með efniviðinn? Ekki finnst mér það.

Er það galli hvað persónugalleríið, hvað meðlimir húsfélagsins hafa lítil áhrif hver á annan? Ég veit það ekki. Megnið af örsögunum, myndunum, persónulýsingunum eru skemmtilegar, margar áhrifaríkar. Sumar sitja í minninu. Er það ekki nóg?

Þetta er jú blokk. Hver og einn lifir sínu lífi. Að skálda upp þræði milli þeirra hefði trúlega rústað þeim áhrifum. Pétur fer mjög hóflega í að tengja fólkið saman. Eðlilega, það að þau eru þarna öll hefur ekkert með líf þeirra að gera. Þau búa bara þarna.

V

Einkennilegasta persónan, skrattinn úr sauðarleggnum, birtist á bls. 37:

Þegar Flóki sneri aftur með greiðsluna var ég kominn í stólinn …

Við erum stödd á rakarastofu Adda og það er ekki nóg með að séra Flóki, sem annaðhvort er úr Efstu dögum eða þessvegna úr Langholtskirkju, sé staddur þar: Sjálfur Pétur Gunnarsson hefur hlammað sér niður í söguna miðja. Því ég geri ráð fyrir að þetta sé hann.

Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um það. Sögumannsrödd bókarinnar er alvitur, sér í hug allra persónanna sem hún kærir sig um. Hvað er þá þessi „ég“ að þvælast þarna eins og hver annar íbúi? Mig langar ekkert í vangaveltur um sögumenn og sjónarhorn og bókmenntafræði. Ég vil bara vita hvernig fer fyrir Indriða, Kötu og Adda. Ég fæ enda frekar lítið að vita um þennan „Mig“, þó hann taki talsvert pláss í bókinni.

Hr. „Ég“ er ekki fyrr búinn að fá rakaraþjónustuna en hann er orðinn að einhverskonar brennipunkti persónugallerísins – fyrirlesari á endurmenntunarnámskeiði um Dante, þar sem nokkrir blokkarbúanna mæta. Dante?!

Það þykja mér skrítnir kaflar. Eitt er nú hvað þeir eru nálægt því að vera samhljóða endursögn á útleggingum á Gleðileiknum guðdómlega í Vélum tímans:

Flórensborg er álíka stór stjórnmálaeining og Ísland ekki undir neinn kóng sett […] Á miðöldum er ekki búið að finna upp stjórnarandstöðuna, þeir sem verða undir eru ævinlega drepnir eða reknir í útlegð …
(Vélar tímans 96, Íslendingablokk 61)

Af hverju er þetta? Hvers vegna er þetta orðrétt? Það er auðvitað pínu skemmtilegt að átta sig á því, en hefur það einhverja viðameiri þýðingu?

Textatengslin eru reyndar víðtækari – þannig er skáldkonan Kata sett í það að þýða „Kynlíf Catherine M“, sem einnig er lagt út af í Vélum tímans. Þórbergur og grafskrift hans um lönd fátæktar og forheimskunar koma líka við sögu.

Þetta er allt fínt. Enn eitt söguefnið sem hefði dugað í heila bók væri skrautlegur hópur á Dante-námskeiði og hvernig stefnumótið við þetta höfuðrit kristninnar hefði áhrif á persónurnar. Gæti t.d. orðið aldeilis stórkostlegt leikrit.

En þetta er ekki leikrit. Þetta er ekki einu sinni bók þar sem svona vinklar eru velkomnir. Finnst mér. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað Dante er að gera þarna. Sem væri allt í lagi ef ég hefði ekki þessa nagandi tilfinningu að mér beri að skilja það. Tilfinningin er sem því nemur ágengari sem hún er óvenjulegri í samskiptum við texta Péturs Gunnarssonar, sem segir yfirleitt það sem hann meinar og veit hvað hægt er að komast langt í átt að dýrðinni með ásýnd hlutanna eina að vopni.

Mér finnst þetta samt öðrum þræði mjög heillandi. Skýr tengsl þessarar einörðu nútímasögu við bálkinn um sögu Íslands og heimsins og þaðan við endurreisnarstórvirki Dantes. Eins einkennilega og það kann að hljóma þá minnir þetta mig ekki jafn sterkt á neitt og Stephen King, sem hefur tengt megnið af sínum bestu skrifum á síðari hluta ferilsins við stórvirkið „The Dark Tower“, sem aftur er innblásið af ljóði eftir Robert Browning. Persónur úr bálkinum dúkka upp í ótrúlegustu sögum, atburðir í þeim hafa áhrif á það sem gerist í heimi Myrkraturnsins, allt tengist. Kannski er Íslendingablokk „Insomnia“ Péturs Gunnarssonar.

Þú þarft ekki annað en að vélrita orðið „veröld“ og allt fer á ið.

VI

11. desember í fyrra skrifaði ég þetta á Fésbók:

Ég kann vissulega ekki jafn vel við alla í stigaganginum í Íslendingablokk Péturs Gunnarssonar, en ég er strax kominn í traust vinfengi við gömlu kallana: Indriða og Hreggvið og Adda rakara. Ef blokkin væri parhús og þeir einu íbúarnir myndi ég vera þar tíður gestur. En sem aðdáandi þá treysti ég Pétri og mun lesa hana aftur. Þá kannski læri ég að meta minni spámennina og skil hvað Dantepælingarnar eiga að fyrirstilla.

Nú hef ég lesið hana aftur. Og Vélar tímans, sem ég átti ólesnar þegar ég fór í mína fyrstu húsvitjun. Ég er svolítið á sama stað með Íslendingablokk. Vináttan við hópinn sem ég kynntist þá hefur dýpkað, ég er farinn að þekkja nöfn og andlit hinna aðeins betur. Ég er búinn að fara á Dante-námskeiðið og fannst það fínt, þó ég geti ekki tengt það af neinu viti við annað sem ég er að bjástra í þessari blokk. Sennilega er þetta bara nóg samt.

Mér líður vel hér. Hlakka til næsta húsfélagsfundar.

Þorgeir Tryggvason