Fimmta leikgerðin af Sölku Völku Halldórs Laxness var frumsýnd á stóra sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Ég hafði séð þær fjórar sem á undan fóru en þær eru misjafnlega minnisstæðar. Raunar man ég langbest eftir þeirri fyrstu, frá 1982, sem Stefán Baldursson leikstýrði. Guðrún S. Gísladóttir er ógleymanleg í titilhlutverkinu og ég get ennþá kallað lokasenuna fram í hugann.

Salka Valka þeirra Yönu Ross leikstjóra og Sölku Guðmundsdóttur dramatúrgs, sem saman gera nýja leikgerð af sögunni, er tvöföld í roðinu. Á sviðinu er verið að kvikmynda sögu Halldórs Laxness og hefur Halla leikstjóri (Halldóra Geirharðsdóttir, sem líka leikur Sigurlínu) valið yfirgefna verksmiðju af einhverju tagi sem tökustað. Sviðið er hannað af Michał Korchowiec og mér fannst það stórbrotið. Halla er undir áhrifum frá Lars von Trier, gömlum skólabróður úr kvikmyndaskólanum, eins og hún segir blaðakonu (Sigrún Edda Björnsdóttir) í viðtali, og getur settið til dæmis minnt á kvikmyndina Dogville. Halla hefur líka valið ákveðin kjarna-atriði úr sögunni til að mynda og við fylgjumst með því þegar þau eru tekin upp og samskiptum leikaranna á milli. Þessi leið að sögunni fannst mér afar skemmtileg og virka bráðvel fyrir mína parta þó að hún sé ef til vill nokkuð sundurlaus fyrir þá sem ekki þekkja söguna. Þriðja lagið í sýningunni, ef svo má segja, er svo hópur af túristum sem er á þvælingi kringum verksmiðjuna og rekst stundum þangað inn. Þessi þáttur í sýningunni var stundum fyndinn en varð býsna þreytandi þegar á leið.

Salka ValkaEins og skilja má á þessari lýsingu er það ekki beint Salka Valka Halldórs Laxness sem við fáum að sjá heldur Salka Valka Höllu kvikmyndaleikstjóra og túlkun hennar og áherslur eru að ýmsu leyti óvæntar. Salka Valka er á barnsaldri þegar Sigurlína birtist með hana í þorpinu Óseyri (Júlía Guðrún L. Henje lék Sölku unga á sýningunni í gær og gerði það ákaflega vel). Þær mæðgur setjast að hjá Steinþóri Steinssyni (Hilmir Snær Guðnason) og Steinunni gömlu (Sigrún Edda) í Mararbúð, en þó að Sigurlína og Steinþór verði fljótt náin er greinilegt að Steinþór laðast meira að stelpukrakkanum en móður hennar. Atriðin milli þeirra þriggja í leik og átökum voru margslungin og áhrifamikil. Sömuleiðis voru táknrænu átökin milli þeirra þriggja þegar Salka Valka er orðin stærri (þá tekur Þuríður Blær Jóhannsdóttir við titilhlutverkinu) andskoti hugvitsamleg og öflug.

Halla leikstjóri er mun uppteknari af sambandi Sölku Völku og Steinþórs en Sölku og Arnaldar Björnssonar (Hilmar Guðjónsson). Þess vegna verður Arnaldur undir leikstjórn hennar kæruleysislegur fremur en ástríðufullur, og maður á bágt með að trúa Sölku Völku og leikkonunni sem leikur hana þegar þær klifa á því að hún elski Arnald. Túlkun Höllu hnitast um samband þeirra Sölku og Steinþórs og fer ögrandi nálægt því að láta barnið og unglinginn laðast að hinum eldri karlmanni. Þetta er djarft en vel má finna því stað í skáldsögunni enda vissi Halldór Laxness sitthvað um mannlegt eðli og fjölbreytileika þess. Halla leikstjóri kýs að ganga alveg framhjá fegurðinni í sambandi Sölku og Arnaldar en í sögunni er því stillt upp á móti því hvað stúlkan laðast háskalega að ástmanni móður sinnar. Ástríða þessarar túlkunar er öll þar. Í skáldsögunni mynda Steinþór og Arnaldur pólitískar andstæður og því hefur þessi túlkun líka þær afleiðingar að pólitíkin í verki Halldórs Laxness verður ekki sterk í þessari sýningu. Eina áróðursræðan sem Arnaldur fær að halda drukknar í hávaða í búsáhöldum. Óvænt en velkomið innslag varð svo Nallinn, heillandi velsunginn á frönsku af Juliette Louste úr ljósadeildinni!

Þuríður Blær er Salka Valka lifandi komin, sterkleg, skapmikil og glæsileg leikkona sem sópar að í hlutverkinu. Halldóra Geirharðsdóttir gerði Sigurlínu aumkunarverða á sannfærandi hátt en rétti svo úr sér í hlutverki Höllu inn á milli. Hilmir Snær lætur sig hvorki muna um að kveða kvæði né lokka barn. Önnur hlutverk voru smærri en öll vel af hendi leyst. Maður getur nöldrað yfir því að Angantýr Bogesen hafi ekki fengið að njóta sín betur en Björn Stefánsson fékk meira út úr prófastinum. Þórunn Arna Kristjánsdóttir var bæði Gústa Bogesen og Guja í Króknum enda eiga þær ýmislegt sameiginlegt þótt veraldargengið sé ólíkt. Jóhann Sigurðarson gerði sér góðan mat úr Jóhanni Bogesen þó að það hlutverk hefði líka að ósekju mátt vera stærra (og taka þá tímann frá túristunum!) og Halldór Gylfason var hæfilega hallærislegur Jukki. Svo var gaman að hafa Guðna Kolbeinsson í mikilvægu hlutverki sögumanns sem las einfaldlega viðeigandi búta úr bókinni þegar mikið lá við. Það eins og fleira í þessari sýningu minnti rækilega á verðlaunasýningu hússins frá því í fyrra, Njálu Þorleifs Arnarssonar – en það er ekki leiðum að líkjast. Reyndar eru vísanir í allar áttir í sýningunni sem óþarft er að tína til en sumar voru beinlínis óþarfar, til dæmis eru Panamaskjölin orðin ansi þreytt.

Búningar Filippíu I. Elísdóttur voru fjarskalega vel hugsaðir. Það kom á óvart að hún skyldi ekki klæða Sölku Völku í buxur en það var ekki í eina skiptið sem það sem við sáum gekk gegn því sem við heyrðum á sviðinu og hefur eflaust sína merkingu og tilgang. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar var fremur dimm en á móti kom að við fengum iðulega að sjá vinnu kvikmyndatökumannanna uppi á vegg og gátum þá virt svipbrigði leikaranna fyrir okkur.
Að lokum: Salka Valka er einhver besta bók í heimi og sjálfsagt að minna á hana reglulega. Meginhugmynd höfunda leikgerðar gengur upp, að mínu mati, og sprengir söguna skemmtilega í óvæntar áttir, og sjónrænt og leikrænt verða mörg atriði eftirminnileg.

Silja Aðalsteinsdóttir