Spænska veikin

Gunnar Þór Bjarnason. Spænska veikin.

Mál og menning, 2020. 315 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2021

 

Það verður seint sagt að árið 1918 hafi farið mjúkum höndum um Íslendinga. Það hófst með svo miklum frosthörkum að venjulega er talað um frostaveturinn mikla. Í október lét Katla svo til sín taka með kröftugu gosi sem olli tjóni á jörðum á Suðurlandi sem þó varð minna úr en efni stóðu til því slætti var lokið og hey komin í hús. Ofan á þetta bættist svo vöruskortur vegna styrjaldarátakanna í Evrópu sem kom sér illa, einkum þó eldsneytisskorturinn. Allt voru þetta þó smámunir miðað við þann vágest sem barði að dyrum í lok október þetta ár. Til landsins barst illvíg inflúensa sem kölluð hefur verið spænska veikin, mörg þúsund manns veiktust og lögðust í rúmið og nokkur hundruð manns létust af völdum pestarinnar þannig að með miklum rétti má kalla hana síðustu drepsóttina sem gekk yfir Íslendinga. Þrátt fyrir það hefur lítið farið fyrir spænsku veikinni, jafnt í almennri umræðu sem og í yfirlitsritum og rannsóknum fræðimanna, að minnsta kosti í hugvísindum, engu er líkara en menn hafi hreinlega forðast að ræða hana. Flestir vita þó hvað spænska veikin er, hafa heyrt hana nefnda og vita að hún lagðist þungt á Reykvíkinga en þar með er það líklega upptalið. Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur hefur nú bætt úr þessu svo um munar með yfirgripsmiklu og vönduðu sagnfræðiriti þar sem gangur mála er rakinn frá því fyrst varð vart við pestina um sumarið 1918 og þar til hún fjaraði út á fyrri hluta árs 1919.

Bókin hefst á því að lesandanum er hent inn í atburðarásina miðja þegar togarinn Snorri goði siglir inn á Reykjavíkurhöfn þann 14. nóvember eftir sölutúr til Englands þegar pestin var í hámarki. Að því búnu víkur sögunni til útlanda og gerð er grein fyrir gangi pestarinnar frá því hún kemur upp í Kansas, í miðríkjum Bandaríkjanna, og þar til hún er orðin að heimsfaraldri. Frásögnin er nokkurn veginn í tímaröð, fyrst er greint frá þróun mála í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögunum en síðan víkur sögunni út á land. Í lokin er svo sagt frá því hvernig smám saman dregur úr pestinni á fyrri hluta árs 1919.

Höfundur notar gjarnan þá aðferð að fylla upp í frásögnina og krydda með því að draga upp smámyndir af ýmsu því sem gerist meðan pestin geisaði og síðast en ekki síst því fólki sem við sögu kemur. Þessar frásagnir varpa nánara ljósi á einstaka þætti og eru yfirleitt mjög vel heppnaðar. Til dæmis bregður hann í fyrsta kaflanum upp lýsandi mynd af stéttaskiptingunni í Reykjavík, aðstæðum alþýðumanna annars vegar og svo háttsettra embættismanna hins vegar, húsakynnum þeirra og menningarbrag. Þessar smámyndir eru líka oft mjög fróðlegar, svo sem frásagnirnar af fálmkenndum tilraunum lækna til að kveða pestina niður. Þrátt fyrir alvarleika málsins eru nokkrar þeirra bráðskemmtilegar, svo sem tilraunir þýskra lækna til að lækna sjúklinga í hernum með laxerolíu. Árangurinn varð fyrst og fremst sá að hermennirnir slepptu því að tilkynna sig veika. Þessi frásögn minnir óneitanlega á þær lækningaaðferðir sem beitt var á skrópagemlinga í austurríska hernum ef marka má Góða dátann Svejk. Maður veltir því fyrir sér hvort tilgangurinn hafi kannski verið sá sami. Nokkrir íslenskir læknar notuðu laxerolíu gegn pestinni en ekki er getið um árangur. Í Vestmannaeyjum taldi sjómaður nokkur að hann væri að veikjast og fór til læknis en sá brást við með því að skrifa út lyfseðil upp á tvær viskíflöskur og var ekki meira minnst á spænsku veikina á því heimili. Bjarni Snæbjörnsson læknir í Hafnarfirði hafði þann háttinn á að hann keðjureykti vindla þegar hann fór í vitjanir til að verjast pestinni, ekki er getið um viðbrögð sjúklinganna við þeim sóttvörnum. Eitt dæmi fann Gunnar um notkun á andlitsgrímum en það var frá Þingeyri og þau sem þær notuðu, presthjónin á staðnum, veiktust ekki. Annars virðist lítið hafa verið hægt að gera annað en að hvetja fólk til að fara vel með sig. Margir notuðu asperín til að slá á hitann en það gat þó verið varasamt, einkum ef það var tekið í óhófi, en einnig voru brúkaðir kamfórudropar og áfengi, svo sem koníak. Eitt af einkennum spænsku veikinnar voru blóðugur upp- og niðurgangur. Sú spurning vaknar hvort aspirínátið hafi átt þar hlut að máli því asperín er, eins og flestum er kunnugt, blóðþynnandi.

Í Reykjavík var sett á stofn hjúkrunarnefnd til að skipuleggja aðgerðir gegn pestinni og var Lárus H. Bjarnason, þingmaður og prófessor, þar í broddi fylkingar. Er skemmst frá því að segja að nefndin vann sannkallað kraftaverk og var það starfi hennar að þakka að ekki fór verr. Nefndin skipulagði flokka sjálfboðaliða sem fóru á milli húsa, könnuðu aðstæður og komu fólki til hjálpar. Komið var á fót eldhúsi þar sem matur var til reiðu handa þeim sem hann þurftu og barnaskólanum við Lækjargötu var breytt í sjúkrahús og þar var einnig til húsa barnaheimili fyrir börn sem urðu fyrir barðinu á pestinni, misstu foreldra sína eða þeir veiktust þannig að þeir gátu ekki séð um þau. Sá sem þetta ritar minnist þess að í Menntaskólanum við Tjörnina, sem seinna var til húsa í sama húsi, gekk sá orðrómur að ákveðin stofa hefði verið líkhús sjúkrahússins og þýddi lítið fyrir húsvörðinn að læsa henni á kvöldin eins og hinum stofunum, hún var ávallt opin þegar komið var að á morgnana. Þeir bekkir sem notuðu þessa stofu í fyrsta tíma að morgni biðu yfirleitt eftir kennaranum og létu hann fara fyrstan inn í stofuna.

Eins og áður er getið þekkja flestir megindrættina í gangi mála hér á Reykjavíkursvæðinu. Minna var vitað um það sem gerðist úti á landi og sætir sá kafli bókarinnar tvímælalaust mestum tíðindum. Í sem skemmstu máli þá tókst að verja Austfirðina og stærstan hluta Norðurlands fyrir pestinni einfaldlega með samgöngubanni. Misjafnlegar gekk í öðrum landshlutum og blossaði pestin upp, einkum í þéttbýlisstöðunum á Vestfjörðum. Sveitirnar komu betur út, líklega vegna þess að þar einangraði fólk sig sjálfviljugt, gestum var ekki boðið inn heldur fengu kaffisopa fyrir utan og ef einhver þurfti að gista var búið um hann í útihúsi og rúmföt og annað þvegið vandlega á eftir. Til dæmis virðist sem Vestur Landeyjum hafi tekist að forðast pestina og minnist höfundur þessara orða þess að foreldrar hans, sem bæði voru úr Landeyjunum, höfðu heilmikið að segja frá frostavetrinum mikla og Kötlugosinu en kunnu lítið að segja frá spænsku veikinni. Sérstakur kafli er um sköruglega framgöngu Gísla Sveinssonar, sýslumanns í Skaftafellssýslum, en það er einkum honum að þakka að pestin náði ekki þangað.

Þegar fjallað er um spænsku veikina verður ekki hjá því komist að geta um framgöngu Guðmundar Björnssonar landlæknis sem orkaði tvímælis svo ekki sé fastar að orði kveðið. Orðaskipti Guðmundar og þeirra sem voru á öðru máli en hann um sóttvarnir speglast kunnuglega í samtímanum og umræðunni um viðbrögð við Kóvítpestinni sem nú herjar á mannkyn. Í sem stystu máli taldi Guðmundur gagnlítið að grípa til varna gegn spænsku veikinni, heppilegast væri að koma upp því sem við köllum nú hjarðónæmi. Þetta gekk svo langt að hann amaðist við sóttvarnarstarfi Lárusar H. Bjarnasonar og félaga hans í Reykjavík og þvældist fyrir. Þessar deilur kallast á við þær umræður sem geisuðu nýverið milli þeirra sem vildu grípa til harðra sóttvarnarráðstafana og hinna sem töldu það jafnvel til bölvunar. Annað kunnuglegt þema úr samtímanum kemur upp í umræðunni um spænsku veikina og það er nánasarháttur yfirvalda í heilbrigðismálum. Það er greinilega fátt nýtt undir sólinni.

Gunnar Þór Bjarnason hefur kastað netum sínum víða í leit sinni að heimildum og orðið vel ágengt. Það heimildasafn sem hann hefur úr að moða er ótrúlegt að vöxtum og fjölbreytilegt eftir því. Hann byggir jafnt á opinberum gögnum sem heimildum frá einstaklingum, ævisögum, minningargreinum og viðtölum við fólk frá ýmsum tímum. Að öðru ólöstuðu er rétt að benda á dagbók Hannesar Thorsteinssonar, þar er greinilega á ferðinni mikill fjársjóður. Það kemur hins vegar á óvart að hann nýtir nær ekkert þekktustu dagbók þessara ára, dagbók Elku Björnsdóttur. Aðeins er einu sinni vitnað í hana, um reyndar allt annað efni, og hún er ekki einu sinni á heimildaskrá, fullar bókfræðiupplýsingar eru í aftanmálsgrein. Elka hefur þó frá ýmsu að segja og til dæmis veiktist hún sjálf af pestinni og lýsir líðan sinni og tregum bata.

Það eina sem finna má að þessu verki er að stundum er dálítið tafsamt að átta sig á hvaðan orðréttar tilvísanir eru teknar og á nokkrum stöðum virðist hreinlega hafa gleymst að vitna til heimildar. Ekki gat ég þó séð að slíkt væri til vansa eða rýri gildi verksins. Að lokum er rétt að nota þetta tækifæri til að hnýta í þann ósið útgefenda að hafa heimildir í aftanmálsgreinum en ekki neðanmáls á hverri síðu, hvernig sá error komst á kreik að almennir lesendur þoli ekki neðanmálsgreinar er rannsóknarefni út af fyrir sig. Að lokum er rétt að óska höfundi og útgefanda til hamingju með vel unnið, skemmtilegt og fróðlegt verk.

Guðmundur J. Guðmundsson