Álfrún Gunnlaugsdóttir. Siglingin um síkin.

Mál og menning, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2013

„og ég gat komið því að, að ég drægi í efa kenningu hans um að öllu væri hægt að breyta í sögu, að í meðförum manneskjunnar yrði allt sem gerðist að sögu og þar af leiðandi líf manns sjálfs“ (221–222).

Siglingin um síkin

Hvaða hlutverki þjónar frásögnin og hverskonar fyrirbæri er þessi frásögn eiginlega? Heimspekingurinn Richard Kearney heldur því fram að það að segja sögur sé jafnmikil grunnþörf manneskjunnar og það að borða. Jafnvel enn frekar, heldur hann áfram: maturinn heldur vissulega í okkur lífi en sögurnar gera hins vegar lífið þess virði að lifa því. [1] Frásagnarfræðingar hafa leyst frásögnina upp í ótal liði með tilheyrandi flókinni hugtakanotkun; greining þeirra beinist fyrst og fremst að frásögninni sem skáldskap, að frásögnin beri í sér skáldskap að því leyti að hún fylgi ákveðnum reglum, formúlum. Póstmódernistinn Jean-François Lyotard lagði grunninn að kenningarheimi póstmódernismans með greiningu sinni á þætti frásagnar í þekkingu; öll okkar þekking byggist á frásögum og er því háð lögmálum skáldskaparins, færð í form. [2] Bókmenntafræðingurinn Linda Hutcheon yfirfærði þetta á líf manneskjunnar; að fólk skynjaði líf sitt sem sögu, færði tilveru sína í form frásagnar og gæddi hana þar með merkingu. [3]

Kenningar á borð við þær sem hér eru raktar eru ekki að skapi Gyðu, sögukonu og aðalpersónu skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Siglingin um síkin, eins og fram kemur í tilvitnuninni hér í upphafi. Í framhaldi af þessum orðum hennar segir svo: „Eins og að líkum lætur var Önundur á öndverðum meiði, hélt því fram að með því að segja frá seinustu áratugum ævi sinnar […] væri óhjákvæmilegt að gefa frásögninni form sögu. Ekkert yrði skýrt eða skilið nema það hefði form“ (222). Önundur er því greinilega fulltrúi þeirra hugmynda sem gefa frásögninni sem slíkri merkingarbært vægi. Hann er þó ekki sá eini, því þrátt fyrir höfnun sögukonunnar ber skáldsagan stöðugt vitni inngrips frásagnarinnar í líf fólks. Meðal annars er samband þeirra tveggja, Gyðu og Önundar, einmitt byggt á sögum. Þar sem Gyða er gift héldu þau sambandinu leyndu, fóru lítið út en lágu þess í stað í rúminu: „… sögðum hvort öðru sögur sem við bjuggum til jafnóðum og kepptum um hvort okkar segði betur frá“ (175). Og þegar fundum þeirra ber saman á ný, áratugum síðar, þá hefjast samskiptin einmitt á því að þau segja hvort öðru sögur. Þessir endurfundir eru hreyfiafl framvindu skáldsögunnar en í kjölfar þeirra hefst ferðalag sögukonunnar Gyðu um gloppóttar minningar úr fortíðinni, auk þess sem hún reynir að takast á við sinn daglega veruleika sem einnig er á stundum ókennilegur.

Álfrún hefur áður fjallað um tengsl frásagna og minninga í stríðssögunni Yfir Ebrofljótið (2001), en segja má að könnun á fyrirbærinu frásögn sé einnig grunnþáttur í skáldsögum hennar Hringsól (1987) og Hvatt að rúnum (1993). Minningar eru einnig mikilvægur hluti skáldskapar hennar, auk þess sem tíminn leikur stórt hlutverk: það má því segja að Siglingin um síkin sé á kunnuglegum slóðum, en þar er einmitt fjallað um tímann, hlutverk hans fyrir minni og minningar, og samspil þessa við frásögnina. Með þessu er þó ekki verið að segja að Siglingin um síkin sé endurtekning á fyrri verkum, því fer fjarri. Í þessari nýju skáldsögu eru þessi fyrirbæri einfaldlega tekin til frekari könnunar, sett í nýtt samhengi og þau opnuð fyrir nýjum möguleikum.

Gleymska

Gyða er fullorðin kona sem er orðin gleymin. Seinna kemur í ljós að hún hefur orðið fyrir áfalli, og það er ástæða þess að hún er flutt inn til sonar síns, Sölva, sem hefur að auki ráðið unga konu, Elenu frá Kólumbíu, til að hugsa um móður sína þegar hann er í vinnu. Lengi framan af vitum við þó ekki fyrir víst hvort þetta séu ‚réttar‘ aðstæður, því stundum vaknar Gyða í sjúkrarúmi á spítala og þar situr dóttir hennar, Svala, og prjónar og útskýrir fyrir henni að hún hafi dottið og fengið höfuðhögg. Samband þeirra mæðgna hefur verið erfitt og gamla konan er fegin að hafa endurheimt dótturina en man þó ekki vel hvernig og hversvegna það hefur gerst. Gyða á erfitt með að viðurkenna minnistap sitt og þann rugling sem ríkir í veruleikaskynjun hennar og gerir sitt besta til að fela gloppurnar í minninu. Hún þolir illa að vera upp á aðra komin og þó hún sé orðin dálítið löskuð bæði andlega og líkamlega þá er ennþá töggur í henni og hún sýnir bæði útsjónasemi, skarpskyggni og snarræði í átökum sínum við sinn daglega veruleika, ruglingslegar minningar og óvænta endurfundi við Önund.

Það verður ljóst að þessi kona er ekkert ruglað eða farlama gamalmenni, og er langt því frá meðfærileg, eða eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir orðar það í ritdómi sínum: „hér er kraftakona á ferð, sem fer sínar eigin leiðir og virðist alltaf hafa gert það, hefur sterkar og frískandi skoðanir á mönnum og málefnum, er óþolinmóð gagnvart viðtekinni hugsun og sinnuleysi samtímans.“ [4] Ímynd hennar er því um margt ólík stöðluðum ‚ömmu‘ persónum bókmenntahefðarinnar; þetta er ekki kona sem situr og prjónar eða bakar, þessi kona vill stinga sér „í samband við veröldina með því að lesa blaðafréttir“ (9). Hún vill fylgjast með, vera þátttakandi en ekki draga sig í hlé ellinnar, sem þó herjar á hana af fullum krafti.

Og þess vegna laumast hún snemma út í sögunni, í trássi við fyrirmæli Sölva, og röltir niður í bæ í leit að dagblaði. Hún gengur yfir Ingólfstorg og minnist Hótels Íslands, sem brann árið 1944, og því má álykta að hún sé milli sjötugs og áttræðs þegar sagan gerist, árið 2008 rétt eftir efnahagshrunið. Gyða er næm á umhverfi sitt og finnst torgið ekki fallegt:

Ingólfstorgið, þótt nýlegt sé, er bæði sviplaust og móskulegt rétt eins og úthverfin í Reykjavík, enda fátt sem gleður augað. Það verður ekki sagt að gufan sem sýnist líða upp úr tveimur dröngum er standa út á miðju torgi breyti því neitt. Drangarnir minna á þursa. Líkast til á þetta að vera táknrænt, öndvegissúlurnar tvær og gufustrókarnir sem Ingólfur sá í víkinni. Kannski er eitthvað til í því sem illar tungur segja, að þegar kemur að húsagerðarlist og skipulagsmálum skorti þjóðina fagurfræðilegt gen. (21)

Gyða heldur áfram að íhuga borgarmyndina sem við blasir, rifjar upp búðir sem áður stóðu við Austurstræti og þannig mætast nútíð og fortíð í þessari gönguferð í bæinn, tíminn breiðir úr sér í minningu og umhverfi. Sem fyrr leikur slík tímasamfella í höndum höfundar, en svipaða tilfinningu fyrir ferðalagi borgarlandslags gegnum tímann má einnig finna í Rán (2008). Þetta stef er endurtekið með tilbrigðum allt til loka bókarinnar, þegar Gyða heldur á vit fortíðar og framtíðar með stefnumóti við Önund, en það stefnumót er truflað af mótmælum á Austurvelli sem enda með því að Gyða fellur í jörðina og fær annað höfuðhögg. En það er eins og þetta högg verði til að vekja hana, hún neitar að fara á slysadeildina og hrópar í eyra Önundar: „Vinur minn, við öll hér eigum framundan langa … langa fortíð“ (231).

Sögur og samhverfur

Kreppan er því eitt af þemum verksins, án þess þó verða íþyngjandi, en ein af sögum Gyðu snýst um konu í peysufötum sem fer í bankann að huga að peningunum sínum. Seinna kemur í ljós að sonurinn Sölvi er helsti fulltrúi kreppunnar, hann starfar í fjármálageiranum og bregður sér skyndilega til útlanda. Annað þema eru svo útlöndin, heimurinn sem heimsótt hefur Ísland, í líki Elenu, en í ljós kemur að hún hafði flúið heimaland sitt vegna aðstæðna þar. Hún segir Gyðu sögu sína, sem speglar sögu Sölva, en báðar fjalla um menn sem dragast inn í glæpsamlegt athæfi gegn eigin vilja. Báðar þessar sögur eru dæmi um hvernig líf er fært í form frásagnar, eða frásagna í fleirtölu öllu heldur: samhverfan milli þessara frásagna skapar þeim andrými.

Slíkar samhverfur eru víða í sögunni, en ein þeirra lýtur að nágrannakonunni Björgu, sem reynist hafa verið vinkona eiginmanns Gyðu. Eftir endurfundina við Önund fer Gyða að rifja upp ævi sína, bernskuminningar tengdar síðari heimsstyrjöld, og svo hjónabandið við Hallgrím sem endaði með skilnaði. Önundur hafði verið vinur Hallgríms og þannig kynnst Gyðu. Þau áttu svo stutt en ævintýralegt samband, sem lauk með svikum Önundar. Fljótlega eftir það aukast brestirnir í hjónabandinu sem enda með skilnaði. En Hallgrímur veikist og deyr ekki löngu síðar. Hann hafði látið í ljósi þá ósk að Björg og Gyða yrðu vinkonur og í lok bókarinnar virðist sú von hafa ræst.

Samhliða þessari upprifjun verða minningarnar um dótturina Svölu ljósari, en í ljós kemur að hún hafði farið utan til náms en hitt þar ungan mann og eiturlyf og týnst. Fundirnir með henni á sjúkrahúsinu reynast því hafa verið draumar, í bland við óskhyggju reikuls hugar.

Fundirnir með Önundi eru eins og áður segir það sem knýr frásögnina áfram, en ferðir Gyðu út að hitta hann mynda einskonar uppistöðu í byggingu sögunnar. Hún hittir hann af tilviljun í fyrsta sinn sem hún fer út, en þá leitar hún skjóls og hvíldar í anddyri gamla Reykjavíkurapóteksins. Hún ber ekki kennsl á Önund til að byrja með en áttar sig svo, ekki síst þegar hann byrjar á því að segja henni sögu. Sú saga er táknsaga um kreppuna og Gyðu finnst ekki mikið til hennar koma: „Þetta er einföld saga og liggur svo í augum uppi að það er hreint út sagt vandræðalegt“ (28).

Síkin

Utan um þetta allt saman er svo rammi eða stef sjálfrar siglingarinnar um síkin. Strax í upphafi bókarinnar birtast tvær raddir, í skáletri, sem ræða um siglingar á síkjum, Feneyja eða Amsterdam. Þessar raddir stinga svo reglulega upp kollinum, ræða frásögnina og framvindu hennar, önnur gagnrýnir og kvartar yfir gruggugu vatni, stefnuleysi, að bátnum sé ruggað, að siglt sé í átt til skugga og svo framvegis. Það er greinilegt að hér er verið að takast á um sjálfa frásögnina:

Ég er hætt að botna í þessu. Vildirðu vera svo væn að segja mér hvert við stefnum? Ekki nokkur leið að átta sig á því. Það er hlaupið úr einu í annað. Ræðarinn er hreint ekki eins góður og hann ætti að vera, stundum fæ ég á tilfinninguna að hann stýri ekki bátnum heldur láti hann reka. (55)

Siglingin um síkin er því myndhverfing fyrir framvindu frásagnarinnar, en jafnframt birtist í henni hugarheimur sögukonunnar. Sá hugarheimur er einmitt gruggugur, bæði vegna þeirra áhrifa sem tíminn hefur á minningar og þeirra áhrifa sem áfallið hefur haft á þær, en í ljós kemur að Gyða hefur átt erfitt andlega og áfallið tengist því. Eins og Gunnþórunn bendir á fjallar sagan því öðrum þræði um leit að sjálfsmynd, eða sjálfsverund, í róti gleymsku og minninga. Inn í þetta kemur svo tilfinning Gyðu fyrir tímanum, en undir lok sögunnar reynir hún að sætta sig við „svartholin í minninu“ (219). Þessar sættir hefjast með því að Gyða viðurkennir hvarf dótturinnar; í stað þess að skrifa henni enn eitt bréfið sem aldrei verður sent þá kuðlar hún blaðið og hendir því: „Þá uppgötva ég þögnina í höfðinu á mér. Raddirnar tvær eru þagnaðar“ (181). Þó ekki með öllu því önnur röddin heldur áfram:

Hún er farin, lét loksins verða af því og ég sit alein í þessum asnalega gondól og verð að ljúka ferðinni. Komast á leiðarenda hvernig sem ég fer að því. Það er þoka allt um kring og ég treysti ekki ræðaranum. Ég vona að henni létti sem fyrst, svo að ég þurfi ekki að sjá eftir að hafa lagt upp í þessa ferð um síkin. (181)

Hvaða rödd er þetta? Eins og Ingi Björn Guðnason bendir á fellur Gyða sem sögukona verksins undir það sem kallað hefur verið ‚óáreiðanlegur sögumaður‘.5 Gleymskan er augljós orsök og birtingarmyndin eru raddirnar tvær sem ræða frásögnina. Um miðbik verksins áttar Gyða sig á því að hugur hennar er umsetinn, bæði gleymsku og hagræðingu minninga: „Tvær konur takast á um hug minn, og þótt furðulegt megi teljast hef ég ekki hugmynd um hverjar þær eru. En þær tala í höfðinu á mér hvor gegn annarri og hafa gert lengi. Togstreita ræður alls staðar ríkjum, ekki bara í samskiptum við aðra, hún er uppistaðan í okkur sjálfum. Tvígirnið sem við erum gerð úr“ (111–112). Það má hugsa sér að þessar tvær raddir séu annarsvegar rödd sögukonunnar og hinsvegar rödd söguhöfundar sem mætti ímynda sér að sögukonan hafi að lokum snúið niður. Innan frásagnarfræða er algengt að skilja á milli höfundar og söguhöfundar, höfundurinn er nafnið sem stendur utan á bókinni, sá sem skráður með höfundarrétt, en söguhöfundur starfar á bak við sögumanninn við að setja verkið saman og þarf alls ekki að vera sama persóna og höfundurinn. En raddirnar eru margslungnari en þetta, því ennfremur má sjá í þeim móta fyrir hinum innbyggða lesanda, sem einnig er hugtak úr frásagnarfræðum og má ekki rugla saman við hinn efnislega lesanda sem hefur bókina í höndunum. Segja má að samtal raddanna tveggja hafi frá upphafi vísað til þessara þriggja fyrirbæra úr heimi bóklesturs. Og þó hinn innbyggði lesandi hafi ‚horfið‘ þegar ‚hin‘ röddin þagnaði (rödd sem greinilega tengist dótturinni og samviskubiti / söknuði) þá er hann jafnframt ávarpaður, næstum í hálfkæringi: hvar endar þetta alltsaman? Hverskonar saga er þetta?

Hæfilegt ójafnvægi

Sagan sem okkur er sögð í Siglingunni um síkin er margbrotin og samansett, en þó í raun einföld og skýr. Að mörgu leyti má segja að forsmekkurinn að henni komi fram snemma í bókinni, þegar Gyða lítur í kringum sig á heimili Sölva:

Borðstofu Sölva hefur verið breytt í vistarveru handa mér, þess vegna er allt í hrópandi ósamræmi. Ég á sjálf borðstofuborðið með stólunum sex […]. Ég á líka skrifborðið í horninu við gluggann, en það rímar hvorki við núverandi borðstofuborð né buffetið sem fyrir var í herberginu […]. Buffetið er nytsamlegt til margra hluta. Bakvið glerið er til að mynda pláss fyrir alls konar muni úr postulíni sem ég á og mér þykir vænt um.
Hillur sem standa milli gluggann eru í stíl við borðstofuborðið hans Sölva, sem nú er frammi í stofu, og þar hefur verið raðað ósamstæðum glösum, könnum, kertastjökum og meira að segja brennivínspela. Þessir hlutir virka framandi á mig.
Rúmið mitt er kapítuli út af fyrir sig og æpir eitt og sér á allt annað sem er hér innan veggja. Þetta er nýtískulegt rúm sem hægt er að hækka og lækka að vild og gera við alls kyns hundakúnstir sé maður svo lánsamur að kunna á það. (14–15)

Buffetið á sína sögu sem tengist fyrri eiginkonu Sölva og þannig er allt umhverfið búið til úr sögum, alveg eins og skáldsagan sjálf. Þessar sögur geta virst ósamstæðar eins og húsgögnin og eru það: „Ég sný mér við og læt augun líða yfir borðstofuna sem orðin er herbergið mitt. Hér æpir hver hlutur á annan og ekkert samræmi í neinu. Það vekur hjá mér visst öryggi. Nú er svo komið að mér líður ekki vel nema hæfilegt ójafnvægi ríki kringum mig“ (12). Það er einmitt í þessu ójafnvægi sem galdurinn er fólginn, að viðhalda því og skapa úr því furðulegt jafnvægi samansafnaðra minninga og gleymsku, samfellu í tíma og samhverfu ólíkra menningarheima. Rödd söguhöfundar segi undir lok verksins, eftir frásögn Bjargar af vináttu hennar og Hallgríms: „Það hefur greiðst úr þokunni og sér til lands og gondóllinn hefur skipt um stefnu. Hann nær bráðum landi“ (217). Hér er enn á ný talað til hins innbyggða lesanda og hann róaður niður: allt gengur vel.

En strax í næstu efnisgrein er þessari fullvissu kollvarpað: „Eftir heimsóknina til Bjargar var líkt og fótunum hefði verið kippt undan mér, ég fékk lungnabólgu og lá allar hátíðirnar fram í janúar. Hiti og óráð tóku völdin um skeið“ (217). Óreiðan tekur því aftur völdin, einmitt þegar allt virtist komið í röð og reglu og orðin í upphafi verksins, um öryggi ójafnvægisins, hljóta að koma aftur upp í hugann. En eftir veikindin rís Gyða upp á ný og er nú albúin að takast á við það sem fyrir ber. [6] Það er á þessum tímapunkti sem hún deilir við Önund um hlutverk sögunnar með fyrrgreindri yfirlýsingu um að hún dragi „í efa kenningu hans um að öllu væri hægt að breyta í sögu, að í meðförum manneskjunnar yrði allt sem gerðist að sögu og þar af leiðandi líf manns sjálfs“ (221– 222). Önundur heldur hinsvegar fast við þá hugmynd sína að „Ekkert yrði skýrt eða skilið nema það hefði form“ (222).

Þessi átök um hlutverk frásagnarinnar ganga, eins og fram hefur komið, í gegnum alla skáldsöguna og er einn af þeim ásum sem hún snýst um. Annarsvegar er lesanda stöðugt boðið upp á lýsingar sem draga fram siglingarleiðir frásagnarinnar og gefa efnistökunum form, hinsvegar eru athugasemdir sem grafa undan öllum þeim fræðilegu vangaveltum um hlutverk sögunnar (og hugtökum og hlutverkum frásagnarfræðinnar) sem hér hafa verið reifaðar.

Með þessu móti er frásögninni haldið opinni og merkingarsköpunin verður leitandi og en ekki afhjúpandi. Lesandinn getur ekki treyst á neina ‚lausn‘, því allt það öryggi sem vísað var til með siglingu úr þoku og farsælli lendingu hverfist á ný í togstreitu og (hæfilegt) ójafnvægi. Eða með orðum Gyðu: „Vinur minn, við öll hér eigum framundan langa … langa fortíð.“

Úlfhildur Dagsdóttir

Tilvisanir

  1. Richard Kearney, On Stories, Routledge, London og New York 2002, bls. 4.
  2. Jean-François Lyotard, Hið póstmóderníska ástand: skýrsla um þekkinguna, þýð. Guðrún Jóhannsdóttir, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan 2008.
  3. Linda Hutcheon, A Poetics of Postmodernism: History, Theory, Fiction, London og New York, Routledge 1988, sjá sérstaklega kafla 10.
  4. Gunnþórunn Guðmundsdóttir, ritdómur um Siglinguna um síkin á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins, bokmenntir.is, nóvember 2012, http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid 3409/5648_read-33776/6711_view-5191/6709_page-3/, síðast skoðað 20. ágúst 2013.
  5. Ingi Björn Guðnason, ritdómur um Siglinguna um síkin, fluttur í Víðsjá, RUV, 2. nóvember 2012, http://www.ruv.is/bokmenntir/siglingin-um-sikin-gagnrynd, síðast skoðað 20. ágúst 2013.
  6. Gyða minnir um margt á fyrri kvenpersónur Álfrúnar, þá sérstaklega Elínborgu úr Hringsóli og Rán úr samnefndri bók. Hún hefur misst barn og saknar þess sárt og er föst í minningum – og gleymsku – fortíðarinnar. Guðni Elísson líkir þessum persónur við afturgöngur eða uppvakninga (revenant) í grein sinni „„Menn gleyma fljótt, ekki síst ef þeir eru dauðir“: Gotnesk merkingarsköpun í Hringsóli og Rán eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur“, í Rúnir: Greinasafn um skáldskap og fræðastörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík, Háskólaútgáfan 2010, bls. 180.