Öxin – Agnes og Friðrik

Fáeinir atburðir í sögunni eru svo dramatískir og/eða dularfullir að Íslendingar geta ekki hætt að hugsa um þá. Strax koma í hugann fjölskylduharmleikurinn í Skálholti og hvarf Reynistaðabræðra. Eitt enn er svo morðbrennan á Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828 sem ótal ritverk, stór og smá, söngvar, kvikmyndir og leikverk, hafa verið gerð um og sér ekki fyrir endann á. Í gær kl. 14 voru nákvæmlega 190 ár síðan Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru hálshöggvin fyrir aðild sína að ódæðinu og á þeirri stundu hóf Magnús Ólafsson frásögn sína af því í Landnámssetrinu í Borgarnesi undir heitinu Öxin – Agnes og Friðrik.

Magnús var áður bóndi á Sveinsstöðum í Vatnsdal, bæ sem er snertispöl frá Þrístöpum í Vatnsdalshólum þar sem aftakan fór fram, en þar hefur ætt hans búið í margar kynslóðir. Magnús er alinn upp við frásagnir af þessum atburðum, þjóðsögur, flökkusögur og beinar heimildasögur síns fólks sem tók þátt í viðburðum tengdum þessum hörmulega glæp. Margt þótti mér þar nýstárlegt og sýna hvað þessir atburðir lifa góðu lífi í vitund heimamanna. Meðal annars komu faðir Magnúsar og afi báðir að því að flytja líkamsleifar Agnesar og Friðriks í vígða mold rúmum hundrað árum eftir aftökuna og varð frásögnin af því bæði dularfull og spennandi.

Það er enginn vafi á því að glæpur var framinn. Tveir menn, Natan Ketilsson bóndi á Illugastöðum og gestkomandi karlmaður, voru myrtir á óhugnanlegan hátt og síðan kveikt í bænum til að reyna að leyna glæpnum. En hver var hvati glæpsins? Hvernig hafði Natan farið með konurnar á heimili sínu, Agnesi og barnungu vinnukonuna Sigríði sem hlaut lífstíðar fangelsisdóm fyrir aðild sína. Misþyrmdi hann þeim svo skelfilega að þær áttu ekki annars úrkosti? Og hvað rak Friðrik, ungan mann af nærliggjandi bæ, til að taka þátt í glæpnum? Eða var hann aðal hvatamaðurinn?

Magnús hóf frásögn sína á aftökunni sjálfri og lýsti því hvernig Björn Blöndal sýslumaður hefði skikkað alla bændur á stóru svæði til að vera viðstaddir aftökuna eða senda vinnumann í sinn stað ef þeir kæmust ekki. Svo mikil raun var þetta sveitungunum að einn taldi það mestu gæfu lífs síns að hafa hrotið af baki á leiðinni og lærbrotnað þannig að hann komst aldrei á staðinn. Svo lýsti Magnús komu þeirra Agnesar og Friðriks að Þrístöpum og kom frásögn hans af háttalagi Friðriks mér á óvart. Þar steig fram algerlega nýr Friðrik miðað við vitneskju mína áður. En frásögnina af Agnesi sníður Magnús eftir Náðarstund Hönnu Kent sem Magnús telur raunar að Agnes hafi sérvalið sem ritara sinn. Nefndi hann nokkur áhugaverð atriði sem sýna að Agnes hefur sterk áhrif á núlifandi menn þótt hún hafi legið í gröfum sínum í 190 ár.

Það var auðvelt að hrífast með Magnúsi og trúa hverju orði sem hann sagði. Hann er sagnamaður af bestu gerð, sjór af fróðleik, skýr og skilmerkilegur, rökfastur, kíminn og hefur vísur á hraðbergi til að krydda og skemmta.

Silja Aðalsteinsdóttir