Þjóðleikhúsið frumsýndi í gær á stóra sviðinu Listaverkið eftir Yasminu Reza í þýðingu Péturs Gunnarssonar. Margir muna eftir sýningu á sama verki á árunum 1997-8 og svo skemmtilega vill til að leikararnir eru þeir sömu nú og þá og leika sömu hlutverk undir stjórn sama leikstjóra, Guðjóns Pedersen. Sviðshönnuður er einnig sá sami, Guðjón Ketilsson, en lagar leikmynd sína að stærra sviði. Ljósin – sem skipta miklu máli – hannar Lárus Björnsson og búningana hefur Leila Arge hugsað út í hörgul.

Það eru þeir Baltasar Kormákur, Ingvar E. Sigurðsson og Hilmir Snær Guðnason sem leika vinina Mark, Serge og Ivan. Fram kemur að þeir hafa verið vinir í fimmtán ár en ekki gefur höfundur upp hvernig þeir kynntust. Þeir eru hver í sínu fagi þannig að ekki hafa þeir unnið saman, og ekki er sennilegt að þeir hafi kynnst gegnum áhugamál því þeir eru afar ólíkir. Langsennilegasta skýringin er að Mark og Serge hafi verið saman í menntaskóla, orðið samlokur þrátt fyrir ólíka skapgerð og Ivan hafi einhvern veginn fengið tækifæri til að hengja sig á þá. Þess vegna var gamla sýningin kannski trúverðugri en sú nýja af því þá voru leikararnir yngri, nær skólaárunum þegar maður vingast við fólk af allt öðrum ástæðum en síðar í lífinu.

En vitaskuld skiptir þetta litlu máli nema til umhugsunar. Aðalatriðið er að þetta er afburðavel skrifað verk og birtir okkur þrjá ólíka karlmenn sem við kynnumst ágætlega á einum og hálfum klukkutíma (án hlés). Þeir sýna okkur yfirborðið og afhjúpa svo smám saman – eða allt í einu – það sem býr undir niðri. Og ég verð að bæta hér við að það er frábært að hlusta á þrjá karlmenn tala saman og hugsa upphátt svona lengi án þess að segja einn einasta kynlífsbrandara!

Listaverkið

Baltasar bjó til ennþá úthugsaðri manngerð úr Mark en fyrir 14 árum en það tók hann dálítinn tíma á frumsýningunni að finna sig í hlutverkinu þannig að hann hvíldi öruggur í því. Mark er verkfræðingur með nokkuð einhliða sýn á tilveruna. Honum finnst fáránlegt að einhver geti haft aðra skoðun á málum en hann sjálfur og ekki á það síst við um vini hans. Hann ætlar ekki að trúa því að Serge, sem er ekkert átakanlega vel stæður lýtalæknir, hafi keypt listaverk fyrir tuttugu milljónir. Og ekki einu sinni frábært listaverk sem gaman er að horfa á heldur alhvítt verk, algert prump! Hann ætlar ekki að gefast upp fyrr en hann fær Serge til að viðurkenna mistökin en það gengur ekki vel.

Serge er nefnilega ansi hreint öruggur með sig, að minnsta kosti á yfirborðinu, og Ingvar klæddi sig í hann eins og vel sniðin jakkaföt. Flottur náungi og menningarlega sinnaður eins og títt er með lækna. Hann veit sitthvað um listir og honum finnst hvíta listaverkið góð fjárfesting þó að það hafi kannski verið svo dýrt að það sligi fjárhag hans. Það er heldur ekki hvítt í hans augum en honum gengur illa að fá Mark til að sjá í því línurnar. Deilur þeirra Marks um nútímalistir eru persónulegar, listfræðilegar og heimspekilegar svo unun er á að hlýða.

Milli þeirra flengist svo Ivan, nokkrum árum yngri og á allt annarri hillu í lífinu en þeir. Nýbyrjaður í fremur óspennandi sölumannsstarfi og á leiðinni að gifta sig. Vinir hans eru sáróánægðir með eiginkonuna tilvonandi og hamra á því við hann að hætta við. Í umræðunum um það atriði afhjúpa þeir sig ekki minna en í deilunum um listaverkið. Ivan langar mest af öllu til að gera þeim til geðs, helst vera sammála þeim um alla hluti, en það er erfitt af ýmsum ástæðum. Eitt er nú að hann verður að reyna að standa með sjálfum sér og svo kemst fljótlega upp þegar hann segir eitt við Serge og annað við Mark! Hilmir Snær er alveg óviðjafnanlegur í þessu hlutverki og angist hans í togstreitunni snertir mann djúpt um leið og hún er drepfyndin.

Listaverkið er stúdía í eðli vináttunnar og kemur öllum við sem hafa eignast vini – og kannski glatað vináttu. Línan milli vináttu og fjandskapar getur nefnilega reynst ótrúlega mjó – ekki síður en línurnar í hvíta listaverkinu. Sjáið það bara sjálf!

 

Silja Aðalsteinsdóttir