Leikfélag Reykjavíkur og CommonNonsense frumsýndu í gær samtímafarsann Fyrrverandi eftir Val Frey Einarsson á Nýja sviði Borgarleikhússins. Breiða pallastofu með hringstiga innst upp á efri hæðir skapar Ilmur Stefánsdóttir og hún sér líka um í bland dálítið fríkaða búninga og leikgervi (með Elínu S. Gísladóttur); til dæmis þekkti ég ekki Þórunni Örnu Kristjánsdóttur fyrr en eftir drjúga stund. Fjölbreytt partýtónlistin er í umsjón Davíðs Þórs Jónssonar og Sölku Valsdóttur en Ingi Bekk lýsir.

Það er veglegt boð í uppsiglingu heima hjá Togga (Þorsteinn Bachmann). Hann ætlar að trúlofast Unu sambýliskonu sinni (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) og í framhaldinu hyggjast þau löggilda samband sitt. Una er hæstánægð með þessar áætlanir þangað til hún sér og heyrir viðbrögð Bjarts sonar síns (Árni Þór Lárusson), þá renna á hana tvær grímur. En það er of seint að afboða geimið og gestirnir streyma að: Gígja og Kalli (Þórunn Arna og Halldór Gylfason) og Hulda og Bjarni (Vala Kristín Eiríksdóttir og Jörundur Ragnarsson). Fljótlega kemur í ljós að þetta eru allt fremur nýleg pör, öll hafa gengið í gegnum skilnað og allar persónur hafa sinn einkadjöful að draga þar sem er þeirra fyrrverandi. Ofan á þetta bætast börnin – það reynist erfitt að skilja við þau.

Partýið byrjar pent en verður æ sturlaðra því lengra sem líður á það og æ fáránlegra. Átökin milli hjóna og hjónaleysa magnast, rifrildin verða hávaðasamari og illvígari. Hápunkti nær partýið í stórhættulegum leik, Sannleikshringnum, þar sem persónur segja frá einhverri hegðun, ástandi eða atviki sem makinn vissi ekki um. Enginn sem sér þetta verk mun láta sér detta í hug að fara í slíkan leik! Í öllum hamaganginum er tæpt á ýmsu því sem einkennir góð og slæm sambönd og hjónabandið sem fyrirbæri krufið. Persónurnar grafa smám saman rækilega undan sjálfum sér uns svo var komið að aðeins ein persóna – fyrir utan unglinginn Bjart – var sæmilega skynsöm og geðug í huga manns og sú persóna kom aldrei á svið, orð hennar voru bara höfð eftir þar.

Þetta er hnyttilega skrifað verk og oft fyndið en sjálfsagt er ekki auðvelt að leika í svona sýningu, svo mikill er hamagangurinn og geðofsinn inn á milli. Það er helst að húsráðandinn Þorgeir haldi ró sinni, þótt hann verði fyrir einna mestum svikum þetta kvöld, enda er hann stóískur maður sem iðkar jóga og er góður kokkur. Þorsteinn gerði hann skemmtilega tvíræðan og ófyrirsjáanlegan. Una er skynsömust kvennanna og Katla Margrét túlkaði vel togstreitu hinnar fráskildu konu milli eigin þarfa og barnanna. Bjartur sonur Unu varð bæði hugþekkur og brjóstumkennanlegur í meðförum Árna Þórs, það verður gaman að fylgjast með þessum unga leikara á næstu árum.

Bjarni hefur líklega gleypt heldur stóran bita þegar hann tók saman við Huldu. Hún er bæði ung og ljóshærð og þar að auki sjónvarpsstjarna en samt sannarlega ekki öll þar sem hún er séð og Vala Kristín fékk mikið út úr persónunni. En Bjarni var ósköp meinleysislegur í meðförum Jörundar – bæld afurð einkar lélegra foreldra en kom þó á óvart.

Langflóknasta sambandið við „fyrrverandi“ á Karl læknir og skiljanlegt að Gígja verði albrjáluð þegar hún kemst að því. Þau Halldór og Þórunn Arna fóru vel með hlutverk sín en ansi þótti mér ósennilegt að akkúrat þetta fólk hefði einhvern tíma tekið saman. En hvað veit maður svo sem?

Vinkona mín spurði mig, þegar hún frétti að ég væri að fara í leikhúsið, hvort ég mætti sjá þessa sýningu, hvort maður þyrfti ekki að hafa reynslu af skilnaði til að fá leyfi til þess. Það var auðvitað spaug en oft datt mér í hug undir sýningunni að ég hefði ekki forsendur til að skilja vandamál þessa fólks en þá er bara að varpa af sér vetrarkvíðanum og hlæja með hinum.

 

Silja Aðalsteinsdóttir