Það mætti halda að Hávar Sigurjónsson hefði lesið yfir sig í sálfræðiritum af ýmsu tagi meðan hann var að skrifa leikritið Segðu mér satt sem leikfélagið Geirfugl sýnir nú í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu undir stjórn Heiðars Sumarliðasonar. Þær voru allnokkrar sálarflækjurnar sem lesa mátti út úr hegðun fólksins á sviðinu og sumar illviðráðanlegar.

Segðu mér sattAð sjálfsögðu er fjölskylda á sviðinu, helsta gróðrarstía sálarmeina af öllum gerðum – meira að segja leikarafjölskylda. Þarna er móðirin Sigrún (Ragnheiður Steindórsdóttir), kynþokkafull díva, brjóstafögur, grimm og algerlega yfirþyrmandi, faðirinn Karl (Árni Pétur Guðjónsson) valdsmannslegt og sjálfumglatt glæsimenni þangað til hann brotnar undan fargi karlmennskunnar og skiptir um kyn, og sonurinn Gunnar (Sveinn Ólafur Gunnarsson) sem er bundinn við hjólastól og gerir hvort tveggja að spila á foreldrana og láta þau spila á sig. Þessi fjölskylduuppsetning býður vitaskuld upp á kunnuglegan Freud, að minnsta kosti verður Ödipusarkomplexinn áberandi.

Enginn heillegur þráður er í verkinu heldur er fremur eins og þau leiki kenndir og komplexa í röð eftir dramatískri þyngd þeirra. Þetta er gert eðlilegra með því að við erum stödd í leikhúsi, bæði baksviðs og framsviðs, og Sigrún og Karl eru bæði leikarar; þau eru með fjölda búninga á slám og geta nýtt sér þá eftir hendinni. En þau eru ekki að leika ákveðið leikrit heldur sína innri menn og erfitt og flókið sambandið við Gunnar.

Texti verksins er ansi langdreginn á löngum köflum þó að stakar setningar og samtöl séu snjöll og skemmtileg. Kynning persóna í fyrsta þriðjungi var skemmtileg en svo fór að dofna yfir verkinu. Heiðar fyllir af kostgæfni upp í slappari kaflana með hreyfingum og aðgerðum á sviðinu en það var samt ekki fyrr en á síðasta þriðjungi sem leikritið lifnaði rækilega við. Þá uppskáru leikararnir það sem þau höfðu verið að byggja upp af vandvirkni og nutu sín vel allt til loka.

Ragnheiður var stíf í byrjun sýningarinnar sem ég sá í kvöld en náði sér fljótlega á strik og var óhugnanlega flott í seinasta partinum. Árni Pétur var ekki afslappaður í karlmannshlutverkinu en breytti röddinni afar skemmtilega þegar hann skipti um kyn og var yfir höfuð fín kona. Og Sveinn Ólafur var sannfærandi komplexeraður sonur þessara stórstjarna.

Sviðið hannaði Kristína R. Berman sem líka sér um búninga og á stóran þátt í áhrifamætti sýningarinnar með hvoru tveggja. Það á líka við um ljósahönnunina sem fer smám saman með verkið aftur í tímann – eða kannski inn á við. Maður áttar sig á því eftir á hvernig ljósin hafa blekkt mann og skapað sterkt andrúmsloft. Það er nýjung í leikskrár- einblöðungi að Anthony Bacigalupo er skrifaður fyrir hönnun kynningarefnis. Ekki veit ég hvað felst í því nákvæmlega, en ekki hefur verk hans orðið til þess að þar birtust nauðsynlegar upplýsingar um lengd sýningarinnar. Þær vantar ótrúlega oft í íslenskar leikskrár.

Silja Aðalsteinsdóttir