Pétur Gunnarsson: ÞÞ – í fátæktarlandi: Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar.

JPV útgáfa 2007.

Pétur Gunnarsson. ÞÞ – í forheimskunarlandi.

JPV útgáfa 2009. [1]

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2010.

I

Margt bendir til þess að um þessar mundir séum við að upplifa blómaskeið í íslenskri ævisagnaritun sem einkennist af ýmiss konar tilraunum með ævisagnaformið sjálft. Slíkar formtilraunir hafa lengi tíðkast í sjálfsævisögum en að mínu viti hefur hið sama ekki verið uppi á teningnum innan ævisagnaritunar fyrr en undanfarin ár, með örfáum undantekningum. [2] Það er alkunna að ævisagan hefur lengi verið ein allra vinsælasta tegund bókmennta á Íslandi, sú tegund bókmennta sem á sér stærstan lesandahóp og flestir hafa einhverja skoðun á. Lengi vel höfðu fræðimenn hins vegar lítinn áhuga á ævisögum sem rannsóknarefni (allavega í bókmenntafræðum þar sem lengst af var litið á ævisöguna sem óæðri bókmenntategund) þó margir þeirra hafi að sjálfsögðu verið dyggir lesendur ævisagna eins og aðrir. Þetta hefur þó breyst mikið á undanförnum árum, jafnt á Íslandi sem erlendis, og í raun er hægt að tala um sprengingu á sviði æviskrifarannsókna undanfarna tvo áratugi, en tugir bóka koma núorðið út á þessu rannsóknarsviði á hverju ári beggja vegna Atlantsála.

Raunar er ekki skrýtið að ævisagan (og ekki síst sjálfsævisagan) sé sá vettvangur deilna og skoðanaskipa, bæði innan fræðaheimsins sem utan hans, sem raun ber vitni. Ástæðan fyrir því liggur einfaldlega í sannleikskröfunni; lesendur ætlast til þess að þar sé lýst „raunverulegum atburðum“ eins og kostur er og „eins og þeir gerðust“ – „sannleikurinn“ sé þar með öðrum orðum framreiddur á einfaldan og auðskiljanlegan hátt. Í umræðunni um æviskrif fer fram stöðug hugmyndafræðileg umræða, jafnvel barátta, um merkingu hugtaka á borð við veruleika, sannleika, sköpunargáfu og ímyndunarafl sem og um aðferðafræði, heimildaúrvinnslu og fleira sem lýtur að vinnubrögðum höfundarins. En það er einmitt þetta sem gerir æviskrif að svo frjóu og spennandi sviði fyrir fræðimenn. Hér ætti að nægja að minna á að hatrömmustu deilur sem sprottið hafa upp innan íslenska fræðasamfélagsins snerust einmitt um ævisögu; ævisögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, þar sem ýmsum þótti Hannes seilast lengra en góðu hófi gegndi inn í texta Halldórs sjálfs um sjálfan sig, þótt megindeilurnar hafi varðað óvönduð vinnubrögð, ritstuld og umdeildar túlkanir höfundar.

Í bókum sínum um Þórberg Þórðarson nálgast Pétur Gunnarsson viðfangsefni sitt eftir óhefðbundnum leiðum að ýmsu leyti. Þótt hann vinni eins og fræðimaður við heimildaöflun og heimildarýni þá vinnur hann fyrst og fremst eins og skáld við úrvinnslu og uppbyggingu frásagnarinnar. Með því brýtur hann upp hefðbundið ævisagnaform, gerir tilraun með nýtt form eins og fleiri höfundar ævisagna hafa verið að gera undanfarin ár – hver á sinn hátt. [3]

ÞÞ – í fátæktarlandi: Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar

II

Í góðri yfirlitsgrein um ævi og verk Þórbergs Þórðarsonar sem birtist í Andvara árið 1981 nefnir Sigfús Daðason að gjarnan hafi verið haft á orði að um Þórberg látinn þyrfti ekki að semja ævisögu „því varla mundu aðrir menn fá bætt þar um sjálfs hans verk“. [4] Sigfús hafnar þessu þó og bendir á að „enda verði jafnvel þeir höfundar sem miklu skipulegri grein hafa gert fyrir ævi sinni en Þórbergur, tíðum að þola rengingar og endurprófanir af hendi vandalausra sagnritara“. [5] Á undanförnum áratugum hefur smám saman verið að renna upp fyrir lesendum Þórbergs að í verkum hans gilda skáldskaparlögmál ofar sannleikslögmálum og um margt í ævi sinni var hann þögull sem gröfin og öðru hagræddi hann að vild og eftir listrænum smekk. Á handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns er mikið til af gögnum um Þórberg, óbirt skrif, bréf, dagbækur og fleira og ljóst er að enn eru ekki öll kurl komin til grafar í rannsóknum á æviverki hans. Það er því augljóst að nægur efniviður felst í ævi og verkum Þórbergs Þórðarsonar til að fylla margar bækur og margar ævisögur, ef því væri að skipta. Í lok síðara bindis verks síns um Þórberg kemst Pétur Gunnarsson skemmtilega að orði þegar hann skrifar: „En það er svo með Þórberg, eins og okkur hin: hann er margir. Þær á annað hundrað dagbóka sem hann lét okkur í té minna á glerstrendingana sem í stað þess að endurvarpa spegilmynd deila henni upp í óteljandi myndbrot.“ [6]

Tveggja binda verk Péturs Gunnarssonar um Þórberg Þórðarson, ÞÞ – í fátæktarlandi (2007) og ÞÞ – í forheimskunarlandi (2009) er rúmlega 500 blaðsíður og telst því yfirgripsmesta verk sem um ævi Þórbergs hefur verið skrifað ef frá eru taldar hans eigin bækur. Ári áður en fyrra bindið af verki Péturs kom út gaf Halldór Guðmundsson út bókina Skáldalíf. Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri (2006) þar sem hann rekur saman ýmsa þræði úr ævi jafnaldranna Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar. Bækur Halldórs Guðmundssonar og Péturs Gunnarssonar eru afar ólíkar en hvorug þeirra myndi teljast „hefðbundin“ ævisaga. Til að valda engum misskilningi er rétt að fara örfáum orðum um hvað ég á við þegar ég skilgreini ævisögu sem „hefðbundna“. Þar á ég í fyrsta lagi við ævisögu sem setur lífsferil viðfangs síns upp í línulega frásögn, þ.e. rekur ævina í réttri tímaröð atburða og leitast gjarnan við að skapa heildstæða frásögn þar sem atburðir í ævi manns eru settir í röklegt orsakasamhengi. Í öðru lagi leitast flestir höfundar hefðbundinna ævisagna við að beita hlutlægni í frásögn (þótt um það megi lengi deila hversu möguleg slík hlutlægi sé) og hafa sannleikann sem leiðarhnoða í skrifum sínum (þótt hugtakið „sannleikur“ geti einnig verið umdeilanlegt, eins og dæmin sanna). Í hefðbundum ævisögum er sjaldnast um það að ræða að menn „skáldi í eyðurnar“, [7] leiki sér með sannleiks- og veruleikahugtakið eða brjóti upp línulegan æviferil þess sem skrifað er um.

Titlarnir á bókum Péturs Gunnarssonar eru eins og margir vita grafskrift sú sem Þórbergur Þórðarson valdi sér og er klöppuð á legstein hans – reyndar á esperantó – ásamt nótum fyrir stef úr vögguvísu eftir Brahms (Wiegenlied op. 49–4). Vissulega má líta á bækur Péturs líka sem „grafskrift“ eftir Þórberg eða að minnsta kosti hluta af þeim eftirmælum sem smám saman eru að byggjast upp um þennan höfund eftir langt tímabil þar sem nokkurt áhugaleysi hefur ríkt um hann og verk hans. Fyrri bókin hefur undirtitilinn „Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar“ en sú síðari hefur engan undirtitil. Pétur hefði þó hugsanlega getað valið henni til að mynda undirtitilinn: „Tillag til íslenskrar menningarsögu 20. aldar“ því það er sá þráður sem einna gildastur er í síðara bindinu. Pétur hefur sagt frá því að hann hafi íhugað að setja undirtitilinn „Harmsaga Þórbergs Þórðarsonar“ á síðari bókina en horfið frá því þar sem þar hefði líklega verið fullsterkt að orði kveðið. [8] Færa má þó fyrir því sterk rök að margt í sögu Þórbergs hafi drætti harmleiksins þótt hann hafi kosið að sýna lesendum sínum líf sitt að miklu leyti í ljósi skopleiks. Og þá eru ekki síður harmrænir þættir í þeirri mannkynssögu sem Pétur leitast einnig við að draga upp í síðara bindi sínu.

Bindin tvö eru nokkuð ólík í nálgun höfundar að viðfangsefninu. Í fyrra bindinu er kastljósinu alltaf beint að aðalpersónunni, Þórbergi, en í því síðara stíga margar fleiri aðalpersónur fram á sjónarsviðið og Þórbergur hverfur af sviðinu um stund. Þá taka yfir sviðið persónur eins og Halldór Laxness, Ragnar í Smára og hjónin Kristinn E. Andrésson og Þóra Vigfúsdóttir. Og í minna mæli persónur á borð við Erlend í Unuhúsi, Kristínu Guðmundardóttur, vinkonu Þórbergs, og Sólrúnu Jónsdóttur, barnsmóður Þórbergs. Ekki hefur öllum lesendum líkað þetta vel, til dæmis skrifar Jón Viðar Jónsson í ritdómi í DV: „Pétur á að vísu til að skeiða út um víðan völl; stundum tekur hann að rekja gang mannkynssögunnar af helstil mikilli nákvæmni, stundum fer hann að tala um allt annað fólk en Þórberg og frú, svo maður spyr sig jafnvel hvort hann hafi gleymt þeim. En það er þá aðeins um stundarsakir; hann kemur alltaf að þeim aftur.“ [9] Taka skal fram að Jón Viðar er, þrátt fyrir þessa kvörtun, afar hrifinn af bókinni og segir hana eina „skemmtilegustu bók sem [hann] minnist þess að hafa lesið um íslenskan rithöfund“.

Titlarnir á bókum Péturs eru mjög vel valdir því þeir eru hvor um sig mjög lýsandi fyrir innihaldið. Í fyrra verkinu fylgir Pétur Þórbergi frá því að hann kemur til Reykjavíkur átján ára gamall og þar til hann gengur í hjónaband með Margréti Jónsdóttur 44 ára gamall eftir þriggja mánaða kynni og síðasti kaflinn lýsir brúðkaupsferð þeirra hjóna í Suðursveitina sumarið 1933. Eins og frægt er af bókum Þórbergs einkenndust þroskaár hans í Reykjavík af fátækt og basli, hann lifði í sannkölluðu Fátæktarlandi. Forheimskunarlandið er hins vegar tvíræðara – jafnt sem grafskrift og bókartitill – en þó má álykta að það vísi til þeirrar forheimskunar mannkynsins sem tröllreið vestrænni menningu á tuttugustu öld, annars vegar í formi tveggja heimsstyrjalda og fjöldamenningar í kjölfar þeirra og hins vegar í formi trúarinnar á stór pólitísk hugmyndakerfi. Hér er ekki síst átt við kommúnismann sem margir bundu útópíska drauma við en sem reyndist hið versta einræði og ógnvaldur. Síðari bók Péturs fjallar að miklu leyti um þetta; hugmyndafræði tuttugustu aldarinnar og átök í íslenskri pólitík og menningarlífi á Íslandi en þetta tvennt var mjög svo samanslungið, eins og menn vita. [10] Í þeirri sögu stíga, eins og áður segir, ýmsar aðrar persónur fram í miðju frásagnar og Þórbergur þokar – Halldór Laxness og Ragnar í Smára, en þó sérstaklega Kristinn E. Andrésson og eiginkona hans Þóra Vigfúsdóttir. Ein skýringin á því hversu fyrirferðarmikil þau hjón eru í frásögn Péturs er sú að Pétur leitar mikið í dagbækur Þóru Vigfúsdóttur og notar þær til að bregða ljósi á tíðarandann. Dagbækur Þóru og dagbækur Þórbergs eru, auk verka Þórbergs sjálfs, þær heimildir sem Pétur byggir einna mest á í síðari bók sinni. Hér er um afar ólíkar dagbækur að ræða því Þórbergur lýsir aldrei tilfinningalífi sínu í dagbókum, hann færir inn veðurlýsingar og heldur skrá yfir vinnu sína og hverja hann hittir yfir daginn, en tilfinningar eru fjarverandi. Dagbækur Þóru eru hins vegar, eins og Pétur orðar það, „ein logandi kvika – ýmist er hún hátt uppi eða langt niðri og hrifnæm með afbrigðum, hvort sem eru atburðir mannlífs eða fyrirbæri náttúrunnar“ (ÞÞ – í forheimskunarlandi, bls. 123).

ÞÞ – í forheimskunarland

Síðari bókin tekur við ári eftir að þeirri fyrri lýkur og fylgir Þórbergi á leiðarenda. Að mestu leyti er frásögn Péturs af ævi Þórbergs því í tímaröð en segja má að það séu bækur Þórbergs, þ.e. útgáfuröð þeirra, sem eru þær vörður sem Pétur rekur sig eftir. Þetta gerir það að verkum að Pétur fjallar ekki um bernsku Þórbergs í upphafi því bernskan kemur aðallega við sögu í síðustu verkum Þórbergs, Suðursveitarbókunum.

Það einkennir þessar bækur Péturs framar öðru að hér skrifar skapandi höfundur um annan skapandi höfund; skáld mætir skáldi. Pétur býr frásögn sína í búning skáldsögunnar fremur en búning sagnfræðirits. Texti Péturs er listrænn texti og sem slíkur afar vel heppnaður og víða mjög áhrifaríkur, ekki síst þegar dregur að lokum. Þetta er áreiðanlega ástæða þess hversu góðar móttökur bækurnar hafa hlotið hjá lesendum. Þar með er ekki sagt að Pétur sé að „skálda“ í merkingunni „ljúga“, þvert á móti tel ég að hann leitist við að hafa „sannleikann“ að leiðarljósi, hann tekur sér ekki skáldaleyfi á sama hátt og Þórbergur gerði þegar hann hagræddi sannleikanum að vild í bókum sínum. En Pétur leyfir sér hins vegar að sviðsetja og geta í eyður, þó alltaf með rökstuðningi. Sem dæmi má taka upphafskafla beggja bókanna. Upphaf þeirrar fyrri hjómar þannig:

Alveg hefur Þórbergi láðst að greina frá ferðalagi sínu til höfuðstaðarins, eins og það hlýtur þó að hafa verið minnilegt kennileiti á lífsgöngu hans, þeirri sömu og hann hefur gert svo margháttuð skil. Ef að líkum lætur hefur hann tekið sér fari með strandferðaskipinu Hólum frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur. Þetta var árið 1906 og hann er á átjánda árinu. Sömuleiðis hefur hann látið undir höfuð leggjast að segja okkur frá því hvernig höfuðstaðurinn kom honum fyrir sjónir þegar hann að lokinni nætursiglingu sá hann vaxa fram í morgunskímunni. (ÞÞ – í fátæktarlandi, bls. 7.) [11]

En nægar heimildir eru til fyrir því hvernig Reykjavík leit út á þessum tíma og Pétur leitar til þeirra sem og í dagblöð frá sama tíma þegar hann sviðsetur komu Þórbergs til borgarinnar og fylgir honum í hús hjá Runólfi Guðmundssyni á Vitastíg 9 – en þar hafði Þórbergur vist fyrstu ár sín í Reykjavík. Aðalheimildir Péturs um fyrstu ár Þórbergs í Reykjavík eru hins vegar, að sjálfsögðu, Íslenzkur aðall og Ofvitinn, ásamt dagbókum Þórbergs og öðrum eftirlátnum skrifum hans. Líka bréf til og frá Þórbergi og öðrum og reyndar notar Pétur einnig dagbók afa síns, Þorgeirs Guðjónssonar, sem var verkamaður í Reykjavík og samtímamaður Þórbergs. Hann lætur með öðrum orðum ólíka texta kallast á og rýnir í atvik hversdagsins til að bregða ljósi á liðinn tíma, rétt eins og gert er í einsögurannsóknum sagnfræðinnar. Þá leitar hann í ýmis sagnfræðirit og bækur af öðrum toga. Hann vinnur sem sagt að miklu leyti eins og fræðimaður en það er skáldið sem stýrir pennanum: „Hann situr á rauðu kofforti og hugsanirnar sitja fastar í pækli sljóleikans. Hann hefur verið að vinna við kolaburð frá því hálf sex í morgun, smágerður kolasallinn nær smám saman inn að hörundinu og þegar heim kemur um kvöldið er hann útlits eins og svertingi.“ (ÞÞ – í fátæktarlandi, bls. 13.)

Upphaf síðari bókarinnar hljóðar svona:

„Skemmtilegur dagur“, „Yndislegt kvöld“ eru tíðar færslur í dagbók Þórbergs þessa hásumardaga árið 1934 og ekki laust við að Stokkhólmur birtist honum nú í öðru ljósi en fyrir sjö árum þegar hann hálfpartinn hraktist hingað eftir ofsóknirnar út af Bréfi til Láru. Þá var vetur og kalt úti sem inni. Nú er sumar og sól í sinni. Hafflöturinn sendir geisla í allar áttir eins og ofvirkur Amor. Eiginkonan Margrét liggur á grúfu og bogar af henni svitinn í hvítum taumum eftir að Þórbergur hefur lokið við að bera á hana úr bláum Niveakremsbuðk. Hið innra-njarðvíska hold hennar er svo fljótt að verða brúnt en hinn aust-skaftfellski Þórbergur tekur á sig æ laxableikari lit. (ÞÞ – í forheimskunarlandi, bls. 9.)

Hér segir frá „baðstrandarferð sem var einn liður á vegum 26. alþjóðaþings esperantista sem haldið var í Stokkhólmi dagana 4. til 11. ágúst“ 1934. Fyrir því má færa sönnur í dagbókum Þórbergs og ef til vill víðar, en kannski ekki fyrir því að Þórbergur hafi borið Níveakrem á konu sínu, eins og þarna er lýst. En þetta lýsir ágætlega aðferð Péturs sem hefur, ekki síður en Þórbergur, góðan húmor sem víða setur svip sinn á textann.

Annað dæmi og ólíkt um vinnulag Péturs mætti taka af lýsingu hans á Margréti Jónsdóttur, eiginkonu Þórbergs. Um Margréti hafa gengið manna á meðal margar sögur og flestar ófagrar. Ef marka má þær allar hefur hún verið skass í yfirstærð, persóna sem jafnast helst á við skessur þær sem sagt er frá í þjóðsögum sem tældu til sín karlmenn og læstu inn í helli sínum og höfðu sér til gagns. Pétur dregur ekkert undan að hér er skapstór og oft á tíðum viðskotaillur kvenmaður á ferð, en hann byggir myndina af henni upp á fallegan hátt. Hann dregur fram mynd af henni í upphafi kynna þeirra sem kynþokkafullri og skemmtilegri konu, enda traustar heimildir fyrir hvoru tveggja. Hann ítrekar að sú reglubundna umgjörð sem hjónabandið færði Þórbergi hafi líklega verið nauðsynleg forsenda þess að Þórbergur „endurfæddist til ritstarfa“. Hann vitnar í orðsendingar og bréf sem á milli þeirra fóru á ólíkum tímaskeiðum hjónabandsins sem sýna gagnkvæma ást. Þegar hann lýsir skapbrestum Margrétar reynir hann að skilja þá. Hann spyr meira að segja beint: „Hvernig ber að skilja Margréti?“ (ÞÞ – í forheimskunarlandi, bls. 142). Og Pétur gerir tilraun til að skilja Margréti, til að mynda með því að skoða það hlutverk sem konum var ætlað á þeim tíma sem Margrét lifði; hvað var helst talið þeim til tekna og hvað gaf þeim mínus í kladdann. Hér notar Pétur hvorki meira né minna en hið mikla rit Simone de Beauvoir, Le deuxéme sexe, til greiningar á háttalagi hennar. Bókin kom út árið 1949 þegar Simone de Beauvoir er rúmlega fertug en Margrét tæplega fimmtug. Simone de Beauvoir bendir þar meðal annars á að líf kvenna af hennar kynslóð og fyrri kynslóðum hafi verið skilyrt af kynhlutverkinu og að kynþokkinn var eitt helsta „valdatæki“ kvenna. Þegar fór að halla undan fæti á því sviði upplifðu konur höfnun og tilgangsleysi tilverunnar sem gjarnan leiddi til vanlíðanar og taugaveiklunar. Þetta kemur vel heim og saman við margt í fari Margrétar sem var umhugað um hylli karlmanna og reyndi oft – árangurslaust að því er virðist – að gera eiginmann sinn afbrýðisaman, til að mynda í bréfum sem hún sendir honum þegar hún er erlendis, en þar fjallar hún gjarnan um karlhylli sína og möguleika sína á nánari kynnum við aðra karlmenn. Margt er þó ennþá ókannað í sögu Margrétar Jónsdóttur og vekur það til að mynda furðu nútímalesanda hvernig samskipti hennar og Þórbergs eru við börn þau sem þau áttu hvort fyrir sig, en þau áttu engin börn saman eins og kunnugt er. Pétur gerir þeirri sögu nokkur skil en það blasir við að verðugt væri að skrifa ævisögu Margrétar og gæti slík ævisaga eflaust varpað nokkru ljósi á aðstæður einstæðra mæðra og „lausaleiksbarna“ á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Bækur Péturs Gunnarssonar auka mjög skilning á Þórbergi Þórðarsyni, þessu ólíkindatóli íslenskra bókmennta, um leið og þær eru dæmi um þá grósku sem við erum að sjá í íslenskri ævisagnaritum um þessar mundir. Það er líka mjög viðeigandi að sá sem skrifar ævisögu Þórbergs Þórðarsonar forðist hefðbundnar leiðir því líklega er Þórbergur sá höfundur sem einna frumlegast hefur tekið á ævisagnaforminu á Íslandi; ævisaga hans um séra Árna Þórarinsson gnæfir enn yfir sem einn af tindum íslenskrar bókmenntasögu rúmri hálfri öld eftir útgáfu lokabindisins og hefur vafalaust verið mörgum ævisagnaritaranum til innblásturs og hvatningar í gegnum tíðina.

 

 

Soffía Auður Birgisdóttir

 

Tilvísanir

  1. Ritdómur þessi er að miklu leyti byggður á erindi sem höfundur flutti á bókakvöldi Sagnfræðingafélags Íslands 14. janúar 2010.
  2. Benda má á bækur á borð við Lífsjátningu. Endurminningar Guðmundu Elíasdóttur söngkonu eftir Ingólf Margeirsson (1981) og Snorra á Húsafelli. Sögu frá 18. öld eftir Þórunni Valdimarsdóttur (1989).
  3. Hér mætti nefna ólíkar bækur eins og Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey. Fjölskylda og samtíð Héðins Valdimarssonar eftir Matthías Viðar Sæmundsson (2004), Ballaðan um Bubba Morthens eftir Jón Atla Jónasson (2006) og Myndin af Ragnari í Smára eftir Jón Karl Helgason (2009).
  4. Sigfús Daðason. „Þórbergur Þórðarson.“ Andvari 1981, bls. 3. Var einnig gefið út í sérprenti.
  5. Sama stað.
  6. Pétur Gunnarsson. ÞÞ – í forheimskunarlandi. JPV útgáfa 2009, bls. 258. Hér eftir verður vitnað í bækurnar tvær innan sviga í meginmáli.
  7. Í ævisögu sinni um Einar Benediktsson, t.a.m., leyfir Guðjón Friðriksson sér að sviðsetja atburði og spinna upp samtöl í frásögn sem að öðru leyti myndi falla vel að skilgreiningu hinnar hefðbundnu ævisögu. Þetta gerir hann alltaf út frá fyrirliggjandi heimildum en margir myndu segja að hér væri hann að „skálda í eyðurnar“ enda hefur þessi aðferð hans hefur verið afar umdeild.
  8. Þetta kom fram á fundi Sagnfræðingafélagsins sem áður var vísað til.
  9. Jón Viðar Jónsson. „Þörf bók um Þórberg.“ Ritdómur um ÞÞ – í forheimskunarlandi. DV 7. desember 2009, bls. 29.
  10. Ég get tek undir þá skoðun sem Loftur Guttormsson viðraði á bókakvöldi Sagnfræðingafélagsins; að í síðari bók Péturs mætti sjá eina athyglisverðustu og vönduðustu úttekt á hinni ráðandi vinstri- og menntamannaelítu sem hvað mest áberandi var á Íslandi um miðja síðustu öld, sem gerð hefur verið til þessa dags.
  11. Þarna er reyndar um ónákvæmni að ræða því Þórbergur var orðinn 18 ára þegar hann fór til Reykjavíkur í maí 1906.