Einar Már Guðmundsson. Passamyndir.

Mál og menning, 2017. 276 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2018

Passamyndir: Einar Már

Í þessari nýjustu sögu Einars Más nýtir hann, eins og oft áður, efni úr eigin ævi í skáldskap sinn, atburði og persónur. Þessar sögur má vel lesa sem sagnfræðilegar eða öllu heldur menningarsögulegar heimildir. Heimildargildi þeirra felst þó ekki í vísun til áþreifanlegra fyrirbæra heldur lifandi endursköpun andrúmslofts og tilfinninga, sem að sumu leyti tengjast tímabili í sögunni, að sumu leyti tímaskeiði í ævi fólks. Í slíkri sögu þýðir lítið að leita að útpældri fléttu atvika, því að sögumaðurinn reikar gegnum skóg minninganna. Hann virðist í upphafi taka ákveðna stefnu, en oft á tíðum er sem hún hafi gleymst í útúrdúrum og tímaflakki. Sögumaðurinn fer stundum að minna á Svejk á leiðinni til Budojevice, en þó kemst hann að lokum á sinn leiðarenda, og útúrdúrarnir hafa lagt sitt til sögunnar.

Einar leikur sér að því að vísa í upphafi og öðru hverju til Hamsuns, í Pan og Sult, enda er hann á ferð bæði í Ósló, sem eitt sinn hét Kristjanía, og í norskum skógi á fjöllum uppi. Hann er þó harla ólíkur Hamsun og veit það manna best sjálfur. Það eru samt margir fallegir kaflar sem geta minnt á Hamsun þótt þeir séu „bara“ Einar Már í essinu sínu, sjálfum sér líkur:

Ég man þegar ég stóð á gangstéttinni í rigningunni. Ég stóð við stóra gluggann í bókabúðinni á horninu, rétt hjá hallargarðinum, og beið með hjarta mitt í regninu og regnið í hjartanu. Það rigndi eins og ég stæði í sturtu, nema droparnir voru stærri og kaldari og biðin gerði allt svo dapurlegt. (8)

En það er ekki alltaf svona dapurleg stemning, þvert á móti:

Stundum er lífið bara What a wonderful world, og Louis Armstrong er sólin. Hann blæs í trompet og geislarnir flæða. Ég horfi yfir kaffihúsin á torginu, sé stúlkurnar sveifla hárinu. Sólin glampar í glösum. Það rýkur úr bollum. Einhver leikur á gítar. Einsog gefur að skilja er ég ungur í þessari sögu, rétt um tvítugt plús tveir, þrír eða fjórir, jafnvel fimm. (10)

Sögumaður Einars og alter ego, sem hér nefnist Haraldur, er fyrirferðarmikill eins og einatt í sögum hans, fer sínu fram. En hann er skemmtilegur ferðafélagi, blandar gamanið alvöru og veit hve langt honum er óhætt að fara út fyrir efnið, eða öllu heldur hver eru mörk efnisins. Frásögnin sveiflast milli hins lýríska og hins anekdótíska sem tengt er saman af hálfsjálfsævisögulegum meginþræði. Skemmtisögurnar eru af því tagi sem góðir sögumenn fága og endurtaka þangað til enginn veit, og ekki sögumaðurinn sjálfur, hvað er satt eða logið, en auðvitað er góð saga alltaf sönn. Dæmi um þetta eru frásögn af heimsókn byltingarsinnaðra unglinga til Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra og sagan af heimsókn Jonna og Halla á lögreglustöð í Ósló til að sækja um atvinnuleyfi. Þarna birtast lifandi myndir af tveimur ólíkum valdamönnum andspænis ungum uppreisnarseggjum, og það gæti svo sem verið að andstæðurnar hafi skerpst í munnlegri geymd.

Eins og nafnið Passamyndir bendir hnyttilega til er í þessari bók brugðið upp fjölda skyndimynda af persónum sem ýmist eiga samleið með sögumanni um stund eða hann hittir á eins konar gatnamótum. Sumir þeir sem styst er frá sagt eru svo sem auðþekkjanlegir úr raunveruleikanum eins og Bjartur Jónsson skáld og dr. Róbert hagfræðingur ellegar þau Rúna og Federico. Margar aðrar persónur eiga eitthvað sameiginlegt einstaklingum sem maður kannast við, en það er ekki vert að leggjast í rannsóknir til að athuga hvort vísað sé á einhvern ákveðinn einstakling eða mönnum sé blandað saman. Þetta eru persónur í skáldsögu. Það mætti svo sem spyrja hver eða hverjir hafi lagt til efniviðinn í Jonna, litríkan vin sögumanns og ferðafélaga um skeið, en svarið mundi leiða afvega: Jonni er Jonni, skáldsagnapersóna sem á sér sjálfstætt líf, eftirminnilegur með lífskrafti sínum og duttlungum. Sama má segja um ýmsa gólfskúrandi náms- og vísindamenn sem þeir félagar kynnast í Ósló.

Um það leyti sem Halli og Jonni fara að vinna á fjallinu tekur framsagan völdin, það sem er að gerast í sögunúinu. Lífið á fjallinu er sérkennilegt og viðburðaríkt, lesandinn fær að kynnast norsku fjalllendi, fjölskyldunni Sörensen og tengdasyni hennar Terje, sem á sér ævintýralega fortíð; fyrstu kynnin af honum reynast vera í stormahléi í lífi hans. Uppstyttu lýkur í kjölfar atburða sem sagt er frá, líklega hefði henni lokið hvort sem var, en verið getur að Íslendingarnir eigi þar einhvern hlut, óviljandi. Ungur Íslendingur, Friðrik, stingur upp kolli en er óðar snúinn heim á vit örlaga sinna. Það er örsaga og örlagasaga í senn, og ágætur endahnútur er hnýttur á hana í bókinni. Þarna blandast ást og trú á sannferðugan hátt svo að ekki verður sundur skilið.

Hin meginsagan er ástarsaga Halla, sem hittir elskuna sína í fyrsta sinn í Ósló, og lesandinn fær að fylgjast með hvernig sú ást þróast og gengur gegnum ákveðið reynsluskeið í ferð suður á bóginn. Þetta er falleg saga og fallega sögð af hlédrægni þess sem veit að ekki má tala of mikið um ástina.

Passamyndir er gædd ýmsum bestu kostum fyrri sagna Einars Más. Hinn orðhvati, margfróði og tilfinninganæmi sögumaður kann þá list að tala um margt í einu og halda þó þannig utan um þræðina að lesandinn hefur að sögulokum fengið að njóta bæði sagðra og ósagðra sagna, gægjast stutta stund inn í líf margra ólíkra einstaklinga. Lesandinn skemmtir sér vel, sjálfsagt enn betur ef hann man þá tíma sem frá er sagt. Öllu stjórna duttlungafull örlög – eða sögumaður, sem tengir allt saman í eina heild.

Í upphafi var hér vitnað til tveggja ljóðrænna textabúta, en miklu væri hægt að bæta við. Ýmsar athugasemdir eru í senn sjálfsögð speki og spaugileg: „Sumir segja að á þessum tíma hafi allt verið miklu einfaldara en það er nú. Það er ekki alfarið rétt“ (262). Þetta er í anda þeirra alþýðlegu sögumanna sem einatt hafa fyrirvara á flestum ályktunum. Nær sögulokum hefur Einar aftur minnt stuttlega á Hamsun og Pan, og hann lætur sögu sinni ljúka að hausti:

Þessi saga hófst á sumri, á eilífu sumri, en nú var haust og sumrinu að ljúka. Svöl gola lék um loftið og haustsólin lýsti upp húsveggina. Eitt sinn ætlaði ég að láta mig flýja og skrifa sögu með hryllilegum endalokum. Allt þurfti að enda illa, en ég er fyrir löngu kominn yfir slíkar bábiljur. (273)

Þótt sagan endi í sjálfu sér vel, ef að því væri spurt, minnir sögumaðurinn okkur þó á, í lokaorðum sínum, að sögur einstaklinganna fara á einn veg en lífið heldur áfram. Halli situr með vininum Jonna. Þeir hafa hist á óvæntum stað, en ljóst er að nú mun hvor fara í sína átt:

Við vitum báðir um hvað málið snýst. Þetta er stund sem kemur og fer, fýkur með vindinum og kemur aftur eins og haustlaufin og hugsjónirnar, ástin sem öllu ræður en engu stjórnar nema okkur sem vitum ekki neitt nema að bráðum fer að dimma þó að eilífðin búi áfram í dögunum. (276)

 

Vésteinn Ólason