DuftBergþóra Snæbjörnsdóttir: Duft. Söfnuður fallega fólksins.

Benedikt bókaútgáfa, 2023. 345 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2.hefti 2024.

 

 

 

Verónika Levine er eini erfingi Stöðvarinnar, líkamsræktarveldis sem foreldrar hennar, Hákon og Halldóra, byggðu upp á níunda og tíunda áratugnum. Fegurð er æðsta dyggðin í veröld þeirra en hún er skilgreind afskaplega þröngt, eiginlega bara sem samheiti við að vera grannur, stæltur, slank, sléttur, felldur, unglegur. „Til hamingju, þú ert orðin 500 grömmum fegurri!“ (18) sagði Halldóra stundum við konurnar sem hún vigtaði eftir eróbikk-tíma meðan hinar, sem ekki höfðu lést, fengu að heyra að þær hefðu greinilega verið að graðga í sig. Halldóra er sjálf grönn og stelpuleg og minnir á ljóshærða Brooke Shields. Hákon er „eins og útlendingur“, stæltur, loðinn, brúneygur og sólbrúnn, með djúpa spékoppa sem gera hann alveg ómótstæðilegan þegar hann brosir. Fjölskyldan býr í risastóru húsi sem Verónika kallar ýmist geimstöðina eða glerhöllina, 400 fermetra einbýli á þremur hæðum með heitum potti, tækjasal, ljósabekk, sánu og túrkisblárri sundlaug í kjallaranum. Innréttingarnar eru „sprautulakkaðar hvítar og húsgögnin ýmist úr hvítu leðri eða í gullbrydduðum rókókó stíl“ og gólfið er úr „dökkum, flughálum marmaraflísum með hvítum æðum sem kvísluðust ískaldar undir iljum [þeirra]“ (27) eins og til að undirstrika kuldann sem er alltaf í húsinu. Hákon hreykir sér af því að þurfa að flytja inn eigin gasgrill því þau fáist ekki nógu stór á landinu fyrir hann. Hann er af ríkum ættum, heildsalafjölskyldu sem „skeit peningum“ en var líka falleg og gáfuð og með afbrigðum læs á menningu. Fjölskylda Halldóru er hins vegar „fátækt skítapakk“, hún er komin af „alkóhólistum og glæpamönnum, landasölum og atvinnulausum aumingjum“ (57) og pabbi hennar lamdi þær mæðgur, stundum þannig að líf þeirra lá við.

Ef þetta síðasta er frátalið eru þau Hákon og Halldóra auðþekkjanlegar týpur sem lesendur þekkja mætavel í hundraðatali af fasteigna-, lífsstíls- og Smartlandsvefjum landsins. Þannig hljóta Bjössi og Dísa í World Class að teljast ein fyrirmynd hjónanna, svo langt sem það nær. Myndin af þeim, sem hefur framkallast undir ljósi fjölmiðlaumfjöllunar síðustu ára, er áþekk myndinni sem er dregin upp í Dufti: Hún er af fólki sem hefur minnst að gera með hreysti og heilbrigði en þeim mun meira með íburð og óhóf. En í okkar samfélagi, sem er gegnsýrt af hugmyndinni um frama og efnishyggju, eru þess konar fígúrur ekki víti til varnaðar heldur fyrirmyndir. Enda rata Hákon og Halldóra iðulega á síður slúðurblaðanna og fyrirmenni þjóðarinnar keppast um að láta ljósmynda sig í félagi við þau. Í þeim er hinn thatcheríski andi kominn ljóslifandi, þau eru fyrst frumkvöðlar sem vinna myrkranna á milli, svo uppar sem njóta alls þess versta sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er vissulega auðvelt að væna Levine-fjölskylduna um smekkleysi og yfirborðsmennsku en það er að væna okkar eigin menningu um sömu lesti. Það er líklega ekki fjarri lagi.

Þessi andstæðupör – fallegir og ljótir, ríkir og fátækir, menntaðir og ómenntaðir – mynda sterk leiðarstef í bókinni en það má segja Dufti til nokkurra tekna að mörkin eru afskaplega þvæld og það er erfitt að para þau með sannfærandi hætti við jákvætt og neikvætt. Ég vil því streitast á móti þeirri túlkun sem mér fannst bera á þegar bókin var nýkomin út og sýnir Halldóru og Hákon sem vont fólk eða fjölskylduaðstæður Veróniku sem sérstaklega slæmar. Þeirri túlkun er gefinn byr undir báða vængi í kynningartexta þar sem er talað um „líkindi truflaðrar fjölskyldu við sértrúarsöfnuð“.[1] Jú, bókin geymir rifrildi og framhjáhöld og sjúkleg kvíðaköst en að mínu mati krefst það nokkurrar dómhörku að saka Hákon og Halldóru um vonsku eða vanrækslu, hvað þá meðvitaða innrætingu eins og þá sem er stunduð í költum. Þrátt fyrir fjölmarga galla verður ekki annað sagt en að þau séu yfirleitt afskaplega ástúðleg við Veróniku, sérstaklega Hákon. Hann kallar hana ýmsum elskulegum gælunöfnum („séra Verónikus, Verónikoffíkoff, Kóperníkus, Verumús, Voffi, Barónessa“ (16-17)) og feðginin eiga í nánu, fallegu, hláturmildu sambandi. Sjálf vísa þau til sín sem skyttanna þriggja andspænis hinum sem bora „sér leið í gegnum lífið eins og hljóðlátir ormar“ (67). Það má vissulega lesa svoleiðis yfirlýsingu sem mannfjandsamlega en það býr líka í henni ákveðinn fjölskyldukærleikur og sterk samstaða sem er erfitt að tengja ekki við.

En ástríkið verður stundum að ofríki. Verónika má alls ekki fara í strætó (þar eru bara perrar að sögn móður hennar) og ef hún gleymir sér á leiðinni heim úr skólanum getur hún átt von á því að finna Halldóru grátandi við vaskinn, á barmi taugaáfalls (96). Halldóra hlerar símtöl Veróniku við vinkonur sínar og segist aðspurð gera það til að vera viss um að þær séu ekki að gera neitt af sér. Þessi ofverndunarárátta á sér eflaust rætur í því að Halldóra ólst sjálf upp við afar erfiðar og ótryggar aðstæður, sem skýrir kannski einnig að hluta hvað hún sækir í veraldleg gæði: til að snúa við skorti æskuáranna. Það er enn fremur freistandi að túlka ofuráherslu hennar á líkamsmynd sem leið til að ná loks stjórninni sem hún hafði ekki í uppvextinum, en togstreita stjórnar og stjórnleysis er mikilvægur merkingarás í sögunni. Margar af verstu minningum Veróniku úr uppvextinum tengjast því þegar Halldóra missir stjórnina, sem gerist stundum þegar stór og smá áföll dynja yfir, en virðist líka geta gerst nokkurn veginn fyrirvaralaust. En þótt hugurinn láti ekki að stjórn getur Halldóra beygt líkamann undir vilja sinn með mataræði og hreyfingu og mótað hann að vild án þess að aðrir þvælist fyrir. Eða það er allavega hugmyndin. Þótt Halldóra (sem er smágerð) eigi auðvelt með það, þá reynist Veróniku (sem er stórgerðari á alla kanta) það heldur erfiðara. Halldóra gerir samt sitt besta og lýsingin á því hvernig hún fléttar úfið hár Veróniku á hverjum morgni segir mikið um löngun hennar til að ná stjórn: „Fingur Halldóru kröfðust reglu, skipulags, hvert einasta krullaða hár á höfðinu á mér vísaði í vitlausa átt, en vilji hennar var sterkari, hendurnar ákveðnari“ (25).

Verónika er ekki falleg sjálf, á kvarða fjölskyldunnar, og verður því hornreka í þessari sléttu, felldu og fallegu veröld. Sem barn gerir hún eins konar líkamlega uppreisn gegn glerhöllinni sem þau búa í, hún blæs „móðu á glerið, sleikti það, dró kámugar hendurnar eftir því“ (28). Hún veit vel að hún er ekki falleg eins og foreldrar hennar, en það er þó ekki á heimilinu sem hún fær að heyra það heldur er það annað fólk sem ber þau stöðugt saman („Svo þetta er dóttir ykkar, sagði fólk og augnaráð þess hjó mig í sundur eins fyrirhafnarlítið og rotnandi rót“ (112)), ekki síst jafnaldrar hennar. Bergþóru, höfundi Dufts, tekst mjög vel upp með að sýna manni – eða minna mann á, öllu heldur – hversu grimm börn geta verið. Þau kalla Veróniku hlussu og mykjubjöllu og strákarnir garga „NO NO NO með leikrænum tilburðum“ þegar flöskustúturinn lendir á henni í afmælisveislum (112). Hún er líklega ættleidd, menguð, fatlafól og spassi (uppnefni sem hún erfir eftir að Lilja vinkona hennar, sem gekk við hækju, flytur út á land), segja þau. Allir sem hafa gengið í skóla þekkja þessa grimmd og auðvitað er augljóst hvaðan hún kemur. Börnin erfa gildismat samfélagsins sem þau alast upp í. Í bókinni eru fjölmörg dæmi þess að Verónika endurómi andstyggilegar athugasemdir foreldra sinna og það er engin ástæða til að ætla að hún sé ein um að bergmála það sem hún heyrir heima fyrir. Gildismatið segir bæði til um hvað er æskilegt og óæskilegt. Bekkjarsystir Veróniku, Eva, breiðir yfir bágar fjölskylduaðstæður með lygum um utanlandsferðir og leikfangaþjófnaði en ekki síst með líkamlegri fegurð sem dáleiðir alla, stráka og stelpur, börn og fullorðna. Þrátt fyrir að eiga ekkert sjálf veit hún fullvel hvað er eftirsóknarvert og þess vegna er hún valdamesta stelpan í bekknum.

Duft er fyrst og fremst áfallasaga eða sálræn könnun á því hvers vegna fólk verður eins og það er og þar spilar fjölskyldan auðvitað lykilþátt. Þess vegna dvel ég svo lengi við Halldóru og Hákon; þau eru ekki bara afskaplega vel gerðar persónur heldur er okkur boðið að sjá hegðunarmynstur Veróniku sem beina afleiðingu uppeldisins. Hún erfir til dæmis að einhverju leyti kvíðahugsanir móður sinnar: „Það voru óteljandi og óhugsandi margar aðferðir fyrir mömmur til að deyja. Þær gátu lent í árekstri, dottið í sjóinn, fengið heilaæxli á stærð við appelsínu, keyrt fram af brú, verið skotnar með haglabyssu eða étnar af ljónum svo fátt eitt sé nefnt“ (104). Langflestir lesendur þekkja sig eflaust með einhverjum hætti í þessum órum; ég man alltént sjálfur eftir að hafa málað skrattann skærum litum á vegginn ef foreldrar mínir voru ekki komnir að sækja mig á réttum tíma. Það er kvíðvænlegt að fóta sig í veröld sem maður skilur ekki og virðist stundum fjandsamleg. Dúkkuleikir með Evu snúast til að mynda „undantekningarlaust upp í dökka og óþægilega sögu þar sem börnin létust úr sjaldgæfum sjúkdómum eða af slysförum og einhver óþokki kom og drap alla“ (90). Þrátt fyrir gjörólíkar aðstæður eru fantasíur vinkvennanna því ekki svo ólíkar. Ef auðurinn er dreginn frá, þá er nefnilega fátt í uppvexti Veróniku sem allt þokkalega heilsteypt fólk þekkir ekki í einni eða annarri mynd. Þar búa galdrar Dufts: Þrátt fyrir að virðast kannski ókennilegt við fyrstu sýn þá þekkjum við þetta sjúka samfélag því þetta er samfélagið sem skóp okkur sjálf.

Hákon, Halldóra og Verónika eru ekki frávik heldur nokkuð venjulegir þegnar í samfélagi sem er gagntekið af yfirborðinu. Þannig er það ekki svo að áhersla þeirra á yfirborðið dylji óvenju myrk undirdjúp, heldur breiðir yfirborðsmennska samfélagsins alls yfir grasserandi hatur: á fátækum, á útlendingum, á veikum, á öllum þeim sem ganga ekki í takt eða skera sig úr fjöldanum. Það er yfirgengileg áherslan á gljápússað yfirborðið sem auðveldar okkur að hata hverja misfellu, ekki síst þegar við greinum þær í okkur sjálfum. Það er ekki auðurinn sem kallar fram siðferðisbresti þeirra, heldur er fjölskyldan meingölluð þrátt fyrir auðinn. Það skiptir ekki máli hve mikið þú þénar, hve hátt þú ríst eða hve mikil fita rennur af þér, kvíðinn, myrkrið, ofbeldið og hatrið eirir engum því það er ofið inn í sjálfa samfélagsgerðina.

Fyrri hluti Dufts fjallar allur um uppvöxt Veróniku. Kaflarnir eru stuttir og í hverjum þeirra er tekið fyrir eitt atriði úr uppvextinum þannig að smátt og smátt teiknast upp allítarleg mynd af Veróniku og foreldrum hennar, sambandi þeirra hvert við annað og við umheiminn. Allt sem nefnt hefur verið hér að ofan er fengið úr fyrri hluta bókarinnar og þó eru ekki nema örfá brot tínd til. Þessi brot eru ótrúlega rík af innsæi og mósaíkmyndin sem framkallast er svo margslungin og sannfærandi að unun er að lesa. Seinni hlutinn er svo allólíkur þeim fyrri. Þá fylgjumst við með Veróniku á fullorðinsárum yfir nokkurra mánaða skeið í frásögn sem hefst þegar kærasti hennar, Kiddi, verður úti eftir að þau rífast á fylleríi. Í framhaldinu kynnist hún vísindamanninum og frumkvöðlinum Prins og fer frá því að vera viðskiptavinur eins konar bætiefna- og heilunarþjónustu sem hann rekur á Tenerife, Biology of Bliss, yfir í að fjárfesta í starfseminni og verða þar lykilstarfsmaður. Þetta er költ-hlutinn sem mest var látið af í kynningu bókarinnar en er þó ekki nema síðasti fjórðungur verksins.

Fyrri hluti bókarinnar er magnaður aflestrar en mér reyndist erfiðara að ná tengingu við síðari hlutann. Samband Veróniku við Kidda er ótrúverðugt þótt ýmsar sálfræðilegar skýringar séu bornar á borð. Við fáum að heyra hvernig Verónika rauf vítahring dekurs, þar sem alltaf var eitthvað betra í boði, með því að velja sér á fullorðinsaldri ósjálfrátt menn langt fyrir neðan sína virðingu þannig að hún „þurfti ekki einu sinni að spyrja sjálfa [sig] hvort eitthvað betra væri í boði,“ (180) því það var svo augljóst (að svo væri). Það gildir vissulega um Kidda: hann vantar tönn í efri góm, hann er með „rauðflagnandi húð“ sem stafar af „einhverskonar þurrki eða exemi,“ hann lyktar af „sterkum rakspíra og sígarettum“ og „gat ekki horft beint í augun á neinum fyrr en hann var búinn að fá sér vel í glas“ (183) og eftir nokkra mánuði er Verónika farin að „fá ógeð á blautum, linum kossum hans og hvernig hann ýtti alltaf hausnum á mér niður að klofinu á sér eins og árið væri 1999 og ég væri bakvið sjoppu en ekki í þakíbúð í nýju lúxusíbúðahúsi með marmaraflísaklæddri lyftu“ (205). Óþolið fyrir Kidda og fólki af hans sauðahúsi skín í gegn enda endast engin þessara sambanda. Kannski mætti skilja samband Veróniku við Kidda sem eins konar uppreisn gegn ofríki Halldóru, eins og gefið er í skyn þegar þau eru að byrja að hittast, en það er erfitt að skilja hvers vegna hún syrgir hann þá jafnsárt og raun ber vitni þegar hann deyr. Er það vegna þess að með dauða hans verður sambandið eilíft og öðlast fyrir vikið dýpri merkingu en fjölmörg fyrri sambönd Veróniku við ómerkilega menn?

Það er sömuleiðis óljóst hvers vegna hún hrífst af Prins. Okkur er snemma sagt að hann sé algjörlega einstakur: „Það var eitthvað öðruvísi við hann, hvernig hann horfði í gegnum mig, spurði réttu spurninganna til að leiða mig innar og nær einhverju nýju. Allt sem hann sagði var skýrt“ (230). En er gott að láta horfa í gegnum sig? Er það þannig sem leiðtogar ná til fólks? Nokkrum línum síðar er fyrstu bílferðinni þeirra saman lýst. Þar fer „hann að blaðra eitthvað um tár og hormónakerfið og steinefni og ópíóða og allskonar sem ég skildi ekki en ég kinkaði bara kolli eins og ég væri sammála öllu á meðan ég reyndi að jafna mig“ (230). Hér er hrópandi ósamræmi; Prins talar augljóslega ekki skýrt og hann virkar eiginlega frekar leiðinlegur. Við erum kirfilega hlekkjuð við sjónarhorn Veróniku alla frásögnina þannig að hér er ekki um að ræða form af íróníu. Fyrir vikið skilur lesandinn aldrei hvers vegna Verónika er svo hrifinn af Prins og enn síður hvers vegna hún hrífst af starfsemi hans. Hún þolir í fyrstu ekki heilsusetrið sem hann rekur; finnst það skítugt og ómerkilegt. Á síðu 256 hristir hún höfuðið yfir fyrirlestri sem Prins heldur, á síðu 257 bíður hún „kvíðin og full af aulahrolli“ eftir því að Prins segi þeim að dansa eða losa um hömlur í eins konar hópþerapíu en á síðu 258 vill hún ekkert frekar en að liggja á harðri dýnu á rykugu og moldugu gólfi. Þarna verður algjör umvending á viðhorfi hennar sem er erfitt að átta sig á. Þráir Verónika, sem hefur alla tíð búið við efnislega ofgnótt og ótakmarkaða valmöguleika, að láta segja sér hvað hún eigi að gera og hugsa? Minna forystutilburðir Prins hana á Halldóru þannig að hún leitar ómeðvitað aftur í samskonar samband? Ber okkur að skilja ægikrafta sértrúarsöfnuða og öfgahópa eins og náttúrulega ógn sem geti hrifsað hvern sem er með sér? Langir kaflar í framhaldinu eru eins og upp úr glærukynningum Biology of Bliss þar sem fjallað er um rekstrarmódel fyrirtækisins og svo er skrifaður inn svolítill skuggi af glæpasögu þar sem senegalskar konur eru kannski og kannski ekki fórnarlömb mansals og fyrrverandi kona Kidda hefði eða hefði ekki getað komið í veg fyrir dauða hans. Fyrir mína parta eru þessir þræðir festulítið fum í samanburði við þaulhugsaðan og frábærlega skrifaðan sálfræðilegan skáldskapinn í fyrri hluta bókarinnar.

Verónika fer þannig frá því að vera persóna sem maður þekkir, skilur og hefur samúð með yfir í að vera ráðgáta og hálfgerð geimvera. Kannski er það ein ætlun verksins, að draga upp mynd af því hvernig yfirborðsmennska neyslusamfélagsins, með stöðugum merkjasendingum um skort mitt í ofgnóttinni, gerir það að verkum að við firrumst okkur sjálf og verðum að aðskotahlutum í veröldinni; duft á gljáfægðum glerveggjum geimstöðvarinnar. Því er erfitt að svara óyggjandi, en uppvöxtur Veróniku mun í öllu falli snerta streng hjá öllum sem ólust upp við stöðuga upphafningu glæsilífsins í afþreyingarefni, auglýsingum og fjölmiðlum (og kannski heima fyrir); taktfastan barning sem ýfir enn upp skömm, gremju, sjálfsefa og tómleikatilfinningu hjá stórum hluta þjóðarinnar, raunar nú sem aldrei fyrr.

 

Atli Bollason

 

 

Tilvísanir

[1] „Duft: Söfnuður fallega fólksins“, Bókatíðindi. Félag íslenskra bókaútgefenda. Vefslóð: https://www.bokatidindi.is/bok/duft-1988