Annar tvíleikur í kvöld, eins ólíkur þeim í gær og hugsast getur: Átök tveggja manna sem byrja sem léttar skylmingar, skýrast, harðna, verða að uppgjöri um lífssýn og stefnu og leysast svo upp. Þetta er leikritið Rautt eftir John Logan sem Guðrún Vilmundardóttir þýðir og Kristín Jóhannesdóttir stýrir á litla sviði Borgarleikhússins. Verulega áhugavert leikverk og áhrifamikil sýning.

RauttRautt gerist á tveim árum, 1959-’60, í lífi rússnesk-bandaríska myndlistarmannsins Marks Rothko sem Jóhann Sigurðarson leikur. Rothko hafði fengið það verkefni að mála veggmyndir fyrir veitingasal í nýjum skýjakljúf í New York; þetta eiga að verða stórir flekar og hann ræður sér aðstoðarmann, Ken (Hilmar Guðjónsson), ungan listmálara, til að sækja sér mat og kaffi, búa til blindramma, festa strigann á hann og jafnvel grunna strigann. Ég man ekki eftir því að hafa áður brunnið af öfund í garð leikara á sviði en djöfulli öfundaði ég Jóhann og Hilmar þegar þeir hömuðust með rauða litinn á striganum undir dynjandi “Dies irae” úr Sálumessu Mozarts. Það verður farið að fenna yfir ýmislegt í hugskotinu þegar þessi sena gleymist.

Rautt er fyrst og fremst persónusköpun þessara tveggja persóna sem báðar verða breiðar og djúpar í meistaralegri túlkun leikaranna. Um leið opnar verkið okkur sýn inn í bandaríska listheiminn um 1960 og þá að vissu leyti líka inn í listheim allra tíma þegar ólíkar, jafnvel andstæðar liststefnur takast á. Það er skemmtilegt að heyra Rothko fussa og sveia “ungu mönnunum” sem voru að koma fram á þessum tíma, ekki hafði hann mikla trú á að súpudósir Andys Warhol yrðu sýndar á söfnum eftir hundrað ár eða teiknimyndasögur Roys Lichtenstein. Ekki þolir hann heldur að Ken skuli halda upp á Picasso og Jackson Pollock. Í heimi Marks Rothko er enginn annar listamaður nokkurs virði en Mark Rothko! Ætli einhverjir kannist ekki við slíka afstöðu. Ólík sýn þeirra félaga á myndlist speglast svo í tónlistarsmekk þeirra og ég hef sjaldan séð leiksýningu þar sem tónlist gegnir eins stóru hlutverki þó að ekki fjalli verkið um tónlist. Um hana sá Thorbjørn Knudsen.

Kristín Jóhannesdóttir hefur valið leikararana sína vel. Jóhann og Hilmar eru svo miklar andstæður á sviði að það er virkilega fyndið meðan maður er að venjast því. Ég vissi að Jóhann Sigurðarson væri stór, bara ekki að hann væri SVONA stór. Lokamyndin af honum er af þeim risa sem Mark Rothko hefur orðið á listaverkamarkaði heimsins (þar sem hann vildi þó helst ekki vera) og að sínu leyti líka af þeim risa sem Jóhann Sigurðarson er á íslensku leiksviði. Hilmar er eins og feiminn unglingur í sunnudagafötunum sínum í upphafi leiks en vex jafnt og þétt í sýningunni. Hann heldur léttilega uppi senum einn á sviðinu þegar hann dansar við blindrammana sem hann er að vinna við. Hann hefur einstaklega fallegar hreyfingar og sterka nærveru á sviði.

Öll umgerð er sömuleiðis vel unnin. Þýðing Guðrúnar nákvæm og skýr, búningar Helgu I. Stefánsdóttur hárréttir; það er ekkert áhlaupaverk að lýsa þessa sýningu vegna allra listaverkanna sem Victor Cilia hefur málað en Björn Bergsteinn Guðmundsson brást ekki. Hann lýsti sérkennilega mikið frá hlið og kallaði þannig fram skuggamyndir sem gáfu sviðinu hálf-dularfullan svip. Þetta er sýning til að njóta og velta lengi fyrir sér á eftir.

Silja Aðalsteinsdóttir