Hermann Stefánsson. Leiðin út í heim.
Sæmundur, 2015.
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2016
Tilgangur skáldskaparins er að segja fregnir af brúðunni sem hefur verið stolið af lesandanum, að senda honum bréf frá brúðunni. Slíkt bréf sættir lesandann ekki sem spaklegast við missi hennar heldur sýnir honum fram á, líkt og barni, að heimurinn var til og verður til án hans. Að hver brúða verður að fara út í heim og standa á eigin fótum og leita ævintýrisins.
Níu þjófalyklar 2004
I
Hermann Stefánsson má hiklaust telja til óreiðumanna í íslenskum bókmenntaheimi. Þessi heimspekilegi húmoristi hóf skáldferil sinn með mjög svo opinskáu samtali við skáldsystkini sín – við gætum jafnvel talað um sníkjulífi á þeim – í Níu þjófalyklum (2004). Hann vinnur á sérlega skapandi og strákslegan hátt með form og klisjur afþreyingarbókmennta í Algleymi (2008) og Hælinu (2013) en í sinni nýjustu bók, nóvellunni Leiðin út í heim, fer Hermann aðra leið í endurvinnsluna. Að sumu leyti alvörugefnari, íhugulli og minnir þar meira á hina innhverfu Spennustöð sem Hermann gaf út á vegum Tunglútgáfunnar árið 2014. Samt meira hugmyndafjör en þar. Jafnvel mætti tala um einhverskonar nýfundið jafnvægi milli aga og ólíkinda.
Öðrum þræði er sagan endursögn á sígildri barnabók Jens Sigsgaards, Palli var einn í heiminum. En hún er líka (ó) sjálfstætt framhald, endursögn, viðbrögð við barnabókinni. Við gætum meira að segja kallað Leiðina út í heim heimildaskáldsögu með eina heimild sem spunnið er frjálslega út frá.
Ein heildartúlkunarleið að Leiðinni út í heim er sú að Páll Hermanns sé hinn fullorðni Palli Sigsgaards með óljósa minningu um drauminn/martröðina sem hann dreymdi í æsku og hefur haldið honum í heljargreipum allar götur síðar. Lokað hann af, heft þroska hans. Lausn sögufléttunnar í lokin felst þá í frelsun hans úr þeim viðjum.
Þannig hefst bókin á nákvæmlega sama hátt og barnabókin, en það má líka horfa þannig á upphafið að hún byrji þar sem bókinni um Palla lýkur. Páll hinn eldri vaknar og man að hann var að dreyma, en man ekki hvað en grunar að það sé endurtekinn draumur, minnir á „annan draum – draum úr bernsku” (6).
Við getum líka bara stillt okkur um að reyna við einhverja heildartúlkun sem óhjákvæmilega myndi þrengja að hinum fjölbreyttu hugmyndum og leikjum með þær sem Hermann býður upp á. Því hann notar óspart tækifæri sem gefast til að staldra við, leggja út af, hugleiða. Og, þegar sá gállinn er á honum, beina athygli lesandans að sér og starfi sínu sem skrásetjara þessara undra allra.
II
Stór hluti ánægjunnar sem er í boði á þessum 89 blaðsíðum er leikur Hermanns við „frumritið“. Samræðurnar við dönsku barnabókina. Leiðin út í heim fylgir atburðarás Sigsgaards nokkuð skilmerkilega. Frávikin eru fyrst og fremst í formi viðbóta, tilbrigða og hugleiðinga höfundar og færast á mjög eðlilegan hátt jafnt og þétt í aukana eftir því sem á líður.
Mesta frjómagnið sækir Hermann hins vegar í myndskreytingar Arne Ungermann. Þá lesendur Leiðarinnar sem ekki muna þær myndir í smáatriðum er rétt að hvetja til að verða sér úti um eintak af gömlu barnabókinni áður en þeir sökkva sér í sögu Hermanns. Í því samtali gerist margt ákaflega skemmtilegt sem gefur textanum á köflum frumlegan óraunveruleika- jafnvel óhugnaðarblæ.
Lýsingin á herbergi Páls í upphafi sögunnar rímar við myndina af Palla í rúminu sínu. Samanbrotin föt á stólkolli, uppreimaðir skór, röndótt rýjamotta. Lýsing sem myndar frjóan mishljóm við það þegar ljóst verður að Páll Hermanns er maður á fullorðinsaldri.
Fullorðinn maður – en býr hjá foreldrum sínum, eða þau hjá honum. Hermann bætir rakstri við þvottasenu barnasögunnar, mögulega til að taka sem fyrst af öll tvímæli um að hér er ekki barn á ferð. Svo þetta:
Meðan hann er að þessu verður honum starsýnt á spegilinn á baðherbergisskápnum. Spegillinn er honum á vinstri hönd og í honum er til hálfs svartur flötur, síðan himinblá ræma og loks eitthvað sem lítur út eins og hvítt handklæði með rauðri rönd á snaga. Hann fær þá undarlegu hugmynd að sjálfur sæist hann ekki í speglinum ef hann stillti sér upp fyrir framan hann.
(14/mynd á bls. 9 í PVEÍH, útg. 2009)
Sjálfur fékk ég þá undarlegu hugmynd við að lesa þessa setningu og skoða myndina að svörtu, bláu og hvítu fletirnir í speglinum eru fánalitir Eistlands, reyndar ekki í réttri röð. Hermann eða Palli hafa ekki orð á því en þetta er dæmi um hvert sagan og nálgun Hermanns getur leitt lesandann í eigin hugrenningum. Og reyndar er unnið markvisst með misvísandi skilaboð um hvar hún eiginlega gerist, án þess að Eistland komi þar við sögu. Íslensk (akureyrsk m.a.s.) götuheiti í bland við dönsk og sporvagna, Páll finnur kort af borginni frá 1757 og svo er okkur bent á þá forvitnilegu staðreynd að brunabíllinn, sem flestir muna úr barnabókinni, er með stýrið öfugum megin. Nokkuð sem sá sem hér skrifar þorir að veðja að enginn hefur tekið eftir nema Hermann Stefánsson.
Stuttu seinna flýtur þessi setning úr barnabókinni með, lítið breytt, svona eins og til að rugla lesandann enn í ríminu, eða kannski gefa ávæning að skýringu á því hvað þessi rígfullorðni maður er að gera í gamla herberginu sínu í föðurhúsum:
Palli veit að hann má ekki fara út á götuna án leyfis en nú er allt fólkið horfið og hann verður að leita að pabba og mömmu. (16/10)
Fimmtán síðum síðar er hann að rifja upp eftirlætisljóðið sitt, eftir Baudelaire, og enn aftar rifjar hann upp kynni sín af grískum heimspekisamræðum. Ólíkindatól, Páll, eins og skapari hans.
Seinfær ofviti? Venjulegur maður með ævilanga áfallastreituröskun? Aðallega fáum við harla fátt að vita um Pál Hermanns á raunsæissviðinu. Hvorki um persónuleika né heldur hversdagslegar staðreyndir á borð við aldur og hvað hann fæst við í lífinu. Þessari upplýsinganísku höfundar er vitaskuld ætlað að halda athygli okkar þar sem hann vill hafa hana, og eiginlega þykir þessum lesanda hálf-óviðkunnanlegt að ráða þær rúnir, reyna að púsla vísbendingunum saman.
Samtalið við myndskreytinguna heldur áfram. Páll borðar „krembollur upp úr gulri hattöskju með rauðum borða“ í sælgætisbúðinni eins og fyrirmyndin. (25/15)
Það er heldur ekki útilokað að ólíkindatólið Hermann sé að bregðast við myndskreytingum barnabókarinnnar þegar hann lætur Pál skyndilega finnast „eyrun á sér stærri en þau eiga að vera“ (6).
Allt er þetta skemmtilegt og skapar andrúmsloft. Svo eru það öll hin atriðin, sem ekki eru beintengd barnabókinni.
III
Hvar endar alheimurinn?
Skyld’ann enda, skyld’ann enda inní mér?
(Reykingar – Sigurður Bjóla Garðarson/Valgeir Guðjónsson)
Smám saman skilja leiðir með Palla og Páli upp að vissu marki. Fyrsta og stærsta skrefið á þeirri braut er á bls 21 þegar Páll Hermanns hittir sjálfan sig, en týnir tvífaranum og hefur umsvifalaust eftirför, sem seinna leiðir hann að annarri leit – að stúlkunni Stínu sem mögulega leynist í borginni og kveikir þar bál.
Þar með er komið markmið sem er ólíkt því sem Palli Sigsgaards hefur og gengur fyrst og fremst út á að notfæra sér ástandið sér til skemmtunar, þar til sú gleði súrnar og breytist í söknuð eftir vinum og foreldrum.
Það er ómaksins vert að skoða aðeins viðbrögð Páls við einsemdinni. Þau einkennast ekki af raunsæislegri örvæntingu, tæpast einu sinni af forvitni um orsakir ástandsins, umfram þessa kaldfyndnu upptalningu:
Kannski hefur það falið sig. […] Eða kannski var fólkið sett í sóttkví […] Kannski sett í útrýmingarbúðir […] Eða kannski var fólkið aldrei til. Kannski var lífið fram að þessu aðeins draumur. (16)
Seinna í sögunni lætur Páll reyna á fyrstu kenninguna, gerir tilraun til að flæma móður sína úr felustað sinum með stripli. En ekkert gengur. Hann nær heldur ekki í skottið á tvífara sínum, hvað þá Stínu litlu með eldspýturnar.
En það er hugmyndin um að fólkið sé ekki til sem fær á endanum vængina. Ekki til í þessum heimi. Heimi sögunnar og heimi Páls.
Í millitíðinni fær enn ein hugmynd úr myndheimi barnabókarinnar lykilhlutverk. Hún lætur snemma á sér kræla:
þögnin er grunn eins og sundlaugarendinn þar sem ekki má stinga sér. Harður botn yrði fljótt fyrir höfði þess sem styngi sér á kaf í þessa þögn. Hún er þunn eins og skurn á eggi. (7)
Þarna liggur Páll enn í rúminu. En eggin birtast aftur á sínum stað í frásagnargrind Sigsgaards, í mjólkurbúðinni:
Á veggnum hangir plakat með auglýsingu um egg. Ég greini sem samviskusamlegast frá þessari staðreynd. (18/13)
Og áfram er leikið með eggjahugmyndina. Hvergi skemmtilegar samt en í einum best heppnaða útúrdúrakafla bókarinnar. Þar sem Palli situr á hóteltröppunum eftir máltíð þar sem hann býr til heilan heim úr hráefnum úr eldhúsinu, og risaeðlum úr eggjum – „Egg. Allsstaðar eru egg“ (73) og gleypir í sig heiminn sinn ákveður sögumaðurinn að bjóða upp á eitthvað nýtt.
Jæja, nú þarf að gerast eitthvað allt annað. Þannig eru bækur. (75)
Uppbrotið reynist vera um móðurást og risaeðlur, og hvað það myndi þýða fyrir viti bornar og meðvitaðar lífverur að koma úr eggi, vera líf sem kviknar utan móðurinnar.
Fjarvera móðurinnar í veröld byggðri þróuðum risaeðlum væri fullkomlega eðlileg, jafnvel æskileg. Það er eggið sem risaeðlan saknar. (78)
Frumlegt og rökrétt. Rétt er að geta þess að þegar þarna er komið sögu er söguhetjan búin að eiga mök við fugl í sýningarklefa kvikmyndahúss i gróteskasta atriði bókarinnar.
En Páll er ekki fugl.
Palli rís á fætur og heldur af stað til að leita að mömmu sinni. (78)
Páll er ekki fugl – ekki alveg. En hann er lokaður í sínum heimi. Örvæntingarfull lokatilraun hans til að kalla móður sína úr fylgsni sínu ber engan árangur. Hann þarf að stíga fyrsta skrefið.
IV
Sjálfveruhyggja (Solipsismi), sú hugmynd að vitund manns sé það það eina sem til er í heiminum og aðrir í honum einungis til fyrir þennan huga, er varla réttnefnd heimspekikenning, meira eins og eitrað peð eða meinvarp, rökrétt en óbærileg niðurstaða róttækrar efahyggju af ýmsu tagi. Með hæfilegri einföldun mætti segja að margar mikilsháttar kenningar í frumspeki og þekkingarfræði séu tilraunir til að halda þessari hugmynd í skefjum, sýna fram á hvernig á því geti staðið að heimurinn og annað fólk sé þrátt fyrir allt til, og að við getum verið sæmilega viss um það.
Leiðin út í heim sýnir leið skáldskaparins. Öflug og órökvís brjótumst við með Páli út úr hinu falska fangelsi, rjúfum skurnina og sameinumst heiminum.
Útúrdúrarnir, hugarflugið og grínaktukt sambandið við barnabókina skemmtir lesandanum. En það er lokakaflinn sem hrífur mann. Óvæntur, djarfur og snjall.