AdventaLeikhópurinn Rauði sófinn hefur lagt undir sig Nýja sviðið í Borgarleikhúsinu og sýnir þar nýstárlega leikgerð af Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Eiginlega teiknimyndargerð af sögunni með örfáum lykilsetningum sem að vísu eru sagðar upphátt en ekki skrifaðar inn í málbólur. Ég sé skýr fingraför Egils Ingibergssonar, Móeiðar Helgadóttur og Þórarins Blöndal á sýningunni, minnist með ánægju sýninganna Himnaríki og helvíti í Borgarleikhúsinu (2018) og Sunnefu í Tjarnarbíó (2021) svo dæmi séu nefnd. Leikgerðin af Aðventu er líka eftir Móeiði og Egil, leikstjórn og myndvinnsla eftir Egil en leikmyndin og skemmtilegu teikningarnar sem lifna við á sviðinu eru eftir Þórarin og Móeiði. Gamaldags búningarnir voru hannaðir af Þórhildi Sunnu Jóhannsdóttur en Magnús Thorlacius sá um tæknimál og lýsingu.

Hér er allt uppi á borði. Þegar við göngum í salinn hefur Benedikt sauðamaður (Friðgeir Einarsson) lagt öll sín ferðaplögg á gólfið til að vera viss um að ekkert gleymist því hann er að fara í sína árlegu eftirleit upp á öræfi. Það er kominn desember og allra veðra von en hann þekkir svæðið vel og er með skýra áætlun. Við fylgjumst með honum búa sig út og leggja í hann, koma við á efstu bæjum í byggð, gista hjá góðum vinum, halda svo á heiðina. En áætlunin raskast, Benedikt er greiðvikinn og hjálpar öllum sem eru hjálpar þurfi, ferðin lengist úr hömlu (og hér verður sýningin ansi langdregin), hann fær stórviðri og er hætt kominn hvað eftir annað, en til bæja kemst hann aftur með fáeinar eftirlegukindur sem kannski hefðu ekki lifað veturinn af ef Benedikts hefði ekki notið við.

Benedikt er ekki einn í ráðum. Með sér hefur hann forystusauðinn Eitil, sem hefur mannsvit og er ennþá næmari á náttúruna en nokkur manneskja, og hundinn Leó. Báða þessa félaga hans og allar aðrar aukapersónur túlkar Lovísa Ósk Gunnarsdóttir af mikilli hind þegar ekki nægir að sýna þær á lifandi teikningum. Einkum var Lovísa furðu ekta hundur í öllum hreyfingum og atferli og fallegt samspil þeirra Friðgeirs þegar þeir félagar húka í jarðhýsinu – grýtunni – og bíða af sér storminn hlýjaði manni alveg inn úr. Sjálfur gaf Friðgeir sannfærandi mynd af manninum Benedikt, sem er rósemin, æðruleysið, fórnfýsin og þrautseigjan holdi klædd. Honum tókst líka prýðilega að sýna að Benedikt á sínar ánægjustundir þó að lífið hafi ekki veitt honum mikið af lystisemdum sínum; hann á þessi forkunnargóðu fylgdardýr, hann á kæra vinkonu í húsfreyjunni á einum efsta bænum og myndarlegan nafna í syni hennar og hann kann að njóta hins smáa. Setningin um kaffið sem enginn veit almennilega hvað er sem ekki hefur drukkið það ofan í holu með öskrandi bylinn fyrir ofan sig er gott dæmi um það.

Leikstjórinn auðgar sýninguna með kór að hætti forngrikkja. Það er Kvennakórinn Katla sem leikur það hlutverk, fær að segja nokkrar af þeim fáu setningum sem sagðar eru en líka syngja sérvalin lög til að ítreka stemninguna og boðskapinn. Það er fagur söngur og allur texti komst skýrt til skila. Gaman er líka að sjá handarverkin hans Stefáns í Möðrudal í myndefninu, ekki síst Fjalladrottninguna ábúðarmiklu. Tónlistin er í höndum Sigurðar Halldórssonar sellóleikara sem er á sviðinu allan tímann og getur gripið inn í leikinn þegar þörf krefur.

Aðventa Gunnars Gunnarssonar er orðmörg bók, hverju viðviki er vandlega lýst með mörgum orðum og stungið inn á milli fróðleik og heimspekilegum og trúarlegum vangaveltum. Hér er þetta allt undanskilið. Þeir sem þekkja bókina munu geta bætt einhverju af því við í huganum en gaman verður að vita hvað þeir fá út úr sýningunni sem ekki þekkja bókina – fyrir utan auðvitað góðan leikinn og skemmtilega tæknina sem er öllum sýnileg á sviðinu. En í rauninni á þessi aðferð vel við. Aðventa er táknsaga og það fer vel á því að túlka hana á táknrænan hátt. Lesi svo hver í táknin eins og honum líst.

 

Silja Aðalsteinsdóttir

 

Aðventa