Það klikkaði allt sem klikkað gat á Sýningunni sem klikkar á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi og mikið óskaplega var það gaman! Halldóra Geirharðsdóttir stýrir þessum dásamlega farsa eftir þá Henry Lewis, Jonathan Sayer og Henry Shields sem Karl Ágúst Úlfsson hefur þýtt af list og langt er síðan önnur eins hlátrasköll hafa heyrst í húsinu. Ég bendi líka á að leikskráin er mun skemmtilegri en venja er með slíkar bókmenntir. Frábært svið og viðeigandi búninga hannar Helga I. Stefánsdóttir og Páll Ragnarsson lýsir vitleysisganginn.

Sýningin sem klikkarVið erum að fara að sjá leiksýningu sem leikara Leikfélags Reykjavíkur hefur lengi dreymt um að setja á svið, spennandi glæpaleikrit í stíl Agötu Christie. Áður en tjaldið er dregið frá, eða þannig, býður leikstjórinn, Bergur Þór Ingólfsson, gesti velkomna og kynnir fyrir okkur nýja sýningarstjórann, Katrínu Halldóru Sigurðardóttur sem líka er leikkona. Hann segir það ekki en við vitum öll að hún er nýsloppin úr hlutverki Ellyjar Vilhjálms eftir um það bil þúsund sýningar og á því skilið að hvíla sig frá því að leika. Það fer einkar vel á að draga sýningarstjórann fram í blábyrjun, alveg eins og það var við hæfi að sviðsmennirnir skyldu koma og hneigja sig með leikurunum að sýningu lokinni, vegna þess að þetta verk er óður til baktjaldamanna. Það eru þeir sem láta flest gerast sem gerist á sviðinu.

Þetta er líka sýning sem skýrir hlutverk sýningarstjóra. Ef þið hafið velt fyrir ykkur hvað sýningarstjóri geri þá komist þið að því núna. Þegar ekkert er þar sem það á að vera eða gerist þegar það á að gerast, þegar arinhillan er svo laus og skökk að ekki er hægt að setja hlutinn á hana, þegar áhrifshljóðin koma mínútu seinna en þau eiga að koma, þegar blómavasi er á borði í staðinn fyrir minnisbókina sem þarf að nota eða lyklakippa í stað penna og þegar myndin sem á að vera af gamla húsbóndanum er óvart af hundinum hans þá er það sýningarstjóranum að kenna. Og mikið sem hún Katrín Halldóra var innilega klaufaleg og þó ákveðin og staðráðin í að standa sig í hlutverkinu. Þegar líður á sýninguna og Birna Rún Eiríksdóttir hefur óvart verið rotuð í hlutverki ungfrú Florence verður sýningarstjórinn að taka hlutverk hennar að sér og ekki skánar sýningarstjórnin við það! En þegar Birna Rún raknar úr rotinu og vill fá hlutverkið sitt aftur, mjög gegn vilja Katrínar Halldóru, þá fyrst hitnar nú almennilega í kolunum.

Ekki er þó allt sýningarstjóranum að kenna. Sviðsmyndin sjálf varð ein helsta persóna sýningarinnar. Ekki var einleikið hvernig hlutir losnuðu allt í einu, duttu niður af veggjum þegar síst skyldi, eða sátu fastir eins og stofuhurðin þannig að persónur gátu ekki gengið út og inn samkvæmt handritinu. Óttalegast var þegar súlan hrökk undan efri pallinum þannig að húsgögn fóru á skrið og persónurnar með.

Meðan þessu fer fram er reynt að koma leikritinu sjálfu til skila. Charles Haversham (Davíð Þór Katrínarson) hefur verið myrtur, hann liggur á legubekk í stofunni og reynir að vera dauður. Það gengur nú svona og svona. Thomas Colleymoore húsráðandi á sveitasetrinu (Hilmar Guðjónsson) og Cecil, bróðir hins látna (Hjörtur Jóhann Jónsson), hringja í Carter rannsóknarlögreglumann (Bergur Þór) sem brýst heim á setrið þrátt fyrir iðulausa stórhríð og hefur rannsókn. Á setrinu er ráðskonan frú Perkins (Kristín Þóra Haraldsdóttir) sem reynir að láta óreiðuna ekki á sig fá, og þegar líður á og Cecil hefur líka verið myrtur bregður Hjörtur Jóhann sér í hlutverk garðyrkjumannsins Arthurs. Arthur á að vera með hund en því miður skilaði hundurinn sér ekki á sýninguna þannig að hann var bara í plati. Rannsóknin gengur auðvitað seint í öllum þessum utanleikritsvandræðum og þegar stelpurnar fara að slást um hlutverk ungfrú Florence þá gleymir maður alveg að fylgjast með morðsögunni. Veit einhver hver var morðinginn?

Það er hörkulið sem Halldóra hefur fengið með sér og stýrir styrkri hendi, allar tímasetningar hundrað og tíu prósent sem ekki getur verið auðvelt þegar bæði þarf að leika leikrit og vera leikari sem þarf að bregðast við endalausum slysum og uppákomum. Angistarfullt var að fylgjast með aumingja Davíð sem átti erfitt með að vera dauður þegar troðið var á honum, eða Hirti Jóhanni þegar unnustan kyssti hann svo rækilega að það var ómögulegt að halda áfram að vera dauður. Spennandi var að fylgjast með Kristínu Þóru sem hafði falið textann sinn á ýmsum óvæntum stöðum til að geta minnt sig á. Hilmar var ekki eins nettur, hann kallaði bara „texti!“ þegar hann gataði. En Bergur Þór var auðvitað eins og klettur sem ekkert haggar.

Það er hollt að fá magakrampa af hlátri. Þið skuluð endilega reyna það.

-Silja Aðalsteinsdóttir