Ég hef alltaf haldið upp á Atómstöðina, kannski vegna þess að ég var norðanstúlka eins og Ugla og mér var strítt svolítið á því í skólanum mínum fyrir sunnan. Þetta er skemmtilega galin saga í stíl, Halldór Laxness leikur sér að því að sjá höfuðborgina með augum lítt reyndrar rúmlega tvítugrar stúlku norðan úr afdal og auðvitað finnst henni allt fáránlegt þar miðað við heimabyggðina. Húsið sem hún verður vinnukona og barnfóstra í, heimili Búa Árlands þingmanns og ráðherra, er glæsilegra en nokkur höll í íslenskum ævintýrum, hús organistans djörf andstæða þess. Einu híbýlin sem hún þekkir sig í er kjallarinn þar sem sellufundurinn er haldinn, hann minnir á bæinn heima og fólkið þar er eins og hennar fólk. Þar verður svipur frásagnarinnar hjá Halldóri allt í einu „eðlilegur“, ef svo má segja, þarna á Ugla heima.

Atómstöðin

Atómstöðin

Þessari sýn á söguefnið og persónurnar freista þau Halldór Laxness Halldórsson og Una Þorleifsdóttir leikstjóri, höfundar leikgerðarinnar sem nú er sýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins, að halda og það tekst vel. Þó er svið Mireks Kaczmarek einn hvítur geimur og sýnir okkur ekki til dæmis muninn á listinni á veggjum húsanna sem Ugla (Ebba Katrín Finnsdóttir) kynnist. Sjálf er hún ímynd sakleysisins í sínum hvíta kjól, eins og framandi fugl innan um glæsibúninga kvennanna á heimili Búa (Björn Thors) og gráa búninga mótmælenda og sellufundargesta. Mirek gerir myndina af fólkinu á sviðinu mjög skýra, við erum aldrei í vafa um hver er hvað og hvað hann stendur fyrir.

Ugla er á fyrsta degi sem vinnukona á heimili Búa þegar sagan hefst á hinni óvæntu setningu: „Á ég að fara inn með þessa súpu?“ Hún er ekkert vön að ganga um beina, hvað þá að henni sé þjónað til borðs, en þessi fyrsta setning hennar sýnir undireins að þótt hún komi úr afskekktum dal og hafi fátt reynt og séð þá er hún vel lesin og full sjálfsöryggis um leið og hún skilur og viðurkennir það sem upp á vantar hjá henni. Í sýningunni fáum við þessa setningu en okkur til furðu grípur frú Árland (Birgitta Birgisdóttir) fram í fyrir þeim matseljunni (Edda Arnljótsdóttir) og segir: „Þú sagðir þetta ekki svona!“ Um þetta verða dálitlar umræður, síðan er setningin sögð aftur og sagan heldur áfram. Þessi uppbrot voru þó nokkur, oftast tengd því að Pilturinn (Snorri Engilbertsson) reis öndverður gegn því að Atómstöðin yrði soðin niður í einfalda ástarsögu og pólitíkinni gleymt. Þetta var bæði hressandi og vekjandi, því auðvitað hættir manni til að hugsa um Atómstöðina sem sögu af ungri fátækri stúlku sem verður ástfangin af auðugum vinnuveitanda sínum en áttar sig á því í lokin að hún á ekkert erindi við hann. Ekkert sérstaklega dramatískt en nóg til að tæla að lesendur áfram sem hefði flökrað við of mikilli pólitík.

Það sem efst var á baugi á útgáfutíma bókarinnar var grunurinn um að stjórnvöld myndu afsala sér hluta landsins undir varanlega herstöð – eins og kom á daginn – og í bókinni gerir Halldór Laxness heimflutning beina Jónasar Hallgrímssonar að leið yfirvalda til að fela þá fyrirætlun. Við erum stöðugt minnt á bein Jónasar með dálitlum kassa til hliðar á sviðinu, annars komast höfundar leikgerðar nett frá pólitísku karpi skáldsögunnar sem er satt að segja ansi leiðinlegt. Nógu margar samsvaranir eru milli stórpólitíkur eftirstríðsáranna og samtímans til að sýna að Atómstöðin hefur ennþá skýra skírskotun.

Þessi sýning er undursamlega vel hugsuð og skemmtileg, táknrænir búningar Mireks Kaczmarek og sviðið sem stundum tók á sig ævintýraleg munstur, bæði veggir og gólf, tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar og hljóðmynd hans, Arons Þórs Arnarssonar og Kristins Gauta Einarssonar, samsett úr áhrifshljóðum og vísunum í sönglög frá ýmsum tímum, og lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar, stundum vísvitandi skuggaleg. Textinn er líka úthugsaður til þess að okkur megi vera ljós snilld hins upprunalega höfundar, þar eru allar eftirminnilegustu setningar skáldsögunnar en settar í gott samhengi þannig að þær hanga ekki utan á leiktextanum eins og skraut.

Og textameðferð var aðdáunarverð. Þar er fremst meðal jafningja leikkonan unga, Ebba Katrín, sem gerði persónu Uglu með sinn kotroskna munnsöfnuð algerlega að sinni. Hún sagði þessar setningar Halldórs Laxness eins og hún meinti þær, eins og þær væru hennar eigin smíð. Gervið var líka sláandi, hvíti kjóllinn, ljóst hárið (frú Árland kallar það „saurgult“!), hún var eins og engill á sviðinu. Gagnvart bjartri einlægni hennar stillir leikstjóri dökku undirferli Búa Árlands sem Björn Thors túlkaði af snilld. Frekju og hroka frú Árland túlkaði Birgitta af aðdáunarverðri stillingu nema þegar hún missir sig í senu sem er síst öfgakenndari á sviðinu en í skáldsögunni. Snæfríður Ingvarsdóttir var bæði sannfærandi glyðruleg Guðný/Dúdú og viðkvæm Aldinblóð þegar hún hneig í fang Uglu og bað hana að segja sér ofan úr sveit. Synirnir Arngrímur/Bubu/Landaljómi og Þórður/Bóbó/Gullhrútur voru ágætlega leiknir af Arnmundi Ernst Backman og Hallgrími Ólafssyni sem einnig léku önnur hlutverk, til dæmis guðina furðulegu, Benjamín og Brilljantín. Stefán Jónsson setti alveg nýjan svip á organistann, framandi og spennandi, og Oddur Júlíusson var hæfilega feiminn, klaufskur og þó ágengur sem feimna löggan, barnsfaðir Uglu. Eggert Þorleifsson fór létt með forsætisráðherrann og ennþá betri var hann sem gamli sjómaðurinn á sellufundinum. Matselja Eddu Arnljótsdóttur er helst til lítið hlutverk miðað við bókina (enda er skjólstæðingi hennar, yngstu dótturinni, sleppt) en í staðinn fékk Edda að vera virk í hópi mótmælenda sem þau leiddu Snorri sem Pilturinn og Hildur Vala Baldursdóttir sem Stúlkan (í mjólkurbúðinni). Þau voru bæði frábær! Hildur Vala fór glimrandi vel með ósvífinn inngangstextann að báðum helmingum sýningarinnar. Snorri minnti í senn á Fidel Castro og Che Guevara í gervi og fasi og var gersamlega heillandi.

Ég vona sannarlega að íslenskukennarar um land allt noti þetta tækifæri til að leyfa nemendum sínum að upplifa dýrlegan texta Nóbelsskáldsins og alla aðra hvet ég til að sjá hvernig má láta sjötugt verk lifna á sviði og segja sannleika sem því miður er ekki úreltur.

Silja Aðalsteinsdóttir