Það er býsna djarft af Einari Kárasyni að ætla sér að endursegja Njálu alla á tveim tímum. Njála er lengst allra Íslendingasagna, helmingi lengri en þær næstu á eftir (Egla, Grettla og Laxdæla), skiptist í þrjá allólíka hluta, er geysilega mannmörg og viðburðir flóknir og samanfléttaðir þannig að oft þarf að nema staðar og hugsa sig vandlega um. En ef einhver hefur þessa sögu algerlega á valdi sínu og getur opnað hana fyrir fólki á öllum aldri þá er það Einar Kárason og þetta gerir hann nú í Landnámssetrinu i Borgarnesi. Fyrsti sögutíminn var fyrir viku og í gær var rúmlega húsfyllir af logandi spenntum áheyrendum á Loftinu.

Einar hefur að hálfu leyti lifað og hrærst á þrettándu öld undanfarna áratugi og í beinu sambandi við rannsóknir sínar á Sturlungu hefur hann kynnt sér Njáls sögu og bæði sannfærst um hver höfundur hennar sé og skilið betur atburðina þegar þeir eru bornir saman við viðburði í samtíma hans. Meðal annars hefur hann pottþétta skýringu á endalausum, hrútleiðinlegum lagaflækjunum í sögunni – sem hann sleppir annars að mestu leyti. Njálsbrennusögu og Flugumýrartvist nefnir hann sýningu sína og það var ekki síður spennandi að hlusta á samanburðinn á Njálsbrennu og Flugumýrarbrennu í lokin en að hlusta á frásögnina af atburðum Njálu.

Engin leið er að trúa honum ekki þegar hann fullyrðir að Sturla Þórðarson sé höfundur beggja þessara höfuðrita, Njálu og Íslendingasögu, að minnsta kosti ekki þegar hann hefur tínt fram mörg dæmi um samsvörun milli atvika, orðalags og persóna. Geirneglingin var þegar hann dró þá fram Mörð Valgarðsson og Hrafn Oddsson. Lesendur Njálu hafa aldrei skilið hvernig stendur á því að Mörður sleppur alltaf við ákærur og dauða þrátt fyrir róg sinn, undirróðursstarfsemi og beina þátttöku í aðförum að mönnum, en þegar við fáum svo hliðstæða lýsingu á Hrafni þá verður okkur ljóst að það eru alltaf til menn sem bera kápuna á báðum öxlum og komast upp með það. Mikið hefur Sturla skemmt sér við að hefna sín á Hrafni á þennan snyrtilega hátt. Líklega hefði hann undrast það eitt að enginn skyldi fatta þetta fyrr!

Einar Kárason er gersemi og á skilið mikið lof fyrir að færa okkur Njálu í þessum ný-forna búningi. Enginn má missa af því.

 

Silja Aðalsteinsdóttir