Tvennt gerir mér einkum erfitt fyrir að skrifa um söngleikinn 9 líf eftir Bubba Morthens og Ólaf Egil Egilsson sem var frumsýndur á stóra sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Ólafs Egils. Annað er hve margir hafa þegar tjáð sig í svo löngu og litríku máli um sýninguna á Facebook að það verður vandi að finna orð sem ekki hafa þegar verið notuð um hana. Hitt er hvað þessi sýning er mér nákomin persónulega. Vel væri hægt að halda því fram að ég sé óhæf til að skrifa um hana þess vegna, þó er ekkert í henni eftir mig eða á mínum vegum þannig að ég ætla að láta eftir mér að setja hugsanir mínar fram.

9lífFljótlega eftir að orð tók að berast um að til stæði að gera söngleik út frá ævi og tónlist Bubba Morthens fréttist líka að höfundur leiktexta og leikstjóri ætlaði að láta marga spreyta sig á að leika Bubba, ekki til skiptis heldur alla í einni og sömu sýningunni. Ekki heyrðist mér öllum líka sú hugmynd en ég held að langflestir sem hafa séð sýninguna séu nú sáttir við hana. Það er nefnilega fráleitt að einhver einn geti verið Bubbi, bæði af því að hann er ennþá á meðal okkar og af því að hann hefur verið svo margir menn um ævina – samanber titil verksins. Enn ein ástæða er að enginn syngur eins vel og hann og maður yrði ábyggilega ergilegur að heyra sömu röddina túlka lögin hans af því að hún væri ekki röddin hans.

En þetta var djörf ákvörðun hjá Ólafi leikstjóra og ekki er síður djarft að láta barnungan dreng leika Bubba lítinn og hafa hann svo sínálægan á sviðinu alla sýninguna til að minna á að æskan og uppvöxturinn mótaði Bubba og hefur valdið honum meiri sorgum og þjáningum, beint og óbeint, en nokkurt annað skeið – og voru þau þó nokkur söguleg. Æskan setti fingraför á sál hans sem hann hefur opinskátt barist við að útmá og nú loks með góðum árangri.

Litla Bubba lék í gærkvöldi sá yngsti af þrem sem skipta með sér hlutverkinu, Hlynur Atli Harðarson. Hann var undur, barnið. Ekki var hann aðeins fullkomlega slakur og eðlilegur á sviðinu heldur lék hann prýðilega í erfiðum atriðum og söng eins og þrautþjálfaður söngvari. Atriðin milli hans og Esther Talíu Casey sem lék Grethe, mömmu Bubba, voru hlý og þó djúp og sár í bland þannig að snart mann djúpt. Ekki tók minna á að sjá atriðið úr skólanum þegar kennarinn (Valur Freyr Einarsson) gerir gys að barninu sem ræður ekki við að stafsetja rétt. Þetta byggir undir reiða unglinginn Bubba (Rakel Björk Björnsdóttir) sem hatar skólann og endar með því að ráðast á kennarann svo sér á honum. Rakel var andskoti öflug sem Reiði-Bubbi, það beinlínis gneistaði af henni.

Grethe þolir syninum ekki að húka heima ef hann vill ekki vera lengur í skóla og sendir eftirlætið sitt í burtu. Tolli bróðir (Hjörtur Jóhann Jónsson) hefur hann með sér á vertíð og Aron Már Ólafsson tekur þá við sem Gúanó-Bubbi. Hann fær að upplifa ástina með Ingu (Rakel Björk) – raunar í fremur vandræðalegri senu inni í neti – en hann fær ekki að syngja einkennislag þess tíma, Stál og hníf. Það atriði er leyst á snilldarlegan hátt sem ég ætla ekki að koma upp um hér. Aron Már er ekki allsendis ólíkur Bubba eins og hann var á þessum árum, fríður ungur maður og vel á sig kominn, en sá næsti nær honum betur í hreyfingum, svipbrigðum og söng. Þetta er Björn Stefánsson, Utangarðsmanna-Bubbi, æðislegur!

Það varð furðu stutt í Utangarðsmönnum eins og við munum og næsta tímabil varð ennþá brjálæðislegra. Egó-Bubbi fór bæði á toppinn og á botninn og skreið lengi eftir honum. Þá varð ég smeyk um að okkur færi að leiðast. Kókaínvíma er ekki skemmtileg áhorfs. En kvíðinn var fullkomlega óþarfur. Halldóra Geirharðsdóttir fór langt fram úr sjálfri sér og væntingum áhorfenda í trylltum söng og leik sem náði hámarki í lífshættulegri dvöl Bubba í Bandaríkjunum sem Tolli bjargar honum úr á síðustu stundu. Þetta var ólýsanlegur þáttur í sýningunni sem fólk verður bara að upplifa. Auk margs annars glatar Egó-Bubbi Ingu í sínu stjórnlausa rugli.

Bubbinn sem líkastur var hinum raunverulega í fasi, hreyfingum og háttum var Edrú-Bubbi sem Hjörtur Jóhann lék með afbrigðum vel. Hann fær að heilla Brynju (Rakel Björk) og glata henni aftur í firnasterku atriði þar sem gustaði rækilega af Rakel. Skilnaðurinn fer með Bubba langt niður en hann helst sæmilega skýr og þegar góðærið kemur er hann tilbúinn til að verða Góðæris-Bubbi. Okkar manni er ekki hlíft hér við ásökunum um að hafa selt sig útrásarvíkingum. Fyrirfram gæti maður efast um þá ráðstöfun að láta Jóhann Sigurðarson leika Bubba á því skeiði, mann allmiklu stærri og meiri utan um sig en Bubbi hefur nokkurn tíma verið. En einmitt svona stór og mikill var Bubbi inni í sér á þessum tíma svo þetta var stöngin inn, auk þess sem Jóhann syngur auðvitað næstum því eins vel og Bubbi sjálfur.

Þá er bara einn Bubbi eftir, Bubbi í samtímanum, Sátti-Bubbi, laxveiðimaðurinn, maðurinn hennar Hrafnhildar, faðir allra telpnanna, afinn. Valur Freyr fékk þetta hlutverk og fór fantavel með það og afar vel fór á því að láta Esther Talíu leika Hrafnhildi, þannig kallaðist síðasta eiginkonan á við fyrstu ástina – móðurina.

Yfir og allt um kring voru lögin hans Bubba sem við kunnum öll. Ég hef ekki tölu á lögunum sem flutt voru, heil eða hálf, í sýningunni en þau voru öll vel valin. Þau studdu við söguna, við þétt og vel hugsað handrit Ólafs Egils. Mörg lögin urðu sem ný í nýjum útsetningum og voru undantekningarlaust vel flutt þótt sum nytu sín betur en önnur. Sérstaklega vil ég nefna Esther Talíu sem söng sín lög afar vel og af mikilli og fallegri tilfinningu. Tónlistarstjóri var Guðmundur Óskar Guðmundsson og fær rósabúnt í sitt hnappagat fyrir vel unnið verk. Ólafur Egill notar líka ljóð úr ljóðabókum Bubba, öllum nema þeirri síðustu, heyrðist mér, og fór vel með þau eins og annað.

Leiksvið og búningar voru á hendi reyndra og frábærra listamanna, Ilmar Stefánsdóttur og Filippíu I. Elísdóttur. Ilmur þarf að sýna níu heima Bubba Morthens, fara úr blokkaríbúð í verbúð og frystihús, á svið, í gjálífið í Hollywood og þaðan í meðferð, aftur á svið og heim í núið, allt þetta leysti hún óaðfinnanlega og Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósameistari spilaði með henni svo hvergi sáust hnökrar. Á sviðinu eru allt í allt yfir fimmtíu manns, leikarar, dansarar og kór, og fengu allir fleiri en einn búning, sumir marga. Allt var það við hæfi og stundum einstaklega vel heppnað, eins og búningar hinna ólíku Bubba sem margir voru kunnuglegir þeim sem hafa fylgst með honum gegnum áratugina. Lee Proud vinnur enn einn sigurinn með dönsum og sviðshreyfingum sem gáfu lit og fyllingu í sýninguna en í rauninni sá maður þá ekki, söngurinn og leikurinn fengu alla athyglina

9 líf er stórsýning og hún er líka stórkostleg sýning. Óviðjafnanleg. Mig skortir orð til að ná utan um hana alla, svo víðfeðm er hún og djúp. Hún segir sögu manns sem við eigum öll eitthvað í og um leið rifjast upp saga Íslands á þessum tíma. Innilegar hamingjuóskir til höfundanna, Bubba og Ólafs Egils, allra „Bubbanna“ og annarra aðstandenda þessa listaverks.

Silja Aðalsteinsdóttir