Núna - SumóEinþáttungarnir sem saman mynda nýskáldasýninguna Núna 2019 í Borgarleikhúsinu gerast allir mjög seint um kvöld eða að næturþeli. Og sem kunnugt er getur þá allt gerst, bæði í vöku og draumi – sem líka eiga það til að renna saman.

Rannveig og Axel (Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Haraldur Ari Stefánsson) eru í kósídvöl uppi í sumarbústað í fyrsta leikritinu, Sumó eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur, laus við barnið svona eina helgi. Þau eru að rabba saman, kýta svolítið og reynast misvel upplögð til ásta þegar inn á þau ræðst Edda (Vala Kristín Eiríksdóttir), eyðilögð yfir því að maður hennar Einar (Hannes Óli Ágústsson) hafði ekið í bæinn, fullur og í fússi. Hún er hrædd um að hann fari sér að voða. Edda er af öðru sauðahúsi en hin tvö, það heyrist vel á málfari hennar („ómægod“ er viðbragð hennar við hverju sem er) auk þess sem Axel og Rannveig eru ekki upprifin yfir áhugamálum hennar. En svo gliðnar raunsæið í sundur, Axel er kannski ekki eins heill og maður hélt – eða hvar erum við stödd í raun og veru í þessu verki?

Núna - Þensla

Þensla Þórdísar Helgadóttur var ekki eins órætt þó að einnig þar væri farið út fyrir strangan raunsæisramma – eða hvað? Ekki veit ég hvað auðug kona, langþreytt á svikulum eiginmanni getur látið sér detta í hug að gera til að ná sér niðri á honum. En hér kemur kvikmyndamógúllinn Egill (Hannes Óli) heim í eftirpartý með smástirnunum sínum nýju, Marínu (Ebba Katrín Finnsdóttir) og Daníel(Haraldur Ari) til að halda upp á nýjasta meistaraverkið. Þar er fyrir eiginkonan Agnes (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) sem vakir yfir sínu nýjasta áhugamáli, krókódílaeggjunum sem hún er að láta klekjast út í hitakassa. Hún er síður en svo upprifin yfir smástirnunum og augljóst er að mann sinn hatar hún innilega.

Í lokaverkinu, Stóra Birni og kakkalökkunum eftir Matthías Tryggva Haraldsson, erum við beinlínis stödd inni í draumi/martröð ungs manns (Hannes Óli). Hann er klæddur í velktar dulur, sængurfötin hafa ekki verið þvegin lengi, í kringum hann er subbuleg óreiða, tómir eða hálftómir stórir kassar af alls kyns morgunkorni og öðrum skyndimat. Ef hann nærist á slíku eingöngu og tölvuklámi í meðlæti er ekki að undra þótt hann dreymi undarlega. Þessi Stóri Björn á sér tvær draumkonur. Kona eitt var kynþokkafulla draumadísin með ljóst hár niður á gólf (Ebba Katrín) en kona tvö, refsivöndurinn glæsilegi (Vala Kristín) – gervi beggja báru Guðbjörgu Ívarsdóttur leikgervahönnuði fagurt vitni. Eins og þessar draumkonur séu ekki nóg ásækja stóra Björn inn á milli kakkalakkar tveir (Þuríður Blær og Haraldur Ari) enda sóðaskapurinn í kringum strákinn óskaumhverfi kakkalakka. Þarna nær Matthías Tryggvi sér rækilega niðri á strákasóðum og hefur örugglega skotið einhverjum í salnum skelk í bringu sem kannast við einkennin.

Núna

Mér fannst athyglisvert hvað verkin eru öll vel skrifuð og hvað allir höfundarnir gerðu sér mikið far um að láta málfar persóna sýna hverjar þær væru og hvaðan þær kæmu. Það var oft unun að hlusta á þessa texta – enda hefur Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri unnið afskaplega fallega með leikurunum. Öll nema Katla Margrét – hún var náttúrlega frábær – leika fleiri en eina persónu og skiptu um karakter eins fimlega og um fötin. Stígur Steinþórsson hefur skemmt sér vel við að klæða þessar ólíku persónur og gerir það af hugmyndaríku listfengi. Hann hannar líka leiksviðið sem er á miðju gólfi og snýst eins og hentar afar vel á LItla sviði Borgarleikhússins. Ljós og tónlist eru í höndum Þórðar Orra Péturssonar og Garðars Borgþórssonar og spiluðu óaðfinnanlega með.

Þetta er virkilega hressandi og skemmtileg sýning. En eftir á að hyggja er kannski leikhúsið sjálft sigurvegarinn í þessari sýningu því hér hefur ekkert verið sparað til að lyfta verkum þessara ungu höfunda upp í ljósið. Fyrsta gæfusporið er að fá Kristínu sem leikstjóra, reynda manneskju til að leiða hinar lítt reyndu. Hún fær að velja sér leikara við hæfi og þeir fá fyrir sitt leyti að glíma við afar ólíkar manngerðir í einni og sömu sýningunni. Það var til dæmis einstakt grín að upplifa Hannes Óla á sama klukkutímanum annars vegar sem beiskan og útlifaðan auðmann í Þenslu og subbustrákinn í allt of stóru boxer-nærunum í Stóra Birni og kakkalökkunum. Það er tilhlökkunarefni að fá að fylgjast með þessum höfundum á næstu árum. Hér er verið að rækta upp nýja kynslóð leikhöfunda, og ber að þakka Borgarleikhúsinu fyrir að gera það af slíkum myndarskap og örlæti.

-Silja Aðalsteinsdóttir