Það er ekkert langt síðan við vorum síðast minnt á fjölskylduna í Gamla húsinu í Thulekampinum, Tómas kaupmann, Karólínu spákonu, Gógó dóttur hennar, öll börnin hennar Gógóar og barnabörn, Þjóðleikhúsið setti upp nýjan söngleik byggðan á Þar sem djöflaeyjan rís og Gulleyjunni haustið 2016 eins og við munum. Í gærkvöldi voru kynnin við þetta geðríka og heldur ógæfusama fólk rifjuð upp einu sinni enn þegar höfundurinn, Einar Kárason, frumflutti þriðju bókina í seríunni, Fyrirheitna landið, á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Sú bók kom fyrst út 1989.

Fyrirheitna landið hefur að kjarna ferð ungra karlkyns fjölskyldumeðlima um Ameríku til að finna Gógó og Badda sem þar búa, en fyrir hlé var Einar mestmegnis að rifja upp persónur og leikendur í þessari miklu sögu og rekja atburði í lífi þeirra eftir að Gulleyjunni sleppir. Þetta er bæði nauðsynlegt og skemmtilegt og Einar framkallaði miklar hláturrokur með dæmunum sem hann tók. Mestan part þess tíma var Einar sjálfur sögumaður en skömmu fyrir hlé skipti hann úr þriðju persónu frásögn yfir í fyrstu persónu og tók sér hlutverk sögumanns bókarinnar en þar er það Mundi, sonur Dollýjar Gógódóttur og Grettis sem segir frá.

Eftir hlé lentum við sem sé á Kennedy-flugvelli með Munda og Manna, syni nískupúkanna Fíu og Tóta, hittum þar fyrir Bóbó, hálfbróður Munda, og lögðum með þeim upp í langferð með Grayhound rútu í leit að Gógó og Badda. Þeir hafa fremur lélegar upplýsingar um adressur og símanúmer en þeim er ekki alls varnað: þeir finna Gógó ömmu og Badda frænda í hjólhýsahverfi í aflagðri sandnámu og sólarhringarnir sem þau eiga saman eru satt að segja engu líkir! En þótt atburðarásin sé stórkarlaleg er frásögnin furðu æsingalaus, Mundi er ýmsu vanur og gerir enga úlfalda úr mýflugum.

Þetta er áttunda sýning Einars Kárasonar á Söguloftinu og flestar þeirra hef ég séð. Venjulega lætur hann nægja að segja frá, enda með afbrigðum góður sögumaður, en í gærkvöldi gat hann ekki stillt sig um að gefa í og leika þessar persónur sem svo margir góðir leikarar hafa spreytt sig á í leikhúsum og bíó. Þarna ruddist Baddi inn á ömmu sína í tíma og ótíma með sitt þrumuávarp eins og beint úr draugasögum: „Má ég koma inn?“ En fyrst og fremst var það kvenhetjan Gógó sem Einar gaf bæði rödd og fas, þetta mikla karlagull sem heldur sínum sexappíl þótt hún gæti verið langamma. Gógó hefur það frá Karólínu móður sinni að vera óhrædd við yfirvöld og hætta ekki að suða og nauða fyrr en þau láta undan henni, geti þau eitthvað fyrir hana gert. Hún er útsjónarsöm og rösk, reddari dauðans, um leið og hún hefur afar sérkennilegt veruleikaskyn. En ólíkt Karólínu er hún töfrandi persóna, gleðigjafi sem lýsir upp hvert lókal sem hún stígur inn í og það var eins og birtan frá henni lýsti Einar líka upp á gólfinu á Söguloftinu þegar Mundi sagði frá ömmu sinni. Þegar Mundi kveður hana þarna í móbílhóminu er hún í djúpum skít eins og stundum áður en hún kvíðir engu: „Ég næ mér bara í ríkan kall with one foot in the grave and the other on a banana peel.“ Og hún er vís til þess!

Þetta er sagnaskemmtun af bestu gerð eins og jafnan á Söguloftinu.

Silja Aðalsteinsdóttir