Haukur Ingvarsson. Andlitsdrættir samtíðarinnar. Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness.

Hið íslenska bókmenntafélag og ReykjavíkurAkademían, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2011

Staða Laxnessrannsókna

Þótt fjöldi fræðimanna hafi lagt fram sinn skerf til Laxnessrannsókna í formi stakra greina og fyrirlestra hafa rannsóknir á skáldverkum Halldórs Laxness ekki verið ýkja viðamiklar á undanförnum árum. Upp úr miðri tuttugustu öld ríkti Peter Hallberg yfir Laxnessrannsóknum í frábærri aðstöðu fræðimanns sem hafði óheftan aðgang að skáldinu sjálfu og vinnugögnum þess auk hinna útgefnu verka. Bækur Hallbergs verða alltaf ómetanlegur grunnur fyrir aðra fræðimenn að byggja á en úrvinnsla hans og túlkanir setja ekki punkt aftan við rannsóknir á verkum Laxness, enda þarf hver kynslóð að lesa verkin upp á nýtt eigi þau að öðlast gildi fyrir nýja lesendur.

Á níunda áratug síðustu aldar er hægt að tala um blómaskeið í Laxnessrannsóknum en þá komu út bækur Eiríks Jónssonar, Rætur Íslandsklukkunnar (1981), Árna Sigurjónssonar, Laxness og þjóðlífið I og II (1986–87), Sigurðar Hróarssonar, Eina jörð veit ég eystra. Halldór Laxness og Sovétríkin (1986) og Halldórs Guðmundssonar, Loksins, loksins. Vefarinn mikli og upphaf íslenskra nútímabókmennta (1987), auk þess sem Bergljót S. Kristjánsdóttir varði doktorsritgerð sína um Gerplu (1987). Þá hafa komið út nokkur rit í tengslum við stórafmæli skáldsins og má þar nefna greinasöfnin Sjö erindi um Halldór Laxness (1973), Halldórsstefnu (1992) og Ekkert orð er skrípi ef það stendur á réttum stað (2002). Í greinasöfnum bókmenntafræðinganna Ástráðs Eysteinssonar (Umbrot 1999), Dagnýjar Kristjánsdóttur (Undirstraumar 1999) og Helgu Kress (Óþarfar unnustur 2009) er einnig að finna margar athyglisverðar greinar um verk Laxness. Árið 2002 kom líka út bók sr. Gunnars Kristjánssonar guðfræðings og bókmenntafræðings, Fjallræðufólkið: um persónur í skáldsögum Halldórs Laxness en almennt má þó segja að í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar hafi athyglin hins vegar fremur beinst að ævi og persónu Halldórs Laxness en skáldverkum hans og þá oft með sérstakri áherslu á stjórnmálaskoðanir hans.

Reyndar má segja að á bókmenntasviðinu hafi fyrstu ár nýrrar aldar í ýmsum skilningi einkennst af „uppgjöri“ við Laxness og má það teljast eðlilegt í ljósi þess að hann féll frá árið 1998, nánast jafngamall öldinni sem menn vildu líka gera upp og var ekki síst mótuð af honum, hér á landi. Út komu tvær stórar ævisögur Laxness eftir Halldór Guðmundsson og Hannes Hólmstein Gissurarson og einnig er vert að minnast á skáldsöguna Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason í þessu samhengi. Þessar bækur leiddu af sér blaðaskrif og hatrammar deilur um skoðanir og siðferði skáldsins sem og höfundargildi og stöðu þess í íslensku menningarlífi. Hin breiða epíska skáldsaga Hallgríms, þar sem tekin er viðspyrna í Sjálfstæðu fólki, er á sinn hátt merkilegt uppgjör við Laxness þótt það sé af allt öðrum toga en það sem fólgið er í ævisagnaritun hinna tveggja gagnólíku fræðimanna sem rituðu ævisögur skáldsins. Áhugavert verður að fylgjast með hvort fleiri íslenskir höfundar eigi eftir fylgja fordæmi Hallgríms og gera sér mat úr höfundarverki Laxness nú á tímum hinnar póstmódernísku endurvinnslu. Að lokum má geta útgáfu tveggja bóka Ólafs Ragnarssonar bókaútgefanda sem byggðar eru á samtölum hans við Laxness; Halldór Laxness, líf í skáldskap (2002) og Til fundar við skáldið Halldór Laxness (2007) en í þeim er dregin upp mynd af skáldinu sem er meira í ætt við upphafningu en uppgjör.

Andlitsdrættir samtíðarinnar

Andlitsdrættir samtíðarinnar (2009)

Andlitsdrættir samtíðarinnar

Það var spennandi að fá í hendur bók Hauks Ingvarssonar, Andlitsdrættir samtíðarinnar. Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness, því hér er um að ræða fyrstu útgefnu rannsóknina sem varðar skáldverk Laxness eftir einstakling sem telst til yngstu kynslóðar íslenskra bókmenntafræðinga. Sú spurning hlýtur að vakna hvort ný kynslóð fræðimanna komi fram með frjóar hugmyndir og nýja sýn á höfundarverk Laxness. Strax er ljóst að nýjung er fólgin í viðfangsefni Hauks því hann beinir sjónum að bókum Laxness sem tiltölulega litla fræðilega umfjöllun hafa fengið hingað til, a.m.k. út frá þeim sjónarhóli sem Haukur velur en hann lítur á þessi verk sem tilraunaverk þar sem Laxness vinnur markvisst að endurnýjun skáldsagnaformsins.

Rannsókn Hauks beinist aðallega að þremur skáldsögum: Kristnihaldi undir Jökli (1968), Innansveitarkroniku (1970) og Guðsgjafarþulu (1972) svo og að greinasafninu Skáldatíma (1963). Nokkrar greinar hafa verið ritaðar um skáldsögurnar, flestar um Kristnihald undir Jökli sem fræðimenn af ólíkum sviðum hafa rýnt í út frá mismunandi sjónarhornum. [1] Um Innansveitarkroniku og Guðsgjafarþulu hafa færri fræðimenn ritað [2] og tilhneiging hefur verið að tengja þær bækur fremur við endurminningarit Laxness en skáldsögur hans, eins og Haukur ræðir. Hann bendir meðal annars á að „hinn ævisögulegi lestur á Guðsgjafarþulu [hafi] átt stærstan þátt í því að litið er fram hjá henni þegar fjallað er um skáldsögur Halldórs Laxness“ (74).

Rit Hauks skiptist í þrjá meginhluta auk formála og lokaorða. Einnig er hér að finna viðauka sem er endurbirting á grein hans „Sækjum gull í Gljúfrastein“ sem birtist áður í Tímariti Máls og menningar (4. hefti 2002). Þar er fjallað um mótmæli danskra stúdenta gegn því að Halldór Laxness tæki við Sonning verðlaununum sem honum voru veitt árið 1969. Haukur rekur umræðuna í Danmörku og á Íslandi varðandi þetta mál, sem og viðbrögð Laxness. Þar er einnig rakin hjákátleg umræða á alþingi Íslendinga um það hvort rukka bæri skatt af verðlaunafénu eða ekki og fór sú umræða að hluta til fram í bundnu máli.

Viðtökusaga

Í fyrsta hluta bókarinnar, sem ber yfirskriftina „Viðtökusaga“, fjallar Haukur um skrif annarra um skáldverkin þrjú og rýnir í viðtökusögu þeirra; ritdóma og greinaskrif. Umfjöllun hans er mjög áhugaverð enda varpar hún ljósi á það hvernig Halldór Laxness glímir við skáldsagnaformið og reynir að endurnýja það eftir hið langa frí sem hann tók sér frá skáldsagnaritun frá útkomu Brekkukotsannáls (1957), þegar hann fór að beina kröftum sínum að greinaskrifum og leikritun, til útkomu Kristnihalds undir Jökli. Einnig sýnir umfjöllun Hauks fram á hversu misvel menn voru í stakk búnir til að gangast inn á forsendur verkanna í gagnrýni sinni.

Rík tilhneiging var til að tengja þau fremur við fyrri verk Halldórs og túlka út frá þeim í stað þess að bera kennsl á þær tilraunir með frásagnarhátt og skáldsöguform sem höfundur var að gera. Undantekningar finnast þó frá þessu, m.a. hjá Ivar Eskeland sem varar við samanburði við eldri verk og hvetur til þess að hvert nýtt skáldverk Laxness sé metið á eigin forsendum (34–35). Einnig er Jóhann Hjálmarsson opinn fyrir þeim nýjungum í frásagnarhætti sem hann sér í þessum skáldsögum og Guðsgjafarþulu kallar hann „endurnýjunarverk í skáldsagnagerð Halldórs Laxness“ (58). Ólafur Jónsson kemst að þeirri niðurstöðu að í Kristnihaldi undir Jökli sé „ekki sögð skáldsaga heldur iðkuð skáldspeki“ (s. 64–66). Lestur Ólafs á verkinu miðar mjög að því að greina það sem sumir kalla „sjálfsöguleg“ einkenni á verkinu – þ.e. hvernig skáldverk fjalli að einhverju leyti um sína eigin tilurð – og þótt hann hafni því að í bókinni sé „sögð skáldsaga“ verður hann móttækilegri fyrir tilraunum Laxness í ljósi síðari skáldsagnanna tveggja (þ.e. Innansveitarkroniku og Guðsgjafarþulu, sjá s. 27 og 75). Haukur dregur ýmis greinaskrif Laxness einnig inn í umræðuna, sérstaklega þær greinar sem varða efasemdir Laxness um skáldsöguna sem bókmenntaform og staðfesta leit hans að nýrri frásagnartækni. Niðurstaða Hauks um viðtökurnar er í stuttu máli sú að „hver ritdómari hefur búið sér til eigin mynd af Halldóri og dæmt nýja bók eftir hann út frá henni“ (sjá kynningartexta á bókarkápu).

Þær myndir sem Haukur telur yfirskipaðar öðrum af Halldóri Laxness í íslenskri menningarumræðu eru „þjóðskáldið, stjórnmálamaðurinn og bókmenntamaðurinn“. Haukur rýnir í þessar myndir í þeirri trú að saman myndi þær megindrætti í höfundarnafni Laxness, þ.e. nokkurs konar „andlitsdrætti“ sem vísað er til í bókartitlinum (sjá s. 28 og 180). Ritdómana flokkar Haukur niður eftir því hvaða mynd af skáldinu viðkomandi gagnrýnandi aðhyllist og fjallar síðan um hverja mynd fyrir sig í fyrsta hluta bókarinnar. Haukur ítrekar að gagnrýni á skáldverk sé „lýsing á sjónarmiðum gagnrýnandans ekki síður en höfundarins“ (59), að í þeirri afstöðu sem ritdómarar taka til tiltekins verks megi kannski fyrst og fremst sjá þeirra eigin viðhorf til skáldsagnagerðar. Hann bendir einnig á að í viðtökum á þessum þremur skáldsögum Laxness hafi ekki verið gerð tilraun til að tengja þær við módernisma eða nýjar stefnur í skáldsagnagerð; þær hafi fremur verið tengdar við fyrri verk höfundar og spáð í hvernig þær falla að fyrirframgefnum myndum þjóðarinnar af höfuðskáldi sínu.

Það fer ekki hjá því þegar maður hefur lesið fyrsta hluta bókar Hauks Ingvarssonar að maður leiði hugann að því hversu rýr í roðinu slík umræða yrði ef kanna ætti viðtökusögu íslenskra skáldsagna sem komið hafa út á allra síðustu árum. Þótt vissulega megi taka undir með Hauki að ritdómar bregði ekki síður ljósi á ritdómarann en verkið sem fjallað er um er ljóst að sú bókmenntaumræða sem fram fór í dagblöðum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar er bæði ítarlegri og vandaðri en sú takmarkaða og að stærstum hluta lélega umræða sem boðið er upp á í íslenskum fjölmiðlum í dag.

Mynd af þjóðskáldi byggð á minningum og gleymsku

Athyglisverð er sú kenning Hauks að viðtalsbók Matthíasar Johannessen við Halldór Laxness, Skeggræður í gegnum tíðina (sem kom út sama ár og Guðsgjafarþula, 19723) eigi stóran þátt í því hvaða mynd þjóðin hefur af Laxness. Haukur telur að í bók Matthíasar sé dregin upp mynd af Halldóri (sem síðan er staðfest í minningargrein Matthíasar um Laxness) sem „byggist, að því er best verður séð, ekki aðeins á sameiginlegum minningum heldur ekki síður á sameiginlegri gleymsku“ (63).

Í túlkun Matthíasar er Halldór Laxness þjóðskáldið sem „lifir í verkum sínum. Þar eru krossgötur lífs og eilífðar. Þann dag sem Íslendingar gleyma ritsnilld Halldórs Kiljans Laxness gegna þeir ekki lengur hlutverki sínu sem þjóð“ (63, vitnað er í Morgunblaðið 10. feb. 1998). Laxness er í túlkun Matthíasar skáld sem fylgir lífsskoðun sögupersónu sinnar Jóns Prímusar: „Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni“ og þrátt fyrir að hafa ánetjast ýmsum þjóðfélagslegum straumum og stefnum hafi hann „aldrei fest sig í gildru neinnar sérstakrar stefnu eða tízkufyrirbrigðis svo hann gæti ekki losað sig aftur þegar honum sýndist“ (60). Segja má að Matthías bjóði fram sátt um skáldið þar sem því eru fyrirgefin bernskubrekin og einblínt á listrænt framlag þess. Í deilunum sem spruttu upp í kringum útgáfu Höfundar Íslands og ævisagna Laxness kom þó berlega í ljós að slík sátt risti ekki djúpt.

Skáldatími: Poetískt uppgjör

Í öðrum hluta bókarinnar beinir Haukur sjónum að þeirri umdeildu bók Skáldatíma (1963) en í stað þess að fjalla um hana sem „pólitískt uppgjör“ Laxness eins og venja er, skoðar hann bókina sem „poetískt uppgjör“ skáldsins enda fjallar þetta greinasafn ekki síður um skáldskaparmál en stjórnmál.

Haukur fjallar hér líka almennt um þær „efasemdir um skáldsöguna sem listgrein“ (77) sem fara að sækja á Laxness á seinni hluta sjötta áratugarins sem og hvernig „hugmyndir fljóta mjög frjálslega milli bókmenntaforma á þessu skeiði höfundarferils Halldórs“ (79). Viðbragð gagnrýnenda við hinum „fljótandi“ textum er „að skoða verkin í samhengi við aðrar bókmenntagreinar til að staðsetja þær“ (79). Sem sagt, torskilin verk skáldsins eru borin saman við önnur (og auðskiljanlegri) verk – og verk sem ögra viðteknum bókmenntagreinum eru borin saman við aðrar bókmenntagreinar. Það er í raun dapurlegt til þess að hugsa hversu bókmenntaumræða getur verið föst í viðjum vanans.

Athyglisvert er að á sama tíma og Laxness efast um það bókmenntaform sem hann leiddi sjálfur til öndvegis í íslenskum bókmenntum tuttugustu aldar má sjá, af þeim tilvísunum sem Haukur dregur fram úr bréfum og greinum skáldsins, hvernig hann afneitar ítrekað stórum hugmyndakerfum og „alsherjarsannleik“ (sjá t.d. s. 18, 80, 86). Þarna má segja að Laxness sé langt á undan sinni samtíð því slík afneitun er ein helsta forsenda þess póstmódernisma sem fyrst tekur að láta á sér kræla í íslenskri menningarumræðu löngu síðar. En þetta tvennt – efasemdir um skáldsöguna sem listform og afneitun á stórum hugmyndakerfum og alsherjarsannleik – er samtengt hjá Halldóri Laxness einfaldlega af þeirri ástæðu að í stóru þjóðfélagslegu skáldsögunum hans má auðveldlega greina stór hugmyndakerfi og trú á ákveðinn sannleika.

Þetta tengist líka skrifum Laxness um hinn fyrirferðarmikla Plús Ex, sögumanninn sem „sættir sig ekki við annað en öndvegi nær miðju frásagnarinnar“ eins og það er orðað í „Persónulegum minnisgreinum um skáldsögur og leikrit“ sem Laxness skrifar árið 1964. Haukur ræðir glímu Laxness við Plús Ex í nokkuð löngu máli (64–65 og 82–90) og tengir við hugleiðingar hans um hlutverk rithöfunda og þær hugleiðingar tengjast síðan umræðu um bókmenntir og fagurfræði sem mynda stóran hluta Skáldatíma. Haukur bendir á að „[e]ftir því sem líður á Skáldatíma er sem skilin milli stjórnmálamannsins og skáldsins Halldórs Laxness verði skýrari uns lesandanum getur fundist sem hann standi frammi fyrir tveimur ólíkum mönnum. Bygging verksins ýtir undir þá tilfinningu“ (95). Það má því kannski álykta að í Skáldatíma undirbyggi Laxness sjálfur þá mynd sem síðan er borin fram í Skeggræðum Matthíasar Johannessen; að skáldið og stjórnmálamaðurinn Halldór Laxness eigi fátt sameiginlegt.

Að mínu mati er mestur fengur í því hjá Hauki í greiningu hans á Skáldatíma hvernig hann tengir bókina við þá „umræðu um frásagnarfræði sem fram fer í ritgerðum Halldórs á sama tíma“ (100) og hvernig hann sýnir fram á að „glíma hans við sögumanninn er […] höfuðvandamál hans ferilinn á enda“ (103). Í þeim þremur skáldverkum sem eru í brennidepli í rannsókn Hauks má sjá hvernig Laxness heldur þessum tilraunum sínum áfram: „Þar opinberast lesandanum ólík svið frásagnarinnar og persónur ýmist tvístrast eða samsamast sögumanni og jafnvel höfundi“ (103).

Sjónarvottar: ný túlkun á síðustu skáldverkum Laxness

Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar einbeitir Haukur sér að greiningu og túlkun á skáldverkunum þremur og tekur hann hverja bók fyrir sig í sérkafla. Haukur leitar í smiðju ýmissa fræðimanna við greiningu sína, svo sem bókmenntafræðinga, æviskrifafræðinga, táknfræðinga og heimspekinga. Óhætt er að segja að hann bregði fjölbreytilegu ljósi yfir þessi verk hvert fyrir sig auk þess sem hann ítrekar oft sameiginlega þræði þeirra. Til að gefa nokkur dæmi um lestur Hauks má nefna að greining hans á Kristnihaldi undir Jökli hefst á samanburði við spæjarasögur og glæpasögur, hann greinir ástarsögueinkenni á Guðsgjafarþulu og vísanir til Íslendingasagna og dýrlingasagna í Innansveitarkroniku.

Í greiningu hans á Kristnihaldinu er varið nokkru rými í að ræða sjónarhorn og það „að sjá“ og „að lesa“ (bæði þessi sagnorð geta haft margræða merkingu). Lestur Hauks á Innansveitarkroniku snýst m.a. um könnun á samspili tíma og sjónarhorna, sem og samspili sögumanns og heimilda. Þá greinir hann „vissa eiginleika tónlistar í sjónarhornaskiptum bókarinnar“ með hliðsjón af skrifum Umbertos Eco (138). Umræðan um Guðsgjafarþulu snýst meðal annars um hin „margflóknu tengsl skáldskapar og veruleika“ (172). Þá er athyglisverð umræðan um það hvernig verkið hefur verið túlkað sem endurminningarit – sagnfræði fremur en skáldskapur – og í því sambandi verið dregið fram „sönnunargagn“ í formi ljósmyndar af Laxness og Óskari Halldórssyni á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn sem sanna á að verkið fjalli um samband þeirra tveggja.

Í lokaorðum sínum segir Haukur meðal annars að hann hafi „stuðst við kenningar bókmenntafræðinga sem fjallað hafa um einkenni póstmódernískra texta og [notað þær] við greiningu skáldsagnanna þriggja“ (182). Hann ítrekar að þetta geri hann ekki til „að setja fram þá sögulegu túlkun að Kristnihald undir Jökli, Innansveitarkronika eða Guðsgjafarþula séu fyrstu póstmódernísku skáldsögurnar sem komu út á Íslandi heldur til að bjóða heim nýjum lestrarleiðum sem slíta seinni skáldsögurnar tvær frá endurminningabókunum sem fylgja í kjölfar þeirra“ (182). Óhætt er að segja að Hauki hafi tekist þetta ætlunarverk sitt ágætlega og fengur er að ýmsum tengingum hans í greiningu skáldverkanna, t.a.m. ábendingu hans um textatengsl við verk Ludwigs Wittgenstein (sjá s. 109–116). Óhætt er einnig að taka undir niðurlagsorðs Hauks, að skáldskapur Halldór Laxness bjóði upp á ýmsar knýjandi spurningar sem geri skáldskap hans „lífvænlegan því það standi upp á hvern og einn lesanda að glíma við þær og svara þeim með sínum hætti“ (184).

Lokaorð

Hér að framan var spurt hvort ný kynslóð fræðimanna hefði fram að færa ferska og nýja sýn á verk Halldórs Laxness. Þeirri spurningu má svara játandi í tilviki þeirrar bókar sem hér er til umfjöllunar. Lestur hennar kveikir ýmsar hugleiðingar sem leiða jafnvel í aðrar áttir en höfundur bókarinnar fer. Án þess að ég sé að biðja um annað verk en það sem Haukur Ingvarsson ætlaði sér að skrifa má geta þess að ég saknaði nokkuð fjölbreytilegri tenginga við íslenska bókmenntasögu en Haukur býður upp á, t.a.m. virðist mér blasa við að tengja efasemdir Laxness um skáldsöguna og tilraunir hans með nýtt frásagnarform við verk ýmissa annarra höfunda, ekki síst Þórbergs Þórðarsonar sem segja má að hafi átt í slíkum tilraunum í gegnum allt sitt höfundarverk, enda hafnar hann skáldsagnaforminu afdráttarlaust strax í upphafi ritferils síns.

Að lokum eru hér örfáar athugasemdir um frágang Andlitsdrátta samtíðarinnar. Bókin er hluti af ritröð Hins íslenska bókmenntafélags og ReykjavíkurAkademíunnar sem ber yfirskriftina „Íslensk menning“ og er sú fimmta í röð þeirrar ritraðar. Hér er um útgáfu vandaðra fræðirita að ræða og efast ég ekki um að einnig sé vandað til frágangs og prófarkalesturs. Það slys hefur þó orðið hér að hluti heimildaskrár hefur fallið burt. Ekki er ólíklegt að hér sé um að ræða mistök í umbroti bókarinnar og má geta sér til um að heila síðu vanti í skrána (234). Það sem gerir þessi mistök sérlega óheppileg er sú staðreynd að þar með falla af heimildaskrá tveir helstu fræðimenn í verkum Halldórs Laxness, þ.e.a.s. þeir Peter Hallberg og Halldór Guðmundsson, sem Haukur vísar oft til (og fram kemur að sjálfsögðu í aftanmálsgreinum). Önnur umbrotsmistök má sjá á síðumótum 63/64 þar sem sama lína er tvítekin og e.t.v. eru það líka umbrotsmistök að tilvísunarmerki á s. 83 eru ekki rétt. Haukur skrifar mjög læsilegan og góðan texta og hvergi vottar fyrir klúðri eða þokukenndum útlistunum á fræðikenningum, sem er mikill kostur. Hvergi rakst ég á villur í stafsetningu en innsláttarvillur eru örfáar (s. 88, 147, 209). Þessir ágallar sem hér eru nefndir rýra á engan hátt fræðilegt gildi bókar Hauks Ingvarssonar sem er mikilvægt framlag til Laxnessrannsókna.

 

Soffía Auður Birgisdóttir

 

Tilvísanir

  1. Sjá t.a.m. guðfræðinginn Gunnar Kristjánsson: „Liljugrös og járningar. Um séra Jón Prímus.“ Andvari 1992; bókmenntafræðinginn Ástráð Eysteinsson: „Í fuglabjargi skáldsögunnar.“ Skírnir (vor) 1993; mannfræðinginn Gísla Pálsson: „Hið íslamska bókmenntafélag. Mannfræði undir Jökli.“ Skírnir (vor) 1993; skáldið og guðfræðinginn Hjört Pálsson: „Eru Vikivaki og Kristnihaldið hliðstæðar táknsögur.“ Ekkert orð er skrípi 2002; og rithöfundinn Bjarna Bjarnason: „Systkinabækurnar Kristnihald undir Jökli & Drakúla.“ Lesbók Morgunblaðsins 17. jan. 2004.
  2. Um Innansveitarkroniku sjá t.a.m. Preben Meulengracht Sørensen: „Sjálfum sér trúr“. Tímarit Máls og menningar 1972, Guðrúnu Nordal: „Innansveitarkronika.“ Heimur skáldsögunnar 2001 og Viðar Hreinsson: „Íslenska akademían: Kotungar í andófi.“ Skírnir, haust 1999. Um Guðsgjafarþulu sjá t.a.m. Matthías Johannessen: „Málþing um Guðsgjafarþulu.“ Bókmenntaþættir 1985 og einnig fjallar Helga Kress um allar þessar þrjár sögur í: „Okkar tími – okkar líf. Þróun sagnagerðar Halldórs Laxness og hugmyndir hans um skáldsöguna.“ Sjö erindi um Halldór Laxness 1973.
  3. Á 100 ára afmæli Laxness var bókinni auk þess dreift til áskrifenda Morgunblaðsins.