TímaþjófurinnSteinunn Sigurðardóttir er talsmaður ástarsorgarinnar í íslenskum bókmenntum. Í sögum og ljóðum hyllir hún þessa margræðu tilfinningu af slíkri snilld að lesandinn þráir um sinn ekkert heitar en fá að upplifa hana sjálfur. Og þó er þetta í grunninn eyðandi og banvæn kennd eins og Steinunn sýnir hvergi betur en í skáldsögunni Tímaþjófnum sem nú má sjá lifna og líkamnast í Kassa Þjóðleikhússins í hugkvæmri leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur.

Landlæknisdóttirin Alda Ívarsen (Nína Dögg Filippusdóttir) býr í húsi foreldra sinna í vesturbæ Reykjavíkur ásamt systur sinni Ölmu (Edda Arnljótsdóttir) og Siggu (Snæfríður Ingvarsdóttir), dóttur Ölmu á menntaskólaaldri. Sjálf kennir Alda þýsku í MR og ríkir yfir skólanum, kennurum og (karlkyns) nemendum með fegurð sinni og eitraðri orðheppni. Hún tekur sér elskhuga eftir þörfum en á líka einn fastan, samkennarann Steindór sem er svo háður henni að þegar hún ætlar að gera alvöru úr því að slíta sambandinu gengur hann í sjóinn – frá konu og ungum börnum.

Almættið refsar Öldu fyrir kaldlyndið og fjöllyndið með því að láta sömu hamslausu ástina fjötra hana og Steindór áður þegar hún kynnist Antoni (Björn Hlynur Haraldsson), nýjum sögukennara við skólann, ungum kvæntum karlmanni með metnað til að komast hátt í lífinu. Alda á ekki í neinum vandræðum með að heilla Anton en þegar hún ætlar að beita kaldri bragðvísi sinni til að eignast hann alveg fer hún of geist og Anton slítur sig lausan. Eftir situr Alda í fjötrum tilfinninga sem tortíma henni smám saman. Það er list skáldsögunnar að sýna okkur hvernig tímanum – lífinu sjálfu – er stolið af Öldu svo að hún mornar öll og þornar, eins og segir um Oddnýju eykyndil í Bjarnar sögu Hítdælakappa.

Skáldsagan hverfist um hina sjálfhverfu Öldu og tilfinningalíf hennar og það breytist ekki á sviðinu. Þó að kringum aðalpersónuna dansi (í bókstaflegum skilningi) nokkrar aðrar persónur fannst mér þegar ég kom út úr leikhúsinu í gærkvöldi að þetta hefði í raun og veru verið einleikur Nínu Daggar. Hún ríkir yfir sviðinu og sýningunni eins og Alda í ríki sínu og hafði afar sterk áhrif á mig – eins og Alda í sögunni hafði þegar ég las hana fyrst. Nína Dögg hefur unnið hvert leikafrekið af öðru undanfarin ár en kannski hefur aldrei reynt meira á hæfileika hennar en í þessu hlutverki – og hún nýtur þess.

TímaþjófurinnElskhuginn mikli er sannfærandi í glæsileik sínum og ástaratlot Öldu og Antons eru fögur meðan allt leikur í lyndi. En Björn Hlynur leikur Anton af meðvitaðri stillingu sem gerir ástarþráhyggju Öldu eiginlega sjúklegri. Hann ætlar að takast á við þetta mál – þetta framhjáhald sitt – af skynsemi, njóta meðan notið verður en hætta svo. Alda er nú beitt þeim brögðum sem hún beitti Steindór áður og bregst við ekki ólíkt honum.

Mæðgurnar Edda og Snæfríður eru yndislegar í hlutverkum mæðgnanna Ölmu og Siggu og Oddur vinnur sín ýmsu hlutverk af alúð. Sviðshreyfingar Sveinbjargar Þórhallsdóttur sem setja svo sterkan svip á sýninguna gera óvæntar kröfur til leikaranna sem dansara en þeir standast þær með prýði, ekki síst Snæfríður og Oddur. Síendurtekinn flugdans þeirra mun lengi sitja í minninu. Tónlistin er líka óvenjulega persónuleg því allar persónurnar leggja þar sitt af mörkum.

Una Þorleifsdóttir leikstjóri, Eva Signý Berger leikmyndahönnuður og Ólafur Ágúst Stefánsson hönnuður lýsingar skapa glæsilegt listaverk á sviðinu þar sem hvað styður við annað á áhrifamikinn hátt. Tjöldin síðu sem umlykja sviðið tóku á sig ótrúlega ólíka liti í ljósinu – urðu björt og geislandi og dimm og drungaleg og sýndu okkur birtubrigðin í hugarheimi Öldu á örskotsstundu. Hljóðmynd Kristins Gauta Einarssonar er ákaflega smekkleg og aldrei frek.
Aðdáendur skáldsögunnar flykkjast nú í leikhúsið en óskandi er að þangað rati líka nýir njótendur og sökkvi sér í unaðinn og kvölina í ástarsorg Öldu Ívarsen.

Silja Aðalsteinsdóttir