Frumsýningar þessa sunnudags voru gerólíkar að flestu leyti. Hættuför í Huliðsdal eftir Sölku Guðmundsdóttur sem Soðið svið sýnir í Kúlu Þjóðleikhússins er viðburðaríkt ævintýri, fullt af óvæntum uppákomum og furðulegum persónum en grunnurinn ákaflega raunverulegur. Blik eftir Bretann Phil Porter sem Artik sýnir í Gamla bíó í þýðingu Súsönnu Svavarsdóttur er hversdagsraunsæi í sinni afbrigðilegustu mynd: Svo hversdagslegt að það jaðrar við hið fáránlega.

Hættuför í HuliðsdalÍ leikriti Sölku er Eyja (Aðalbjörg Árnadóttir) nýflutt upp í sveit með pabba og mömmu og afa gamla (Guðmundur Ólafsson). Foreldrar hennar misstu allt sitt í hruninu og leituðu skjóls á gamla ættaróðalinu sem líklega hefur verið komið í eyði. Eyja hefur engan til að leika við og engan til að tala við nema afa og gerir það sem börn gera við slíkar aðstæður: Hún býr til sinn eigin heim. Afi segir henni frá Bryngerði (Maríanna Clara Lúthersdóttir), álfadrottningunni grimmu sem á harma að hefna á ætt þeirra sem byggðu bæinn í öndverðu, og það er eins og við manninn mælt: Þegar náttar birtist Bryngerður í leit að drengnum Hrappi (Hannes Óli Ágústsson) sem hefur tekist að flýja frá henni. Þannig er að einmitt þessa nótt opnast hliðið milli okkar heims og hennar heims en það gerist bara á hálfrar aldar fresti. Bryngerður finnur ekki Hrapp en rænir afa í staðinn og Eyja hefur bara þessa einu nótt til að bjarga honum, við sólarupprás lokast hliðið aftur. Þó að Hrappur hafi engan áhuga á annarri hálfri öld í klóm álfadrottningar slæst hann í för með Eyju – og það er eins gott, því hann kann þuluna sem geymir ráðin við göldrum Bryngerðar.

Á leiðinni að virki Bryngerðar hittir Eyja ýmsa skrýtna fugla og fyrstan af öllum Ruglufuglinn (Maríanna Clara), afar skrautlegan og skondinn fugl sem veit lengra nefi sínu. Einnig merkilega Moldverja, sem eru samvaxnir en mæla þó ýmsum munni, káta Kalverja sem kenna henni þarfa lexíu, og óhugnanlega Skuggabaldra sem sýna henni hver örlög afa verða, því Bryngerður mun breyta honum í einn slíkan þegar dagur rís.

Hér er sótt í gjöfulan sjóð þjóðsagna og ævintýra en ekki síst minnir hér margt á Skilaboðaskjóðu Þorvalds Þorsteinssonar. Eyja er bara ellefu ára og auðvitað notar hún það sem hún þekkir og kann í sköpunarverki sínu. En Salka snýr skemmtilega upp á ævintýri Þorvalds, þar bjargar móðir syni, hér bjargar barn afa sínum; þar var beðið sólseturs en hér sólarupprásar o.s.frv.

Þetta er skemmtileg og hressileg sýning með fallegan og hollan boðskap. Leikurinn var góður, einkum var Aðalbjörg sannfærandi Eyja. Hlutverkið er talsverð ögrun af því Eyja er bæði hún sjálf og ævntýrapersóna sín og Aðalbjörg skipti skýrt á milli þeirra. Harpa Arnardóttir leikstjóri og hennar lið, Brynja Björnsdóttir leikmyndahönnuður, Egill Ingibergsson ljósameistari, Ólafur Björn Ólafsson tónskáld og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir búningahönnuður, sköpuðu spennandi og oft háskalegan ævintýraheim á þessu litla sviði og munaði þar mest um hugmyndaríka búningana og lýsinguna sem var alveg mögnuð.

Blik

Blik. Hafsteinn Þór Auðunsson & Jenný Lára Arnórsdóttir

Það var mun rólegra yfir Bliki í Gamla bíó – eiginlega var það fremur útvarpsleikrit en sviðsverk. Ef eitthvað gerðist sem ekki kom fram í samtali (eða eintali) var okkur sagt skilmerkilega frá því, jafnvel fyrirfram. Samt náði það á köflum furðulega föstum tökum á manni.

Einnig hér eru einmana manneskjur og verkið í heild er markviss stúdía á áhrifum einsemdar og einangrunar á fólk. Jonah (Hafsteinn Þór Auðunsson) hefur misst móður sína og strokið úr kommúnunni og frá pabba sínum til London. Þar fær hann leigða íbúð og lifir á peningum sem mamma hans arfleiddi hann að. Leigusali hans er ung kona, Sophie (Jenný Lára Arnórsdóttir) sem hefur misst bæði pabba sinn og vinnuna en lifir á eigum sínum. Bæði eru afar einræn og félagslega vanhæf. En þegar Sophie lendir í slæmu slysi verða þau að venjast hvort öðru og læra að hafa samskipti. Þá gengur á ýmsu á milli þeirra.

Unnari Geir Unnarssyni leikstjóra er vandi á höndum vegna þess hve fátt gerist annað en að persónur tala – lengst af hvor í sínu lagi. En textinn er lúmskur og leikendum varð talsvert úr honum, einkum Jenný Láru sem gekk manni nærri hjarta í einstæðingsskap sínum. Tónlistin, frumsamin af Grími Gunnarssyni, var býsna áhrifamikil.

Silja Aðalsteinsdóttir